16. október 2025 Opnun Brussel-skrifstofu formlega fagnað Samorka fagnaði opnun skrifstofu sinnar í Brussel með því að bjóða til móttöku á Norrænu orkuskrifstofunni þar sem starfsmaður Samorku hefur aðsetur. Í móttökunni voru samankomnir fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja en einnig fulltrúar systursamtaka Samorku á hinum Norðurlöndunum og fleiri. Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sólrún Kristjánsdóttir stjórnarformaður og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fluttu ávörp og lögðu áherslu á mikilvægt þess að stíga þetta skref til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og gæta íslenskra hagsmuna. Löggjöf og regluverk sem upprunin er hjá ESB mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja því hún er að stórum hluta tekin upp íslenska löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samorka leggur því ríka áherslu á að að vakta vel þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja. Það er líka mikilvægt að koma sjónarmiðum orku- og veitugeirans á framfæri, t.d. um að efla nýtingu jarðhita á evrópska vísu. Ísland er í forystu á því sviði með áratuga reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu.
10. október 2025 Öflugt jarðhitaþing í Zürich Fulltrúi Samorku tók þátt í Evrópska Jarðhitaþinginu, European Geothermal Congress, sem haldið var Zürich í Sviss frá 6.- 10. október. Þátttakendur voru hátt í 1200 talsins frá yfir 40 löndum. Á þingið mætti öflugur hópur frá Íslandi, yfir 20 fulltrúar orku-, tækni- og ráðgjafarfyrirtækja, háskóla og fleiri til að segja frá því sem við höfum fram að færa og til að læra af öðrum þátttakendum. Þrír af fjölmörgum fulltrúum frá Íslandi á ráðstefnunni. „Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu og lét svo sannarlega til sín taka hér,“ sagði Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, sem sat ráðstefnuna. „Það er mikilvægt til að efla enn frekar nýtingu þessarar endurnýjanlegu orkulindar á alþjóðavísu og metnaðurinn er fyrir hendi víða um heim. Þannig er Evrópusambandið t.d. að undirbúa sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands á þessu sviði.“ European Geothermal Energy Council – Evrópsku jarðhitasamtökin – héldu ráðstefnuna og á aðalfundi samtakanna var tilkynnt um nýja stjórn þar sem Miklos Antics er forseti. Það var athyglisvert að svissnesku gestgjafarnir ætla sér stóra hluti í jarðhita og í vettvangsferð síðasta dag þingsins kom glögglega í ljós hversu rannsóknir og vísindi gegna þar mikilvægu hlutverki. Næsta Evrópska jarðhitaþingið verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi árið 2028. Ný stjórn EGEC – Evrópsku jarðhitasamtakanna. Sveinn tók nokkra íslenska þátttakendur tali á ráðstefnunni og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan. Podcast: Play in new window | Download (Duration: 19:07 — 14.3MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More
2. október 2025 Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi Árlegur fundur og námsstefna borgaralegra yfirvalda almannavarna á Norðurlöndunum fór fram dagana 10. – 12. september í Kuopio í Finnlandi. Fundinn sóttu yfirmenn og starfsmenn viðkomandi stofnana ásamt stjórnendum ýmissa samfélagslegra stofnana og lykilfólki úr atvinnulífi á Norðurlöndum. Samorku var sérstaklega boðið til fundarins og Finnur Beck, framkvæmdastjóri sótti hann. „Það er augljóst að Norðurlöndin leggja nú um mundir mikla áherslu á viðbúnað og viðnámsþrótt sinna samfélaga gagnvart hvers konar áföllum“ segir Finnur. „Meðal umfjöllunarefna var staða Norðurlandanna í núverandi öryggissamhengi Evrópu, uppbygging viðbúnaðar og samfélagslegur viðnámsþróttur sem hryggjarstykki í allsherjaröryggi.“ „Það er rík hefð fyrir miklu öryggi, bæði fyrir starfsmenn og tryggan rekstur í orku- og veitugeiranum. Undirbúningur og framkvæmd þess er hins vegar stöðugt til endurskoðunar og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi.“
2. október 2025 Hreint vatn er ekki heppni Podcast: Play in new window | Download (Duration: 30:42 — 28.0MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Mikilvægt er að standa vörð um neysluvatnið okkar því það er okkar mikilvægasta auðlind. Í nútímasamfélagi verður það sífellt flóknara verkefni. Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumanneskja vatnsmiðla hjá Veitum, ræðir við Lovísu Árnadóttur um vatnsveituna á höfuðborgarsvæðinu og minnir okkur rækilega á að hreint vatn er ekki heppni. Þátturinn kemur út 2. október, á afmælisdegi vatnsveitu í Reykjavík. Þennan dag árið 1909 var vatnsleiðsla frá Gvendarbrunnum fyrst tekin í notkun. Hrefna Hallgrímsdóttir er gestur Lovísu Árnadóttur í þættinum.
1. október 2025 Samorka sækir evrópskt jarðhitaþing í Sviss Fulltrúi Samorku sækir Evrópska jarðhitaþingið – European Geothermal Congress – sem fram fer í Zurich í Sviss frá 6.-10. október n.k. Samtök jarðhitageirans í álfunni – European Geothermal Energy Council (EGEC) skipuleggja þingið sem búast má við að yfir 1200 manns sæki. Þátttakendur koma úr röðum stjórnenda og sérfræðinga fyrirtækja í þessum geira, úr hópi þeirra sem móta stefnu og setja reglur um nýtingu jarðhita, vísindafólk og aðrir haghafar. Ráðstefnugestir koma ekki aðeins frá Evrópu heldur einnig víðar að úr heiminum. Samorka er meðlimur í EGEC og með ráðningu starfsmanns með aðsetur í Brussel hefur verið lögð enn frekari áhersla á að efla þátttöku í starfi samtakanna. Ísland er í fremstu röð í heiminum í nýtingu og vinnslu jarðhita til húshitunar, orkuframleiðslu og annarra nota. Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki vegna vaxandi áhuga á jarðvarmanýtingu í Evrópu. Aðild að EGEC skiptir líka máli nú þegar Evrópusambandið undirbýr t.d. aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma. Hún á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári framkvæmdastjórn ESB hefur opnað almenna samráðsgátt vegna málsins. Nýting jarðhita verður líka í sviðsljósinu þegar Our Climate Future ráðstefnan verður haldin í Brussel þann 14. október n.k. Þar koma saman fulltrúar íslenskra stjórnvalda, Evrópusambandsins og síðast en ekki síst öflugur hópur fólks úr íslenska jarðhitageiranum til að ræða hvernig þessi græna orkulind getur hraðað orkuskiptum, aukið samkeppnishæfni Evrópu, stuðlað að því að tryggja orkuöryggi álfunnar og síðast en ekki síst að loftslagsmarkmið náist.
30. september 2025 Fulltrúar íslenskra fráveitna á NORDIWA 2025 Dagana 23. til 25. september fór fram norræna fráveituráðstefnan, NORDIWA 2025, í Osló. Voru þar haldnar hátt í 50 mál- og verkefnastofur sem innihéldu yfir tvö hundruð erindi. Erindin beindust mörg hver að fyrirhugaðri innleiðingu fráveitutilskipunar Evrópusambandsins og þeirra tæknilegu útfærslum sem þarf að leysa úr til að uppfylla skilyrði hennar. Við er búist að stíga þurfi stór skref í greiningu og mælingum á PFAS og öðrum örmegnunarefnum og taka upp nákvæmari hreinsunaraðgerðir þegar hún hefur verið innleidd til fulls. Erindi um spálíkön fyrir hinar ýmsu tegundir mengunar voru áberandi auk erinda um hönnun hreinsunarmannvirkja sem geta staðist kröfur fjórða stigs hreinsunar. Fyrir aðildalönd Evrópusambandsins hefst innleiðing hennar seinni hluta ársins 2027 og eru fráveituaðilar, ráðgjafar og verktakar nú á fullri ferð með að finna bestu mögulegu leiðir til að standast þessar auknu kröfur. Einnig voru mörg erindi um tækifæri til verðmætasköpunar út fráveitum, t.a.m. lífgas-, áburðar- og lífkolaframleiðsla. Á ráðstefnuna mætti tíu manna hópur frá aðildafélögum Samorku og var einuhugur í hópnum að ráðstefnunni lokinni að heimsóknin hefði verið afar gagnleg enda verkefnin framundan stór.
24. september 2025 Um milljarði úthlutað í jarðhitaleit Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður úr jarðhitaleitarátaki sem opnað var í vor. Markmið átaksins er að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notast við rafmagn eða olíu. Alls bárust 48 umsóknir frá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og aðilum í þeirra umboði. Verkefnin voru fjölbreytt en heildarkostnaður verkefna sem sótt var um nam 6.093 m.kr. og sótt var um 4.082 m.kr. í styrki. Alls hljóta 18 verkefni styrk: 8 verkefni sem snúa að jarðhitarannsóknum 8 verkefni sem tengjast uppsetningu varmadælna 2 verkefni sem miða að uppbyggingu varmageymslna Mögulegur ávinningur af verkefnunum er verulegur. Með frekari borunum, varmadælum og varmageymslum gæti allt að 80 GWh af vetrarraforku losnað á næstu árum. Þá gæti árangur í jarðhitaleit bætt við um 40 GWh. Mat umsókna var í höndum Loftlags- og orkusjóðs í samvinnu við Umhverfis- og orkustofnun. Hér má sjá verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um úthlutunina og forsendur fyrir henni má sjá í skýrslu Umhverfis- og orkustofnunar; Jarðhiti jafnar leikinn.
22. september 2025 Nýsköpunarverðlaun Samorku 2025: Óskað eftir tilnefningum Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi í Hörpu í nóvember. Þetta verður í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent. Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir því að eftirfarandi form sé fyllt út við tilnefningu þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Hægt verður að tilnefna til Nýsköpunarverðlaunanna til og með 12. október. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál. Vinsamlegast fyllið út þetta form: https://forms.office.com/e/WL9FWJA1rm Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Handhafi Nýsköpunarverðlaunanna 2024 var Carbon Recycling International. 2023: Atmonia 2022: Alor 2021: Laki Power
15. september 2025 Orka og innviðir í nýrri skýrslu um varnir og öryggi Vernd innviða, áfallaþol og tryggur aðgangur að orku er meðal áhersluatriða í skýrslu samráðshóps þingmanna um inntak og áherslur stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum sem kynnt var 12. september. Skýrsluhöfundar benda m.a. á mikilvægi grunnviðmiða Atlantshafsbandalagsins um áfallaþol og borgaralegan viðbúnað. Þingmennirnir fjalla um ástand heimsmála, m.a. stríð Rússlands á hendur Úkraínu og komast að þeirri niðurstöðu að „öryggisógnin sé raunveruleg og aðkallandi.“ Í skýrslunni eru skilgreindar helstu öryggisáskoranir Íslands til lengri tíma með áherslu á ytri ógnir af manna völdum. Stefna í varnar- og öryggismálum skal byggjast á stefnu um þjóðaröryggi, sem m.a. á að tryggja vernd mikilvægra innviða samfélagsins. Skýrsluhöfundar leggja fram 14 lykiláherslur, þar á meðal að auka fjárfestingar í innviðum sem nýst geta bæði í varnartengdum og borgaralegum verkefnum og styðja við varnir Íslands, eftirlit og aðgerðir. Þá þurfi að efla áfallaþol íslensks samfélags, almannavarnir og vernd borgara gagnvart hernaðarógnum. Bent er á að nýjar varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins feli í sér auknar kröfur á hendur bandalagsríkjum um bætt áfallaþol, trausta innviði og eigin áætlanir sem styðji áætlanir bandalagsins. Áfallaþol orkuaðgengis er t.d. meðal fyrrnefndra sjö grunnviðmiða Atlantshafsbandalagins um áfallaþol aðildarríkjanna, þ.á.m. Íslands. Vinna og áætlanagerð um aukið áfallaþol á grundvelli þessa grunnviðmiða þarf m.a. að ná til orkuinnviða að mati þingmannanna. Borgaralegt áfallaþol sé í raun fyrsta varnarlína samfélagsins og tryggja þurfi aðgang að orku, fjarskiptum og samgöngum á tímum spennuástands eða átaka eins komist er að orði í skýrslunni. Þingmennirnir benda líka á að varnarmannvirki eins og ratsjár, innviðir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, hafnir og flugvellir séu hernaðarlega mikilvæg á spennutímum og í aðdraganda átaka eða eftir að þau hefjast. Það eigi þó einnig við um aðra mikilvæga innviði s.s. á sviði orkumála og fjarskipta. Geta til að verjast árásum á þessi varnarmannvirki og innviði kunni að hafa úrslitaáhrif á hvort slíkar árásir verði yfirleitt gerðar. Skýrsluhöfundar segja hins vegar að beinar varnir Íslands á þessu sviði séu mjög takmarkaðar. Þá þurfi m.a. að styrkja og samþætta fjar- og rauneftirlit með mikilvægum innviðum. Þingmennirnir í samráðshópnum velta því líka upp hvort ástæða sé til að setja sérstaka öryggislöggjöf sem alla jafna tekur m.a. til verndar mikilvægra innviða. Í framhaldi af skýrslunni leggur samráðshópurinn til að utanríkisráðherra leggi fram stefnu í varnar- og öryggismálum á Alþingi og upplýsi þingið reglulega um framkvæmd hennar. Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/09/12/Inntak-og-aherslur-stefnu-i-varnar-og-oryggismalum
11. september 2025 Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu sinni „State of the Union“ í Evrópuþinginu þann 10. september. Hún sagði m.a. að lykillinn að lægra orkuverði væri að efla hreina orku sem framleidd er innan ESB. Þá væri afar brýnt að fjárfesta og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. Sambandið væri að undirbúa aðgerðir til að sú yrði raunin, m.a. að hraða leyfisveitingum. „Við erum á réttri leið til sjálfstæðis í orkumálum en orkureikningar eru enn of háir og valda milljónum íbúa áhyggjum. Og orkukostnaður fyrirtækja er enn of hár,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu. Hún sagði kominn tíma til að aðildarríki ESB losuðu sig við rússneskt jarðefnaeldsneyti. Í sumar setti sambandið fram áætlun um að hætta alfarið kaupum á rússnesku gasi og olíu fyrir lok ársins 2027. Rétt er að hafa í huga að tekjur af orkusölu eru afar mikilvægar fyrir stjórnvöld í Moskvu til að fjármagna innrásarstríðið Rússlands gegn Úkraínu. Ursula von der Leyen lagði líka mikla áherslu á samkeppnishæfni í stefnuræðu sinni, ekki síst í tækni og iðnaði sem byggja á hreinni orku. ESB er með í gangi margvíslega stefnumótun og aðgerðir til að hraða þeirri uppbyggingu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði líka að ESB væri á beinu brautinni að ná því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% árið 2030, miðað við losun árið 1990. Ljóst er að orkuöryggi og sjálfstæði er mikilvægur liður í því sem Ursula von der Leyen kallaði „stund sjálfstæðis Evrópu.“ Hún sagði að Evrópubúar þyrftu að sjálfir að axla ábyrgð á sínu öryggi og vörnum ásamt því að hafa stjórn á þeirri tækni og orkulindum sem knýja áfram efnahags- og atvinnulíf álfunnar. Mynd: ESB. Hér er hægt að lesa ræðuna í heild á ensku: https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/speech_25_2053 Read more: Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu