Rammaáætlun afgreidd eftir níu ára bið

Þriðji áfangi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, var í dag afgreiddur á Alþingi. Níu ár eru liðin frá því að vinna verkefnisstjórnar hófst við þriðja áfanga, sem hefur ekki tekist að samþykkja fyrr en nú.

Alþingi afgreiddi áfangann með nokkrum breytingum frá upprunalegri tillögu verkefnisstjórnar. Alls voru sjö kostir færðir í biðflokk. Fjór­ir þeirra voru áður í vernd­ar­flokki rammaáætlunar og þrír í nýtingarflokki. Vindorkukosturinn Búrfellslundur færðist í nýtingarflokk, en hann var áður í biðflokki.

Þannig eru í fyrsta skipti vindorkukostir í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar. Um er að ræða Búrfellslund (120 MW) og Blöndulund (100 MW). Landsvirkjun er virkjunaraðili þeirra beggja.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2022

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 5. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á sa@sa.is merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins:
Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
Innra umhverfi er öruggt
Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins:
Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt er nær dregur.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Mundu að velja þér raforkusala

Að velja sér raforkusala er mikilvægt.

Rétt eins og neytendur þurfa að velja á milli tryggingafélaga og fjarskiptafyrirtækja til að kaupa þjónustu af, þá þarf að velja af hvaða sölufyrirtæki þú vilt kaupa rafmagn. Það er ábyrgð okkar, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að gera það strax og tekið er við nýrri fasteign.

Að velja sér raforkusala er bæði einfalt og fljótlegt. Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa rafmagn, óháð búsetu. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi.

Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð):

Hægt er að gera samanburð á raforkuverði á heimasíðu Orkuseturs.

Ef ekki er gengið frá samningi við raforkusala verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki ef slíkur samningur er ekki er til staðar. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann.

Hvernig veit ég hvort ég þurfi að velja? Og fyrir hvaða tíma?
Ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða þú ert í millibilsástandi á meðan þú skiptir um húsnæði, eða af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og ganga til samninga um kaup á rafmagni. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum skylt samkvæmt lögum að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun.

Metaðsókn á Samorkuþing

Á mánudag hefst Samorkuþing, stærsta ráðstefna í orku- og veitugeiranum á Íslandi. Þingið er haldið á þriggja ára fresti á Akureyri og fer nú loksins fram eftir að hafa verið frestað í tvígang vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Á þinginu verður boðið upp á hátt í 130 fyrirlestra um fjölbreytt viðfangsefni orku- og veitufyrirtækja, auk þess sem boðið er upp á vöru- og þjónustusýningu frá traustum samstarfsaðilum fyrirtækjanna.

Gera má ráð fyrir að marga hafi verið farið að lengja eftir því að komast á góða ráðstefnu um orku- og veitumál, því aðsókn hefur farið fram úr björtustu vonum. 500 gestir taka þátt í þinginu á einhvern hátt.

Enn er hægt að skrá sig á þingið sjálft, en því miður er ekki hægt að tryggja sæti í hátíðarkvöldverði nú þegar skráningarfrestur er liðinn. Við bjóðum hins vegar að skrá áhugasama á biðlista.

Heimasíða þingins er https://samorkuthing.is/

Samkaup og Gentle Giants handhafar menntaverðlauna atvinnulífsins

Samkaup er menntafyrirtæki ársins 2022. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1400. Í rekstri verslana á dagvöru-markaði felast margar áskoranir þar sem grunnurinn að gæðum og góðri þjónustu er fjölbreytni og sveigjanleiki til að uppfylla fjölþættar þarfir viðskiptavinanna í öllum byggðum landsins.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ljóst er að Samkaup leggur mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri þess til að eflast og þroskast bæði persónulega og í starfi. Í þessu skyni er unnið jöfnum höndum með skipulagða fræðslu innan fyrirtækisins en einnig í samstarfi við ytri fræðsluaðila þar sem starfsfólk getur stundað nám með vinnu og um leið skapað sér grunn til áframhaldandi náms síðar meir. Mikilvægt er að Samkaup veita starfsfólki sérstakan stuðning í þessu skyni.

Með því að styrkja einstaklinga til starfsþróunar er einnig lagður grunnur að framtíðar leiðtogum innan fyrirtækisins og menntunarstig innanfyrirtækisins hækkar sem aftur skilar sér í eftirsóknarverðum vinnustað, starfsánægju og jákvæðu viðhorfi starfsfólk til þeirra færni sem mikilvæg er í kaupmennsku, þjónustu og verslunarrekstri almennt. Mjög jákvætt er að sjá þá áherslu sem lögð er á fjölbreyttar menntaleiðir innan fyrirtækisins sem ná til breiðs hóps starfsfólks sem einnig miðlar þekkingunni á milli vinnustöðva innan fyrirtækisins.

Ánægjulegt er að sjá að frá því Samkaup vann menntasprota atvinnulífsins árið 2020 hefur uppbyggingarstarfinu verið haldið áfram með þeirri niðurstöðu að Samkaup eru menntafyrirtæki ársins 2022. Markvissar mælingar fara fram á árangri í þjálfun og þróun starfsmanna sem staðfesta jákvæða og mjög sterka stöðu í fræðslu og þjálfunarmálum innan Samkaupa.

Ljóst er að Samkaup gera sér grein fyrir því að mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækja og blómstri hún blómstrar fyrirtækið.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Jóhanna Sigríður Svavarsdóttir, mannauðsstjóri, Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants.

Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík er menntasproti ársins 2022. Einn lykilþáttur sprotans er samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu innan sem utan fyrirtækja auk nýsköpunar í fræðslu innan fyrirtækis eða í samstarfi aðra aðila.

Gentle Giants býður uppá hvalaskoðunarferðir og aðrar sjótengdar upplifanir á Skjálfandaflóa. Í flotanum eru níu bátar, tveir eikarbátar og fimm hraðbátar og hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á sínu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 starfsmenn (í hefðbundnu árferði). Gegnum árin hefur starfsmannavelta verið lítil hjá Gentle Giants og að því marki sem störf fylgja árstíðarbundnum sveiflum hefur sama starfsfólkið komið til starfa aftur og aftur. Þetta staðfestir að sú áhersla sem félagið hefur lagt á starfsmannamál og þar með fræðslu og þjálfunarmál hefur skipt miklu um vellíðan starfsfólksins.

Í ferðaþjónustu þar sem byggt er á notkun skipa og báta felst mikil áskorun þegar kemur að öryggismálum sem endurspeglast í fjölmörgum opinberum kröfum sem fyrirtækið og starfsfólk þess þarf að mæta. Gentle Giants hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á að þessum kröfum sé mætt til hins ýtrasta og hvergi slakað á í þeim efnum. Unnar hafa verið vandaðar og yfirgripsmiklar handbækur, leiðbeiningar og þjálfunaráætlanir hér að lútandi sem tryggja öryggi jafnt starfsfólks og viðskiptavina.

Mikla athygli vekur sú áhersla sem Gentle Giants hafa lagt á fjölþætt samstarf við nærsamfélag sitt á sviði menntunar, fræðslu og rannsókna. Þannig hefur fyrirtækið verið í samstarfi um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði með Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík og verið með doktorsnema í hlutastarfi því tengdu. Gentle Giants kom að stofnun nýrrar námsbrautar við Framhaldsskólann á Húsavík um leiðsögunám sem fékk góðar viðtökur og viðbrögð í nærsamfélaginu. Þá hefur fyrirtækið tekið þátt í að skapa sumarstörf fyrir grunnskólanemendur á svæðinu og skapa þannig áhuga þeirra á fjölbreyttum störfum í atvinnulífinu.

Ljóst er að Gentle Giants – Hvalaskoðun hafa lagt í mikla og áhugaverða vinnu á sviði mennta-, fræðslu- og þjálfunarmála innan fyrirtækisins en jafnframt tekið þátt í uppbyggingu á þessu sviði í samstarfi við aðila á svæðinu og sýnt mikilvæga samfélagslega ábyrgð sem hefur mikla þýðingu og sýnir hvernig slíkt samstarf felur í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir alla aðila.

Gentle Giants – Hvalaskoðun hefur þannig sýnt að sprotar og þróunar starf er gríðarlega mikilvægt til þess að treysta starfsgrundvöll fyrirtækja og skapa þeim mikilvægt samkeppnisforskot.

Menntadagur atvinnulífsins 2022

Menntadagur atvinnulífsins fer fram 25. apríl næstkomandi. Dagurinn er nú haldinn í raunheimum eftir strangt tímabil fjarviðburða. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er stafræn hæfni.

Frábærir fyrirlesarar og upplýsandi málstofur. Menntatorg atvinnulífsins verður á sínum stað. Ráðherrar menntamála, sem nú skiptast á þrjú ráðuneyti, verða á staðnum og taka þátt í pallborði um sína aðkomu að menntamálum.

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða einnig afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum; menntafyrirtæki ársins og menntasproti ársins.
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin til þessa. Íslandshótel voru menntafyrirtæki ársins og Domino’s menntasproti ársins árið 2021.

Dagskrá menntadagsins:
09:00 – 10:30: Menntadagur atvinnulífsins – formleg dagskrá
10:30 – 11:00: Menntatorg og netagerð
11:00 – 12:00: Málstofur

Vinsamlegast skráið ykkur á viðburðinn með því að smella hér: Skráning.

Öll erindi ársfundar Samorku 2022

Ársfundur Samorku 2022 var haldinn þriðjudaginn 15. mars í Hörpu undir yfirskriftinni Græn framtíð: Hvað þarf til?

Hér má finna öll erindi fundarins á myndbandsformi í þeirri röð sem þau voru flutt á fundinum.

Samantekt um orkuþörf og ávinning í loftslagsmálum má sjá hér:

Eyþór Árnason ljósmyndari fangaði stemninguna meðal gestanna á ársfundinum.

« af 4 »

Opnunarmyndband ársfundarins var glæsilegt að vanda.

Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku 2022

Fyrirtækið Alor hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Samorku fyrir að vera framúrskarandi sprota- og/eða nýsköpunarfyrirtæki á sviði orku- og veitumála.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála ásamt Valgeiri Þorvaldssyni stjórnarformanni Alor, Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur framkvæmdastýra, Rakel Evu Sævarsdóttur stjórnarkonu Alor og Páli Erland framkvæmdastjóra Samorku.
Ljósmynd: Eyþór Árnason.

Nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. var stofnað árið 2020 í því skyni að þróa, framleiða og markaðssetja umhverfisvænar álrafhlöður og -orkugeymslur. Í nýsköpuninni felst að stefnt er framleiðslu á álrafhlöðum af mismunandi stærðum, þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum.

Í orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbæra græna orku felast fjölmargar áskoranir og um leið tækifæri til þess að þróa lausnir sem styðja við nýtingu raforku á öllum sviðum. Bein nýting raforku er alltaf fyrsti kostur þar sem orkunýtni er hámörkuð og því mikilvægt að leita leiða til þess að aðgengi að orkunni sé sem best, á sem flestum stöðum og tímum og við ólíkar aðstæður. Þar gegna rafhlöður lykilhlutverki.

Nýsköpun sem leitar leiða til þess að framleiðsla rafhlaða verði umhverfisvæn, sjálfbær og þannig með endurvinnslumöguleikum er því gríðarlega spennandi enda ljóst að eftirspurn eftir rafhlöðum mun marg­faldast á næstu árum.

Að takast á við að þróa og prófa nýja tækni er því afar mikilvægt ekki síst í ljósi þess að rafhlöðuframleiðsla er í dag háð aðgengi að mörgum mjög takmörkuðum auðlindum og endurvinnsla takmörkunum háð.

Fulltrúar Alor taka við verðlaununum á ársfundi Samorku 15. mars 2022.

Með þetta í huga var niðurstaða dómnefndar nýsköpunarverðlauna Samorku að veita Alor ehf. verð­launin árið 2022 og hvetja þannig fyrirtækið til dáða í spennandi vegferð þeirra. Náist markmiðin er ljóst að um byltingu verður að ræða og því ákaflega ánægjulegt það styttist í að frumgerð rafhlöðutækninnar líti dagsins ljós.

Alls bárust átta tilnefningar og valdi dómnefnd fagaðila sigurvegara.