15. mars 2001 Af rafsegulsviðsmálum Af rafsegulsviðsmálum Í byrjun mars var birt skýrsla frá ráðgjafarnefnd NRPB sem eru geislavarnir ríkisins í Bretlandi. Í skýrslunni var tekið saman hvað hefur verið rannsakað á sviðinu og fátt nýtt kom fram. Þar staðfestir sir Richard Doll, helsti sérfræðingurinn á þessu sviði og formaður ráðgjafarhópsins, að hvorki væri sannað að rafsegulsvið valdi krabbameini í börnum né fullorðnum. Engar nýjar vísbendingar um áhrif rafsegulsviðs á mannslíkamann og starfssemi hans gefa ástæðu til að ætla að rafsegulsvið valdi heilsufari fólks hættu. Engar nýjar sannanir gefa tilefni til að breyta viðmiðunarmörkum rafsegulsviðs. Í skýrslunni er einnig bent á að rannsóknir á áhrifum rafsegulsviðs beinast að öllum notkunarstöðum rafmagns s.s. inni á heimilum en ekki einskorðaðar við loftínur. Vísindamenn um allan heim eru í æ ríkara mæli að verða þeirrar skoðunar að heilsufari fólks stafi engin meiriháttar áhætta af veru í rafsegulsviði. Samorka hefur um árabil fylgst með rannsóknum á áhrifum rafsegulsviðs á mannslíkamann m.a. með þátttöku í norrænu samstarfi en ekki hefur þótt ástæða til að framkvæma rannsóknir hér á landi. GV