Dagur vatnsins – áhugaverður fundur

Félag Heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa stóð fyrir áhugaverðri ráðstefnu 7.okt. sl.í Eldborg í Svartsengi um vatnið, og nefndi hana Dag vatnsins. Þar voru flutt mörg áhugaverð erindi m.a. um eftirfarandi efni. Vatn er auðlind og okkur ber að fagna haustrigningum því að þá megum við eiga von á góðu vatnaári. Við eigum mikið af vatni en því er nokkuð misskipt eftir landshlutum. Vatnasvið eru viðkvæm fyrir mengun. Það er því nauðsynlegt að sýna fyrirhyggju og vernda vatnið. Nýtt lagafrumvarp verður lagt fram á þessu þingi um verndun hafs og stranda. Það mun gilda um hvers konar starfsemi á landi, lofti og legi sem getur mengað. Einnig um íslensk skip utan íslenskrar mengunarlögsögu. Sagt var frá umhverfismerkinu Bláfánanum. Til að fá hann þurfa umhverfismál og öryggismál að vera í lagi. Það er alþjóðlegt umhverfismerki fyrir smábátahafnir og baðstrandir, sem Landvernd hefur umsjón með. Á næstunni er gert ráð fyrir að hafnir á Borgarfirði Eystri, Arnarstapa og Húsavík og baðstaðirnir Bláa Lónið og Nauthólsvík fái Bláfánann. Fulltrúi Blá hersins, sem eru sjálfboðliðasamtök kafara á Suðurnesjum, sagði frá störfum þeirra. Þeir hafa á undanförnum árum hreinsað upp rusl úr höfnum á Suðurnesjum. Þeir hafa hift upp um 30 tonn af drasli s.s. bílhræjum, rafgeymum, reiðhjólum og vélum úr skipum, svo eitthvað sé nefnt. Fyrirlesarinn taldi ástandið ekki verra á Suðurnesjum en annarsstaðar. Víða um land lægi ótrúlegt magn af rusli og drasli í höfnum landsins og meðfram ströndinni. Einnig væri mikið um að úrgangur t.d. frá fiskeldi og fiskvinnslu væri hent í sjóinn. Hann sýndi dæmi frá sjókvíeldi þar sem úr kví sem var full af dauðum laxi var losuð í sjóinn og botninn var þakinn af dauðum laxi. Heldur ókræsileg sjón. Rætt var um nýja rammatilskipun um vatnsvernd. Íslendingar hafa gert athugasemd við hana þar sem hún tekur yfir efni sem ekki er hluti af samningi EES s.s. um náttúruvernd, dýravernd og auðlindanýtingu. Þau mál þarf að fá á hreint áður en lengra er haldið. Það eru hinsvegar mörg atriði í tilskipuninni sem við þurfum að taka upp s.s. eins og um verndun neysluvatns og vatnsvernd vegna mengandi starfsemi. Við þurfum að gera ástandskönnun á vatnskerfum ofl. EFTA og ESB eru að hefja viðræður um kröfur íslendinga og er niðurstöðu að vænta fyrir áramót. Sagt var frá flokkun á vatni þ.e. straumvatni og vötnum sem Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis í samstarfi við Fræðasetrið í Hveragerði er að gera og voru fyrstu niðurstöður kynntar. Örverufræðilegt ástand neysluvatns á Íslandi er gott en mestur hluti þess er grunnvatn. Um 90% sýna er fullnægjandi. Það er útbreiddur misskilningur að örverur lifi lengur í köldu vatni en heitu og því þarf að gæta varúðar og að örverur hafi ekki aðstæður til að fjölga sér t.d. í kyrrstæðum lögnum. Skv. reglugerð um fráveitur eiga sveitarfélög að vera búin að koma upp hreinsun á skolpi fyrir árslok 2005. Nú er skolp frá um 70% íbúa hreinsað.