Hagkvæmni fólgin í raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi

Möguleikar Íslands og Færeyja til útflutnings endurnýjanlegrar raforku til Bretlands og Noregs og um leið tengjast stærra raforkuflutningskerfi í Evrópu eru til umfjöllunar í nýrri skýrslu NAEN (North-Atlantic Energy Network), sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Noregi.

Með lagningu sæstrengs milli Íslands, Skotlands, Færeyja og Hjaltlandseyja væri hægt að flytja orku frá Íslandi til þessara landa og áfram til Evrópu. Möguleg samlegðaráhrif gætu verið þau að raforka frá vatnsafli flytjist frá Íslandi á sumrin en vindorka frá Færeyjum og Hjaltlandseyjum á veturna.

Frekari rannsóknir og vinna við að kortleggja möguleg svæði til nýtingar endurnýjanlegrar orku ættu að skila NAEN löndunum töluverðum ávinningi og gagnast allri Evrópu.

Skýrslan er samstarfsverkefni fulltrúa frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Hjaltlandseyjum og hefur aukið mjög upplýsingamiðlun þekkingu þátttökuaðila, stofnana og viðkomandi svæða.  Nánar er fjallað um skýrsluna á vef Orkustofnunar.

Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng

Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.