Óvænt athygli á gróðurhús og hveralykt

Orkutengd ferðaþjónusta á Íslandi fékk óvænta kynningu á dögunum þegar Kim og Kourtney Kardashian létu sjá sig í Reykjavík öllum að óvörum ásamt rapparanum Kanye West.

Þær systur ásamt föruneyti gerðu sér ferð á tómatabýlið Friðheima í Reykholti í Biskupstungum. Fjölmargar fréttastofur hafa fjallað um heimsóknina þar sem þau skoðuðu tómataplöntur og býflugur og gæddu sér á afurðum þeirra. Hægt er að sjá umfjöllunina og myndbönd frá heimsókninni á eftirtöldum miðlum en listinn er ekki tæmandi: Daily MailEntertainment Tonight, E! Online, People, Hollywoodlife, US Magazine og fleiri.

Kim, Kourtney og félagar heimsóttu einnig Gullfoss og Geysi, en íslenska hveralyktin fékk alveg sérstaka umfjöllun þar sem Kim og eiginmaður hennar Kanye héldu að hún væri prumpulykt bílstjórans þeirra. Iceland Monitor á mbl.is hefur þó reynt að koma hinu rétta á framfæri.

Víst má ætla að ferðalag þeirra sé gríðarleg landkynning fyrir Ísland og ekki síst orkutengda ferðaþjónustu eins og Geysi og tómatabýlið Friðheima, því milljónir manna fylgjast grannt með systrunum Kim og Kourtney á samfélagsmiðlum. Á Instagram hefur Kim tæplega 68 milljónir fylgjenda og Kourtney 38 milljónir, á Twitter fylgja 44 milljónir Kim að og Kourtney 20 milljónir.

Kim Kardashian er ein stærsta stjarna sem sprottið hefur upp úr raunveruleikaþáttum í Bandaríkjunum og um heim allan. Þátturinn Keeping Up With The Kardashians hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni E! við miklar vinsældir frá árinu 2007 og fjallar um líf hinnar litríku Kardashian fjölskyldu og Kim er þar ein sex systkina. Kim Kardashian hefur verið dugleg að halda sér í sviðsljósinu og þykir hafa gott viðskiptavit, en heildartekjur hennar voru um 53 milljónir dollara árið 2015. Hún er gift einum vinsælasta rappara í heimi, Kanye West, en ástæða heimsóknarinnar til Íslands er talin vera sú að hann ætli að taka upp tónlistarmyndband hér á landi. Einnig gæti ástæðan verið afmæli systur Kim, Kourtney, sem varð 37 ára í gær, 18. apríl.

En hver er eiginlega Kim Kardashian? Um það má lesa hér á mbl.is.

Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.

Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.