Berglind stýrir fyrirtækjamarkaði ON

Berglind Rán Ólafsdóttir hefur tekið til starfa sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaðar Orku náttúrunnar.

Berglind tekur við nýrri einingu í skipuriti ON. Sala raforku og þjónusta við þau fjölmörgu fyrirtæki um land allt sem eru í viðskiptum við ON eru hluti af starfsemi fyrirtækjamarkaðar.

Á verksviði fyrirtækjamarkaðar er einnig viðskiptaþróun tengd auðlindanýtingu ON á háhitasvæðum en fyrirtækið er hið stærsta á því sviði hér á landi.

Við Hellisheiðarvirkjun er í þróun jarðhitagarður þar sem nokkur fyrirtæki eru að hasla sér völl við fjölþætta nýtingu jarðhitans, svo sem til þörungaræktar, vísindastarfs og baða auk hefðbundnari orkunotkunar. Þá er raforkumiðlun á starfssviði Berglindar en sá þáttur í starfi raforkufyrirtækja hefur vaxið að mikilvægi á síðustu árum.

Berglind hefur meira en tíu ára reynslu af viðskiptaþróun á fyrirtækjamörkuðum og kom til ON frá Landsvirkjun þar sem hún hafði starfað frá árinu 2012. Þar áður vann hún að viðskiptaþróun hjá Medis, dótturfélagi Actavis, og Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún vann við vísindarannsóknir.

Berglind er með M.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE í Barcelona.

Útboð – rafmagnsstrengir

Samorka óskar eftir tilboðum í jarðstrengi fyrir neðangreindar dreifiveitur. Útboðsgögnin eru afhent rafrænt. Hafa skal samband í tölvupósti í netfangið baldur@samorka.is, en einnig er hægt að nálgast gögnin á heimasíðu SAMORKU – www.samorka.is.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) (http://ted.europa.eu).

Meginatriði útboðs Samorku á jarðstrengjum

Um er að ræða útboð á eftirfarandi rafmagns jarðstrengjum (Underground Power Cables): 1 kV, 12 kV og 24 kV jarðstrengir fyrir RARIK ohf., HS veitur hf., Norðurorku hf., Orkubú Vestfjarða ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur. Um nánari lýsingu er vísað til útboðsgagna.

Samningstíminn er þrjú ár, þ.e. til ársloka 2021 með möguleika á framlengingu.

Útboðsgögn eru afhent rafrænt frá og með 18. september 2017.

Tilboð verða opnuð þriðjudaginn 24. október, kl. 14:00 á skrifstofu Samorku, Borgartúni 35, 3. hæð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Útboðsgögnin má nálgast hér.

Grettistaki lyft í fráveitumálum síðustu áratugi

Undanfarna áratugi hefur verið lyft grettistaki í fráveitumálum hér á landi. Fyrir 25 árum, árið 1992, voru eingöngu 6% landsmanna tengd skólphreinsistöð en á því næsta verður hlutfallið 84%, miðað við áætlanir.

Upplýsingarnar sem fram koma í úttekt Umhverfisstofnunar um ástand skólphreinsimála og fjallað var um í hádegisfréttum RÚV 11. september 2017 sýna vissulega að betur hefði mátt standa að þessum málum á árunum 2010-2014. En um leið vill Samorka benda á að umrætt tímabil er óheppilegt til sérstakrar úttektar. Þessi ár voru sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og ekki mikið svigrúm til framkvæmda. Stuðningur frá ríkinu, sem samþykkt hafði verið að veita í þessar framkvæmdir, féllu niður og hafa ekki verið settir aftur á. Frá 2014 hafa framkvæmdir farið aftur af stað sem munu breyta skólphreinsimálum til hins betra. Má þar nefna hönnun og útboð nýrrar hreinsistöðvar á Akureyri og framundan eru stórar framkvæmdir í pípunum, sem mun hækka hlutfall landsmanna sem tengdir eru við skólphreinsistöð allverulega.

Á Íslandi gilda ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó og hafa ítarlegar rannsóknir á viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík sýnt að losun hefur hverfandi áhrif á lífríkið.

Fráveitumál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og er verkefninu ekki lokið þó að því miði vel áfram. Til að uppbygging skólphreinsikerfis geti haldið áfram eins og áætlað er, er mikilvægt að lög og reglugerðir fyrir fráveitu verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu.

Samorka tekur undir með Umhverfisstofnun að hreint vatn er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga og fagnar allri umræðu um að bera skuli virðingu fyrir henni. Allir þurfa að ganga vel um fráveitukerfin og muna að klósettið er ekki ruslafata – ýtum ekki undir kostnaðarsamar og óþarfa aðgerðir í skólphreinsun.

Risastyrkir til loftslagsverkefna

Orkuveita Reykjavíkur í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar vísindastofnanir hafa fengið tvo styrki samtals að fjárhæð 12,2 milljóna evra frá Evrópusambandinu til þróa áfram bindingu koltvíoxíðs sem grjót. Fjárhæðin sem samstarfsaðilarnir hljóta til verkefnanna svarar til liðlega eins og hálfs milljarðs króna.

Nýsköpunarverkefnin, sem hófust árið 2007, hafa þegar leitt til verulegs samdráttar í losun jarðhitalofts frá Hellisheiðarvirkjun og framundan er meðal annars að þróa bindingu koltvíoxíðs á sjávarbotni.

Dr. Edda Sif Pind Aradóttir verkefnisstjóri segir styrkina, sem dreifast á fjölda samstarfsaðila, vera mikla viðurkenningu og auka vægi verkefnanna í baráttunni við loftslagsvandann.

Nánar má lesa um verkefnin Gas í grjót á heimasíðu OR.

Þjóðhagslegur ávinningur af rafbílavæðingu greindur

    Frá undirritun samningsins í húsakynnum Samorku í dag. Frá vinstri: Erla Sigríður Gestsdóttir frá ANR, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Brynhildur Davíðsdóttir frá HÍ, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson frá HR, og Jón Björn Skúlason frá Íslenskri NýOrku og Grænu Orkunni. Á myndina vantar Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusetri.

Samorka, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Græna Orkan, Íslensk NýOrka og Orkusetur hafa gengið til samstarfs við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um gerð skýrslu um þjóðhagslegan ávinning af rafbílavæðingu á Íslandi. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Samorku í dag.

Markmiðið með skýrslunni er að fá góða yfirsýn yfir þann margþætta ávinning sem rafbílavæðing í samgöngum hefur fyrir íslenskt samfélag og gera niðurstöðurnar aðgengilegar svo þær nýtist sem flestum í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á þróun orkuskipta í samgöngum á Íslandi.

Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar verði mikilvægt innlegg í umræðu um loftslagsmál á Íslandi og því brýna verkefni að nýta innlenda, umhverfisvæna orkugjafa í samgöngum innanlands.

Vinna við skýrsluna hefst á næstu dögum. Lokaniðurstöðum skal skilað eigi en 15. febrúar og verða þær kynntar í framhaldinu.

Samorka gat komið að fjármögnun skýrslunnar með myndarlegri aðkomu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkusölunnar og Veitna.

Fulltrúar frá aðildarfyrirtækjum Samorku ásamt þeim sem standa að skýrslunni. Á myndina vantar fulltrúa frá ON og Veitum.

Baldur Dýrfjörð til Samorku

Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur, hefur verið ráðinn til Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Baldur starfaði áður hjá Norðurorku hf. sem er veitufyrirtæki í eigu sex sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þar áður starfaði Baldur sem starfsmannastjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sem bæjarlögmaður hjá Akureyrarbæ og lögfræðingur Íslandsbanka.

Baldur hefur, sem fulltrúi Norðurorku hf., starfað í ýmsum nefndum og ráðum hjá Samorku í gegnum tíðina. Hann þekkir því vel til samtakanna, þjónustu þeirra við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar Landsvirkjunar

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar.

Hlutverk jarðvarmadeildar á orkusviði er að annast aflstöðvar Landsvirkjunar á sviði jarðvarma og vindorku þannig að þær skili tilgreindu hlutverki sínu. Deildin ber ábyrgð á rekstri, eftirliti og viðhaldi þessara orkuvirkja og leggur áherslu á öryggi og hagkvæmni, umhverfismál og samstarf við nærsamfélag.

Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar og Orkufjarskipta.

Sylvía er gift Kjartani Björgvinssyni og eiga þau tvö börn.

Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík

Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík.

 

Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári.

Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

 

Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna.

Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Kynbundinn launamunur minnkar enn hjá OR

Jafnlaunagreining hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum leiðir í ljós minnkandi launamun kynja og ber fyrirtækið áfram gullmerki jafnlaunaúttektar PwC vegna ársins 2017. Óútskýrður kynbundinn launamunur mælist nú 1,4%.

Dregið hefur markvisst úr kynbundnum launamun innan OR samsteypunnar síðustu árin eins og sjá má í frétt um málið á heimasíðu OR. Árangurinn náðist meðal annars með samstarfi við Pay Analytics, bandarískt fyrirtæki þar sem dr. Margrét V. Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningum við háskóla í Wisconsin er í forsvari. Smíðað var rafrænt greiningartæki sem gerir stjórnendum kleift að kalla fram á svipstundu áhrif hverrar einstakrar launaákvörðunar á kynbundinn launamun hjá fyrirtækinu í heild.

Sólrún Kristjánsdóttir flutti ítarlega kynningu á þessari vinnu á þingi Samorku vorið 2017 eins og sjá má á meðfylgjandi upptöku.

3 Brúum launabilið – Sólrún Kristjánsdóttir from Samorka on Vimeo.

 

Sólar- og vindorka framtíðin í rafmagnsframleiðslu í heiminum

Næstum helmingur raforkuframleiðslu heimsins mun koma frá sólar- og vindorku árið 2040 skv. árlegri skýrslu Bloomberg um horfur á orkumarkaði, sem kom út á dögunum. Í dag er hlutfallið um 12%.

Til þess að þetta geti gengið eftir þarf að þrefalda fjárfestingu í þróun á vinnslu rafmagns úr endurnýjanlegum orkugjöfum miðað við úr jarðefnaeldsneyti, svo sem úr jarðhita, vatnsafli, sól og vindi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að um 72% af allri fjárfestingu í nýjum orkukerfum um allan heim til ársins 2040 fari í sólar- og vindorkulausnir.

Bloomberg gerir einnig ráð fyrir að árið 2040 fáist rúmlega tvöfalt meiri orka en í dag fyrir hvern dollara sem fjárfest er í sólar- og vindorku og að þessir orkugjafar hafi rutt kolum úr vegi árið 2030. Þá er því spáð að aðeins einn þriðji af þeim kolaorkuverum, sem stefnt er að að byggja í dag, verði að veruleika. Með skýru og góðu regluverki, sérstaklega í evrópsku samhengi, gæti þetta gerst enn fyrr.

Vindorka verður sífellt ódýrari, þökk sé mikilli þróun í tækni og rekstrarumhverfi þeirra og búist er því að framleiðslukostnaður rafmagns úr vindorku verði um 47% lægri árið 2040 en nú. Aflandsvindorka (offshore wind) mun lækka enn meir, eða um að minnsta kosti 70%. Þessi mikli verðmunur skýrist af einnig af tækninýjungum, aukinni samkeppni og meiri framleiðslu miðað við daginn í dag.

Skýrslan staðfestir það sem hefur verið á sjóndeildarhringnum lengi; að endurnýjanleg orka sé ekki lengur óálitlegur kostur, heldur hreinlega nauðsynlegur og arðbær fyrir fjárfesta.

Hægt er að nálgast skýrslu Bloomberg á heimasíðu þeirra.