14. júlí 2008 Ha, umhverfissinnar? Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu: Hingað til lands er nánast stöðugur straumur fólks sem vill fræðast um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Hvergi í heiminum er enda hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun jafn hátt og hér, við búum jú að gríðarlega öflugum endurnýjanlegum orkulindum í vatnsafli og jarðvarma. Þúsundir venjulegra ferðamanna heimsækja íslenskar virkjanir í hverjum mánuði en hingað streyma líka erlendir gestir frá orkufyrirtækjum, verkfræðistofum, iðnfyrirtækjum ýmiss konar, fjölmiðlum, sveitarstjórnum, ríkisstjórnum og opinberum og fjölþjóðlegum stofnunum ýmiss konar þar sem fram fer stefnumótun á sviðum orku- og umhverfismála. Starfsfólk íslensku orkufyrirtækjanna tekur vel á móti þessum gestum, sem oft eru í fylgd með forystufólki úr íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu. Hrifningin er iðulega afar mikil, allir virðast öfunda okkur af grænu orkunni sem ekkert land nýtur nærri jafn mikils aðgangs að. Hlýnun jarðar er jú rakin til losunar svokallaðra gróðurhúsalofttegunda en hún stafar öðru fremur af brennslu jarðefnaeldsneytis á borð við olíu og kol, sem flest ríki þurfa að brenna til að framleiða raforku. Svo fregnar þetta fólk að sumar þessar glæsilegu virkjanir séu nokkuð umdeildar hér innanlands, hér sé haldið uppi háværri gagnrýni á nýtingu þessarar grænu orku. Nú, hvaðan kemur sú gagnrýni? Frá þeim sem tala í nafni umhverfisverndar. Ha? Hvernig þá? Umhverfisverkefni heimsbyggðar eru jú fyrst og síðast loftslagsmálin og endurnýjanleg græn orka er jú það sem heiminn vanhagar helst um í stað reykspúandi kolaorkuvera. Jú, áherslan sé á náttúruvernd, virkjanirnar séu harðlega gagnrýndar á þeim forsendum að lítt röskuðum landsvæðum sé meðal annars varið til þessarar nýtingar orkulindanna. Dularfullt samhengi sjónarmiðaHér skal ekki gert lítið úr þeim sjónarmiðum að sumum náttúrusvæðum beri eins og hægt er að hlýfa við hvers kyns ágangi mannsins. Hins vegar virðist sem sumt af því fólki sem talar í nafni umhverfisins vilji ekki heimila neinar virkjanaframkvæmdir neins staðar, að minnsta kosti ekki í þágu iðnaðar. Sama fólk talar síðan iðulega um loftslagsmál og gagnrýnir að hér séu reist iðjuver sem menga andrúmsloftið, þótt ljóst sé að mengunin yrði átta eða níu sinnum meiri ef notuð væri orka frá kolaorkuverum erlendis. Þetta fólk notar síðan auðvitað öll sömu tól og tæki og við hin, framleidd úr afurðum sömu iðjuveranna og það gagnrýnir. Og hverjir fá svo heiðurinn af því að reyna að útskýra þetta dularfulla samhengi sjónarmiða fyrir erlendu gestunum? Jú, oft eru það saklausir gestgjafarnir, starfsfólk íslenskra orkufyrirtækja. Og satt best að segja þá gengur það iðulega hreint ekki vel.