21. desember 2017 Jólakveðja frá Samorku Samorka óskar landsmönnum öllum hlýlegra jóla með birtu og yl og þakkar gott samstarf á árinu sem er að líða.
24. nóvember 2017 Lokaáfanganum náð í skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu Nýja stöðin var tekin í notkun fimmtudaginn 23. nóvember 2017. Ný hreinsistöð skólps á Kjalarnesi hefur tekin í notkun. Þar með er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðva og því risavaxna verkefni, sem uppbyggingarátak fráveitu höfuðborgarinnar hefur verið frá árinu 1995, er lokið. Hreinsun strandlengjunnar í kjölfarið hefur verið nefnd stærsta skref í umhverfishreinsun sem stigið hefur verið hér á landi. Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með lagningu sjólagnar árið 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns. Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó. Veitur buðu Kjalnesingum og öðrum Reykvíkingum að skoða nýju stöðina þegar hún var tekin í notkun og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarpaði gesti ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna. Borgarstjóri óskaði Kjalnesingum til hamingju með nýju hreinsistöðina Inga Dóra kynnir nýju trektina frá Veitum, sem ætlað er að auðvelda fólki að safna og endurvinna olíu frá matargerð í stað þess að hella henni í fráveituna Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum
21. nóvember 2017 Stórt stökk framundan í fráveitumálum Fundurinn var vel sóttur Skólp verður hreinsað hjá 90% landsmanna eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Í dag er hlutfallið 77%. Á þessu ári bætast hátt í 10.000 landsmenn í þann hóp að búa við skólphreinsun þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins. Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, kynnir greiningu sína á fundinum Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU rýndi í nýlega skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu þar sem kom fram að fjárfestinga væri sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir segir þurfa að bæta ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af kosti skólphreinsunin um 20 milljarða. Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% séu alltaf erfiðust að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús. Helgi Jóhannesson ásamt Jóhönnu B. Hansen fundarstjóra Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, kallaði eftir því að staða og sjálfstæði fráveitna yrði tryggð, þannig að fjármunir sem ætlaðir væru fráveitumálum færu raunverulega í uppbyggingu og rekstur fráveitna hjá sveitarfélögum. Helgi sagði kostnað við framkvæmdir mikinn og fráveitugjöld nái oft á tíðum ekki upp í þann kostnað nema að litlum hluta, þar sem þau miðast við fasteignamat sem oft á tíðum er lágt í litlum bæjarfélögum. Það ætti einnig að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þá fjallaði Íris Þórarinsdóttir um fjölbreytt viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi og martröðina í pípunum; blautþurrkur og önnur efni eða hluti sem fólk setur í klósettið í stað ruslatunnunnar. Nefndi hún til dæmis efni, sem hafa endilega áhrif á kerfin hjá fráveitunum heldur á viðtakann svo sem lyf og fíkniefni. Einnig fjallaði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, um það grettistak sem lyft hefur verið í fráveitumálum hér á landi undanfarna áratugi. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem tengdir eru skólphreinistöð úr 6% í 68% og nú árið 2017 er hlutfallið orðið 77%. Gríðarlegt rask fylgi slíkum framkvæmdum sem standi yfir mánuðum saman þannig að ekki mætti gleyma þessu mikla átaki sem ráðist var í þrátt fyrir að gera mætti enn betur eins og staðan er í dag. Hér má sjá fyrirlestrana í heild sinni:
20. nóvember 2017 Rekstrarstaða OR eftir 9 mánuði prýðileg Rekstrarkostnaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu níu mánuði ársins 2017 var lægri en sömu mánuði í fyrra. Ytri rekstrarskilyrði hafa um margt verið hagstæð það sem af er ári og nam hagnaður fyrstu níu mánaðanna 10,5 milljörðum króna. Innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Samanlagður rekstrarkostnaður fyrirtækjanna lækkaði frá fyrra ári. Í fjárhagsspá fyrir næsta ár, sem birt var 20. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður haldi áfram að lækka. Þetta skilar sér til viðskiptavina því á þessu ári hefur gjaldskrá fyrir kalt vatn lækkað og gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns lækkað tvisvar. Verulegur hluti raforkusölu ON, dótturfyrirtækis OR, er tengdur álverði, sem hefur hækkað nokkuð frá áramótum. Þetta hefur skilað auknum tekjum á árinu. árshlutauppgjörum hefur Orkuveita Reykjavíkur gefið út lykiltölur fjármála. Þær eru nú á vef OR. Á vefnum er einnig að finna árshluta- og ársreikninga OR og dótturfyrirtækja fyrir síðustu ár. Nánari upplýsingar má sjá á vef OR.
18. nóvember 2017 Þeistareykjavirkjun gangsett Ráðherrarnir gagnsetja virkjunina með samskiptum við stjórnstöð Landsnets og vaktmann á Þeistareykjum í gegnum TETRA-kerfið. 17. aflstöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum var gangsett í dag við hátíðlega athöfn. Um er að ræða þriðju jarðvarmastöð fyrirtækisins, en fyrir eru Kröflustöð og gamla gufustöðin í Bjarnarflagi. Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni. Þeistareykjastöð verður 90 MW. Hún er reist í tveimur 45 MW áföngum og var vélasamstæða 1 gangsett í dag og tengd við flutningskerfi Landsnets. Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, gangsettu virkjunina í sameiningu. Hörður Arnarson forstjóri sagði í ávarpi sínu að framkvæmdin hefði tekist vel og lögð hefði verið mikil áhersla á samskipti og samráð og umhverfis- og öryggismál. Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra að um þjóðhagslega hagkvæman virkjunarkost væri að ræða, sem myndi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hafa jákvæð áhrif í víðtækum skilningi. Mikil áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu og nýtingu jarðvarmans á svæðinu, en fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á svæðinu. Uppsetning á vélasamstæðu 2 er nú í fullum gangi og er stefnt að því að orkuvinnsla hennar hefjist í apríl 2018. Nánari upplýsingar um sögu virkjunarinnar má sjá á vef Landsvirkjunar.
14. október 2017 Sérfræðingur í upplýsingaöflun og greiningum Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum á sviði greininga. Um er að ræða skemmtilegt starf fyrir einstakling sem hefur áhuga og getu til að safna saman og greina hagtölur og ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem varða orku- og veitustarfsemi á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, og koma því til skila á mannamáli. HELSTU VERKEFNI: Söfnun, greining og miðlun upplýsinga sem varða orku og veitustarfsemi, þ.m.t. umhverfis- og loftslagsmál. Greining á áhrifum breytinga á rekstrarumhverfi orku- og veitufyrirtækja. Skýr og greinargóð framsetning gagna og upplýsinga. Skipulagning og umsjón með framkvæmd opinna funda um málefni orku- og veitugeirans. Faglegur stuðningur við ýmis verkefni sem unnið er að hverju sinni. Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna. MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR: Háskólamenntun sem nýtist í starfi s.s. hagfræði eða verkfræði. Hæfni og áhugi á að greina upplýsingar og hagstærðir sem varða orku- og veitustarfsemi hér á landi og í nágrannalöndum. Færni í markvissri framsetningu upplýsinga jafnt skriflega, myndrænt og munnlega. Jákvæðni og mikil samskipta- og samstarfsfærni. Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku. Bæði konur og karlmenn eru hvött til að sækja um starfið. Nánari upplýsingar um starfið veita Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku (pall@samorka.is), og Ari Eyberg (ari@intellecta.is) í síma 511-1225. Umsókn óskast fyllt út á heimasíðu Intellecta og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Umsóknarfrestur er til og með 24. október. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um allt land. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur. Samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins og eru staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Í starfinu felst tækifæri til að vinna náið með ýmsum sérfræðingum aðildarfyrirtækja Samorku auk sérfræðinga annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins. Auglýsingin eins og hún birtist í Fréttablaðinu 14. október 2017
12. október 2017 Landsnet framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins Sigrún Björk, stjórnarformaður Landsnets, tekur við verðlaununum frá Rögnu Söru Jónsdóttur formanni dómnefndar. Landsnet hreppti í dag verðlaun fyrir Framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir Snjallnet á Austurlandi og veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins verðlaunum móttöku. Verkefni Landsnets felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, kallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur. Þar má nefnda aukna flutningsgetu upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla. Einnig er sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum. Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar afhendir Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur frkvstj. Icelandair hótela Umhverfisverðlaun atvinnulífsins Icelandair Hotels var valið Umhverfisfyrirtæki ársins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Icelandair Hotels hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi, sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hafi náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun. Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
30. september 2017 Halarófa rafbíla við upphaf hringferðar Bílar frá Samorku og aðildarfélögum tóku þátt í halarófu rafbíla sem fylgdi tveimur Englendingum úr hlaði við upphaf hringferðar um Ísland í dag. Bíll Samorku Englendingarnir tveir, Mark og Stewart ásamt móður annars þeirra á níræðisaldri, keyra hringinn á óbreyttum rafbílum og engar vararafhlöður verða með í för. Þannig vilja þeir sýna fram á að rafbílar eru raunhæfur valkostur og óþarfi sé að óttast það að komast ekki á leiðarenda, sem er talin ein helsta fyrirstaða þess að fólk kaupi sér rafbíl. Mark og Stewart hafa áður keyrt hringinn um Bretland á rafbíl og ætla sér næst um miðbaug. Hringferðin er hluti af CHARGE energy branding ráðstefnunni sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október.
29. september 2017 Orka náttúrunnar tilnefnd sem besta græna vörumerkið Orka náttúrunnar er tilnefnd til alþjóðlegu CHARGE vörumerkjaverðlaunanna sem besta vörumerkið í flokki grænnar orku. ON er eina íslenska fyrirtækið sem tilnefnt er í flokknum og keppir þar við fjögur erlend vörumerki. Besta vörumerkið að mati fjölmennrar alþjóðlegrar dómnefndar verður útnefnt 10. október næstkomandi. Orka náttúrunnar hefur vakið athygli fyrir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hefur fjöldi þeirra margfaldast eftir að fyrirtækið setti á laggirnar hraðhleðslustöðvar víðs vegar um Reykjavík og landið allt. Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON, segir alla afar stolta af tilnefningunni. „Þarna eru margir kallaðir en fáir útvaldir og það er frábært að fá hvatningu af þessu tagi í þeim mikilvægu verkefnum sem ON vinnur að. Við höfum hvatt eindregið til rafbílavæðingar hér á landi – bæði í orði og í verki – og vörumerki ON er orðið óaðskiljanlegt þeirri þróun. Rafbílabyltingin getur orðið eftirmynd hitaveitubyltingarinnar sem var góð fyrir umhverfið, góð fyrir veskið og góð fyrir orkusjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir það vill ON standa og tilnefningin gefur til kynna að við séum á réttri braut“, segir Áslaug Thelma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Vörumerkjaverðlaun CHARGE verða afhent á samnefndri ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október. Orka náttúrunnar varð til í ársbyrjun 2014 eftir lögbundna aðgreiningu sérleyfis- og samkeppnisþátta í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. ON rekur þrjár virkjanir, selur rafmagn til um helmings landsmanna og aflar um helmings heita vatnsins í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
19. september 2017 Berglind stýrir fyrirtækjamarkaði ON Berglind Rán Ólafsdóttir hefur tekið til starfa sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaðar Orku náttúrunnar. Berglind tekur við nýrri einingu í skipuriti ON. Sala raforku og þjónusta við þau fjölmörgu fyrirtæki um land allt sem eru í viðskiptum við ON eru hluti af starfsemi fyrirtækjamarkaðar. Á verksviði fyrirtækjamarkaðar er einnig viðskiptaþróun tengd auðlindanýtingu ON á háhitasvæðum en fyrirtækið er hið stærsta á því sviði hér á landi. Við Hellisheiðarvirkjun er í þróun jarðhitagarður þar sem nokkur fyrirtæki eru að hasla sér völl við fjölþætta nýtingu jarðhitans, svo sem til þörungaræktar, vísindastarfs og baða auk hefðbundnari orkunotkunar. Þá er raforkumiðlun á starfssviði Berglindar en sá þáttur í starfi raforkufyrirtækja hefur vaxið að mikilvægi á síðustu árum. Berglind hefur meira en tíu ára reynslu af viðskiptaþróun á fyrirtækjamörkuðum og kom til ON frá Landsvirkjun þar sem hún hafði starfað frá árinu 2012. Þar áður vann hún að viðskiptaþróun hjá Medis, dótturfélagi Actavis, og Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún vann við vísindarannsóknir. Berglind er með M.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE í Barcelona.