Hvers virði er góð salernisaðstaða?

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag, 19. nóvember.

Fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum í dag hefur ekki aðgengi að salerni sem tengt er öruggu fráveitukerfi og hátt í 700 þúsund manns þurfa að gera þarfir sínar utandyra á degi hverjum. Afleiðingin er meðal annars sú að um tveir milljarðar jarðarbúa nýta drykkjarvatnsuppsprettur sem eru mengaðar af saur og hátt í hálf milljón manna deyr árlega vegna niðurgangspesta.

Sameinuðu þjóðirnar halda alþjóðlegan dag klósettsins hátíðalegan á hverju ári og vilja þar með minna á þær úrbætur sem þarf til í þessum málaflokki. Sjálfbærnimarkmið þeirra miða meðal annars að því að allir geti búið við viðunandi hreinlæti  og að ómeðhöndlað skólp verði minnkað um helming.

Góð fráveita bjargar mannslífum, veitir fólki reisn og veitir betri tækifæri til að rífa sig upp úr sárri fátækt.

Nánari upplýsingar um alþjóðlega klósettdaginn má finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna.

Veitur hafa einnig minnt á daginn í dag, til dæmis með því að minna á að klósettið er ekki ruslafata.

Hvað er fráveita?

Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Fráveitan flytur frárennsli heimila og fyrirtækja, regnvatn frá götum og lóðum, og í sumum hverfum bakrás hitaveitu í sjó með viðkomu í hreinsistöð. Hreinsunarferli skólpsins skapar náttúrunni sjálfri skilyrði til að taka við næringarríku skólpinu og farga því án þess að skaða vistkerfið. Það sýna ítarlegar rannsóknir á Faxaflóa meðal annars; að losunin hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar.