Gert út á gúrkuna

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum:

Nú árið er liðið og enn kominn tími á „aðgerðabúðir“ nokkurra Íslendinga og erlendra gesta þeirra, í einhvers konar mótmælaskyni gegn uppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Margt fólk er í sumarfríum og svokölluð gúrkutíð hjá fjölmiðlum. Athygli þeirra er því tryggð og við fáum stöðugt fréttir af aðgerðum og jafnvel aðgerðaleysi aðgerðahópsins. 

Auðvitað er allt gott um það að segja ef fólk kýs að eyða sínum frítíma í að mótmæla framkvæmdum sem því hugnast jafn illa og raun ber vitni. Sá réttur er mikilvægur hluti af okkar samfélagsskipan. Hið sama gildir hins vegar um eignarréttinn og um lög og reglu almennt. Fólk getur valið að sýna því umburðarlyndi ef aðrir tjá skoðanir sínar með því að hefta för þess eða skemma eigur þess, en væntanlega kæra sig nú fæstir um mikið af slíku. Engin atvinnustarfsemi á að þurfa að þola uppákomur sem ógna jafnvel öryggi á vinnustöðum og hafa umtalsverðan kostnað í för með sér.

Mótmæla vopnaframleiðslu í Svíþjóð
En þá að málflutningnum. Ef þetta fólk er svona mikið á móti varningi sem hægt er að nota í hergagnaiðnaði, hví fer það þá ekki til Bretlands, Svíþjóðar eða annarra landa þar sem framleidd eru vopn, og mótmælir þar? Já, ál er notað í einhver hergögn, eins og svo margt annað. Vopnasalar borða líka fisk. Er þá næsta skref að mótmæla útflutningi sjávarafurða til Svíþjóðar? Og ef ál er svona slæmt, getum við þá treyst því að þetta fólk noti ekki farsíma, ipod-tæki, flugvélar, lyf í álpakkningum og svo framvegis? Og svo eru það loftslagsmálin, þeirra vegna má samkvæmt þessu fólki ekki nýta hreinu endurnýjanlegu orkuna hérlendis!

Trúlega er það eðlilegt fréttamat að segja frá slíkum uppákomum, í gúrkutíð. Hins vegar væri það nú óskandi að fjölmiðlar létu sér kannski hver og einn nægja eins og eitt viðtal um málstað þessa fámenna aðgerðahóps að þessu sinni.