Þriðji orkupakkinn

Á aðalfundi Samorku samtökum orku- og veitufyrirtækja, var eftirfarandi ályktun um þriðja orkupakkann samþykkt:

Á árinu 2003 tóku ný raforkulög gildi og aðskilnaður var gerður milli samkeppnisstarfssemi og sérleyfisstarfsemi. Með þeim voru innleidd ákvæði tilskipana Evrópusambandsins í raforkumálum og þá einkum um að þróa markað með raforku þannig að samkeppni tryggi lægsta verð til neytenda. Sömuleiðis voru strangar reglur settar um sérleyfisstarfsemina og verðlagningu á flutningi og dreifingu raforku með hag neytenda í huga. Frekari þróun á þessari löggjöf, sem jafnan er nefnd þriðji orkupakkinn, felur í sér aukið sjálfstæði eftirlitsaðila, frekari kröfur um aðskilnað milli sérleyfisþátta og samkeppnisþátta og þar með að efla raforkumarkaðinn. Með framangreinda meginþætti í huga styður Samorka innleiðingu á þriðja orkupakkanum.

 

Orkupakkar ESB

Á árinu 2003 tóku ný raforkulög gildi og mörkuðu þar með upphaf aðskilnaðar milli samkeppnisstarfsemi og sérleyfisstarfsemi, þ.e. orkuframleiðslu og orkusölu annars vegar en flutnings raforku og dreifingar hins vegar. Með lögunum var m.a. verið að innleiða ákvæði tilskipana Evrópusambandsins um sambærilegt efni (orkupakki eitt og tvö). Að baki þessari viðamiklu breytingu er langt samtal milli Evrópuríkjanna um að þróa markað fyrir raforku. Markmiðin með markaðsþróuninni er að tryggja hámarksnýtingu framleiðslueininga og lægsta verðið til viðskiptavina. Til að tryggja neytendavernd hefur síðan verið sett strangt regluverk um verðlagningu á raforkuflutningi og -dreifingu auk annars eftirlits með sérleyfisstarfseminni. Þessi breyting hefur reynst ágætlega og þróun raforkumarkaðarins á góðri leið með vaxandi samkeppni.

Raforkulöggjöf Evrópusambandsins hefur verið í stöðugri þróun síðustu áratugi og svonefndur þriðji orkupakki er þar einn hlekkurinn. Í umræðunni hér á Íslandi um þessa nýju viðbætur við löggjöf sambandsins hefur oft gætt misskilnings um að atriði sem fyrir löngu eru komin inn í íslenska löggjöf séu að koma þangað núna í gegnum þriðja orkupakkann. Þá gætir þess einnig að ruglað sé saman atriðum sem byggja beint á samningnum um evrópska efnahagssvæðið og þeim sem snúa að raforkulöggjöf Evrópusambandsins.

Mikilvægt er að umræðan um frekari innleiðingu á raforkulöggjöf Evrópusambandsins byggi á réttum upplýsingum. Einnig er mikilvægt að við Íslendingar gætum hagsmuna okkar með sama hætti og önnur EFTA ríki og ESB ríki hafa kosið að gera, m.a. til að tryggja orkuöryggi almennings.

Ítarefni um þriðja orkupakkann

Umsögn Samorku um þriðja orkupakkann

Atvinnuvegaráðuneytið hefur á heimasíðu sinni tekið saman algengar spurningar um þriðja orkupakkann og svör við þeim.

Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, skrifaði grein í Úlfljót, tímarit lögfræðinema, um áhrif innleiðingar þriðja orkupakkans.

Norski prófessorinn Henrik Björnebye skrifaði greinargerð fyrir Energi Norge um áhrif þriðja orkupakkans á EES löndin Ísland og Noreg. Í samantekt greinargerðarinnar kemur eftirfarandi fram:

  • Grundvallarreglur EES-samningsins um frjálsa för, ríkisaðstoð og samkeppni gilda um orkugeirann jafnt sem aðra geira efnahagskerfisins. Þau ákvæði munu gilda áfram fyrir aðila að EES-samningnum óháð því hvort þriðji orkupakkinn verði hluti af samningnum.
  • Þriðji orkupakkinn byggir á öðrum orkupakkanum sem þegar hefur verið felldur inn í EES-samninginn. Þar af leiðandi er ákvörðun um að innleiða þriðja orkupakkann ekki spurning um að gerast aðili að innri orkumarkaði ESB, heldur frekar spurning um að halda áfram og auka samvinnu sem þegar er komin á.
  • Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að innleiða þriðja orkupakkann felst eingöngu í því að innleiða Evrópulöggjöf frá árinu 2009. Ákvörðun um að innleiða þriðja orkupakkann núna hefur ekki bindandi áhrif á framtíðarvaldheimildir sameiginlegu EES-nefndarinnar frekar en innleiðing annars orkupakkans hafði á mat nefndarinnar á þeim þriðja.
  • Samkvæmt 125. gr. EES-samningsins er hverjum samningsaðila heimilt að setja sér stefnu um að orkuauðlindir séu almannaeign svo framarlega sem stefnan brjóti ekki í bága við grundvallarreglur meginmáls EES-samningsins. Í samræmi við þessa reglu er engin ákvæði að finna í þriðja orkupakkanum sem hafa áhrif á rétt aðildarríkja til að ákveða að orkuauðlindir séu í opinberri eigu.
  • Þriðji orkupakkinn hefur ekki áhrif á ákvarðanir stjórnvalda um millilandatengingar til annarra ESB/EES aðildarríkja umfram það sem núna er tiltekið í EES-samningnum.
  • Þriðji orkupakkann kveður ekki á um hvaða ríkisstofnanir eigi að vera ábyrgar fyrir ákvörðunum um leyfi fyrir millilandatengingum. Nánar tiltekið gerir hann ekki þær kröfur til aðildarríkjanna að þau gefi eftirlitsaðilum vald til þess að taka ákvörðun um leyfisveitingar fyrir millilandatengingar. Þar af leiðandi er það á valdi hvers aðildarríkis að ákveða að það ákvörðunarvald sé á hendi annars opinbers aðila, til dæmis ráðuneytis eða stofnunar.
  • Ljóst er að samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER (og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA í samsvarandi hlutverki samkvæmt EES-samningnum) hefur ekki vald til að taka ákvarðanir um mál sem tengjast mati yfirvalda viðkomandi lands um hvort veita skuli heimild fyrir millilandatengingu.
  • Þriðji orkupakkinn setur eftirlitsaðilum hvers lands engar nýjar takmarkanir á framkvæmd við mat á leyfum fyrir millilandatengingar, fyrir utan þær skuldbindingar sem þegar eru fyrir hendi í EES-samningnum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar lögfræðileg atriði greinargerðarinnar má nálgast hana í heild sinni á ensku hér: Legal analysis third energy market package 080119 .

Birgir Tjörvi Pétursson, lögmaður, vann greinargerð fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um ýmis álitaefni sem tengjast þriðja orkupakka ESB og innleiðingu hans í íslenskan rétt. Hægt er að lesa hana á heimasíðu ANR.

Energi Norge hefur einnig tekið saman fimm mýtur um ACER og orkumarkaðinn og svarað þeim.