4. apríl 2019 Samorka styður frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda Á aðalfundi Samorku þann 6. mars 2019 var eftirfarandi ályktun um fráveitumál samþykkt: Samorka hvetur til þess að ríkið stuðli að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum þar sem þörf er á með því að taka upp endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi. Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans. Á undanförnum áratugum hefur grettistaki verið lyft í að fjölga skólphreinsistöðvum um land allt. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem skólp er hreinsað hjá úr 6% í 68%. Árið 2017 var hlutfallið komið í 77%. Gera má enn betur í fráveitumálum um land allt. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þyrfti ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun um 20 milljarða. Stórar framkvæmdir eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög, sér í lagi þau sem eru lítil og meðalstór og er þar með steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Það ætti því að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts. Á Alþingi hefur verið lagt frumvarp til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt (171. mál). Í frumvarpinu kemur fram að það „felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda“. Þá kemur einnig fram að kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins sé óverulegur þar sem ólíklegt þyki að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Samorka hvetur til þess að frumvarp þetta nái fram að ganga.