Nýtt lagafrumvarp um hitaveitur fyrirhugað

Iðnaðarráðherra boðar ný lög fyrir hitaveitur Á aðalfundi Samorku föstudaginn 16. mars sl. flutti iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir ávarp. Í því kom fram að hún hugar að gerð lagafrumvarps um hitaveitur og að sú vinna hefist innan skamms. Vinnan verður unnin á vegum iðnaðarráðuneytisins, en hún mun óska eftir að Samorka tilnefni í vinnunefndina tvo fulltrúa frá Samorku. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á haustdögum og afgreitt fyrir árslok. Vinna er hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923. Hún sagði einnig að stefnt sé að því að leggja raforkulagafrumvarpið fyrir á þessu þingi og að það verði afgreitt í haust. Miðað er við að lögin taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2002, en þá rennur út frestur EES-landanna til að taka upp raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ráðherra benti á að þessar breytingar á raforkulagaumhverfi sé afar flókið og viðamikið mál og þær munu hafa veruleg áhrif á starfsemi flestra raforkufyrirtækja, sem þurfa að aðlaga sig að nýrri hugsun og breyttu umhverfi og engin furða að ágreiningur skuli vera um það á hvern hátt skynsamlegast sé að verki staðið. Breytingarnar þarf að vinna í áföngum og endurmeta þarf stöðuna innan fárra ára og skoða hverju mætti breyta til bóta.