Bilanaskráning hitaveitna – gagnlegur fundur

Helstu breytingar sem óskað var eftir eru eftirfarandi: 1) Setja inn leiðbeiningar undir takkann hjálp 2) Afrita grunnupplýsingar inn í nýtt ár og síðan er hægt að breyta þeim 3) Setja inn möguleika á að prenta út einstakar bilanir og summu bilana í exelskjal til að hver hitaveita geti unnið með sínar bilanir 4) Setja inn kassa fyrir verknúmer 5) Gefa möguleika á að geyma hálfkláraða bilun t.d. til að setja inn raunkostnað bilunar þegar hann er ljós. Samkvæmt lauslegri samantekt á bilunum árið 2001 fyrir fimm hitaveitur, með alls 289 bilanir, eru orsök bilana nokkuð breytt frá samantekt fyrir árin 1993-95. Lagningagalli sem skráð orsök hefur minnkað umtalsvert en ytri áverkar af völdum jarðvinnuvéla hafa aukist nokkuð. Fljótlega verður farið í að gera þessar breytingar á forritinu og þá mun forritið þjóna vel tilgangi sínum. Veitur geta haldið utan um sínar bilanir og hægt verður að finna veika hlekki í kerfinu og hver árangur er af endurbótum.

Dæluhandfangsverðlaunin til Maríu Jónu Gunnarsdóttur

John Snow (1813-1858) var frægur læknir í London á 19. öld. Hann rannsakaði m.a. útbreiðslu kóleru og komst að því að hún breiddist út með drykkjarvatninu. Hann ákvað að taka til sinna ráða og þar sem ráðamenn borgarinnar vildu ekki loka vatnsbólinu, þá fjarlægði hann dæluhandfangið af vatnspóstinum og kom þannig í veg fyrir að borgarbúar drykkju úr hinum mengaða brunni. Við þennan atburð eru verðlaunin kennd. Samtök vatnsveitna á Norðurlöndum stóð fyrir því að María hlyti þessi verðlaun, vegna framlags hennar við að koma upp Gámes-eftirlitskerfinu hjá íslenskum vatnsveitum. Þetta eftirlitskerfi er fyrst og fremst þróað fyrir matvælaiðnaðinn og á því vel við vatnsveitur sem nú á tímum eru flokkaðar sem matvælafyrirtæki. 12 vatnsveitur á Íslandi sem sjá 70 % landsmanna fyrir neysluvatni hafa tekið upp Gámes-eftirlitskerfið, þetta er stærra hlutfall eða betri árangur en annars staðar á Norðurlöndum og fyrir framlag sitt til þessa verks hlýtur María þessi virtu verðlaun og vonar hún að þau verði hvattning til þeirra vatnsveitna sem ekki hafa enn tekið upp viðurkennt eftirlitskerfi.

Dagur vatnsins – áhugaverður fundur

Félag Heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa stóð fyrir áhugaverðri ráðstefnu 7.okt. sl.í Eldborg í Svartsengi um vatnið, og nefndi hana Dag vatnsins. Þar voru flutt mörg áhugaverð erindi m.a. um eftirfarandi efni. Vatn er auðlind og okkur ber að fagna haustrigningum því að þá megum við eiga von á góðu vatnaári. Við eigum mikið af vatni en því er nokkuð misskipt eftir landshlutum. Vatnasvið eru viðkvæm fyrir mengun. Það er því nauðsynlegt að sýna fyrirhyggju og vernda vatnið. Nýtt lagafrumvarp verður lagt fram á þessu þingi um verndun hafs og stranda. Það mun gilda um hvers konar starfsemi á landi, lofti og legi sem getur mengað. Einnig um íslensk skip utan íslenskrar mengunarlögsögu. Sagt var frá umhverfismerkinu Bláfánanum. Til að fá hann þurfa umhverfismál og öryggismál að vera í lagi. Það er alþjóðlegt umhverfismerki fyrir smábátahafnir og baðstrandir, sem Landvernd hefur umsjón með. Á næstunni er gert ráð fyrir að hafnir á Borgarfirði Eystri, Arnarstapa og Húsavík og baðstaðirnir Bláa Lónið og Nauthólsvík fái Bláfánann. Fulltrúi Blá hersins, sem eru sjálfboðliðasamtök kafara á Suðurnesjum, sagði frá störfum þeirra. Þeir hafa á undanförnum árum hreinsað upp rusl úr höfnum á Suðurnesjum. Þeir hafa hift upp um 30 tonn af drasli s.s. bílhræjum, rafgeymum, reiðhjólum og vélum úr skipum, svo eitthvað sé nefnt. Fyrirlesarinn taldi ástandið ekki verra á Suðurnesjum en annarsstaðar. Víða um land lægi ótrúlegt magn af rusli og drasli í höfnum landsins og meðfram ströndinni. Einnig væri mikið um að úrgangur t.d. frá fiskeldi og fiskvinnslu væri hent í sjóinn. Hann sýndi dæmi frá sjókvíeldi þar sem úr kví sem var full af dauðum laxi var losuð í sjóinn og botninn var þakinn af dauðum laxi. Heldur ókræsileg sjón. Rætt var um nýja rammatilskipun um vatnsvernd. Íslendingar hafa gert athugasemd við hana þar sem hún tekur yfir efni sem ekki er hluti af samningi EES s.s. um náttúruvernd, dýravernd og auðlindanýtingu. Þau mál þarf að fá á hreint áður en lengra er haldið. Það eru hinsvegar mörg atriði í tilskipuninni sem við þurfum að taka upp s.s. eins og um verndun neysluvatns og vatnsvernd vegna mengandi starfsemi. Við þurfum að gera ástandskönnun á vatnskerfum ofl. EFTA og ESB eru að hefja viðræður um kröfur íslendinga og er niðurstöðu að vænta fyrir áramót. Sagt var frá flokkun á vatni þ.e. straumvatni og vötnum sem Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis í samstarfi við Fræðasetrið í Hveragerði er að gera og voru fyrstu niðurstöður kynntar. Örverufræðilegt ástand neysluvatns á Íslandi er gott en mestur hluti þess er grunnvatn. Um 90% sýna er fullnægjandi. Það er útbreiddur misskilningur að örverur lifi lengur í köldu vatni en heitu og því þarf að gæta varúðar og að örverur hafi ekki aðstæður til að fjölga sér t.d. í kyrrstæðum lögnum. Skv. reglugerð um fráveitur eiga sveitarfélög að vera búin að koma upp hreinsun á skolpi fyrir árslok 2005. Nú er skolp frá um 70% íbúa hreinsað.

Jarðlagnatækni kennd einnig í fjarnámi

Boðið verður upp á jarðlagnatækninámið nú í fimmtaskipti í vetur, eftir áramót. Sextíu manns hafa nú útskrifast. Námið er 300 tímar og er það kennt í þremur lotum, þrisvar sinnum hálfur mánuður. Í vetur verður námskeiðið á eftirfarandi dögum: 20. – 31. janúar 17. – 28. febrúar 17. – 28. mars MFA, menningar og fræðslusamtök alþýðu sem hafa umsjón með námskeiðinu, sóttu um styrk til að kenna það einnig í fjarnámi og fékkst hann. Því verðu unnt að kenna á a.m.k. tveimur til þremur fjarkennslustöðvum út á landi.

Nýjar litamerkingar lágspennustrengja

Nú hefur tekið gildi nýr staðall SAM HD 308 S2 um litamerkingu lágspennustrengja. Nýir strengir sem fluttir eru til landsins eru flestir með þessari merkingu. Þarna er um svo veigamiklar breytingar að ræða að Samorka taldi rétt að gefa út leiðbeiningar til starfsmanna veitna og rafverktaka almennt. Sérstaklega þarf mikla aðgæslu við tengivinnu þar sem nýr strengur er tengdur við eldri streng. Samorka beinir því til starfsmanna rafveitna að heimtaugaendar verði með sérstöku merkispjaldi sem tilgreini fasaröðina. Smellið hér til að fá PDF skjalið Litamerkingar strengja.

Gengið til samninga um kaup á ljósastaurum

Lokið er við að ganga frá samningum varðandi sameiginlegt útboð á ljósastaurum fyrir veitufyrirtækin. Það var innkaupastjórahópurinn sem starfar innan Samorku sem hafði veg og vanda að verkefninu. Boðið var út á evrópska efnahagssvæðinu og bárust alls 10 tilboð frá 8 bjóðendum í jafn mörgum löndum, meðal annars frá Kína og Suður-Arabíu. Ákveðið var að ganga til samninga við Sandblástur og málmhúðun á Akureyri sem reyndist eiga hagstæðasta tilboðið þegar tekið hafði verið tillit til allra þátta. Samið er um kaup á 6.317 staurum ásamt tilheyrandi aukahltum, alls kr. 101.554.151.- Afhending fari fram á næstu þremur árum. Í innkaupastjórahópnum eru Guðmundur Björnsson Hitaveitu Suðurnesja formaður, Gylfi Guðmundsson Orkubúi Vestfjarða, Hólmgrímur Þorsteinsson og Jón Arnar Sigurjónsson Orkuveitu Reykjavíkur, Jóhann Bjarnason Rarik, Magnús Finnsson Norðurorku, Þorbergur Halldórsson Landsvirkjun og Sigurður Ágústsson Samorku. Ráðgjafi hópsins var Þór Sigurjónsson hjá Línuhönnun. Myndin sýnir hluta hópsins ásamt Jón Dan Jóhannsson og Steingrím Pétursson frá Sandblæstri og Málmhúðun. Á myndina vantar fulltrúa OR,NO og LV.

Fjölmennur og velheppnaður Vorfundur Samorku

Alls voru fluttir 43 fyrirlestrar og ávörp. Rætt var um boranir og virkjun jarðhita, umhverfismál, nýtt viðskiptaumhverfi raforkufyrirtækja, vatnsvernd, brunavarnir, lög og reglugerðir veitna og rafræn samskipti. Fyrirlesarar komu víða að, m.a. frá aðildarfélögum Samorku, frá fyrirtækjum og stofnunum utan við samtökin, frá þátttakendum í sýningunni og tveir fyrirlesarar komu frá Svíþjóð. Fyrirlestrarnir og eða úrdrættir úr þeim fylgdu ráðstefnugögnum á geisladiski. Þeir verða einnig aðgengilegir hér á heimasíðu Samorku. Vorfundinum lauk síðan með hópferð til Húsavíkur þar sem skoðað var nýtt orkuver Orkuveitu Húsavíkur og hvalasafn. Hér á heimasíðunni eru nokkrar myndir sem teknar voru á fundinum.

Raforkuverðssamanburður 1. jan. 2002

Raforkuverðssamanburður EURELECTRIC 1. jan. 2002 er kominn út. Hægt er að nálgast skýrsluna hér á síðunni til hægri „Gjaldskrársamanburður“ => „Rafmagn erlent“. Að þessu sinni taka 30 lönd þátt í samanburðinum. Gerður er samanburður á töxtum með og án skatta, heimilis og iðnaðarnotkunar

Aðalfundur Samorku

Aðalfundur Samorku var haldinn 15. mars s.l. í Gvendarbrunnum. Fundurinn hófst með hádegisverði að Jaðri kl. 12.00. Guðmundur Þóroddsson formaður samtakanna rakti í setningarerindi sínu breytingar á umhverfi raforkufyritækja seinustu ár m.a. umtalsverðar breytingar á eignarhaldi vegna samruna og uppkaupa. Þá ræddi hann einstök verkefni Samorku og mikilvægi sameiginlegrar raddar veitufyrirtækja. Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri flutti skýrslu um starfsemina, þar sem m.a. kom fram að starf samtakanna hefur nokkuð breyst í tímans rás, m.a. hefur heldur dregið úr beinu námskeiðahaldi um stundar sakir a.m.k. Þorkell Helgason orkumálastjóri flutti erindi um Orkustofnun í nýju umhverfi sem skapast af væntanlegum raforku- og hitaveitulögum. Þorkell kom víða við í ágætu erindi sínu og rakti þær breytingar sem gera þarf á starfsemi Orkustofnunnar mt.t. þeirra verkefna sem stofnuninni eru ætluð í nýju umhverfi orkumála. Kosið var um þrjá aðalmenn í stjórn og voru Kristján Jónsson, Rarik; Ingvar Baldursson hitaveitu Rangæginga og Franz Árnason, Norðuorku endurkjörnir til næstu tveggja ára. Einnig var kosið um einn varamann og var Hreinn Hjartarson, Orkuveitu Húsavíkur kosinn sem varamaður til tveggja ára. Ásskýrsla, fundargerð aðalfundar ásamt erindi Þorkels Helgasonar er hægt að nálgast í skjalaskápnum hér til vinstri á síðunni.

Útskrift jarðlagnatækna

Útskriftarnemar ásamt Hólmfríði E. Guðmundsdóttur umsjónarkonu Þann 22. mars s.l. var útskrifað í fjórða sinn hópur nema í jarðlagnatækni. Að þessu sinn útskrifuðust 14 nemar og hafa þá samtals 60 manns lokið þessu námi fá upphafi. Námið fer fram hjá Menningar og fræðslusambandi alþýðu (MFA) í samstarfi við Samorku. Námið er samtals 300 kennslustundir og er fjallað um almenna þætti sem varða starfsemi veitufyrirtækja, sértæk atriði varðandi jarlangir, öryggisatriði o.fl. Að þessu sinni var í fyrsta sinn kvennmaður í útskriftsrhópnum, hún heitir Unnur L. Pálsdóttir og er starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur. Samorka óskar nýútskrifuðu jarðlagnafólki til hamingju og hlakkar til frekara samstarfs.