Hitaveita Hveragerðis til sölu

Á Fréttavef Suðurlands er sagt frá því að bæjarstjórn Hveragerðis hafi ákveðið að láta kanna með sölu á Hitaveitu Hveragerðis, sjá www.sudurland.net. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi bæjarstjórnar nú nýverið. Aldís Hafsteinsdóttir forseti bæjarstjórnar sagði að það gilti það sama um hitaveituna eins og um mörg önnur fyrirtæki að það er flest til sölu fáist fyrir það rétt verð. Bæjarfélagið standi í umfangsmiklum framkvæmdum s.s. á fráveitunni, viðbyggingum vegna einsetningu grunnskóla, byggingu leikskóla og gatnagerð. Peningum bæjarbúa sé betur varið í framkvæmdir sem skila bæjarbúum betra bæjarfélagi strax heldur en að binda þá í fyrirtæki eins og hitaveitunni til lands tíma.

Hvatt til aukins samráðs

Í ræðu sinni á samráðsfundi Landsvirkjunar minntist ráðherra á samráðsvettvang sem nokkur orkufyrirtæki og stofnanir stóðu að fyrir nokkrum árum. Á þessum vettvangi voru rædd málefni orkugeirans í víðasta skilningi. Hvatti hún eindregið til þess að samstarfið yrði endurvakið. Samorka fagnar þessum hugmyndum, sem eru vel í anda þeirrar meginhugsunar sem lá að baki sjónarmiðum samtakanna við gerð nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum. Samorka hefur einnig lagt áherslu á samráð og samstarf í sem flestum málum og talið það vænlegustu leiðina til þess að eyða tortryggni og um leið auka skilvirkni stefnumótunar. Hugmyndin er að stofna hóp sem skipaður verði aðilum frá ráðuneyti, Orkustofnun, Samorku, orkufyrirtækjum, náttúruvernd, skipulagsstofnun o.fl. aðilum. Ætlunin er að hópurinn hittist reglulega og ræði þau málefni orkumála sem efst eru á baugi þá stundina.

OR sigurvegari á námstefnu

Námstefna rafiðnaðarmanna veitufyrirtækja var haldin á Hótel Örk í Hveragerði 29.-30. mars sl. Á námstefnunni voru kynnt vinnubrögð veitna, götulýsing, breytingar í skipulagi raforkugeirans ásamt efniskynningum. Á síðustu þremur námstefnum hefur verið keppt í fagvinnu rafiðnaðarmanna, loftlínuklifur 1999, tenging götuskáps 2000 og nú samtenging 240 mm2, 1 kV jarðstrengs. Keppt var í tveggja manna liðum þar sem velja mátti um hvaða verkfæri og efni menn notuðu. Það voru Johan Rönning og Reykjafell sem lögðu til tengiefni og verðlaun auk Ískrafts sem lagði til 3. verðlaun. Keppt var bæði í tíma og fagmennsku þar sem allir námstefnugestir dæmdu fagmennsku auk dómara Péturs Jónssonar verkstjóra í tengingum hjá OR sem er einn reyndasti tengingamaður landsins. Alls tóku 16 manns þátt í keppninni og úrslit voru eftirfarandi: 1. sæti Gestur Bjarnason og Magnús Gunnlaugsson OR með tímann 15:48 2. sæti Sævar Sigursteinsson Selfossveitur og Þorsteinn Þorsteinsson Bæjarveitur Vestmannaeyja á tímanum 19:22 3. sæti Heiðar Sverrisson Rafveitu Hafnarfjarðar og Birgir Guðnason Akranesveitu á tímanum 18:51 4. sæti Ómar Baldursson og Þorvaldur Þorvaldsson Selfossveitum á tímanum 17:52 5. sæti Kristján Einarsson og Gestur Kristinsson Orkubúi Vestfjarða með tímann 21:06 6. sæti Páll Valdimarsson og Bjarni Snorrason á tímanum 20:59 7. sæti Eiríkur Kristvinsson og Ragnar Bárðarson Norðuráli á tímanum 22:38 8. sæti Guðni Elíasson Rönning og Eiríkur Kristvinsson Norðuráli Ljóst var að smekkur manna á faglegum vinnubrögðum var mjög áþekkur en Ómar Baldursson og Þorvaldur Þorvaldsson frá Selfossveitum höfðu aðra nálgun á frágangi tengingarinnar og fengu í staðinn ekki verðlaunasæti þrátt fyrir góðan tíma. Helsti munurinn var að þeir halda loftbili milli fasanna þegar ytra krumpuslangan er herpt og telja með því sé tengingin sveigjanlegri og betur einangruð vegna loftbilsins. Á námstefnunni voru flutt áhugaverð erindi. Kristinn Jóhannsson frá Rönning fjallaði um nýjungar í götulýsingu m.a. um nýjan ljósgjafa s.k. Ceramic Metal Halide sem gefur kaldara ljós en natríum ljósgjafarnir en með miklu betri litarendurgjöf. Ottó Guðjónsson Reykjafelli fjallaði um umhverfisvænt tengiefni og Jóhann Bjarnason innkaupastjóri Rarik fjallaði um stöðlunarvinnu sem hefur verið í gangi hjá Rarik. Rönning, Reykjafell og Ískraft voru með kynningar á tengiefni. Undirritaður ræddi um fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi raforkufyrirtækja. Ásbjörn Blöndal Ólason námstefnustjóri og veitustjóri Selfossveitna kynnti helstu grunnþætti og nýjungar við nýtingu vindorku. Garðar Lárusson tæknifræðingur á kynnti Línu.net og ræddi um hönnun rafveitukerfa. Starfsmenn Löggildingarstofu fóru yfir Slys og tjón árið 2000, helstu athugasemdir í skoðunum í kerfum raforkufyrirtækja, eftirlitskerfi með neysluveitum og nýjar áherslur í eftirliti neysluveitna í rekstri. Guðmundur Valsson

Drög að dagskrá komin fyrir Orkuþing 2001

Drög að dagskrá Orkuþings liggur nú fyrir, með fyrirvara um breytingar. Mikill fjöldi tillagna um erindi barst og verður að hluta til fundað í fjórum og jafnvel fimm sölum á Grand Hótel um ýmsar hliðar orkumála. Flutt verða um 120 erindi þessa þrjá daga. Smelltu á hana Jóku hér til hliðar til að fá nánari upplýsingar. Hún Jóka er tröllkona. Hún tilheyrir Gjótufólkinu sem voru frumbyggjar Íslands. Á myndinni er hún að baða sig í heitri laug. Með henni á myndinni er hverafugl af kyni hrafns. Myndin er máluð af Elínu G. Jóhannsdóttur myndlistarkonu, en hún hefur málað margar myndir af Gjótufólkinu.

Tvö hitaveitunámskeið og eitt vatnsveitunámskeið í byrjun maí

Námskeið Samorku í maí Í maí verða haldin tvö námskeið fyrir hitaveitumenn. 3.-4. maí verður haldið námskeið um endurvirkjun og viðhald borhola. Og 10. og 11. maí verður haldið hið árlega námskeið um samsetningu hitaveituröra í samvinnu við Iðntæknistofnun. 11. maí verður haldið plastsuðunámskeið fyrir vatnsveitur. hjá Reykjalundi í Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar um námskeiðin er hér til hægri á síðunni.

Vel viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun

Viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun Margar leiðir eru færar til þess að draga úr mengun vegna gróðurhúsalofttegunda, án þess að því fylgi óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýlegrar skýrslu milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar sem Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu sagði frá á hádegisfundi Landverndar 29.mars. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar IPCC hefur nú nýverið sent frá sér skýrslu um veðurfarsbreytingar af mannavöldum, afleiðingar þeirra og möguleg viðbrögð. Gert er ráð fyrir að hlýnun til næstu aldamóta geti orðið 1,4 til 5,8°C en líklegasta hlýnun er talin vera nálægt 2°C. Gert er ráð fyrir að sjávarborð hækki um 9 til 88 cm, að hafstraumar veikist á norðurhveli og ekki er reiknað með meiriháttar röskun á þeim. Einnig er gert ráð fyrir meiri úrkomu til pólanna og þurrki yfir meginlöndum. Margar leiðir eru færar til að bregðast við en engin ein leið leysir allan vanda. Ekki er reiknað með að kostnaður við að draga úr losun sé verulegur og margt af því sem hægt sé að grípa til sé einnig hægt að gera án kostnaðar, þ.e. nettó hagnaður yrði af aðgerðunum. Kostnaður af afganginum er áætlaður 2.410 kr á tonn CO2. Þrjár leiðir eru nefndar í kolefnishringrásinni; það er að vernda kolefndisforða í skógi og jarðvegi, að auka bindingu kolefnis í skógi og jarðvegi og að nota lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.

Varað við að nota heitsinkhúðuð rör í neysluvatnslögnum hjá sumum veitum

Tæring og ryðmyndun í heitsínkhúðuðum neysluvatnslögnum Rannsóknarverkefnið Tæring og ryðmyndun í heitsinkhúðuðum neysluvatnslögnum hófst í júlí 1995 að frumkvæði Einars heitins Þorsteinsson deildarstjóra lagnadeildar Rb og Péturs Sigurðssonar, efnaverkfræðings. Áætlað er að verkinu ljúki síðla árs 2001. Íbúðalánasjóður og Sambands íslenskra tryggingarfélaga styrktu verkið og tíu vatnsveitu og Samorka tóku þátt í verkefninu. Verkefnisstjóri í dag er Jón Sigurjónsson. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að finna orsakir tæringar í sinkhúðuðum lögnum og ryðmyndun og að rannsaka hvar á landinu sinkhúðuð rör henta og hvar ekki. Nú er komin út áfangaskýrsla um verkið en lokaskýrsla er væntanleg í árslok. Nokkuð ákveðnar niðurstöður um tæringarhraða liggja fyrir, sem nota má til að vara við notkun heitsinkhúðaðraröra í neysluvatnslagnir frá Höfn í Hornafirði til og með Norðfjarðar ásamt Borgarnesi. Auk þess sem líkur eru á lélegri endingu þar sem sýrustig (ph) er lægra en 7.

Pétursborg fær hreint drykkjarvatn

Pétursborg fær hreinna drykkjarvatn Rússneska fyrirtækið Vodokanal fékk í gær í þriðja sinn verðlaun fyrir að bjóða besta drykkjarvatnið í Rússlandi, en það hreinsar skolpvatn í Pétursborg og endurnýtir. Felix Karmazinov forstjóri sagði á fundi með norrænum blaðamönnum í dag, að góðan árangur fyrirtækisins mætti að hluta til rekja til norrænna samstarfsverkefna. Árið 1978 var öllu skolpi veitt óhreinsuðu frá Rússlandi í Eystrasalt. Nú er 75% alls skolps hreinsað. Vodokanal ráðgerir að auka enn afköstin með nýrri hreinsistöð í suðvesturhluta Pétursborgar – og enn á ný með norrænni aðstoð. Nýja hreinsistöðin á að vera tilbúin árið 2004 – árið eftir að Pétursborg fagnar þriggja alda afmæli sínu. Karmazinov vonast til að allt skolp frá borginni verði hreinsað og endurnýtt á árinu 1015. Vefsetur Norrænu upplýsingaskrifstofunnaí Rússlandi www.norden.ru

Jarðlagnatæknar útskrifast

Föstudaginn 16.mars útskrifuðust 12 jarðlagnatæknar. Þetta er í þriðja sinn sem þetta námskeið er haldið og áður hafa þrjátíu og fjórir lokið þessu námi. Það er hugsað fyrir þá sem vinna við lagnir hjá hitaveitum, vatnsveitum, rafveitum, fráveitum og síma. Námið er 300 kennslustundir og er kennt í þremur lotum. Það er MFA Menningar og fræðslusamtök alþýðu sem hafa umsjón með náminu.