Hvað eru jarðvegsgerlar?

Á vef Veitna má finna svör við ýmsum spurningum sem kunna að brenna á fólki eftir að fjölgun jarðvegsgerla mældist í kalda vatninu í Reykjavík.

Hætta er ekki á ferðum fyrir almenning, en í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta á við um öll hverfi borgarinnar nema Grafarvog, Norðlingaholt, Úlfarsárdal, Kjalarnes auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk þar sem ekki hefur mælst gerlafjöldi yfir viðmiðunarmörkum.

Fátítt er að óæskilegir gerlar finnist í neysluvatni úr Heiðmörk. Í hlákutíð er þó meiri hætta á að gerlar frá yfirborði berist í grunnvatn. Unnið er eftir skráðu verklagi til að bregðast við þessari hættu.

Hér koma spurningarnar og svörin:

Eru jarðvegsgerlar hættulegir?
Ekki í litlu magni. Nota má vatnið eins og vanalega. Heilbrigðiseftirlitið hefur í varúðarskyni gefið út að viðkvæmt/veikt fólk, ungbörn og aldraðir ættu að drekka soðið vatn.

Jarðvegsgerlar er heiti yfir fjölmarga gerla (bakteríur) sem finnast í umhverfi okkar og eru nauðsynlegir fyrir lífríkið og yfirleitt alveg skaðlausir.

Hafa fundist E.coli gerlar (saurkólígerlar)?
Í síðustu viku fundust E.coli gerlar í þremur sýnum, einn í hverju. Þær holur voru teknar strax úr rekstri. Í staðfestum niðurstöðum nýjustu sýna fundust 2 gerlar í sýni úr holu sem ekki er verið að nota.

Má elda úr vatninu?
Já, suða drepur jarðvegsgerlana.

Hvaðan koma þessi gerlar?
Gerlarnir berast með úrkomu af yfirborði ofan í grunnvatn og þaðan í borholurnar. Hláka eykur líkur á að slíkt gerist. Borholur sem safna grunnvatni af litlu dýpi eru viðkvæmari fyrir þessu.

Af hverju gerist þetta núna?
Það hafa verið sérstakar veðuraðstæður undanfarið. Mikil hláka í kjölfarið á löngum frostakafla. Við slíkar aðstæður kemst yfirborðsvatn auðveldar ofan í grunnvatnið sem við erum svo að dæla úr borholunum.

Hversu lengi má búast við að aukið gerlamagn finnist í vatninu?
Við teljum líklegt að þar sem hlákuveðrið er búið og komið frost þá séum við að sjá fyrir endann á þessu. Við reynum að staðfesta það með niðurstöðum úr sýnatökum á næstu dögum.

Hvernig ætla Veitur að bregðast við?
Viðbragðsáætlun vegna hláku er í gildi allan veturinn (borholur í Gvendarbrunnum eru t.d. viðkvæmar fyrir auknu gerlamagni vegna hláku og því ekki í notkun frá október fram til loka mars, samkvæmt áætluninni). Við tökum líka holur úr rekstri í hláku sem eru viðkvæmar fyrir ofanvatninu sem ber gerlana.

Viðbragðsáætlunin verður yfirfarin. Sýnatökum verður fjölgað og fyrirbyggjandi aðgerðir skoðaðar.

Hversu oft eru tekin sýni?
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni úr dreifikerfinu tvisvar í viku. Veitur taka taka að auki sýni í hlákutíð í öllum borholum sem eru í notkun. Það var við slíkt eftirlit sem þessi frávik komu í ljós. Sýnataka hefur verið aukin mjög í ljósi þessara tíðinda.

Hversu oft mælast gerlar yfir mörkum í neysluvatninu?
Árið 2011 komu síðast staðfestar niðurstöður um frávik í gerlamagni í borholu í Heiðmörk. Af og til gerist það að sýnataka misheppnast þannig að hún sýni aukið gerlamagn sem frekari sýnataka hefur ekki staðfest.

Hverjir fá vatnið frá borholum Veitna í Heiðmörk?
Vatn frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk fer til íbúa og fyrirtækja í Reykjavík, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ.

Aukinn fjöldi gerla fannst í vatni sem fer til íbúa í Reykjavík NEMA þeirra sem búa í Grafarvogi, Norðlingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk.

 

Á morgun, miðvikudaginn 17. janúar, býður Samorka á opinn morgunverðarfund sem ber yfirskriftina Verðmætin í vatninu. Á fundinum verður fjallað um mikilvægi vatnsverndar og hversu mikils virði það er okkur. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir, en skráningar er óskað.