Ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar umhverfisráðherra

Ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar umhverfisráðherra um sameiginlegt
umhverfismat vegna virkjana, háspennulína og álvers á Norðausturlandi

Á stjórnarfundi Samorku í dag, 4. september, var til umfjöllunar úrskurður umhverfisráðherra frá 31. júlí síðastliðnum um að umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur skulu metin sameiginlega samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 75/2005. Með úrskurði ráðherra er felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. febrúar 2008 um að ekki sé þörf á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum áðurnefndra framkvæmda.

Orkufyrirtækin hafa undanfarin ár unnið að undirbúningi virkjana og háspennulína á Norðausturlandi í góðri samvinnu við Skipulagsstofnun og heimamenn. Minna má á í því sambandi að staðfest svæðisskipulag er fyrir hendi þar sem afmörkuð eru orkuvinnslusvæði og háspennulínuleiðir. Svæðisskipulagið hefur farið í gegnum umhverfismat áætlana í samræmi við lög nr. 105/2006 og verið staðfest af umhverfisráðherra.

Stjórn Samorku telur að ráðherra hafi kveðið upp afar íþyngjandi úrskurð, sem byggist á heimildarákvæði í lögum en ekki skýrum lagafyrirmælum. Úrskurðurinn tengir saman framkvæmdir fjögurra lögaðila á svæðum sem eru í tuga kílómetra fjarlægð frá hvort öðru. Það er einnig yfirlýst stefna orkufyrirtækjanna að rannsaka og undirbúa virkjanir og háspennulínur óháð því hver kemur til með á endanum að kaupa orkuna. Hafa verður í huga að það tekur mörg ár, jafnvel áratugi, að rannsaka og undirbúa virkjanir og orkuflutning en í flestum tilvikum aðeins örfá ár, jafnvel nokkur misseri, að undirbúa og byggja t.d. verksmiðju eða setja upp netþjónabú. Það er þess vegna óásættanlegt fyrir orkufyrirtækin að geta ekki stundað rannsóknir og undirbúning á eigin forsendum óháð hugsanlegum orkukaupanda.

Standi úrskurðurinn óhaggaður, og falli rannsóknarboranir undir hann, mun það hafa verulegar tafir í för með sér við undirbúning verkefna á Norðausturlandi, um sem nemur a.m.k. einu ári, og valda orkufyrirtækjunum og sveitarfélögunum aukakostnaði er nemur hundruðum milljóna króna.

Stjórn Samorku skorar á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína til að lágmarka þann skaða sem að óbreyttu gæti hlotist af úrskurðinum. Náist ekki ásættanleg niðurstaða í þeim efnum telur stjórn Samorku nauðsynlegt, með hliðsjón af alvarleika málsins, að dómstólar verði látnir skera úr um lögmæti úrskurðar ráðherra, vegna framtíðarhagsmuna orkuiðnaðarins.