Nýr formaður Samorku

Guðmundur Þóroddsson nýr formaður Samorku Aðalfundur Samorku var haldinn sl. föstudag 16.mars. Samkvæmt lögum félagsins er gert ráð fyrir að formenn sitji ekki lengur en fjögur ár og gaf Júlíus Jónsson ekki kost á sér til áframhaldandi setu í formannssæti í samræmi við þetta ákvæði. Formaður var kosinn Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Annar nýr maður í stjórn er Friðrik Sophusson, Landsvirkjun og í varastjórn kemur nýr inn Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Júlíus var kosinn í stjórn. Úr stjórn gengu Hólmsteinn Sigurðsson, Orkuveitu Reykjavíkur og Jóhann Már Maríuson, Landsvirkjun. Og úr varastjórn gekk Jóhann Bergmann, Vatnsveitu Reykjanesbæjar. Stjórn Samorku skipa nú eftirtaldir menn: Guðmundur Þóroddsson, Orkuveitu Reykjavíkur, formaður Franz Árnason, Norðurorku Friðrik Sophusson, Landsvirkjun Ingvar Baldursson, Hitaveitu Rangæinga Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja Kristján Jónsson, Rafmagnsveitum ríkisins Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða Í varastjórn eiga sæti: Friðrik Friðriksson, Bæjarveitum Vestmannaeyja Sigurður Ágústsson, Rafveitu Sauðárkróks Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar

Nýtt lagafrumvarp um hitaveitur fyrirhugað

Iðnaðarráðherra boðar ný lög fyrir hitaveitur Á aðalfundi Samorku föstudaginn 16. mars sl. flutti iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir ávarp. Í því kom fram að hún hugar að gerð lagafrumvarps um hitaveitur og að sú vinna hefist innan skamms. Vinnan verður unnin á vegum iðnaðarráðuneytisins, en hún mun óska eftir að Samorka tilnefni í vinnunefndina tvo fulltrúa frá Samorku. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á haustdögum og afgreitt fyrir árslok. Vinna er hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923. Hún sagði einnig að stefnt sé að því að leggja raforkulagafrumvarpið fyrir á þessu þingi og að það verði afgreitt í haust. Miðað er við að lögin taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2002, en þá rennur út frestur EES-landanna til að taka upp raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ráðherra benti á að þessar breytingar á raforkulagaumhverfi sé afar flókið og viðamikið mál og þær munu hafa veruleg áhrif á starfsemi flestra raforkufyrirtækja, sem þurfa að aðlaga sig að nýrri hugsun og breyttu umhverfi og engin furða að ágreiningur skuli vera um það á hvern hátt skynsamlegast sé að verki staðið. Breytingarnar þarf að vinna í áföngum og endurmeta þarf stöðuna innan fárra ára og skoða hverju mætti breyta til bóta.

Af rafsegulsviðsmálum

Af rafsegulsviðsmálum Í byrjun mars var birt skýrsla frá ráðgjafarnefnd NRPB sem eru geislavarnir ríkisins í Bretlandi. Í skýrslunni var tekið saman hvað hefur verið rannsakað á sviðinu og fátt nýtt kom fram. Þar staðfestir sir Richard Doll, helsti sérfræðingurinn á þessu sviði og formaður ráðgjafarhópsins, að hvorki væri sannað að rafsegulsvið valdi krabbameini í börnum né fullorðnum. Engar nýjar vísbendingar um áhrif rafsegulsviðs á mannslíkamann og starfssemi hans gefa ástæðu til að ætla að rafsegulsvið valdi heilsufari fólks hættu. Engar nýjar sannanir gefa tilefni til að breyta viðmiðunarmörkum rafsegulsviðs. Í skýrslunni er einnig bent á að rannsóknir á áhrifum rafsegulsviðs beinast að öllum notkunarstöðum rafmagns s.s. inni á heimilum en ekki einskorðaðar við loftínur. Vísindamenn um allan heim eru í æ ríkara mæli að verða þeirrar skoðunar að heilsufari fólks stafi engin meiriháttar áhætta af veru í rafsegulsviði. Samorka hefur um árabil fylgst með rannsóknum á áhrifum rafsegulsviðs á mannslíkamann m.a. með þátttöku í norrænu samstarfi en ekki hefur þótt ástæða til að framkvæma rannsóknir hér á landi. GV

Rannsóknir og tækniþróun

Á fundi stjórnar Samorku var ákveðið að stofna starfshóp um rannsóknir og tækniþróun á raforkusviði. Hópnum er ætlað koma af stað rannsóknar og tækniþróunarverkefnum sem snúa að íslenska raforkukerfinu. Hvort sem er doktorsverkefni, mastersverkefni eða önnur form á slíkum verkefnum. Litið er til NEFP (Nordisk energiforsknings program) varðandi fjármögnun verkefna. Búið er að skipa í hópinn sem Ásbjörn Blöndal Ólason veitustjóri á Selfossi og fulltrúi Samorku í NEFP leiðir: Í hópnum verða: Ásbjörn Blöndal Ólason Selfossveitur Steinar Friðgeirsson Rarik Þorgeir Einarsson OR Þórður Guðmundsson Landsvirkjun Árni Ragnarsson Orkustofnun Egill B. Hreinsson Háskóli Íslands Jón M. Halldórsson Rafhönnun Jón Bergmundsson Verkfræðistofan Afl Snæbjörn Jónsson Rafteikning Með hópnum starfar Guðmundur Valsson Samorku Tilgangur hópsins er: – Stuðla að auknum innlendum samskiptum og samvinnu fagfólks á raforkusviði og efla samstarf við norræna vísindamenn og sérfræðinga. – Setja fram hugmyndir að doktorsverkefnum og öðrum verkefnum á rafmagnssviði sem henta til úrvinnslu innan Norrænna orkurannsókna (NEFP) og/eða annarra rannsókna- og vísindastofnana. – Stuðla að opinni kynningu á rannsóknar- og vísindastarfi og þá sérstaklega innan NEFP.

Starfshópur um gjaldskrárforsendur raforkudreifingar

Tilgangur starfshópsins er að undirbúa forsendur fyrir uppbyggingu gjaldskrár raforkudreifingar. – Hópurinn mun starfa talsvert uns búið er að yfirfara forsendur yfir gjaldskrár og verður hópnum slitið að aflokinni þeirri vinnu. -Áætlað er að starfi hópsins ljúki eigi síðar en árið 2002 Vinna starfshópsins miðar að því að vera tilbúin með gjaldskrárforsendur þegar breytingar á raforkugeiranum taka gildi. En mikil breyting verður samfara þeirri uppskiptingu og greina þarf nákvæmlega á milli einkaleyfis- og samkeppnisþátta. Búast má við meira eftirliti með gjaldskrám fyrir dreifingu og flutning en tíðkað hefur verið til þessa. Í hópnum munu starfa: Ívar Þorsteinsson OR – formaður Pétur Þórðarson Rarik Bjarni Sólbergsson OV Stefán Jón Bjarnason HS Sigurður Ágústsson Rafveitu Sauðárkróks Með hópnum starfar Guðmundur Valsson Samorku

Nordisk benchmarking 2000

Bæjarveitur Vestmannaeyja tóku þátt í Nordisk benchmarking, 2000 og var eina íslenska fyrirtækið sem var með. Alls tóku 37 veitur þátt í verkefinu, níu frá Svíþjóð og Noregi, átta frá Finnlandi, sjö frá Danmörku og þrjár frá Hollandi en þeir voru með í fyrsta sinn. Aðferðafræðin sem notuð var við samanburðinn byggir á svokölluðum Effometer. Hann hefur verið þróaður af norsku veitunum og notaður við samanburð á hagkvæmni þeirra síðan 1994. Þetta er í annað sinn sem norrræn samanburður fer fram en síðast voru veiturnar bornar saman 1998. Það má segja að aðferðafræðin sé í stöðugri þróunn og voru gerðar nokkrar lagfæringar frá síðustu keppni. Í stuttu máli má segja að aðferðin byggi á því að fundnir séu tveir þættir aðfangaþáttur og magnþáttur. Þættirnir eru skilgreindir með stærðum sem lýsa hvert umfang verkefnisins er sem verið er að leysa s.s. stærð orkuveitusvæðis, fjölda viðskiptavina, orkumagn, afl, lengd strengja, fjölda spennistöðva og stærð spenna ofl. Einnig eru lagðar inn þær fjárfestingar sem liggja í þessum einingum ásamt fjölda starfsmanna og kostnaði. Til að finna út hvaða veita er hagkvæmust er magnþáttur og aðfangaþáttur margfaldaðir saman. Starfsemi veitufyrirtækjanna er skipt um eins og mynd 1 sýnir, auk notendaþjónustu og stjórnunar og fundið út hversu hagkvæmar veiturnar voru á hverju sviði. Sú veita sem best kom út samanlagt var síðan hagkvæmust. Í stuttu máli má segja að Bæjarveitur Vestmannaeyja hafi komið þokkalega út úr þessum samanburði, enduðu í 20 sæti af 37 veitum. Magnþáttur Bæjarveitna reyndist nokkuð hár en aðfangaþáttur lágur. Það sem er merkilegt við þessa niðurstöðu er að þegar Bæjarveitur voru bornar voru saman við aðrar íslenskar veitur með sömu aðferð, 1997 og 1998, komu þær út með frekar lágan magnþátt. Magnþáttur segir til um þær fjárfestingar sem menn hafa lagt í til að leysa sitt verkefni. Það virðist því vera ljóst að við erum með of dýr kerfi til að leysa okkar verkefni. Annars kom rekstrarkostnaður okkar mjög vel út og ljóst að við erum ekki að kosta of miklu til við hann. Gefnar voru upp niðurstöður þar sem borin var saman hagkvæmni einstakra eininga innan rekstursinns. Komu Bæjarveitur mjög vel út með alla þætti sem snúa að rekstri sinna kerfa, s.s. háspennustrengir, spennistöðar, lágspennukefi og ljóst að kerfi okkar eru nokkuð góð en aftur á móti komu Bæjarveitur illa út í notenda þjónustu og stjórnum. Það virðist sem kostnaður okkar við útgáfu reikninga, þjónustu við okkar viðskiptavini og eftirlit sé dýrt. Það sem vegur örugglega þungt í þessum samanburði er að Bæjarveitur hafa byggt upp nýjar höfuðstöðvar og eru þar með mikla fjárfestingu fyrir fáa viðskiptavini og fáar kWh. Þegar sigurvegarinn er skoðaður en hann kom frá norður Svíþjóð, kemur í ljós að hann er að reka gamalt dreifikerfi sem búið er að afskrifa. Hann er með nokkuð mikla notkun á hvern viðskiptavin, afhendingar öryggi undir meðallagi og hann kostar nokkuð miklu í rekstur kerfisins. Nokkuð merkilegt sérstaklega í ljósi þess hvernig við höfum byggt okkar kerfi upp!

Námskeið um rekstur og viðhald aflspenna

Rekstur og viðhald aflspenna – fréttir af námskeiði Dagana 14. til 16. febrúar síðastliðinn var haldið námskeið á vegum Rafiðnaðarskólans og Samorku um rekstur og viðhald á aflspennum.

Alls voru 27 þátttakendur á námskeiðinu, sem var haldið í Stjórnstöð Landsvirkjunar, en hluti þess fór einnig fram í húsakynnum Spennistöðva Landsvirkjunar. Aðal leiðbeinendur voru tveir Norskir sérfræðingar frá ABB Kraft í Drammen, þeir Ottar Svensen og Øystein Berg. Hjá ABB Kraft er áralöng reynsla á smíði og viðhaldi aflspenna og þar er einnig rannsóknarstofa sem sér um greiningu á ástandi spenna út frá olíusýnum. Á námskeiðinu var farið yfir nánast allt sem viðkemur aflspenni, frá A til Ö.

Byrjað var á að fjalla almennt um raffræðilega virkni spenna og síðan var uppbygging þeirra tekin fyrir nokkuð ítarlega, þar sem farið var yfir allar einingar spennisins, þ.e. kjarna, vöf, gegnumtök o.s.frv. Þá var fjallað um spenninn í rekstri, lestunarmörk og líftíma. Farið var m.a. í gegnum hvernig meta má leyfileg lestunarmörk út frá IEC staðli og kom m.a. fram að í Noregi teljast aflspennar almennt 10% stærri að málafli en gefið er til kynna á merkiplötu, vegna lágs umhverfishita.

Þá voru spennustillar teknir fyrir, bæði uppbygging þeirra og viðhald, auk þess sem fjallað var lítið eitt um mælaspenna. Farið var ítarlega í spennaolíu og allt sem henni viðkemur, s.s. eiginleika, olíusýni, greiningu á olíu, túlkun á niðurstöðum og hreinsun olíu. Mikil þróun hefur átt sér stað í ,,sjúkdómsgreiningu” á aflspennum út frá olíusýnum og í dag getur slík greining gefið mjög nákvæmar upplýsingar um ástand spennis, s.s. hvar í spenni öldrun er óeðlilega mikil, hver orsök öldrunar er o.s.frv.

Einnig var sagt frá þróun sem á sér stað í tækni við að greina ástand spennis stöðugt með sjálfvirkri olíugreiningu. Þá hefur einnig orðið þróun í tækni við hreinsun/endurvinnslu á olíu. Líftími spenna er fyrst og fremst háður niðurbroti í pappírseinangrun spennisins, en ástand spennaolíu hefur aftur á móti áhrif á hversu hratt þetta niðurbrot verður. Til að draga úr öldrun spenna er því mikilvægt að hafa spennaolíuna í sem bestu ástandi.

ABB Kraft í Drammen á í dag tvær nýjar, hreyfanlegar olíuendurvinnslustöðvar, sem hvor um sig er tengivagn á stærð við gám með endurvinnslubúnaði og rannsóknaraðstöðu. Þessum vögnum er ekið á milli spenna vítt og breytt um Noreg og eru nánast í stöðugri notkun allt árið um kring. Með þessum endurvinnslubúnaði hefur náðst mjög góður árangur við að draga úr öldrun spenna.

Hluti námskeiðsins, eða hálfur dagur, fór fram í húsakynnum Spennistöðva LV að Hesthálsi 14 í Reykjavík. Þar tók Birgir Guðmannsson, yfirmaður Spennistöðva, á móti hópnum og hélt erindi um rekstrar- og viðhalsmál á aflspennum hjá Landsvirkjun. Hann kom í erindi sínu einnig inn á ýmis hagnýt atriði, t.d. varðandi hönnunarkröfur, prófanir á nýjum spennum o.fl.

Þá fór fram sýnikennsla í töku og meðhöndlun olíusýna og skoðaður var opinn aflspennir. Hjá Spennistöðvum LV hefur nýlega verið komið fyrir opnum 40 MVA aflspenni, 66/13,2/11kV með sjálfvirkum þrepaskipti, sem nota á við þjálfun og kennslu. Námskeiðið tókst vel í alla staði og urðu þátttakendur margs vísari um aflspenna, uppbyggingu þeirra, rekstur og viðhald.

Efnið var hæfilega blandað af tæknilegum og hagnýtum atriðum, sem Norsku fyrirlesurunum tókst að koma vel til skila. Þá var heimsóknin til Spennistöðva LV mjög fræðandi og aðstaðan sem þar er verið að skapa og mun nýtast til kennslu í þessum fræðum er áhugaverð og ber vott um gott framtak. Nils Gústavsson

Starfsleyfi

Starfsleyfi fyrir orkuveitur – innra eftirlit fyrir hitaveitur Eins og fram hefur komið í fréttabréfinu og víðar eiga hitaveitur og rafveitur að vera búnar að sækja um starfsleyfi skv. reglugerð um starfsleyfir fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun (785/1999). Þessi reglugerð er skv. EB tilskipun. Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um leyfið og fengið fyrir Nesjavallavirkjun en ekki aðra hluta veitunnar, nema vatnsveituna. En það leyfi var veitt um leið og vatnsveitan fékk vottað innra eftirlit. Rætt hefur verið um að það vanti samræmdar leiðbeiningar um hvernig eigi að sækja um leyfið og gátlista um hvaða atriði þarf að skoða. Fundað hefur verið með Hollustuvernd og þremur heilbrigðisfulltrúum nú nýverið til að fara yfir málið og þar á bæ er farið að vinna að slíkum leiðbeiningum. Nokkur óvissuatriði eru í reglugerðinni er varðar orkuveitur. Þar segir að virkjanir og orkuveitur stærri en 2 MW eigi að sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Það þarf að skilgreina hvort hér er átt við uppsett afl inn á dreifikerfið og hvað er átt við með stórar spennistöðvar. En skv. skilningi Hollustuverndar er hér átt við aðveitustöðvar. Í lok mars er boðað til annars fundar og þar er ætlunin að leggja fram drög að leiðbeiningum. Rætt var um mikilvægi innra eftirlits og að ef það væri til staðar væri þörfin fyrir ytra eftirlit minni. Rafveitur hafa komið sér upp innra öryggiskerfi og getur eftirlit með þeim þáttum sem á að hafa gát á vegna starfsleyfis verið hluti af því. Öðru máli gegnir með hitaveitur. Þær þurfa a fara koma sér upp skipulegu innra eftirliti sem getur m.a. tekið á þessum þátt. Orkuveitur þurfa að koma upp skilvirku bókhaldi yfir mengandi efni s.s. PCB, útstreymi lofttegunda og verður líklega ekki langt að bíða að krafa verður gerð um grænt bókhald fyrirtækjanna.