Námskeið um rekstur og viðhald aflspenna

Rekstur og viðhald aflspenna – fréttir af námskeiði Dagana 14. til 16. febrúar síðastliðinn var haldið námskeið á vegum Rafiðnaðarskólans og Samorku um rekstur og viðhald á aflspennum.

Alls voru 27 þátttakendur á námskeiðinu, sem var haldið í Stjórnstöð Landsvirkjunar, en hluti þess fór einnig fram í húsakynnum Spennistöðva Landsvirkjunar. Aðal leiðbeinendur voru tveir Norskir sérfræðingar frá ABB Kraft í Drammen, þeir Ottar Svensen og Øystein Berg. Hjá ABB Kraft er áralöng reynsla á smíði og viðhaldi aflspenna og þar er einnig rannsóknarstofa sem sér um greiningu á ástandi spenna út frá olíusýnum. Á námskeiðinu var farið yfir nánast allt sem viðkemur aflspenni, frá A til Ö.

Byrjað var á að fjalla almennt um raffræðilega virkni spenna og síðan var uppbygging þeirra tekin fyrir nokkuð ítarlega, þar sem farið var yfir allar einingar spennisins, þ.e. kjarna, vöf, gegnumtök o.s.frv. Þá var fjallað um spenninn í rekstri, lestunarmörk og líftíma. Farið var m.a. í gegnum hvernig meta má leyfileg lestunarmörk út frá IEC staðli og kom m.a. fram að í Noregi teljast aflspennar almennt 10% stærri að málafli en gefið er til kynna á merkiplötu, vegna lágs umhverfishita.

Þá voru spennustillar teknir fyrir, bæði uppbygging þeirra og viðhald, auk þess sem fjallað var lítið eitt um mælaspenna. Farið var ítarlega í spennaolíu og allt sem henni viðkemur, s.s. eiginleika, olíusýni, greiningu á olíu, túlkun á niðurstöðum og hreinsun olíu. Mikil þróun hefur átt sér stað í ,,sjúkdómsgreiningu” á aflspennum út frá olíusýnum og í dag getur slík greining gefið mjög nákvæmar upplýsingar um ástand spennis, s.s. hvar í spenni öldrun er óeðlilega mikil, hver orsök öldrunar er o.s.frv.

Einnig var sagt frá þróun sem á sér stað í tækni við að greina ástand spennis stöðugt með sjálfvirkri olíugreiningu. Þá hefur einnig orðið þróun í tækni við hreinsun/endurvinnslu á olíu. Líftími spenna er fyrst og fremst háður niðurbroti í pappírseinangrun spennisins, en ástand spennaolíu hefur aftur á móti áhrif á hversu hratt þetta niðurbrot verður. Til að draga úr öldrun spenna er því mikilvægt að hafa spennaolíuna í sem bestu ástandi.

ABB Kraft í Drammen á í dag tvær nýjar, hreyfanlegar olíuendurvinnslustöðvar, sem hvor um sig er tengivagn á stærð við gám með endurvinnslubúnaði og rannsóknaraðstöðu. Þessum vögnum er ekið á milli spenna vítt og breytt um Noreg og eru nánast í stöðugri notkun allt árið um kring. Með þessum endurvinnslubúnaði hefur náðst mjög góður árangur við að draga úr öldrun spenna.

Hluti námskeiðsins, eða hálfur dagur, fór fram í húsakynnum Spennistöðva LV að Hesthálsi 14 í Reykjavík. Þar tók Birgir Guðmannsson, yfirmaður Spennistöðva, á móti hópnum og hélt erindi um rekstrar- og viðhalsmál á aflspennum hjá Landsvirkjun. Hann kom í erindi sínu einnig inn á ýmis hagnýt atriði, t.d. varðandi hönnunarkröfur, prófanir á nýjum spennum o.fl.

Þá fór fram sýnikennsla í töku og meðhöndlun olíusýna og skoðaður var opinn aflspennir. Hjá Spennistöðvum LV hefur nýlega verið komið fyrir opnum 40 MVA aflspenni, 66/13,2/11kV með sjálfvirkum þrepaskipti, sem nota á við þjálfun og kennslu. Námskeiðið tókst vel í alla staði og urðu þátttakendur margs vísari um aflspenna, uppbyggingu þeirra, rekstur og viðhald.

Efnið var hæfilega blandað af tæknilegum og hagnýtum atriðum, sem Norsku fyrirlesurunum tókst að koma vel til skila. Þá var heimsóknin til Spennistöðva LV mjög fræðandi og aðstaðan sem þar er verið að skapa og mun nýtast til kennslu í þessum fræðum er áhugaverð og ber vott um gott framtak. Nils Gústavsson