11. júlí 2025 20 orkugerðir teknar upp í EES samninginn Alls voru 20 orkugerðir teknar upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í dag, 11. júlí. Hann var fyrsti fundurinn undir formennsku Íslands, bæði í Fastanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og í sameiginlegu EES-nefndinni næstu sex mánuði. Sú nefnd er helsti samstarfsvettvangur EES-EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Lichtenstein og Evrópusambandsins, enda er hlutverk nefndarinnar að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og nýr formaður lagði sérstaka áherslu á að af þeim 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 orkugerðir. Þeirra á meðal eru tilskipanir ESB um orkunýtni, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtni bygginga. Þetta eru yfirgripsmiklar tilskipanir og/eða breytingar á fyrri tilskipunum og upptaka þeirra í samninginn hefur verið lengi í vinnslu í samráðsferli EFTA- EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Þær verða nú innleiddar í íslenska löggjöf og hafa því áhrif á starfsumhverfi orkufyrirtækja hér á landi. Kristján Andri þakkaði EES-EFTA ríkjunum og ESB fyrir gott samstarf og fyrir að leggjast á eitt í að hrinda í framkvæmd þessari jákvæðu þróun á sviði orkumála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá EFTA. Stuðningur við Omnibus-einföldunartillögur ESB EES-EFTA ríkin kynntu einnig sameiginlegt álit sitt á svokölluðum Omnibus-einföldunarpakka ESB. Í álitinu lýsa ríkin stuðningi við þær tillögur sem snúast um að einfalda reglur og draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þó að við styðjum almennt OMNIBUS-einföldunartillögurnar sem lagðar hafa verið fram hingað til, viljum við einnig undirstrika mikilvægi þess að tryggt verði að þær grafi ekki undan lykilmarkmiðum sem tengjast loftslagsmálum, umhverfismálum og félagslegum réttindum,“ er haft eftir Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra í fréttatilkynningu EFTA. Á fundi Fastanefndar EFTA í gær, 10. júlí kynnti Ísland einnig formennskuáætlun sína þar sem lögð er áhersla á öryggi, samkeppnishæfni og þátttöku EES-EFTA ríkjanna í áætlunum Evrópusambandsins. Sjá nánar frétt á heimasíðu EFTA um fundinn: EEA Joint Committee incorporates important energy files | European Free Trade Association
11. júlí 2025 ESB styrkir til öryggisrannsókna – tækifæri fyrir orku- og veitufyrirtæki Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Horizon Europe á sviði öryggisrannsókna (security research). Alls eru 250 milljónir evra í boði fyrir fjölbreytt verkefni sem miða að því að efla öryggi og viðnámsþrótt innan aðildarríkja og samstarfsþjóða. Umsóknarfrestur rennur út 12. nóvember 2025. Meðal áhersluatriða styrkveitinganna eru: Vernd mikilvægra innviða (infrastructure protection) Netöryggi og stafrænt viðnám (cybersecurity) Viðnámsþróttur gagnvart hamförum og loftslagsáföllum (disaster resilience) Í ljósi aukinna áskorana tengdum netöryggi, veðurtengdum atvikum og vaxandi kröfum um samfellu í rekstri innviða, kunna þessi verkefni að opna tækifæri fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki. Þau gætu tekið þátt annaðhvort sem leiðandi aðilar eða í samstarfi við íslenska sérfræðinga eða evrópska samstarfsaðila. Samkvæmt upplýsingum á vef RANNÍS geta íslenskir aðilar tekið þátt í Horizon Europe á jafnréttisgrundvelli við aðra aðildaraðila EES, og njóta einnig aðstoðar RANNÍS við gerð umsókna og samstarfsleit. Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB:EUR 250 million available for new projects on security research Sömuleiðis veitir RANNÍS ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar:Algengar spurningar um Horizon Europe á vef RANNÍS
11. júlí 2025 Vöxtur í nýtingu jarðhita í Evrópu Vöxtur er í nýtingu og leit að jarðhita í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu sem European Geothermal Energy Council (EGEC), samtök evrópska jarðhitageirans, kynntu þann 11. júlí. Forysta EGEC bindur miklar vonir við væntanlega aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í jarðhita. Í skýrslu EGEC kemur m.a. fram að alls voru 147 jarðhitavirkjanir í rekstri í Evrópu í lok 2024 og um 50 til viðbótar eru í undirbúningi á mismunandi þróunarstigum. Hitaveitur í Evrópu (Geothermal District Heating and Cooling) eru nú rúmlega 400 talsins og áætlanir eru uppi um að bæta um 500 við, sem nemur þá meira en tvöföldun á fjöldanum. Jarðhitaholur í Póllandi Sala á jarðvarmadælum dróst saman á árinu 2024 en vonir standa til að hún aukist aftur, m.a. með aðgerðaáætlun ESB í jarðhita (Geothermal Action Plan) sem framkvæmdastjórn ESB hyggst kynna snemma á næsta ári. Leit að jarðhita og tengdar rannsóknir eru í miklu vexti, samkvæmt skýrslunni. Þar á meðal er ætlunin að bora fjölmargar holur í tengslum við þær nýju jarðhitavirkjanir sem eru á teikniborðinu eða eru lengra komnar í undirbúningi. „Leiðin liggur upp á við í jarðhitageiranum, með nýjum borverkefnum, virkjunum og hitaveitum,“ er haft eftir Miklos Antics forseta EGEC í fréttatilkynningu frá samtökunum sem Samorka er aðili að. Antics leggur einnig áherslu á mikilvægi aðgerðaáætlunar ESB til að jarðhiti fái m.a. viðurkenningu sem einn hornsteina orkuskipta. Philippe Dumas, framkvæmdastjóri EGEC telur að aðgerðaáætlunin geti t.d. verið í lykilhlutverki í að einfalda leyfisveitingar fyrir ný jarðhitaverkefni. Það ætti um leið að ýta undir áhuga fjárfesta. Jarðhitavirkjun í Rúmeníu
11. júlí 2025 Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ „Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni. Ráðherrann stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl. Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur. Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.
11. júlí 2025 Hæstiréttur staðfestir ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Rétturinn dæmdi að samkvæmt þágildandi lögum um stjórn vatnamála hafi Umhverfisstofnun verið óheimilt að leyfa breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í júní en segir þó ljóst að framkvæmdum seinki og kostnaður aukist. Landeigendur við Þjórsá höfðu málið á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu og kröfðust þess að heimildir og leyfi fyrir virkjuninni yrðu felld úr gildi. Mynd: Landsvirkjun Í dómi Hæstaréttar kemur fram að breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi til laga um stjórn vatnamála frá árinu 2011 hafi verið afdrifaríkar. Lögin voru sett til að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða réttarins er að lokaútgáfa 18. greinar laganna útiloki í raun veitingu leyfa til að breyta vatnshlotum vegna nýrra framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana. Upphaflega heimilaði frumvarpið slíkar “nýjar breytingar” með undanþágu Umhverfisstofnunar ef önnur skilyrði laganna væru uppfyllt. Í skýringum með lagagreininni voru vatnsaflsvirkjanir tilteknar sem dæmi um breytingar af þessu tagi. Við þinglega meðferð var greininni hinsvegar breytt þannig að undanþágur væru einungis mögulegar vegna t.d. mengunar eða loftslagsbreytinga, en ekki vegna nýrra framkvæmda. Hæstiréttur telur því að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna Hvammsvirkjunar og þá væri um leið brostinn grundvöllur fyrir virkjanaleyfi Orkustofnunar Landsvirkjun og ríkið héldu því fram niðurstaða héraðsdóms fengi með engu móti staðist enda væri stjórnvöldum þá óheimilt að veita ný leyfi til nýtingar á vatnsaflsauðlindum til raforkuframleiðslu hér á landi eins og gert hafi verið á liðnum áratugum. Jafnframt færi það þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað í orkumálum, m.a. með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk. Hæstiréttur segir hinsvegar ljóst að umhverfisnefnd Alþingis “lagði til þá efnisbreytingu á lögunum að vatnshloti yrði ekki breytt vegna áhrifa af nýjum framkvæmdum. Gat þá ekki leikið vafi á að þar með var girt fyrir breytingar á vatnshloti vegna byggingar nýrra vatnsaflsvirkjana,” eins og segir í dómnum. Hæstiréttur bendir líka á að lög verði að vera skiljanleg og borgarar verði að geta treyst því að vilji löggjafans birtist í skýru orðalagi lagatexta. Það stoði því ekki fyrir Landsvirkjun og ríkið að halda því fram Alþingi hafi í raun ætlað að komast að allt annarri niðurstöðu með lagasetningunni. Skipti þá engu máli þó sannfærandi rök hafi verið færð fyrir því. Þá sé það ekki hlutverk dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur löggjafans. “Löggjöf verður hverju sinni að endurspegla áherslur og markmið stjórnvalda í orkuskiptum, rafvæðingu og loftslagsmálum.” segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. “Önnur Evrópuríki í þessu skyni endurbætt löggjöf sína, einfaldað og eflt stjórnsýsluferla til að þjóna betur markmiðum sínum.” Finnur segir svo virðast sem Alþingi hafi árið 2011 gert alvarleg mistök sem nú hafi alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu orkumála í landinu. Þetta undirstriki skýrt það sem Samorka hafi lagt áherslu á: “Alla löggjöf þarf að vanda vel svo hún vinni með en ekki gegn markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti.” Í kjölfar þess að héraðsdómur felldi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í janúar á þessu ári lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp um breytingu á raforkulögum og um stjórn vatnamála til að eyða lagaóvissu. Þannig yrði hafið yfir allan vafa að fyrrnefnd 18. grein laga um stjórn vatnamála taki til breytinga á vatnshloti, vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Frumvarpið varð að lögum í júní og á grundvelli þeirrar lagasetningar hyggst Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Landsvirkjun segir í fréttatilkynningu að síðustu áætlanir hafi gert ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar árið 2030 en töfin sem dómur Hæstaréttar hafi í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar. Viðbótarkostnaður vegna þessa og vegna tafa á undanförnum árum hlaupi á milljörðum. Mest sé þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verði af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað.
4. júlí 2025 Vaðölduver verður til Hingað til hafa jarðvarmi og vatnsafl verið meginuppsprettur raforkuframleiðslu á Íslandi. Nú er breyting fram undan, því Vaðölduver Landsvirkjunar – fyrsta vindorkuver landsins – er komið á framkvæmda- eða rekstrarstig. Að mörgu er að huga þegar hafist er handa við að byggja eitthvað alveg nýtt og í þættinum fáum við að heyra meira um ferlið, undirbúning og upphaf framkvæmda, auk þess sem hægt er að sjá hvernig Vaðölduver kemur til með að líta út. Gestur þáttarins er Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnisstjóri Vaðölduvers hjá Landsvirkjun. Umsjón þáttarins er í höndum Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku. Hægt er að horfa á þáttinn á Spotify og Vimeo, en áfram verður hægt að hlusta með hefðbundnum hætti á hlaðvarpsveitum.
4. júlí 2025 Þingið á lokametrum en flest orku- og veitutengd mál enn óafgreidd Þinglok nálgast og enn er margt óunnið í mikilvægum orku- og veitumálum. Þegar ný ríkisstjórn kynnti þingmálaskrá sína fyrir 156. löggjafarþing síðastliðið vor tók Samorka saman lista yfir tíu þingmál sem hafa beina snertingu við hagsmuni orku- og veitusviðsins. Sex þessara mála höfðu verið lögð fram af fyrri ráðherra, fjögur voru ný. Nú þegar líður að þinglokum hefur aðeins hluti þeirra hlotið fulla meðferð. Af tíu málum voru sjö lögð fram en þrjú sátu eftir, þar á meðal umfjöllun um fimm virkjunarkosti í fimmta áfanga rammaáætlunar. Þau þrjú sem ekki náðu fram eru því að öllum líkindum áfram í biðstöðu, þar til nýtt þing tekur við. Orku og veitutengd mál á þingmálalista yfirstandandi þings. Mál lituð bleikum hafa ekki verið lögð fram á yfirstandandi þingi. Tvö mál hafa verið samþykkt Af þeim sjö málum sem lögð voru fram hefur Alþingi samþykkt tvö. Annars vegar breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála sem veita Umhverfis- og Orkustofnun heimild til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna. Þar með var brugðist við lagalegri óvissu sem skapaðist eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar vegna skorts á lagaheimild. Hins vegar var samþykkt afhúðunarfrumvarp til breytinga á lögum um umhverfismat, sem færir íslenskt regluverk nær evróputilskipuninni sem lögin byggjast á. Fimm mál í nefnd eða biðstöðu Önnur mál eru ýmist í þingnefndum eða bíða umræðu. Þar á meðal eru tillögur um raforkuöryggi, einföldun leyfisveitinga og breytingar á viðskiptakerfi með raforku. Einnig bíða endurskoðun á þriðja áfanga rammaáætlunar og skýrari málsmeðferðarreglur fyrir áætlunarferlið frekari afgreiðslu. Samorka sendi inn umsagnir um þrjú mál í júní; um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, um áform um endurskoðun sveitarstjórnarlaga og um drög að forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB. Hægt er að lesa allar umsagnir Samorku hér.
1. júlí 2025 Danir leggja áherslu á endurnýjanlega orku og samkeppnishæfni í forsæti ráðherraráðs ESB Danmörk tók við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins (Ráðinu) í dag 1. júlí og gegnir því hlutverki næstu sex mánuði, eða til áramóta. Danir fá þannig tækifæri til að móta stefnu ESB á lykilsviðum, þar á meðal í loftslags-, orku- og umhverfismálum. Danmörk hefur lengi verið leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og endurnýjanlegrar orku. Dönsk stjórnvöld hyggjast því nýta formennskuna til að hraða orkuskiptum og grænu byltingunni innan Evrópu auk þess að leggja áherslu á að ESB standi við metnaðarfull loftslagsmarkmið. Danir takast einnig á við mörg önnur viðfangsefni næstu sex mánuði í forsæti ráðherraráðsins og það gera þeir undir yfirskriftinni „A strong Europe in a changing world.“ Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, kynnir áherslur danskra stjórnvalda í forsæti ráðherraráðs ESB. Ráðherraráðið er ein af helstu valdastofnunum ESB ásamt leiðtogaráðinu, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórninni. Valdastaða ráðherraráðsins endurspeglast framar öðru í löggjafarvaldinu sem það fer með ásamt Evrópuþinginu. Ljóst er að stjórnvöld í Kaupmannahöfn vilja nota þetta forystuhlutverk sitt til að efla samkeppnishæfni Evrópu og tryggja jafnframt öryggi álfunnar í viðsjárverðum heimi. „Öflugri varnir Evrópu og að losna við íþyngjandi regluverk en vinna um leið áfram að orkuskiptum – þetta eru forgangsmál fyrir Danmörku meðan við erum í forsæti ráðherraráðsins,“ sagði Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, þegar hún kynnti áherslur danskra stjórnvalda næstu sex mánuði, á fréttamannfundi þann 19. júní s.l. Fréttaskýrendur segja að Danir vilji ekki hvika frá markmiðum Græna sáttmála ESB (Green Deal). Þeir telji að sjálfbærni og samkeppnishæfni geti fyllilega farið saman en meðal aðildarríkja ESB eru uppi mismunandi sjónarmið og sambandið er að reyna að finna jafnvægi milli þeirra. Höfuðstöðvar ráðherraráðs ESB í Brussel þar sem Danir hafa nú tekið við formennsku Þann 2. júlí er búist við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynni löggjafartillögu sína um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins um 90% miðað við árið 1990. Fréttaskýrendur og sérfræðingar telja að þetta markmið hafi veruleg áhrif á stefnumótun og atvinnulíf innan Evrópusambandsins, m.a. ákvarðanir um fjárfestingar stórra fyrirtækja og einnig sprotafyrirtækja. Hagsmunasamtök á borð við Nordenergi, sem Samorka er aðili að, hafa lagt áherslu á að staðið verði við markmiðið og sendu m.a. Wopke Hoekstra umhverfismálastjóra ESB bréf þess efnis. „Til að Danmörk og Evrópa í heild verði ekki eins háð jarðefnaeldsneyti og til að styrkja samkeppnishæfni þá eru grænu orkuskiptin lausnin, ekki vandamálið,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur nýlega í viðtali við Newsweek tímaritið. „Öflugri framleiðsla á okkar eigin hreinu orku og fjárfestingar í orkuinnviðum eru grundvallarforsendur til að styrkja álfuna okkar. Um leið minnkum við losun gróðurhúsaloftegunda og tökumst á við loftslagsbreytingar,“ bætti danski forsætisráðherrann við. Hún og aðrir danskir ráðherrar munu reglulega beita sér í að vinna stefnumálum Dana fylgi innan ESB og þess má einnig geta að orkumálastjóri ESB er nú danskur, Dan Jørgensen. Evrópusambandið hyggst hætta að kaupa rússneskt gas fyrir árslok 2027 sem eykur enn þrýsting á að efla orkuframleiðslu innan álfunnar. Þá leggur ESB áherslu á að styrkja verulega flutnings- og dreifikerfi raforku. Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, benda einnig á að Danir sjái rafvæðingu sem leið til að tryggja orkuöryggi, samkeppnishæfni og orkuskipti. Samorka er aðili að Eurelectric. Tákn formennsku Dana. Ísland er vissulega ekki í Evrópusambandinu en í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) innleiða íslensk stjórnvöld löggjöf og regluverk ESB um orku, loftslags og umhverfismál. Áherslur Dana í forsæti ráðherraráðsins skipta því máli fyrir starfs- og rekstrarumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja og atvinnulífsins í heild. Samorka mun því fylgjast grannt með hvernig dönskum stjórnvöldum miðar í að ná markmiðum sínum meðan á formennsku þeirra stendur. Fulltrúi Samorku í Brussel er með starfsaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni en þar eru einnig fulltrúar sambærilegra samtaka í Danmörku – Green Power Denmark – og stórra danskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegrar orku.
27. júní 2025 Nýjar reglur ESB styðja við orkuskipti og hreina iðnvæðingu Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt nýjar reglur um ríkisaðstoð í tengslum við markmið og áætlanir um hreina iðnaðarstefnu – Clean Industrial Deal State Aid Framework (CISAF). Reglurnar leysa af hólmi eldri reglur og gilda til ársloka 2030. Reglurnar koma til með að snerta hagsmuni Íslands enda gilda samkeppnisreglur ESB hér á landi í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Nýju reglurnar kunna einnig að hafa áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja til að mynda í tengslum við niðurgreiðslur á raforkuverði til stórnotenda. Markmið CISAF er að gera aðildarríkjum ESB kleift að hraða orkuskiptum, styðja við hreina tækni og afkolun iðnaðar, án þess að raska samkeppni á innri markaði. Reglurnar einfalda veitingu ríkisaðstoðar á fimm megin sviðum: endurnýjanlegri orku, stuðningi við orkufrek fyrirtæki, núverandi iðnaðarframleiðslu, framleiðslugetu í hreinni tækni og áhættudreifingu fjárfestinga. Þær eiga að efla samkeppnishæfni Evrópu í ljósi aukinnar samkeppni frá Bandaríkjunum og Kína. Meðal nýjunga er svokölluð „hraðleið“ fyrir verkefni tengd hreinni orku, t.d. vetni og sólarorku. Reglurnar ná líka yfir stuðning við nýtingu jarðhita, m.a. jarðhitavirkjanir. Ríki fá aukið svigrúm til að veita stuðning að hámarki 200 milljónir evra eða meira, m.a. með samkeppnisútboðum. Heimilt verður, með tilteknum skilyrðum, að niðurgreiða raforkukostnað orkufreks iðnaðar, niður að allt að 50 evrum/MWh, gegn því að fyrirtækin fjárfesti í afkolun fyrir helming stuðningsupphæðarinnar. Að auki geta ríki nýtt sér skattaívilnanir og aðra fjárhagslega hvata til að örva eftirspurn eftir hreinni tækni og draga úr fjárfestingaráhættu. Nýju reglurnar eiga að tryggja samræmi milli efnahagslegra hvata og loftslagsmarkmiða ESB og gera fyrirtækjum kleift að gera áætlanir til lengri tíma. Fjárfestar, bæði úr opinbera og einkageiranum, geta nú líka tekið ákvarðanir byggðar á reglum sem gilda a.m.k. fimm ár fram í tímann. Nánar um nýju reglurnar: https://competition-policy.ec.europa.eu/about/contribution-clean-just-and-competitive-transition/clean-industrial-deal-state-aid-framework-cisaf_en
18. júní 2025 Miklir möguleikar í nýtingu jarðhita í Evrópu Fulltrúar jarðhitageirans í Evrópu segja mikilvægt að væntanleg aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um að efla nýtingu jarðhita ýti undir fjárfestingar í þessum geira. Þetta kom fram á jarðvarmaráðstefnu í Brussel þann 17. júní. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB tóku undir að hægt væri að auka verulega vinnslu jarðvarma á meginlandinu til að framleiða raforku, til húshitunar og kælingar. Fulltrúi pólskra stjórnvalda sagði einnig frá áætlunum að auka stórlega nýtingu jarðhita þar í landi. Paula Rey Garcia sagði frá áherslum framkvæmdastjórnar ESB í nýtingu jarðvarma. Hagsmunasamtök jarðhitageirans í Evrópu „European Geothermal Energy Council” (EGEC) skipulögðu ráðstefnuna sem bar yfirskriftina „Geothermal Cities – How can the EU‘s Geothermal Action Plan unlock investments?“ Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur nú að undirbúningi fyrrnefndrar aðgerðaáætlunar og hyggst birta hana snemma á næsta ári. Dan Jørgensen, orkumálastjóri ESB sagði í mars s.l. að jarðvarmi hafi mikilvægu hlutverki að gegna í orkuskiptum innan Evrópusambandsins. Hinsvegar hafi greinin þurft að glíma við hindranir, t.d. vegna leyfisveitinga og skorts á fjármagni. Fulltrúar á ráðstefnu EGEC hvöttu til þess að þeim hindrunum verði rutt úr vegi því þannig mætti vekja þennan „sofandi risa“ í þágu orkuskiptanna. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar sögðust meðvitaðir um mikilvægi þess að hrinda umbótum í framkvæmd í samráði við aðildarríki ESB. Aðgerðaáætlunin fylgir í kjölfar niðurstöðu ráðherraráðs ESB frá í desember 2024 sem lagði áherslu á að jarðhiti sé traustur, hagstæður og grænn orkugjafi til að hita hús, fyrir kælingu og til að framleiða rafmagn. Pallborðsumræður á ráðstefnunni voru líflegar enda viðfangsefnin áhugaverð. Pólland hefur verið leiðandi í auka veg jarðhitanýtingar innan Evrópusambandsins og fulltrúi pólskra stjórnvalda á ráðstefnunni sagði m.a. frá fyrirætlunum um að bora tugi nýrra borhola víðsvegar í landinu á næstu árum. Fulltrúar borga í Evrópu sögðu frá verkefnum sem snúast um jarðhitanýtingu og einstök fyrirtæki kynntu hvað þau eru að gera – í bortækni, hitaveitu og mörgu öðru. Kortlagning jarðhita í Evrópu og aðgengi að þeim gögnum var efni eins fyrirlestrar og nauðsyn þess að efla þekkingu og kunnáttu gekk eins og rauður þráður í gegnum ráðstefnuna. Þar hefur íslenski jarðhitageirinn auðvitað mikið fram að færa. Þá kom einnig fram að nýting jarðvarma auki orkuöryggi því hann sé auðlind í nærsamfélaginu. Evrópusambandið leggur nú þunga áherslu á að í framtíðinni standi aðildarríkin sem mest á eigin fótum í orkuöflun og ef rétt er á málum haldið getur jarðvarmi verið þar mikilvæg stoð. Ráðstefnan í Brussel sýndi fram á að mikill áhugi er á frekari nýtingu jarðhita og nú þarf pólitískan stuðning og meira fjármagn til að láta verkin tala. Fulltrúi Samorku sat ráðstefnuna en samtökin eru aðili að EGEC. Skilaboðin frá EGEC um kosti nýtingar jarðhita eru skýr.