Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026 Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026 verður haldið í Hljómahöll í Reykjanesbæ dagana 7. – 8. maí. Framkvæmda- og tæknikeppni verður á sínum stað þar sem eitt lið aðildarfélaga verður krýnt Fagmeistari Samorku. Þá verður vöru- og þjónustusýning frá samstarfsaðilum orku- og veitugeirans. Verið er að útbúa teikningar fyrir sýningu og verða básar settir í sölu um leið og hægt er. Frekari upplýsingar veitir Lovísa, lovisa@samorka.is. Samorka hefur tekið frá fjölda hótelherbergja um allan Reykjanesbæ. Hægt er að bóka þau núna. Vinsamlegast skoðið afbókunarskilmála vel. Hótel Keflavík: 30 herbergi í boðiGisting í einstaklingsherbergi: 29.800 kr. Gisting í tveggja manna herbergi: 36.800 kr. Gisting í tveggja manna herbergi (fyrir einn): 33.800 kr. Morgunverður er innifalinn í verði. Vinsamlegast látið bókunarnúmerið 75012525 fylgja þegar herbergi eru pöntuð úr þessari bókun. Courtyard by Marriott: 100 herbergi (frátekin til febrúar 2026) Einstaklingsherbergi: 21.300 kr. Tveggja manna herbergi: 23.800 kr. Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Senda má bókanir á netfangið reservations@courtyardkeflavikairport.is og vísa til Samorku. Park Inn by Radisson: 90 herbergi frátekin Eins manns herbergi: 25.900 kr. Tveggja manna herbergi: 29.900 kr. Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Bókunarnúmer: 137887664
26. nóvember 2025 Heimar og SnerpaPower hlutu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 Fullt var út úr dyrum þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 voru afhent á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var í tíunda sinn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfis- og loftslagsmálum og sýna í verki hvernig árangur næst með markvissum aðgerðum, nýsköpun og ábyrgri stjórnun. Umhverfisfyrirtæki ársins 2025 er Heimar. Úr umsögn dómnefndar: „Heimar er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur tekið afgerandi skref í átt að umhverfislega ábyrgri starfsemi og hefur forgangsraðað í þágu árangurs í umhverfismálum og sjálfbærni, hvort sem heldur er horft til ákvarðana í rekstri, fjárfestingum eða fjárfestingarákvörðunum. Heimar hafa innleitt umhverfisstjórnunarkerfi sem tryggir að umhverfissjónarmið séu samþætt allri starfsemi félagsins. Með skýrri sýn, mælanlegum markmiðum og stöðugum umbótum hafa Heimar náð eftirtektarverðum árangri sem sést í fjölgun umhverfisvottaðra eigna, grænni fjármögnun, stýringu og vöktun orkunotkunar og minnkandi kolefnisspori. Heimar eru þannig ekki aðeins að fylgja þróuninni heldur að stýra henni með gagnsæi, ábyrgð og metnaði til að ganga lengra en lög og reglur segja til um.“ Umhverfisframtak ársins 2025 hlýtur SnerpaPower Úr umsögn dómnefndar: ”SnerpaPower ehf. er tæknifyrirtæki á sviði raforkumarkaðar sem hefur þróað frá grunni hugbúnaðarlausn sem gerir stórnotendum raforku, eins og til dæmis álverum og gagnaverum, kleift að nýta lifandi gagnastrauma til að besta og sjálfvirknivæða skammtíma ákvarðanatöku tengdri raforkunotkun og þátttöku á markaði auk þess að uppfylla skyldur um skil á áætlunum og pöntunum rafmagns. SnerpaPower hefur á örfáum árum umbreytt því hvernig orkusækinn iðnaður nýtir raforku á Íslandi og er fyrirtækið nú að sækja á erlenda markaði. Hugbúnaður SnerpaPower byggir á nýjustu aðferðum í gagnavísindum, gervigreind og vélnámi og styður stórnotendur í að nýta endurnýjanlega orkugjafa á skilvirkari hátt, lækka raforkukostnað og bæta samkeppnishæfni sína á alþjóðamörkuðum. Lausnin eykur nýtni raforkukerfisins alls og skilar umframorku og –afli til samfélagsins sem nýtist beint í orkuskiptin.“ JÁVERK og Krónan fengu sérstakar viðurkenningar á deginum.
24. nóvember 2025 Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs Orkuskipti með áfallaþol og samkeppnishæfni í brennidepli var yfirskrift sjöundu orkuráðstefnu Evrópusambandsins og Noregs sem fulltrúi Samorku sat í Brussel 21. nóvember s.l. Fulltrúar ESB og norskra stjórnvalda lögðu þar áherslu á mikilvægi samstarfs þessara aðila í orkumálum sem eina af megin forsendunum fyrir orkuöryggi Evrópu. Anders Eide, sendiherra Noregs gagnvart ESB bauð gesti velkomna en síðan tók til máls Dan Jørgensen orkumálastjóri ESB. Hann lagði áherslu á að Noregur væri mikilvægur samstarfsaðili ESB í orkumálum, m.a. stærsti seljandinn á gasi til aðildarríkja sambandsins, að ógleymdri olíu. Jørgensen ræddi líka um væntanlegar tillögur framkvæmdastjórnar ESB um uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku – svokallaðan „EU Grid Package.“ Terje Aasland orkumálaráðherra Noregs sagði í sinni ræðu að orkuskiptin yrðu að eiga sér stað jafnt og þétt með nýsköpun og samvinnu að leiðarljósi. „Orka er velsæld – orka er öryggi“ sagði Aasland. Orkumálastjórinn og ráðherrann áttu einnig fund sama dag og ráðstefnan var haldin. Pablo Hevia-Koch frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) beindi síðan sjónum að öld raforkunnar sem nú væri að renna upp. Hún myndi byggjast á því hversu hratt væri hægt að byggja upp flutningskerfi og tengingar milli landa. Í þrennum pallborðsumræðum var rætt um styrkingu áfallaþols í orkugeiranum, mikilvægi markaðslausna í viðskiptum með rafmagn og verkefni í kolefnisbindingu. Þar tóku þátt fulltrúar norskra orkufyrirtækja, alþjóðastofnana á borð við ESB og NATO en einnig fleiri sérfræðingar og fulltrúar hagsmunasamtaka. Samorka vinnur náið með Renewables Norway og öðrum norrænum samtökum í orkugeiranum á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel. Ráðstefnan var gott tækifæri til að fræðast um helstu áskoranir og tækifæri í samskiptum ESB og Noregs og hvaða máli þetta samstarf skiptir í alþjóða- og öryggismálum, m.a. fyrir Ísland. Hér er hægt að lesa meira um dagskrá ráðstefnunnar og viðfangsefni: 7th EU-Norway energy conference: Navigating the energy transition with resilience and competitiveness in focus – Energy: Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs
13. nóvember 2025 Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð Mikilvægi rafvæðingar í orkuskiptum með fjölbreyttum endurnýjanlegum orkugjöfum er meðal forgangsmála hjá Green Power Denmark sem tók við formennsku í Nordenergi-samstarfinu af Renewables Norway á ársfundi í Svíþjóð 10.-12. nóvember. Nordenergi er samstarfsvettvangur norrænna landssambanda í græna orkugeiranum og sóttu þeir Finnur Beck framkvæmdastjóri og Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs ársfundinn fyrir hönd Samorku. Útbreiðsla endurnýjanlegra orkugjafa er um leið lykillinn að því að ná loftslagsmarkmiðum, styrkja samkeppnishæfni Evrópu og tryggja orkuöryggi álfunnar. Á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel eru aðildarsambönd Nordenergi síðan undir einu þaki, vinna að hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu og starfa með hagsmunasamtökunum í evrópska orkugeiranum. Norðurlöndin geta því talað með einni röddu, bæði í Brussel og á öðrum vettvangi. Fulltrúar á ársfundinum heimsóttu fyrst höfuðstöðvar Göteborg Energi í Gautaborg en héldu síðan til bæjarins Varberg þar sem fundurinn fór fram. Orkufyrirtækið Varberg Energi leggur mikla áherslu á nýsköpun og hefur t.d. sett upp 14 MW rafhlöðugarð sem Nordenergi-hópurinn heimsótti. Loks kynntu fundarmenn sér starfsemi Ringhals-kjarnorkuversins sem er skammt frá Varberg og sænska orkufyrirtækið Vattenfall rekur. Ársfundur Nordenergi verður næst haldinn í Finnlandi og árið 2027 verður Samorka síðan í gestgjafahlutverkinu. Hér að neðan er einnig hlekkur til að lesa meira um rafhlöðugarð Varberg Energy. https://www.varbergenergi.se/om-oss/var-verksamhet/natbatterier: Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð
12. nóvember 2025 Samorka óskar eftir upplýsingafulltrúa Viltu vera rödd framtíðar grænnar orku og veitustarfsemi á Íslandi? Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar eftir að ráða kraftmikinn og drífandi einstakling í starf upplýsingafulltrúa. Upplýsingafulltrúi leiðir almannatengsl, markaðsmál og skipulagningu viðburða fyrir samtökin ásamt því vera leiðandi í umræðunni um Grænt Ísland til framtíðar, um græna orku, hreint vatn og öfluga innviði. Leitað er að reyndum einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á orku og umhverfi, býr yfir skapandi hugsun og hæfni til að framleiða og miðla efni á margvíslegu formi. Helstu verkefni og ábyrgð: · Mótun og miðlun skilaboða Samorku til fjölmiðla, almennings og stjórnvalda · Skipulagning og framkvæmd viðburða, s.s. funda, ráðstefna og annarra lykilviðburða · Ritun fréttatilkynninga, gerð kynningarefnis og miðlun efnis á miðlum Samorku, s.s. samfélagsmiðlum, fréttabréfi og heimasíðu · Fylgjast með umræðu og finna tækifæri til að segja sögur af árangri og samfélagslegu mikilvægi orku- og veitugeirans · Samskipti við samstarfs- og hagaðila og samvinna með starfsfólki í margvíslegum verkefnum Menntunar- og hæfniskröfur: · Háskólamenntun sem nýtist í starfi · Þekking og reynsla af almannatengslum og fjölmiðlun · Reynsla af markaðsstarfi og framleiðslu efnis fyrir ýmsa miðla · Geta til að stýra fjölbreyttum verkefnum og viðburðum · Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni · Frumkvæði, skipulagshæfni og lausnamiðuð hugsun · Góð íslensku- og enskukunnátta í ræðu og riti Um Samorku: Hjá Samorku starfar fámennur en metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin. Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2025. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is).
Desemberfundur 2025 Árlegur desemberfundur Samorku verður haldinn fimmtudaginn 4. desember kl. 15.00 – 17.00 á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá verður að venju helguð innra starfi Samorku: Opnun desemberfundar – Sólrún Kristjánsdóttir, stjórnarformaður HOP: Ný handbók og ný nálgun í öryggismálum – Öryggisráð Samorku Hagsmunagæsla Samorku í Brussel – tilgangur, væntingar, virðið hingað til– Lovísa Árnadóttir ræðir við Svein Helgason, verkefnastjóra erlends samstarfs hjá Samorku og Kristínu Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar Framtíðargjaldskrá dreifiveitna – Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Rarik og í gjaldskrárhópi Samorku Störum jólaljósin á: Öryggi orkuinnviða og breytt ógnalandslag – Vigdís Eva Líndal, leiðtogi upplýsingaöryggis hjá Orkuveitunni og í Netöryggisráði Samorku Rabbað við ráðherra– Jóhann Páll Jóhannsson, orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra í óformlegu spjalli við fundargesti ásamt umræðustjóra Að dagskrá lokinni færum við okkur niður á Vox HOME þar sem boðið verður upp á jólalegan pinnamat og Kvartettinn Barbari skemmtir okkur með vel völdum „rakarastofu“-jólalögum. Athugið að fundurinn er aðeins opinn félagsfólki Samorku (starfsfólki aðildarfyrirtækja). Hægt er að skrá sig eingöngu á fundinn eða á bæði fund og jólaskemmtun. Nafn Netfang Fyrirtæki Ég mæti á Desemberfund Samorku (verð 3.500) Ég mæti á jólaskemmtun með pinnamat og skemmtiatriði (verð 8.900) Ég tek með gest/maka á jólaskemmtun (verð 8.900) Δ
10. nóvember 2025 Vestfirðir eru heitur reitur Podcast: Play in new window | Download (Duration: 45:08 — 42.7MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Á Vestfjörðum hefur verið notast við rafkyntar hitaveitur í stað hefðbundinna jarðhitaveitna, því lítið hefur fundist í gegnum tíðina af nægilega heitu vatni sem gæti nýst til húshitunar. En með tækniframförum og myndarlegu átaki stjórnvalda í jarðhitaleit á svæðinu hefur vonin aldeilis kviknað um að þetta geti breyst, íbúm á svæðinu til mikilla hagsbóta. Elena Dís Víðisdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Orkubúi Vestfjarða, ræðir uppganginn og stemninguna á Vestfjörðum við Lovísu Árnadóttur og hvernig Vestfirðir eru heitur reitur, líka hvað varðar jarðhita.
7. nóvember 2025 SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær. Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu. Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂. Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.
Norræn vinnustofa NER um aðgerðir til stuðnings raforkuöryggi Nordic Energy Research stendur fyrir vinnustofu um raforkuöryggi þann 26. nóvember n.k. í Finnlandi. Í lýsingu málstofunnar segir m.a. að norrænar ríkisstjórnir skoði í auknum mæli ráðstafanir til að tryggja nægjanlegt afl og orkuöryggi. Þessi úrræði geti haft veruleg áhrif og kostnað í för með sér og krefjist undangenginnar vandaðrar greiningar og markvissrar hönnunar. Á málþinginu verði miðlað reynslu frá Norðurlöndum og kynntar nýjustu vendingar úr norrænum umræðum með þátttöku og innleggjum frá sérfræðingum á þessu sviði. Nánari upplýsingar um viðburðinn og skráningu má finna hér: Capacity markets and flexibility support mechanisms in the Nordics
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 Umhverfisdagur atvinnulífsins 2025 verður haldinn í tíunda sinn mánudaginn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica kl. 09:00 – 11:30 undir yfirskriftinni Frá yfirlýsingum til árangurs. Dagurinn er sameiginlegt verkefni SA, SI, SVÞ, SAF, SFS, SFF og Samorku. Kastljósinu verður beint að gagnsæi, trúverðugleika og samkeppnishæfni í loftslags- og umhverfismálum. Í kraftmikilli dagskrá leiðir áhrifafólk í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu saman hesta sína. Dagurinn er byggður upp af tveimur lotum. Fyrri lotan tekur á gagnsæi sem forsendu trúverðugleika. Erindi: Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA. Pallborð: Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku stjórnar pallborði. Innslög frá fyrirtækjum: Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Landfara og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar Síðari lotan fjallar um samkeppnishæfni Íslands í ljósi umhverfisstefnu ESB. Erindi: Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, meðeigandi KREAB. Pallborð: Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Vigdís Diljá Óskardóttir, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku stjórnar pallborði. Innslög frá fyrirtækjum: Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags- og áhrifastýringar hjá Landsvirkjun, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 Að lokum verða Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 veitt umhverfisfyrirtæki ársins 2025, umhverfisframtaki ársins 2025 auk þess sem framsækin fyrirtæki á sviði umhverfis- og loftslagsmála fá sérstök hvatningarverðlaun. Sigríður Margrét Oddsdóttir setur daginn og flytur lokaorð. Hægt er að skrá sig með því að fylla út þetta form: Umhverfisdagur atvinnulífsins 2025