12. september 2008 Samorka og úrskurður umhverfisráðherra Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu: Umhverfisráðherra fjallar í Morgunblaðsgrein um ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar ráðherrans um sameiginlegt umhverfismat vegna virkjana, háspennulína og álvers á Norðausturlandi. Í ályktuninni er meðal annars vakin athygli á að úrskurðurinn geti haft í för með sér að minnsta kosti eins árs tafir á framkvæmdum og valdið orkufyrirtækjum og viðkomandi sveitarfélögum aukakostnaði sem nemi hundruðum milljóna króna. Skorað er á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína, enda úrskurðurinn afar íþyngjandi. Úrskurður ráðherra byggir á heimildarákvæði í lögum, ekki skýrum lagafyrirmælum. Umhverfisráðherra segir tvennt undra sig í ályktun Samorku. Annars vegar að samtökin „skuli ekki styðja þá ákvörðun stjórnvalda að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja lágmörkun umhverfisáhrifa framkvæmda vegna álvers á Bakka.“ Samorka gerir að sjálfsögðu engar athugasemdir við að reynt sé að lágmarka umhverfisáhrif af byggingu álvers á Bakka. Samorka gerir hins vegar athugasemdir við að orkufyrirtækin fái ekki að framfylgja þeirri yfirlýstu stefnu sinni að rannsaka og undirbúa virkjanir og háspennulínur óháð því hver kemur á endanum til með að kaupa orkuna. Engan veginn er sjálfgefið að tengja fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Norðausturlandi við áætlanir um byggingu álvers á Bakka. Þá aðskilja tugir kílómetra umrædd framkvæmdasvæði. Athygli vekur hins vegar að framkvæmdir sem beinlínis tengjast fyrirhuguðu álveri á Bakka, til dæmis hafnarframkvæmdir, eru ekki hluti af þessum úrskurði um sameiginlegt matsferli. Hafa verður í huga að rannsóknir og undirbúningur vegna virkjanaframkvæmda og orkuflutnings taka miklum mun lengri tíma en undirbúningur og bygging til dæmis verksmiðju eða netþjónabús. Yfirlýsingu fagnaðHitt sem undrar ráðherrann er að Samorka skuli álykta með þessum hætti „þegar fulltrúar þeirra í samráðsferlinu vissu fullvel að lausn var í sjónmáli sem tryggir allt í senn, hagsmuni náttúrunnar, hagsmuni almennings og hagsmuni fyrirtækjanna sem í hlut eiga.“ Nú ber sannarlega að fagna því ef slík lausn er í sjónmáli. Þegar stjórn Samorku samþykkti sína ályktun höfðu viðræður farið fram en þær höfðu ekki skilað ásættanlegri niðurstöðu. Þegar þetta er ritað eru umrædd fyrirtæki enn ekki sannfærð um að búið sé að finna ásættanlega niðurstöðu. Sem fyrr segir þá fagnar Samorka hins vegar öllum yfirlýsingum ráðherra um lausn á þessu máli, enda miklir hagsmunir í húfi.