Stækkun orkuvers í skugga jarðhræringa

Þann 1. desember var sjöundi áfangi Svartsengis, orkuvers HS Orku, tekinn í notkun og jókst þar með framleiðslugeta þess um þriðjung. Það er í sjálfu sér fréttnæmt að við bætist uppsett afl hér á landi, en í þessu tilfelli er það ekki síður vegna þess að orkuverið var stækkað á tímum jarðhræringa og mikillar óvissu. Stóðst framkvæmdin þó allar verk- og tímaáætlanir.

Rafn Magnús Jónsson yfirverkefnisstjóri HS Orku og Yngvi Guðmundsson yfirverkfræðingur HS Orku ræða við Lovísu Árnadóttur um þetta ótrúlega verkefni í nýjasta þætti Lífæða landsins.

Þátturinn er aðgengilegur hér á heimasíðu Samorku en einnig á Spotify, bæði í hljóð og mynd.

Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur eru meðal þeirra sem skrifa undir bréf EGEC , European Geothermal Energy Council, til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stórefla nýtingu jarðhita í Evrópu með sérstakri aðgerðaáætlun sem framkvæmdastjórnin er nú með í smíðum.

Bréfið var sent 11. desember s.l. og stílað á Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB og fleiri háttsetta embættismenn í framkvæmdastjórninni. Undir það skrifar fjöldi fyrirtækja, stofnana og samtaka um alla Evrópu. EGEC minnir á að jarðhiti hafi mikla möguleika á að styrkja orkuöryggi Evrópu, auka samkeppnishæfni álfunnar og lækka orkuverð til almennings.  Aðgerðaáætlunin um nýtingu jarðhita á að vera hluti af svokallaðri „Heating and Cooling Strategy“ sem Evrópusambandið hyggst birta á fyrsta ársfjórðungi 2026.

Í bréfinu er lögð áhersla á að með skýrri stefnumótun og pólitískum skuldbindingum ráðamanna sé hægt að auka fjárfestingar, efla nýsköpun og einfalda ferli leyfisveitinga til að jarðhiti verði ein af forsendum fyrir orkuskiptum í Evrópu og orkusjálfstæði álfunnar.

Samorka er aðili að EGEC og tekur virkan þátt í starfi samtakanna auk þess að miðla upplýsingum af þessum vettvangi til aðildarfyrirtækja sem nýta jarðhita til orkuöflunar og vinnslu. Ráðstefnan Our Climate Future í Brussel í haust beindi einnig sjónum að forystuhlutverki Íslands í jarðhitanýtingu með þátttöku fulltrúa íslenskra fyrirtækja, Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB, auk margra fleiri.

Sjá einnig heimasíðu EGEC: https://www.egec.org/news/ : Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

Jólakveðja frá Samorku

Skrifstofa Samorku verður í hægagangi nú í aðdraganda jóla og best er að kanna hvort einhver sé á staðnum áður en komið er í heimsókn. Lokað verður hefðbundna frídaga en starfsfólk gæti unnið annars staðar frá.

Við óskum öllum gleðilegrar hátíðar!

Jólakveðjan er myndskreytt líflegri mynd frá fjölmennum hátíðarkvöldverði á Samorkuþingi í vor.

Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu

Formfastur samstarfsvettangur stjórnvalda og einkaaðila hér á landi um að efla áfallaþol samfélagsins er meðal tillagna í nýrri skýrslu „Áfallaþol á grundvelli viðmiða Atlantshafsbandalagsins,“ sem utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa gefið út. Skýrsluhöfundar benda á að með breyttu öryggisumhverfi og nýjum ógnum auk áhrifa náttúruhamfara sé brýnt að byggja upp vettvang af þessu tagi. Skýrslan er athyglisvert innlegg í stefnumótun og umræðu um ómissandi innviði þar sem Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa látið til sín taka.

Samstarfsvettvangurinn á m.a. að hafa það hlutverk að tryggja sameiginlega stöðuvitund og upplýsingamiðlun. Einnig að samræma forvarnir og viðbúnað, svo sem vegna neyðarbirgða, birgðakeðja og annarrar samfélagslega mikilvægrar þjónustu og starfsemi. Samstarfið verði byggt á heildrænni nálgun þar sem hlutverk hvers og eins er skýrt og miði að undirbúningi á bæði friðar- og hættutímum. Áhersla verði lögð á að móta sameiginleg viðmið og æfa samvirkni, sérstaklega á sviðum sem varða raforku, fjarskipti, samgöngur, heilbrigði og netöryggi. Horft verði til fyrirmynda Norðmanna og Finna þar sem samstarf hins opinbera og einkageirans hefur skilað árangri í að efla áfallaþol samfélaga í báðum löndum. Gert er ráð fyrir að undirbúningur að samstarfsvettvangi stjórnvalda og einkaaðila hefjist sem fyrst í samstarfi ráðuneytanna og ríkislögreglustjóra.

Ísland er meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og fyrrnefnd sjö grunnviðmið eru meginundirstaða þeirrar vinnu sem NATO hefur lagt til að hvert bandalagsríki ráðist í til að efla áfallaþol. Annað grunnviðmiðið fjallar þannig um getu ríkja til að vernda orkuinnviði sína og nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þeim en á sama tíma er einn viðkvæmasti hluti mikilvægra innviða aðgangur að stöðugum orkugjöfum, eins og komist er að orði í skýrslunni. Efnahagur nútímans byggi á stöðugu framboði á orku þar sem hvers kyns röskun getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir samfélagið, efnahag og þjóðaröryggi hvers ríkis.

Skýrsluhöfundar benda á að varðandi mikilvæga innviði sé „ákveðið lagalegt tómarúm til staðar.“ Á þetta hafi raunar verið bent á síðustu árum, t.d. í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum frá árinu 2021 þar sem  lagt var til að heildstæð lagaumgjörð yrði sett um rekstur og vernd mikilvægra innviða. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs sem kom út árið 2022, sagði m.a.: „Treysta þarf lagaumgjörð um rekstur mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. að skilgreina hvaða innviðir samfélagsins eða hlutar þeirra teljist mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Annars vegar þarf að mæla skýrar fyrir um skyldur þeirra sem sjá um rekstur slíkra innviða og öryggiskröfur sem gera verður til þeirra. Hins vegar þarf að útfæra og skilgreina betur valdheimildir stjórnvalda gagnvart þessum aðilum við sérstakar neyðaraðstæður, þar sem virkni mikilvægra innviða er stefnt í hættu.“ Í þessu sambandi benda á að fyrir Alþingi liggur nú fyrir frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra laga um almannvarnir þar sem t.d. er fjallað um skilgreiningu ómissandi innviða.

Evrópusambandið hefur einnig unnið að eflingu áfallaþols, m.a.  með svokallaðri CER-tilskipun (e. Critical Entities Resilience Directive) sem samþykkt var í desember 2022.  Fram kemur í þessari nýju skýrslu að til skoðunar hafi verið hjá EFTA-ríkjunum að taka gerðina upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) og hafi hún verið rýnd í dómsmálaráðuneytinu. Höfundar skýrslunnar segja mikilvægt að huga að því hvernig ákjósanlegast sé að innleiða CER-gerðina í íslenskan rétt og benda á að meginmarkmið hennar sé að efla áfallaþol mikilvægra rekstrareininga til að tryggja nauðsynlega þjónustu á innri markaði EES.

Skýrsluhöfundar telja að  ýmsum lagalegu álitaefnum á þessu sviði verði best fyrir komið í löggjöf um grunnöryggi ríkisins, þar sem fjallað yrði um öryggi æðstu stjórnar, samfélagslega mikilvæga starfsemi sem og skilgreiningu á mikilvægum innviðum og þá þeim kröfum sem gera megi til slíkrar starfsemi með vísan til tilskipana ESB um ómissandi innviði  og tengd viðfangsefni. Mikilvægt sé að sú löggjöf taki mið af og sé í samhengi við aðra öryggistengda löggjöf hér á landi, líkt og lög um almannavarnir, varnarmálalög, lögreglulög, fyrirhugað frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu og aðra tengda löggjöf. Þá mætti taka til skoðunar hvort önnur tengd atriði ættu jafnframt heima í slíkri löggjöf, s.s. meðferð trúnaðarupplýsinga ríkisins, eins og fjallað er um í norskri og sænskri öryggislöggjöf.

Skýrslan var unnin af stýrihópi sem var falið að kanna áfallaþol í íslensku samfélagi með hliðsjón af grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins.  Stjórnvöld segja að hún marki einn áfanga í heildstæðri kortlagningu, stefnumótun og tillögum að aðgerðum til að efla áfallaþol samfélagsins. Í stýrihópnum áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/12/12/Afallathol-a-grundvelli-vidmida-Atlantshafsbandalagsins-Afangaskyrsla/: Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu Hér er einnig hægt að lesa nýja skýrslu Eurelectric um mikilvægi orkuöryggis í vörnum og almannavörnum með hliðsjón af stefnumörkun NATO https://www.eurelectric.org/publications/powering-security-the-nato-spending-and-energy-resilience-nexus/ : Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu

Opnað fyrir tilnefningar til Menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica 11. febrúar 2026.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.
– Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.
– Einungis er hægt að tilnefna aðildarfélaga innan SA.

Tilnefningar berist eigi síðar en föstudaginn 16. janúar.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki ársins og menntasproti ársins.

Menntafyrirtæki ársins 2026

Við mat á umsóknum er lögð sérstök áhersla á íslenskt framlag við þróun, aðlögun og innleiðingu verkefna, sem og hvernig fræðslan innan fyrirtækja mætir þörfum íslensks vinnumarkaðar. Einnig er tekið tillit til verkefna sem byggja á alþjóðlegri fræðslu, að því gefnu að framlag Íslendinga til þróunar, aðlögunar og innleiðingar sé skýrt og að verkefnið styðji við þarfir vinnumarkaðarins hér á landi.

· Stefna og framtíðarsýn fyrirtækisins í fræðslumálum

· Aðgengi og þátttaka starfsfólks í fræðslu

· Fræðsluleiðir

· Mat á árnagri

Menntasproti ársins 2026

Leitað er eftir verkefnum sem stuðla að nýsköpun í fræðslu sem styrkir starfsfólk og fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði.

· Nýsköpun og þróun

· Aðgengi og fjölbreytt notkun

· Framtíðarsýn og áhrif

Nánari útlistun viðmiða er að finna í tilnefningarforminu

Tilnefnið hér


Menntadagur atvinnulífsins
 er sameiginlegt verkefni SA, SI, SVÞ, SAF, SFS, SFF og Samorku.

ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag umfangsmikla stefnumótun og aðgerðir til að efla flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. „European Grids Package“ er yfirskrift þessara tillagna sem m.a. fela í sér breytingar á tilskipunum ESB. „Samtengd og samtvinnað orkukerfi er grundvöllur sterkrar og sjálfstæðrar Evrópu,“ er haft eftir Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB í fréttatilkynningu. Teresa Ribera, einn varaforseta framkvæmdastjórnarinnar segir markmiðið að allir hlutar Evrópu uppskeri ávinning af orkubyltingunni með ódýrari og hreinni orku, minna þurfi að treysta á innflutt jarðefnaeldsneyti, orkuöryggi aukist og sömuleiðis viðnám gegn verðsveiflum.

Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir að fjárfesta þurfi um 1.2 trilljónir Evra í flutnings- og dreifikerfi raforku á næstu fimmtán árum, stórefla þurfi flutning á rafmagni yfir landamæri og einnig byggja upp dreifiveitur. Í því skyni eru lagðar fram tillögur um hvernig ýta megi undir fjárfestingar ásamt því að efla áfallaþol og öryggi þessara innviða. ESB leggur líka mikla áherslu á að hraða leyfisveitingum vegna uppbyggingar flutnings- og dreifikerfisins og verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku. Markmiðið er að leyfisveitingaferlið taki almennt ekki lengri tíma en tvö ár og hámark þrjú ár í flóknari verkefnum. Þetta er áskorun sem er svo sannarlega fyrir hendi hér á landi og þannig ályktaði aðalfundur Samorku fyrr á þessu ári um nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, og stytta leyfisveitingaferla uppbyggingu orku- og veituinnviða. 

Framkvæmdastjórn ESB leggur til breytingar á gildandi tilskipunum m.a. um endurnýjanlega orku. Þessar löggjafartillögur fara  nú fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð Evrópusambandsins (Council). Jafnframt ætlar framkvæmdastjórnin að vinna náið með aðildarríkjum ESB og öðrum haghöfum til að hrinda í framkvæmd orkuverkefnum sem ná yfir landamæri. Þessar aðgerðir og stefnumótun eiga einnig að styrkja aukna samvinnu við ríki utan ESB, þar á meðal á Evrópska efnahagssvæðinu. Samorka mun fylgjast grannt með þessu máli enda hafa breytingar á löggjöf og reglum ESB áhrif á starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja þegar þær eru teknar upp í samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) og innleiddar í íslenska löggjöf.

Fréttatilkynningu ESB um „European Grids Package“ og hlekkir á meðfylgjandi skjöl er að finna hér:

Commission proposes upgrade of the EU’s energy infrastructure to lower bills and boost independence: ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku

Vatn og viðnámsþróttur þess í forgangi hjá ESB

Mikil þátttaka var í „Water Resilience Forum,“ ráðstefnu á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel þann 8. desember, þar sem rætt var um hvernig tryggja megi íbúum Evrópu aðgang að nægu og góðu vatni. Umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, Jessika Roswall, lagði áherslu á að vatnið væri eitt af helstu forgangsmálum framkvæmdastjórnarinnar, Í sama streng tók Teresa Ribera, varaforseti og benti á hvernig vatn væri einn af hornsteinum í hreinni iðnaðaruppbyggingu í álfunni.

Aðrir frummælendur töluðu um hvernig flóð en einnig þurrkar og vatnsskortur væru meðal áskorana í Evrópu, nokkuð sem yrði að skoða í ljósi loftslagsbreytinga. Hinsvegar þyrftum við líka að nýta vatnsauðlindir okkar með skilvirkari hætti. Gestir á ráðstefnunni heyrðu líka reynslusögu frá Svíþjóð þar sem vatnsból mengaðist með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa.

Veitufyrirtæki innan vébanda Samorku leggja áherslu á örygga og góða þjónustu, verndun vatnsbóla og nýsköpun. Samorka tekur líka virkan þátt í starfi EurEau, samtaka fyrirtæki á þessu sviði í Evrópu, sem eru með höfuðstöðvar í Brussel.

Ráðstefnan „Water Resilence Forum“ er haldin í framhaldi af stefnumótun Evrópusambandsins um viðnámsþrótt vatns „Water Resilence Strategy.“ Ljóst er að mörg krefjandi verkefni eru framundan á þessu sviði enda er vatnið lífæð okkar allra. Lög og reglur sem verða til á vettvangi Evrópusambandsins hafa áhrif á starfsumhverfi íslenskra veitufyrirtækja sem sjá almenningi og fyrirtækjum fyrir drykkjarvatni en sinna líka fráveitu. Samorka fylgist því grannt með þessum viðfangsefnum og liður í þeirri vinnu var að sækja þessa ráðstefnu í Brussel.

Ný handbók um öryggi og öryggismenningu

Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða.

Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys.

Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi.

Sækja HOP handbókina

Viðskiptavinir Fallorku velji nýjan raforkusala fyrir 10. desember

Mikilvægt er að viðskiptavinir Fallorku velji sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember næstkomandi. Orkusalan hefur samið um kaup á söluhluta Fallorku, dótturfélags Norðurorku á Akureyri. Samningurinn felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku og kaupi jafnframt raforku­framleiðslu Fallorku til framtíðar.

Fallorka hefur tilkynnt að félagið hætti allri sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja frá og með 1. janúar 2026 og einbeiti sér framvegis að framleiðslu raforku. Þetta þýðir að allir viðskiptavinir Fallorku þurfa að velja sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember, hvort sem það er Orkusalan eða annar aðili á raforkumarkaði. Nánar um þetta má lesa í frétt á vef Fallorku. 

Samkvæmt lögum er dreifiveitum (Rarik, Norðurorka, HS Veitur, Veitur, Orkubú Vestfjarða) ekki heimilt að selja rafmagn eða koma að vali á raforkusala fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þær mega aðeins dreifa rafmagni til viðskiptavina sem hafa valið og gert samning við raforkusala. Ef enginn söluaðili raforku er skráður er þeim ekki heimilt að afhenda rafmagn og lokað verður fyrir rafmagnið þar til nýr raforkusali hefur verið valinn.

Að láta opna á ný eftir lokun felur í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann.

Það er einfalt að skipta

Við viljum hvetja þá viðskiptavini sem hingað til hafa keypt rafmagn af Fallorku til að ganga frá samningi við nýjan raforkusala sem allra fyrst (og fyrir 10. desember), svo tryggt verði að ekki verði rof á þjónustu þegar Fallorka hættir sölu um komandi áramót. Skiptin sjálf eru einföld. Viðskiptavinum nægir að hafa samband við þann raforkusala sem þeir vilja kaupa raforku af, til dæmis í gegnum vef eða þjónustuver þess fyrirtækis. Nýr raforkusali sér um að tilkynna breytingarnar fyrir þeirra hönd. Nánar um val á raforkusala má lesa hér á heimasíðu Samorku.

Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026

Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026 verður haldið í Hljómahöll í Reykjanesbæ dagana 7. – 8. maí.

Framkvæmda- og tæknikeppni verður á sínum stað þar sem eitt lið aðildarfélaga verður krýnt Fagmeistari Samorku.

Þá verður vöru- og þjónustusýning frá samstarfsaðilum orku- og veitugeirans. Verið er að útbúa teikningar fyrir sýningu og verða básar settir í sölu um leið og hægt er. Frekari upplýsingar veitir Lovísa, lovisa@samorka.is.

Samorka hefur tekið frá fjölda hótelherbergja um allan Reykjanesbæ. Hægt er að bóka þau núna. Vinsamlegast skoðið afbókunarskilmála vel.

Hótel Keflavík: 30 herbergi í boði
Gisting í einstaklingsherbergi: 29.800 kr.
Gisting í tveggja manna herbergi: 36.800 kr.
Gisting í tveggja manna herbergi (fyrir einn): 33.800 kr.

Morgunverður er innifalinn í verði. Vinsamlegast látið bókunarnúmerið 75012525 fylgja þegar herbergi eru pöntuð úr þessari bókun.

Courtyard by Marriott: 100 herbergi (frátekin til febrúar 2026)

Einstaklingsherbergi: 21.300 kr.
Tveggja manna herbergi: 23.800 kr.

Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Senda má bókanir á netfangið reservations@courtyardkeflavikairport.is og vísa til Samorku.

Park Inn by Radisson: 90 herbergi frátekin

Eins manns herbergi: 25.900 kr.
Tveggja manna herbergi: 29.900 kr.

Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Bókunarnúmer: 137887664