6. október 2016 Ánægja með vatnsveituráðstefnu Norrænu vatnsveituráðstefnunni lauk á dögunum, en hún er haldin annað hvert ár á Norðurlöndunum. Í ár fór ráðstefnan fram á Íslandi og þótti takast með eindæmum vel. Hún var haldin í Hörpu, nánar tiltekið í Silfurbergi og Björtuloftum. Veðrið skartaði sínu fegursta og útsýnið úr Hörpu var frábært, svo það gerði góða ráðstefnu enn ánægjulegri. Um 300 þátttakendur mættu til leiks og erindin voru alls um 100 talsins og til gamans má geta að meirihluti þeirra sem þau fluttu voru konur. Philip McCleaf frá Uppsala Vatten och Avlopp AB varð hlutskarpastur í kosningu um besta erindið og fékk peningaverðlaun fyrir. Næst verður ráðstefnan haldin í Noregi árið 2018. Ráðstefnugestir voru á öllum aldri
28. september 2016 Norræna vatnsveituráðstefnan í Hörpu Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu Fátt er mikilvægara en aðgengi að heilnæmu og góðu vatni. Til þess þarf góðar vatnsveitur, reglubundnar rannsóknir og framþróun. Norræna vatnsveituráðstefnan, sú tíunda í röðinni, hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 28. september. Þar koma saman helstu vísindamenn og sérfræðingar Norðurlandanna í drykkjarvatni. Um 300 manns taka þátt í ráðstefnunni og flutt verða hátt í 100 erindi um helstu viðfangsefni vatnsveitna á Norðurlöndum. Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku og framkvæmdastjóri Norðurorku, setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Þá ávarpaði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundargesti. Hann ræddi mikilvægi drykkjarvatns og hversu mikilvægt hreint vatn er ímynd Íslands. Aðalfyrirlesarar dagsins eru María Jóna Gunnarsdóttir frá Háskóla Íslands og Mia Bondelind hjá Chalmers Tekniske Högskola í Gautaborg í Svíþjóð. María Jóna fjallaði um það sem huga þarf að hjá litlum vatnsveitum á Norðurlöndum (þ.m.t. á Íslandi), sem lúta oft öðrum eftirlitsreglum en þær stærri vegna þess að þær eru oft til einkanota eða þjónusta lítið landsvæði. Hins vegar sjá þær nú í auknum mæli töluvert stærri fjölda fólks fyrir vatni vegna fleiri ferðamanna. Fylgjast þurfi betur með þessu, því flest frávik sem mælast í drykkjarvatni á Norðurlöndum koma frá litlum vatnsveitum. Litlar vatnsveitur þjónusta um þrjár milljónir íbúa á Norðurlöndum. María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum. María Jóna telur nauðsynlegt að skylda litlar vatnsveitur til að gangast undir reglubundið eftirlit og taka upp innra eftirlit, til að ganga úr skugga um að vatnið sem þær veita sé heilnæmt. Mia Bondelind fjallaði um traust fólks á vatnsveitum, áhættumat almennings þegar kemur að drykkjarvatni og almennt um viðhorf til drykkjarvatns, þar sem Norðurlandabúar taki hreinu drykkjarvatni almennt sem sjálfsögðum hlut. Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns Bondelind sagði mikilvægt að almenningur hafi góðan aðgang að upplýsingum og að vatnsveitur leggi sig fram við að veita þær, bæði þegar allt gengur eðlilega fyrir sig og ef eitthvað fer úrskeiðis. Norræna vatnsveituráðstefnan er haldin annað hvert ár og nú í tíunda sinn. Ráðstefnunni lýkur á föstudag. Nánari upplýsingar um dagskrá og almennar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar.
30. júní 2016 Kalt vatn ódýrt á Íslandi Íslensk heimili greiða um 28 þúsund krónur á ári fyrir kalt vatn. Í Stokkhólmi er greitt sama verð, en á hinum Norðurlöndum þarf að borga allt að þrisvar sinnum meira. Í Osló kostar hljóðar reikningur fyrir kalda vatnið upp á um 46 þúsund krónur á ári og í Helsinki 50 þúsund krónur. Kaupmannahöfn sker sig úr, en þar þarf að punga út um 100 þúsund krónum á hverju ári. Tæplega helmingur af þeirri upphæð eru skattar, en auk virðisaukaskatts sem hin Norðurlöndin leggja á kalda vatnið rukka Danir einnig sérstaka vatnsskatta. Miðað er við reikning fyrir 100 fermetra íbúð og þrjá íbúa. Á Íslandi er víðast hvar greitt fast verð fyrir kalt vatn óháð magni og miðast upphæðin við fasteignamat. Á hinum Norðurlöndunum er greitt eftir notkun. Íslendingar nota töluvert meira magn af vatni á mann en aðrir Norðurlandabúar.
12. maí 2016 Skráning hafin á Norrænu vatnsveituráðstefnuna Norræna vatnsveituráðstefnan 2016 verður haldin í Hörpu í Reykjavík dagana 28. – 30. september. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni. Metnaðarfull dagskrá verður í boði með alls 90 erindum sem fjalla um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Ráðstefnan fer fram á ensku. Skráning er hafin á heimasíðu ráðstefnunnar, ndwc.is.
23. mars 2016 Nýting og verndun vatns á morgunfundi Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin bjóða til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, fimmtudaginn 31. mars. Fjallað verður um vatn af tilefni alþjóðlegum Degi vatnsins sem haldinn var hátíðlegur 22. mars. Dagskrá fundarins: Án vatns er enginn vinnandi vegur Sveinn Agnarsson, Háskóla Íslands Að veita vatni Hólmfríður Sigurðardóttir, Orkuveitu Reykjavíkur Verndun og nýting vatns: Siðferðislegar spurningar Skúli Skúlason, Háskólanum á Hólum Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8 en dagskrá fundarins hefst 8.30. Áætluð fundarlok eru kl. 10. Fundargestir eru beðnir um að senda staðfestingu um þátttöku á netfangið skraning@vedur.is fyrir kl. 12 þann 30. mars.
22. mars 2016 Vatn og vinna á alþjóðlegum Degi vatnsins Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur Dagur vatnsins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna okkur á að gott aðgengi að þessari mikilvægu auðlind er ekki sjálfgefið og til að kynna ýmis baráttumál tengd vatni svo fólk geti látið þau sig varða. UN Water samtökin standa fyrir þessum árlega alþjóðlega Degi vatnsins og þema ársins 2016 er vatn og vinna. Milljónir manna vinna störf sem beint eða óbeint tengjast vatni og að koma því til skila til neytandans á öruggan hátt. Svo má segja að langflest störf séu bókstaflega háð vatni, þar sem aðgengi að hreinu vatni og fráveitu gjörbreytir aðstæðum á vinnustöðum og lífsgæðum vinnandi fólks á allan hátt. Veitur ohf, aðildarfélagi í Samorku, birtir á heimasíðu sinni umfjöllun um vatn og dýrmæt vatnsból Íslendinga. Á heimasíðu UN Water er fjallað ítarlega um daginn og ýmis verkefni honum tengd. Þar má finna fræðsluefni um vatn og fólk er hvatt til að tjá sig á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldWaterDay. Einnig má sjá skemmtilegt video um þema ársins í ár á YouTube.
30. september 2015 Hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu Vatn er undistaða alls lífs og hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu, sagði Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Eðvald fjallaði m.a. um hringrás vatnsins, fjölbreytta vatnsnotkun í matvælaframleiðslu, gæðavottanir, örverumælingar, afhendingaröryggi, góð samskipti við vatnsveitu og mikilvægi áreiðanlegra vatnsgæða í öllu ferlinu. Alls liggur notkun á 70 þúsund tonnum af vatni að baki framleiðslu fyrirtækisins á þremur þúsundum tonna af kjötvöru. Þá fjallaði Eðvald m.a. um ISO 9001 gæðastaðalinn, sem felur í sér eftirlit og keðju vöktunar frá fyrsta frumframleiðanda til afhendingar vörunnar til viðskiptavinar. Allt framleiðsluferlið er vaktað og þar er hreinleikinn lykilatriði. Erindi Eðvalds: Veituþjónusta og matvælaframleiðsla (PDF 797 KB)
20. ágúst 2015 Samorka heldur 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna 28.-30. september 2016 Samorka mun á næsta ári, í samstarfi við norræn samtök vatnsveitna, halda á Íslandi 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna (e. Nordic Drinking Water Conference). Ráðstefnan verður haldin dagana 28.-30. september 2016 í salnum Silfurbergi í Hörpu. Aðildarfélagar í Samorku og almennt sérfræðingar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að taka dagana frá og skoða hvort að mögulega hafi þeir áhugaverð verkefni, rannsóknir og fleira, sem þeir hefðu áhuga á að kynna á ráðstefnunni. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna verða kynntar seinna í haust.
7. júní 2015 Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti. Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.
29. maí 2015 Auðlindagarður á Reykjanesi Fimmtudaginn 28. maí s.l. var haldinn opinn kynningarfundur í Hörpu, um starfssemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Flutt voru afar fróðleg erindi um þá fjölbreyttu starfssemi sem orðið hefur til á svæðinu og tengjast öll á einn eða annan hátt orkuvinnslu HS Orku. Þekktast af þessum fyrirtækjum er Bláa Lónið, en til viðbótar hefur orðið til flóra fyrirtækja sem öll eiga tilveru sína að þakka fjölbreyttri nýtingu jarðvarma á skaganum. Meðal þess sem kynnt var, er nýútkomin skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið GAMMA hefur gert um efnahags- og samfélagsleg áhrif Auðlindagarðsins. Til að kynna sér efni GAMMA-skýrslunar, smellið hér og til að kynna sér sögu og starfssemi Auðlindagarsins, þá smellið hér.