Starfsleyfi

Starfsleyfi fyrir orkuveitur – innra eftirlit fyrir hitaveitur Eins og fram hefur komið í fréttabréfinu og víðar eiga hitaveitur og rafveitur að vera búnar að sækja um starfsleyfi skv. reglugerð um starfsleyfir fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun (785/1999). Þessi reglugerð er skv. EB tilskipun. Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um leyfið og fengið fyrir Nesjavallavirkjun en ekki aðra hluta veitunnar, nema vatnsveituna. En það leyfi var veitt um leið og vatnsveitan fékk vottað innra eftirlit. Rætt hefur verið um að það vanti samræmdar leiðbeiningar um hvernig eigi að sækja um leyfið og gátlista um hvaða atriði þarf að skoða. Fundað hefur verið með Hollustuvernd og þremur heilbrigðisfulltrúum nú nýverið til að fara yfir málið og þar á bæ er farið að vinna að slíkum leiðbeiningum. Nokkur óvissuatriði eru í reglugerðinni er varðar orkuveitur. Þar segir að virkjanir og orkuveitur stærri en 2 MW eigi að sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Það þarf að skilgreina hvort hér er átt við uppsett afl inn á dreifikerfið og hvað er átt við með stórar spennistöðvar. En skv. skilningi Hollustuverndar er hér átt við aðveitustöðvar. Í lok mars er boðað til annars fundar og þar er ætlunin að leggja fram drög að leiðbeiningum. Rætt var um mikilvægi innra eftirlits og að ef það væri til staðar væri þörfin fyrir ytra eftirlit minni. Rafveitur hafa komið sér upp innra öryggiskerfi og getur eftirlit með þeim þáttum sem á að hafa gát á vegna starfsleyfis verið hluti af því. Öðru máli gegnir með hitaveitur. Þær þurfa a fara koma sér upp skipulegu innra eftirliti sem getur m.a. tekið á þessum þátt. Orkuveitur þurfa að koma upp skilvirku bókhaldi yfir mengandi efni s.s. PCB, útstreymi lofttegunda og verður líklega ekki langt að bíða að krafa verður gerð um grænt bókhald fyrirtækjanna.