15. ágúst 2017 Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík. Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári. Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg. Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna. Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.
14. ágúst 2017 Kynbundinn launamunur minnkar enn hjá OR Jafnlaunagreining hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum leiðir í ljós minnkandi launamun kynja og ber fyrirtækið áfram gullmerki jafnlaunaúttektar PwC vegna ársins 2017. Óútskýrður kynbundinn launamunur mælist nú 1,4%. Dregið hefur markvisst úr kynbundnum launamun innan OR samsteypunnar síðustu árin eins og sjá má í frétt um málið á heimasíðu OR. Árangurinn náðist meðal annars með samstarfi við Pay Analytics, bandarískt fyrirtæki þar sem dr. Margrét V. Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningum við háskóla í Wisconsin er í forsvari. Smíðað var rafrænt greiningartæki sem gerir stjórnendum kleift að kalla fram á svipstundu áhrif hverrar einstakrar launaákvörðunar á kynbundinn launamun hjá fyrirtækinu í heild. Sólrún Kristjánsdóttir flutti ítarlega kynningu á þessari vinnu á þingi Samorku vorið 2017 eins og sjá má á meðfylgjandi upptöku. 3 Brúum launabilið – Sólrún Kristjánsdóttir from Samorka on Vimeo.
28. júní 2017 Sólar- og vindorka framtíðin í rafmagnsframleiðslu í heiminum Næstum helmingur raforkuframleiðslu heimsins mun koma frá sólar- og vindorku árið 2040 skv. árlegri skýrslu Bloomberg um horfur á orkumarkaði, sem kom út á dögunum. Í dag er hlutfallið um 12%. Til þess að þetta geti gengið eftir þarf að þrefalda fjárfestingu í þróun á vinnslu rafmagns úr endurnýjanlegum orkugjöfum miðað við úr jarðefnaeldsneyti, svo sem úr jarðhita, vatnsafli, sól og vindi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að um 72% af allri fjárfestingu í nýjum orkukerfum um allan heim til ársins 2040 fari í sólar- og vindorkulausnir. Bloomberg gerir einnig ráð fyrir að árið 2040 fáist rúmlega tvöfalt meiri orka en í dag fyrir hvern dollara sem fjárfest er í sólar- og vindorku og að þessir orkugjafar hafi rutt kolum úr vegi árið 2030. Þá er því spáð að aðeins einn þriðji af þeim kolaorkuverum, sem stefnt er að að byggja í dag, verði að veruleika. Með skýru og góðu regluverki, sérstaklega í evrópsku samhengi, gæti þetta gerst enn fyrr. Vindorka verður sífellt ódýrari, þökk sé mikilli þróun í tækni og rekstrarumhverfi þeirra og búist er því að framleiðslukostnaður rafmagns úr vindorku verði um 47% lægri árið 2040 en nú. Aflandsvindorka (offshore wind) mun lækka enn meir, eða um að minnsta kosti 70%. Þessi mikli verðmunur skýrist af einnig af tækninýjungum, aukinni samkeppni og meiri framleiðslu miðað við daginn í dag. Skýrslan staðfestir það sem hefur verið á sjóndeildarhringnum lengi; að endurnýjanleg orka sé ekki lengur óálitlegur kostur, heldur hreinlega nauðsynlegur og arðbær fyrir fjárfesta. Hægt er að nálgast skýrslu Bloomberg á heimasíðu þeirra.
27. júní 2017 Landgræðsluhópur ON græðir sárin Landgræðsluhópur Orku náttúrunnar hófst í dag handa við að lagfæra skemmdir vegna krots mosa í Litlu Svínahlíð í Grafningi. Þar hafði verið skrifað í mosaþembuna með því að rífa upp mosa. ,,Við ætlum að freista þess að lagfæra skemmdirnar og byrjuðum björgunarverkefnið í dag. Litlar mosaþúfur voru teknar umhverfis stafina, sem höfðu verið krotaðir í mosann, og þær notaðar til að fylla í þá og þannig lokuðum við sárinu. Ég hef verið að prófa mig áfram með aðferðir við að laga svona mosakrot og mér sýnist að þessi aðferð virki vel. Það tekur samt mosaþembuna nokkur ár að jafna sig alveg. Við leggjum okkur fram við að miðla þekkingu okkar í þessum málum og ætlum að útbúa stutt kynningarmyndband sem sýnir að hver sem er getur tekið sig til og lagfært mosakrot,“ segir Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar. Magnea er þekkt meðal landgræðslufólks fyrir aðferðir sem hún hefur þróað til að endurheimta mosabreiður og fékk hún m.a. Umhverfisverðlaun Ölfuss fyrr á árinu fyrir slíkt verkefni. Magnea segir mosaþemburnar á Íslandi einstakar á heimsvísu og hluti af sérkennum íslensks landslags. En mosakrot hefur aukist, sem eru mikil lýti og það getur tekið mosann mörg ár eða áratugi að gróa saman sé ekkert að gert. Magnea segir mikilvægt að að lagfæra skemmdir sem fyrst svo að fólki detti síður í hug að herma eftir. Mosaþembur eru einnig mjög viðkvæmar og skemmdir á þeim, eins og mosakrot, geta valdið frekara rofi á mosanum og þannig stækka sárin t.d. við að yfirborðsvatn rennur eftir þeim. Aðgerðirnar í Litlu Svínahlíð voru teknar upp á myndband og því verður dreift sem kennslumyndbandi. Þannig ættu sem flestir að geta nýtt sér aðferðirnar til að lagfæra sambærilegar skemmdir annars staðar á landinu.
21. júní 2017 Jóna Soffía Baldursdóttir til Landsvirkjunar Jóna Soffía Baldursdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður upplýsingatæknisviðs hjá Landsvirkjun. Upplýsingatækni leikur stórt hlutverk í rekstri Landsvirkjunar. Nýr forstöðumaður heyrir undir skrifstofu forstjóra og mun í samvinnu við stjórnendur taka þátt í að móta framsæknar upplýsingatæknilausnir fyrir fjölbreytta starfsemi innan Landsvirkjunar. Jóna Soffía hefur verið forstöðumaður vefþróunar hjá Símanum frá árinu 2013. Hún hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2006, fyrst við verkefnastjórnun og síðar sem deildarstjóri stjórnstöðvar og stjórnkerfa áður en hún tók við sem forstöðumaður vefþróunar. Áður en Jóna Soffía fór til Símans starfaði hún m.a. við verkefnastjórnun og hugbúnaðarráðgjöf hjá Högum hf. og Hug hf. og við flutningastýringu hjá Samskipum.
15. júní 2017 Jákvæðar horfur hjá OR Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody‘s hefur breytt horfum í mati sínu á lánshæfi Orkuveitu Reykjavíkur í jákvæðar úr stöðugum. Einkunnin er áfram Ba2. Í fréttatilkynningu frá Moody‘s segir að ástæða betri horfa sé batnandi rekstrarafkoma, lækkandi skuldir og að sterkari lausafjárstaða síðustu ár. Þá séu nú vaxandi líkur á að OR standist kröfur um hærri lánhæfiseinkunn í náinni framtíð. Fjárhagur OR hefur styrkst, segir ennfremur í tilkynningunni. Það rakið til festu við framvindu Plansins, sem hleypt var af stokkunum árið 2011. Mikil staðfesta stjórnenda við að fylgja því eftir leiddi til þess að markmiðum þess var náð talsvert áður en því lauk, í árslok 2016. Matsfyrirtækið á von á því að OR sýni áfram skynsemi í fjár- og áhættustýringu sem gefi fyrirtækinu gleggri sýn á fjármálin og geti gert OR kleift að draga úr áhættu vegna þróunar vaxta, gengis og álverðs.
6. júní 2017 Auðlindagarður HS Orku fær alþjóðleg verðlaun HS Orka hlaut í gær á Alþjóðlega umhverfisdeginum, umhverfisverðlaun Energy Globe Award sem veitt eru þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum. Í ár voru valin 178 verkefni víðsvegar að úr heiminum og var Auðlindagarðurinn valinn besta íslenska verkefnið. „Við erum hrærð yfir þessum verðlaunum og þeirri viðurkenningu sem Auðlindagarðinn er að fá á alþjóðavísu. Hugmyndafræðin að baki Auðlindagarðinum er einföld, það er að segja að það er ekkert sem heitir sóun. Allir straumar sem falla til við orkuvinnslu hjá okkur eru nýttir af fyrirtækjum í Auðlindagarðinum, sem eru sjö í dag og fer fjölgandi,” segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku „Albert Albertsson er hugmyndasmiðurinn að baki Auðlindagarðinum og okkar lærifaðir. Albert hefur alltaf bent okkur á að fjölþætt nýting auðlinda sé einfaldlega heilbrigð skynsemi.” HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins sem framleiðir og selur rafmagn um allt land. Fullnýting og umhyggja fyrir umhverfinu hefur ætíð verið rauði þráðurinn í starfseminni og hefur meðal annars leitt af sér stofnun Auðlindagarðs á Reykjanesi, þar sem fyrirtæki hafa sprottið upp og nýtt hina ýmsu auðlindastrauma sem verða til við framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Fyrirtækin innan Auðlindagarðsins eru Bláa Lónið, Haustak, Háteigur, ORF Líftækni, Carbon Recycling International, Northern Light Inn hótel og Stolt Sea Farm. Í haust kemur svo í ljós hvaða fyrirtæki hlýtur Energy Globe verðlaunin á heimsvísu.
29. maí 2017 Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2017: Tilnefningar óskast Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða afhent fimmtudaginn 12. október fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem að þessu sinni er helgaður loftslagsmálum. Óskað er eftir tilnefningum fyrir 12. september nk. með tölvupósti á sa@sa.is merktum: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað. Dómnefnd velur úr tilnefningum og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti: Umhverfisfyrirtæki ársins Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel Innra umhverfi er öruggt Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfi Framtak ársins Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
11. maí 2017 Blöndustöð skarar fram úr í sjálfbærni Starfsfólk Landsvirkjunar með Blue Planet verðlaunin Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu og eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun. Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast. Í úttektinni voru 17 flokkar teknir til nákvæmrar skoðunar og varða rekstur Blöndustöðvar, til dæmis samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun. Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.
10. maí 2017 Samorka og KíO undirrita samstarfssamning Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Harpa Pétursdóttir formaður KíO, Auður Nanna Baldvinsdóttir gjaldkeri KíO skrifa undir samstarfssamninginn í Hofi Samorka og Konur í orkumálum ætla í sameiningu að bæta hlutfall kvenna í orku- og veitugeiranum. Samstarfssamningur um þetta var undirritaður á Samorkuþingi, sem haldið var í Hofi á Akureyri dagana 4. – 5. maí. Páll Erland og Harpa Pétursdóttir að lokinni undirskrift Samstarfið getur birst á margan hátt samkvæmt samningnum, eins og til dæmis í samnýtingu gagna, upplýsingagjöf á milli aðila, sameiginlega viðburði eða sameiginlega útgáfu á efni sem varpar ljósi á stöðu kvenna innan geirans. Samorka er einnig einn af styrktaraðilum nýrrar úttektar KíO og fyrirtækisins Ernst&Young um stöðu kvenna í íslenska orkugeiranum sem kom út á dögunum.