113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014

Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, en þar segir að hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis veki athygli ferðamanna. Um 12.500 heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun og Kröfluvirkjun, tæplega 5.800 heimsóttu orkuverið á Reykjanesi og sýninguna Orkuverið Jörð og um 700 tóku þátt í skipulögðum gönguferðum um Reykjanes sem styrktar eru af Bláa lóninu, HS Orku og HS Veitum.

Rannsóknin fjallar um áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðaþjónustu og íbúa og var unnin í samstarfi við Landsvirkjun. Rannsókninni stýrðu Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði við sama skóla. Ofangreindar upplýsingar um heimsóknir í gestastofur orkufyrirtækja má nálgast í skjalinu hér á vef Landsvirkjunar (sjá kafla 2.2, bls. 17 (22 í rafrænu skjali).

Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir

Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur Mannvit gert úttekt og lagt fram skýrslu um helstu virkjunarkosti í byggðarlaginu. Efni fundarins var fyrst og fremst kynning á skýrslunni, sem höfundar hennar önnuðust. Þá voru einnig flutt erindi um raforkuöryggi í Eyjafirði, raforkuflutning, raforkumarkaðinn, tækifæri fyrir smávirkjanir, beislun vindorkunnar og tengingar smávirkjana við orkukerfið.

Dagskrá fundarins og skýrslu Mannvits er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar: Smellið hér

Fundurinn var fjölsóttur og fram kom mikill áhugi fundarmanna um beislun orkunnar í héraði, en einnig voru skiptar skoðanir á flutningi raforku milli landshluta.

Samorka þakkar Dalvíkurbyggð fyrir það frumkvæði sem sveitarfélagið sýnir með gerð og kynningu þessa verkefnis.

Afhending á raforku mögulega takmörkuð vegna veðurfars

Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum að mögulega verði dregið úr afhendingu á raforku, ef ástand í vatnsbúskapnum batnar ekki á næstu vikum.

Stóriðjufyrirtækin hafa, samkvæmt samningum, einn mánuð til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Enn ríkir óvissa um takmörkun orkuafhendingar, en miðað við meðalhorfur um fyllingu lóna og meðalrennsli í vetur má reikna með að orkusala Landsvirkjunar geti dregist saman um 3,5% í vetur.

Reynt verður að laga útfærslu aðgerðanna að þörfum viðskiptavina eins og mögulegt er, líkt og fram kemur í nánari umfjöllun hér á vef Landsvirkjunar.

Hvernig mótar orkulandslag umhverfið? – Opinn Fundur Landsvirkjunar og FILA

Stórum framkvæmdum fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem sjónræn áhrif geta orðið umtalsverð. Landsvirkjun býður í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta til opins fundar fimmtudaginn 3. september kl. 13:30 á Hilton Reykjavík Nordica, þar sem fjallað verður um hvernig skapa má jafnvægi milli landslags, landmótunar og orkunýtingar.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Tenging yfir hálendið besti valkosturinn

Tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og austurs er besti valkosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar, með stöðugleika að leiðarljósi. Þetta er niðurstaða nýrrar kerfisáætlunar Landsnets.

Frestur til að gera athugasemdir við áætlunina og umhverfisskýrslu hennar er til 1. september 2015.

Sjá nánar hér á vef Landsnets.

Gagnaver í leit að staðsetningu; opinn fundur Landsvirkjunar 5 júní.

Fundurinn er hluti af fundarröð í tilefni 50 ára afmælis Landsvirkjunar. Sérstakur fyrirlesari verður Phil Schneider, stofnandi Schneider Consulting og forseti Site Selectors Guild, sem er margreyndur ráðgjafi um staðsetningu gagnavera og annarra fjárfestinga erlendra stórfyrirtækja. Í kjölfarið fara fram pallborðsumræður þar sem rætt verður frekar um þarfir gagnaversiðnaðarins. Þátttakendur í pallborðsumræðum verða Phil Schneider, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjá PwC, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Opnum kerfum og Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Farice. Elínrós Líndal, viðskiptastjóri Samtaka gagnavera á Íslandi, stýrir fundi og pallborðsumræðum.

Skráning á fundinn fer fram á landsvirkjun.is. Fundurinn verður einnig sýndur í beinni útsendingu á YouTube rás Landsvirkjunar, www.youtube.com/landsvirkjun.

Auðlindagarður á Reykjanesi

Fimmtudaginn 28. maí s.l. var haldinn opinn kynningarfundur í Hörpu, um starfssemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Flutt voru afar fróðleg erindi um þá fjölbreyttu starfssemi sem orðið hefur til á svæðinu og tengjast öll á einn eða annan hátt orkuvinnslu HS Orku. Þekktast af þessum fyrirtækjum er Bláa Lónið, en til viðbótar hefur orðið til flóra fyrirtækja sem öll eiga tilveru sína að þakka fjölbreyttri nýtingu jarðvarma á skaganum. Meðal þess sem kynnt var, er nýútkomin skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið GAMMA hefur gert um efnahags- og samfélagsleg áhrif Auðlindagarðsins. Til að kynna sér efni GAMMA-skýrslunar, smellið hér og til að kynna sér sögu og starfssemi Auðlindagarsins, þá smellið hér.

Þættirnir Orka Landsins á N4

Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.

Virkjun sjávarorku verði hagkvæm um eða eftir miðja öldina

Gróft reiknað er kostnaður við virkjun sjávarorku nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun. Mikil framþróun er hins vegar í rannsóknum á beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir á þessu sviði. Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku mun fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka. Má því reikna með að virkjun sjávarorku geti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina. Þetta eru helstu niðurstöður greinargerðar sem sérfræðingahópur hefur skilað til atvinnuvegaráðuneytisins. Sjá nánar á vef ráðuneytisins.