Samningur milli Lagadeildar Háskóla Íslands og Samorku

Skortur á rannsóknum og umfjöllun um auðlindarétt hefur verið til baga í umræðu og ákvarðanatöku um auðlindanýtingu hér á landi. Samorka mun koma að mótun stöðunnar og vali á verkefnum. Það er hlutverk Lagastofnunar Háskólans að sjá til þess að faglega verði staðið að framkvæmdinni og að fyllstu óhlutdrægni verði gætt. 

Myndin er tekin við það tækifæri, þegar undirritun samningsins fór fram í Háskóla Íslands. Það er Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri Samorku sem staðfestir samninginn fyrir hönd Samorku, en fyrir hönd Háskóla Íslands ritar háskólarektor Kristín Ingólfsdóttir undir, ásamt Páli Hreinssyni forseta lagadeildar og Viðari Má Matthíassyni próffesor.

Fuglaflensa í neysluvatni – er ástæða til að hafa áhyggjur?

Ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af því að fuglaflensa berist með neysluvatni.  Ýmsir hafa verið að velta því fyrir sér hvort opnum vatnsbólum stafi hætta af því ef sýktir fuglar berast í vatnsból og að sýkin berist þannig með drykkjarvatni til fólks.  Samkvæmt samtali við Ásu Atladóttur hjá Landlæknisembættinu er ekki talin hætta á því.  Ef sú hætta væri fyrir hendi væri mikið meira um slíkar sýkingar en raunin er.  Tiltölulega fáir eru að sýkjast þrátt fyrir að veiran hafi greinst í fuglum víða um heim. Þeir sem hafa veikst hafa allir verið í návígi við fugla og víða í Asíu er það návígi mikið. 

 

Fuglaflensan er veira að gerðinni H5N1. Hún lifir 35 daga við 4°C í vatni og lengur eftir því sem vatnið er kaldara. Hún getur verið í fuglum og fleiri dýrum s.s. selum, hvölum, hestum, svínum, minkum og köttum án þess að þau veikist eða sýni einkenni um veikina. Alifuglar eru hinsvegar mikið viðkvæmari fyrir veirunni og veikjast frekar. Áætlað er að um 70% af alifuglum í heiminum sé ræktað í bakgörðum og aðalhættan er fyrir börn sem eru á leik þar sem sýktir fuglar eru.  Hættan sem vofir yfir er að veiran berist í manneskju sem er með svipaða tegund af inflúensu og hún stökkbreytist þar og fari að berast á milli manna.  Þetta er það sem talið er að hafi gerst þegar spánska veikin herjaði á heimsbyggðina fyrir nær hundrað árum. Sótthreinsun með spritt,  klór og geislun drepur veiruna.  Hitun í 56°C í 3 klst eða í 60°C í 30 mínútur eða í 70°C í 1 mínútu drepur einnig veiruna.

 

Þrátt fyrir að ekki sé mikil hætta á að veiran berist með neysluvatni er samt sjálfsagt að hafa varann á og huga að ráðstöfunum þar sem eru opin vatnsból.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins eru svör við algengum spurningum um fuglaflensu. Sjá www.landlaeknir.is

 

Nýtt vatnsból á Flúðum tekið í notkun

Í desember sl. var tekið í notkun nýtt vatnsból fyrir Vatnsveitu Flúða.  Vatnsveitan hefur stækkað mikið á undanförnum árum og þjónar nú nær allri sveitinni, gróðurhúsarækt, sveitabýlum og sumarhúsum, alls um 700 manns.

Farið var að bera á vatnsskorti á álagstímum. Búið var að bora 9 holur í nágrenni byggðarinnar til að leita að köldu vatni en það reyndist alltaf vera of heitt. Á kaldasta svæðinu var hitastigullinn 170°C/km.  Því var farið í að finna vatn lengra frá og virkja vatnslindir í um 11 km fjarlægð frá Flúðum í svonefndum Fagradal í landi Berghyls.  Grafið var niður á sprungu og yfir hana var sett rör og síðan steypt í kring og lokað vel.  Þessi lind gefur um 24 l/s og í næsta nágrenni er önnur lind sem áætlað er að gefi annað eins.  Hún verður virkjuð síðar. Vatnsbólin sem vatnsveita Flúða hefur notað síðustu ár, á Hrunavöllum, gáfu alls um 13 l/s í dælingu, þannig að þetta er góð viðbót.

Vatnsbólið er í 286 metra hæð og er sjálfrennandi með 15 kg þrýstingi þegar það kemur að vatnstankinum við Flúðir. Þar er vatnið 6°C sem er hæfilegt fyrir vatnsveitu.  Vatnið er leitt í 225 mm plaströrum frá Set ehf að Flúðum og í 450 tonna tank og þaðan niður að Langholti þar sem er annar tankur, 200 tonna sem þjónar byggðinni þar. Kostnaður við þessa framkvæmd var 35 Mkr en hún er fljót að borga sig þar sem bara dælukostnaðurinn sem sparast var 2 Mkr. á ári.

Öll framkvæmd við nýju vatnsveituna var í höndum heimamanna. Guðmundur Hjaltason tæknifræðingur frá Galtafelli sá um hönnun, verktakafyrirtækið Gröfutækni sá um jarðvegsframkvæmdir og Plast og Suða sá um útdrátt og samsuðu.

 

 

 

Orkulindin Ísland – Ráðstefna um áliðnaðinn

Föstudaginn 27. janúar s.l.  stóðu Samorka, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins  fyrir ráðstefnu á Hótel Nordica um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi. Fjallað var um allar helstu hliðar atvinnugreinarinnar, svo sem hagvöxt, umhverfismál, atvinnumál, þekkingariðnað, umhverfi starfsfólks, viðhorf almennings o.fl. Formaður Landverndar og fulltrúar Alcan, Alcoa, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar, Norðuráls og Orkuveitu Reykjavíkur voru meðal fyrirlesara. 

Nánari upplýsingar um dagskrá, fyrirlestra og erindi ræðumanna: Smellið hér

Einkennismerki Orkuþings 2006

Merkið sem varð fyrir valinu og hér birtist hannaði Karl Pálsson starfsmaður Ísor. Sighvatur Halldórsson nemandi í grafískri hönnun kom einnig að  vinnslu merkisins.

Höfundur merkis lýsir því þannig að það sýni hreyfingu vatns með blárri bylgju og hitaorku með rauðum bylgjum.

Framkvæmdanefndin  þakkar  fyrir þátttökuna og  óskar Karli til hamingju með sigurinn.

Hitaveitufréttir úr Skagafirði

Akrahreppur – Hofsós – Hólar

Skagafjarðarveitur eru nú að leggja hitaveitu í Akrahrepp og stefnt er að því að verkinu verði lokið í ágúst á þessu ári.  Þegar því er lokið hefur notendum fjölgað um 200 manns. Heildarlengd lagna er um 40 km.  Heita vatnið kemur frá Reykjarhóli við Varmahlíð. Aðalstofnlögnin úr Varmahlíð yfir Héraðsvötnin er fjögurra tommu stálrör. Þar greinist lögning til tveggja átta, í suður að Uppsölum og norður að Ytri-Brekkum.  Þaðan sem lögnin greinist verður lagt í PEX plaströr, sem keypt hafa verið frá Lögstör.  Þau eru með súrefnissperru og vel einangruð í flokki 2. Heimæðar eru líka úr einangruðum pexrörum. Búið er að tengja yfir 40 hús og hleypt var á fyrsta húsið í Akrahrepp Mið-Grund rétt fyrir jólin.

Heildarkostnaður verksins er 120 Mkr. Kostnaðurinn er greiddur með heimæðargjöldum, átta ára niðurgreiðslustyrk til húshitunar frá ríkinu og með framlagi úr hreppssjóði Akrahrepps.  Skagafjarðarveitur greiða um 20 Mkr og þá upphæð reikna þeir með að fá endurgreidda á 15 – 20 árum ásamt vöxtum með tekjum að sölu vatns.

Verið er að bora fyrir Skagafjarðarveitur í Kýrholti.  Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem vinnur verkið.  Borað er með 12 gráður halla til að hitta á æðina. Áður hefur verið borað á svipuðum slóðum og þá fékkst mikið vatn en volgt. Þannig að þetta er tilraunverkefni sem Skagafjarðarveitur, ÍSOR, Jarðhitaleitarátakið og orkusjóður fjármagna. Ef heitara vatns fæst þá verður hún notuð fyrir nærliggjandi byggð. Nú nýverið hefur verið borað á Hrolleifsdal fyrir Hofsós og þar er talið að holan gefi 30-35 l/s af 74°C heitu vatni en eftir er að sannreyna það með dæluprófun. Vonast hafði verið eftir heitara vatni til að dreifa lengra en til Hofsós en það verður erfitt með þetta hitastig.

Nýverið yfirtóku Skagafjarðarveitur Hólaveituna sem var í eigu ríkisins, sem er bæði hitaveita og vatnsveita. Í Hólaskóla, Háskólanum á Hólum, er mikil starfsemi og var farið að bera á heitavatnsskorti. Strax var farið í að bora nýja holu á Reykjum þar sem jarðhitavinnslan er. Holan er 1080 metra djúp og gefur rúmlega 60°C heitt vatn, 28 l/s með 25-28 bara lokunarþrýstingi.  Holan var strax tengd.  Fágætt er að svo mikill þrýstingur sé á lághitaholum en talið er að heitavatnsforðinn sé ofar í fjallinu.  Fyrir liggur að gera endurbætur á vatnsveitunni.  Vatnið er þar tekið úr lind svonefndri Biskupslind upp í fjalli ofan við Hóla og hefur hún verið nýtt svo lengi sem elstu menn muna og er væntanlega blessuð af Guðmundi góða þannig að heilnæmi vatnsins er tryggt.

Skagafjarðarveitur hafa góða heimasíðu þar sem segir fá því sem er á döfinni og vert er að skoða www.skv.is.

 

 

 

 

 

Árið 2006 gengur í garð með opnun raforkumarkaðar

Kynningin fór fram á Nordica Hóteli að viðstöddum hópi blaða- og fréttamanna.

Iðnaðarráðherra frú Valgerður Sverrisdóttir kynnti helstu þætti málsins, fór yfir aðdraganda þess og útskýrði hvernig staðið hefði verið að undirbúningi. Fréttatilkynning iðnaðarráðuneytis

Þorkell Helgason orkumálastjóri gerði grein fyrir aðkomu Orkustofnunar að undirbúningnum og hlutverki stofnunarinnar til framtíðar við framkvæmd og eftirlits með sérleyfisþáttum orkuiðnaðarins. Upplýsingar á heimasíðu Orkustofnunar; Kynningarglærur orkumálastjóra.

Tryggvi Axelsson forstjóri Neytendastofu sagði frá eftirlitshlutverki Neytendastofu með raforkuverðum á samkeppnismarkaði og reiknivél fyrir viðskiptavini sem stofnunin annast og veitir aðgang að á heimasíðu sinni. Heimasíða Neytendastofu

Heimasíður raforkusölufyrirtækjanna: Hitaveita Suðurnesja hf.; Norðurorka hf.; Orkubú Vestfjarða hf.; Orkuveita Húsavíkur ehf.; Orkuveita Reykjavíkur; Rafveita Reyðarfjarðar; Rafmagnsveitur ríkisins.

Samorka þakkar fyrir gamla árið og óskar öllum gleðilegs árs og drengilegrar samkeppni á árinu 2006