Berglind stýrir fyrirtækjamarkaði ON

Berglind Rán Ólafsdóttir hefur tekið til starfa sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaðar Orku náttúrunnar.

Berglind tekur við nýrri einingu í skipuriti ON. Sala raforku og þjónusta við þau fjölmörgu fyrirtæki um land allt sem eru í viðskiptum við ON eru hluti af starfsemi fyrirtækjamarkaðar.

Á verksviði fyrirtækjamarkaðar er einnig viðskiptaþróun tengd auðlindanýtingu ON á háhitasvæðum en fyrirtækið er hið stærsta á því sviði hér á landi.

Við Hellisheiðarvirkjun er í þróun jarðhitagarður þar sem nokkur fyrirtæki eru að hasla sér völl við fjölþætta nýtingu jarðhitans, svo sem til þörungaræktar, vísindastarfs og baða auk hefðbundnari orkunotkunar. Þá er raforkumiðlun á starfssviði Berglindar en sá þáttur í starfi raforkufyrirtækja hefur vaxið að mikilvægi á síðustu árum.

Berglind hefur meira en tíu ára reynslu af viðskiptaþróun á fyrirtækjamörkuðum og kom til ON frá Landsvirkjun þar sem hún hafði starfað frá árinu 2012. Þar áður vann hún að viðskiptaþróun hjá Medis, dótturfélagi Actavis, og Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún vann við vísindarannsóknir.

Berglind er með M.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE í Barcelona.