9. júlí 2008 Raforka í samgöngum-tengiltvinnbílar Raforka í samgöngum-tengiltvinnbílar Á nýafstöðnum ársfundi evrópsku rafveitusamtakanna Eurelectric, var m.a. fjallað um rafvæðingu í framtíðinni og sjálfbæra raforkumarkaði. Markmið ESB í orkumálum voru fyrirferðamikil og þá einkum útblástur gróðurhúsalofttegunda, skattlagning orku sem gefur frá sér mengandi lofttegundir og viðskipti með losunarkvóta. Orka í samgöngum var töluvert fyrirferðamikil og var nokkur samhljómur í umfjölluninni þess efnis að sú þróun sem orðið hefði á ökutækjum og búnaði þeirra á seinustu árum kallaði á spurningar “hvaða og hvenær” en ekki “hvort” eitthvað kæmi í stað jarðefnaeldsneytis. Tengiltvinnbílar – Athyglisverð skýrsla Í pallborðsumræðum koma fram hjá fulltrúa World Wide Fund for Nature (WWF) að á þeirra vegum hafi verið gerð mjög ítarleg athugun á mögulegum orkugjöfum framtíðarinnar. Skýrslan fjallar um olíu- og orkuiðnaðinn út frá þeim möguleikum sem við höfum í dag. Skýrslan, sem heitir “Plugged In – The End of the Oil Age” fer nánast yfir alla hugsanlega og óhugsanlega möguleika til orkunotkunar í samgönum og kemst að mjög afgerandi niðurstöðu. Hún er vel og læsilega skrifuð, sett upp á einfaldan skipulagðan hátt og mjög auðveld aflestrar. Skýrsluna má nálgast með því að SMELLA HÉR Þess má einnig geta að veitt eru verðlaun fyrir verkefni sem talin eru til ávinnings fyrir þróun raforkubúskapar framtíðarinnar og hlaut Toyota þau að þessi sinni fyrir framlag sit til tengiltvinnbílatækninnar. EB.