Alþjóðleg umhverfis- og orkuverðlaun afhent á Íslandi

Umsækjendur GDECA 2019 ásamt Paul Voss, frkvstj. Euroheat&Power

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska jarðvarmaklasann, Iceland Geothermal.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

2-300 þátttakendur eru væntanlegir til landsins vegna ráðstefnunnar og verðlaunanna sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica. Á síðasta ári fór verðlauna afhendingin fram í Doha í Qatar en í ár stóð valið milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku fór fyrir umsókn Íslands um verðlaunin í samstarfi við Iceland Geothermal, Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) og Athygli Ráðstefnur.
Hann fagnar því að þessi alþjóðlegur viðburður sé haldinn á Íslandi, sem sé í fararbroddi í nýtingu á endurnýjanlegri orku í heiminum. „Íslenskar hitaveitur eiga stóran þátt í þeim árangri sem Ísland hefur þegar náð í orkuskiptum og því vel við hæfi að halda alþjóðlega ráðstefnu um hitaveitur og loftslagsmál hér á landi.“

Paul Voss, framkvæmdastjóri Euroheat & Power sagði þrennt hafa ráðið vali Íslands fyrir verðlaunin 2019. Í fyrsta lagi vegna forystu Íslands í nýtingu á endurnýjanlegri orku, í öðru lagi vegna mikils áhuga hér á landi fyrir verðlaununum og í þriðja lagi sé töluvert sem fulltrúar annarra þjóða geti lært af Íslendingum.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, segir komu ráðstefnunnar og verðlaunanna enn eina birtingarmynd þeirrar forystu sem Íslendingar hafa tekið í notkun og nýtingu á grænum og endurnýjanlegum orkugjöfum. „Áhugi fyrir Íslandi innan geirans er ótrúlegur, við finnum fyrir því í fyrirspurnum og þegar við sækjumst eftir slíkum viðburðum. Það á að vera metnaðarmál okkar í ferðaþjónustunni, þeirra sem starfa í orkugeiranum og stjórnvalda að fá viðburði eins og þessa til landsins enda um vermæta gesti að ræða sem skilja eftir sig mikilvæga þekkingu og tengsl.“

Raforkuspár og sviðsmyndir um raforkunotkun

Raforkuhópur orkuspárnefndar mun kynna vinnu við gerð raforkuspáa og sviðsmynda um
raforkunotkun miðvikudaginn 23. maí kl. 08:15 – 10:00 á veitingastaðnum Nauthóli.
Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 08:15 – 08:45.

Raforkuspá er mikilvæg forsenda fyrir framkvæmdum í raforkukerfinu og óskar orkuspárnefnd eftir ábendingum og athugasemdum við raforkuspá og sviðsmyndir um raforkunotkun sem geta nýst við frekari þróun þessarar vinnu. Fundurinn er opinn öllum.

Orkuspárnefnd er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaðinum hér á landi auk Hagstofu Íslands og Þjóðskrár. Raforkuhópur orkuspárnefndar vinnur að gerð raforkuspáa sem gefnar eru út á um fimm ára fresti auk þess sem spárnar eru endurreiknaðar árlega út frá nýjum gögnum um orkunotkun og þróun þjóðfélagsins.

750 stelpur kynntu sér tæknistörf og nám

750 stelpur tóku þátt í Stelpur og tækni í dag

Um 750 stelpur úr 9. bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu heimsóttu Háskólann í Reykjavík og fjölmörg tæknifyrirtæki í dag þegar viðburðurinn Stelpur og tækni var haldinn í fimmta sinn og fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Tilgangurinn með Stelpum og tækni er að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Dagurinn er haldinn af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins, SKÝ og LS Retail. Samorka var eitt af þeim fyrirtækjum sem tóku þátt í viðburðinum.

Stelpurnar tóku þátt í fjölbreyttum vinnusmiðjum í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, tæknifyrirtækja og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu, vefhönnun, tónlistarforritun, þrívíddarprentun líffæra og brotaþoli beina.

Eftir að vinnustofunum lauk heimsóttu stelpurnar fjölbreytt tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum gáfu stelpunum innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í ár, ásamt Samorku, voru: LS Retail, Marel, Eimskip, Landsnet, Landsvirkjun, Arion banki, Opin Kerfi, Meniga, Valitor, Orkuveita Reykjavíkur, Össur, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB, Syndis, Tækniskólinn, Myrkur, Advania, Kolibri, Síminn, Wise, Sensa, Microsoft, Nova, Efla, Origo, Tempo, Vodafone.

15. maí verður viðburðurinn haldinn á Akureyri, fyrir stelpur í grunnskóla á Norðurlandi, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og stefnt er að því að gefa stelpum annars staðar á landinu tækifæri til að taka þátt næsta haust.

Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.

Hlutu brautryðjendaverðlaun Women in Geothermal

Frá afhendingu viðurkenningarinnar. F.v. Andy Blair, formaður WING samtakanna, Dr. Bryndís Brandsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Marta Rós Karlsdóttir, sendiherra WING á Íslandi.

Alþjóðlegu samtökin WING (Women in Geothermal) veittu á dögunum Dr. Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðingi og Dr. Árný Erlu Sveinbjörnsdóttur jarðfræðingi og jarðefnafræðingi brautryðjendaverðlaun fyrir framlag þeirra til rannsókna og þróunar á jarðhita á Íslandi sem og innblástur þeirra til kvenna í jarðhita. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar veitti verðlaunin fyrir hönd WING.

Dr. Bryndís Brandsdóttir hefur tekið virkan þátt í að auka þekkingu á skjálftavirkni og uppbyggingu jarðskorpunnar við Ísland í samvinnu við fjölda erlendra háskóla og stofnana. Rannsóknir hennar hafa meðal annars snúið að jarðskjálftum, staðsetningu kvikuhólfa og uppbyggingu jarðskorpu í virkjum eldfjallakerfum.

Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir á langan og farsælan rannsóknarferil að baki. Rannsóknir hennar á samsætum í grunnvatni hafa lagt mikið af mörkum til jarðhitarannsókna, en þær geta sagt til um uppruna og forsögu jarðhitavatns og aukið þannig skilning á samsetningu, hegðun og uppruna jarðhitakerfa.

Er þetta í annað skipti sem WING veitir íslenskum konum viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf í jarðhitarannsóknum en markmið samtakanna er að vekja athygli á möguleikum kvenna til menntunar, starfa og framgangs innan jarðhitageirans ásamt því að auka sýnileika þeirra. Áður hlutu verðlaunin þær Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og Dr. Hrefna Kristmannsdóttir, jarðfræðingur, fyrir sín framlög til nýtingu jarðhita á Íslandi.

Skráning hafin á norrænu vatnsveituráðstefnuna 2018

Norræna vatnsveituráðstefnan 2018 verður haldin 11.-13. júní í Osló, Noregi.

Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni.  Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira.

Skráning á ráðstefnuna er hafin.

Skipað í stjórn Landsvirkjunar í dag

Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru:
Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Úr stjórn fóru Haraldur Flosi Tryggvason, Kristín Vala Ragnarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2017 og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jens Garðar Helgason, Ragnar Óskarsson, Ásta Pálmadóttir, Hákon Hákonarson og Arna Ír Gunnarsdóttir.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár, sem má finna í rafrænni ársskýrslu á landsvirkjun.is:
arsskyrsla2017.landsvirkjun.is

Eiríkur Bogason jarðsunginn á morgun

Ei­rík­ur Boga­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Samorku, lést föstu­dag­inn 23. mars síðastliðinn, 71 árs að aldri. Ei­rík­ur læt­ur eft­ir sig eig­in­konu, Guðbjörgu Ólafs­dótt­ur, og tvö upp­kom­in börn.

Eiríkur verður jarðsunginn fimmtudaginn 5. apríl kl. 13 frá Fossvogskirkju.

Ei­rík­ur fædd­ist í Vest­manna­eyj­um þann 24. janú­ar árið 1947. Hann lauk sveins­prófi í raf­virkj­un 1967 og síðar námi í raf­magns­tækni­fræði frá Árósa­há­skóla í Dan­mörku árið 1984.

Ei­rík­ur starfaði sem veit­u­stjóri Bæj­ar­veitna Vest­manna­eyja á ár­un­um 1985 til 1995 og leiddi þar sam­ein­ingu vatns-, hita- og raf­veitu bæj­ar­ins. Hóf hann síðan störf sem fram­kvæmda­stjóri Samorku við stofn­un sam­tak­anna og starfaði þar uns hann lét af störf­um sök­um veik­inda árið 2013.

Sam­hliða störf­um sín­um gegndi Ei­rík­ur ýms­um fé­lags- og stjórn­un­ar­stöðum og sat í nefnd­um og ráðum á sviði orku­mála og mennt­un­ar í tækni­grein­um.

Börn Ei­ríks eru þau Soffía Ei­ríks­dótt­ir, sér­fræðing­ur hjá Virk starf­send­ur­hæf­ing­ar­sjóði, og Karl Ei­ríks­son, viðskipta­stjóri hjá Sam­skip­um.

Rafbílaeigendur komast hringinn

Hópur við opnun hlöðunnar. Starfsfólk ON, Fosshótels, Skútustaðahrepps og Friðrik rafbíleigandi.

Hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hefur verið tekin í notkun við Mývatn. Þessi nýja viðbót ON í hraðhleðslustöðvum markar tímamót, því nú geta rafbílaeigendur ekið allan hringveginn og treyst því að hvergi séu meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðva.

Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið.

Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON.

Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum.

„Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga.“ sagði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON við þetta tilefni. „Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“

 

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála er stórt, hvort sem litið er til fortíðar eða framtíðar. Um þetta var fjallað á opnum ársfundi Samorku, sem fram fór 6. mars 2018 á Hilton Nordica.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði ársfundinn í upphafi hans.

Ávarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir from Samorka on Vimeo.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri auðlinda HS Orku, skoðuðu hlutverk orku- og veitufyrirtækja í þeim orkuskiptum sem þegar hafa átt sér stað á Íslandi og hverju það hefur skilað í efnahags- og umhverfislegum skilningi. Einnig var litið til framtíðar og skoðað hvaða hlutverk orku- og veitustarfsemi getur leikið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála – Inga Dóra Hrólfsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir from Samorka on Vimeo.

Á fundinum var sameiginleg yfirlýsing orku- og veitufyrirtækja um kolefnishlutlausa starfsemi fyrir árið 2040 afhent þeim Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu. Af því tilefni sagði Guðmundur Ingi nokkur orð og óskaði orku- og veitugeiranum meðal annars til hamingju með þetta markmið.

Ávarp – Guðmundur Ingi Guðbrandsson from Samorka on Vimeo.

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði í erindi sínu um verkefnið sem framundan er fyrir Ísland og heiminn allan í loftslagsmálum og lagði áherslu á að þetta er verkefni okkar allra.

Stóra verkefnið – Sigurður Ingi Friðleifsson from Samorka on Vimeo.

Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State of Green í Danmörku, kynnti samtökin og hvernig Danir hafa markvisst markaðsett grænar lausnir og fleira sem tengst hefur þeirra orkuskiptum og þannig aukið útflutning og verðmæti fyrir orku- og veitugeirann mikið.

State of Green: Nation Branding and Storytelling – Finn Mortensen from Samorka on Vimeo.

Fundinn í heild sinni má sjá hér:

Ársfundur Samorku 2018: Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála from Samorka on Vimeo.

Kolefnishlutlaus orku- og veitustarfsemi fyrir árið 2040

Sameiginleg loftslagsyfirlýsing orku- og veitufyrirtækja afhent ráðherrum á ársfundi Samorku í dag.

Orku- og veitustarfsemi ætlar að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Yfirlýsing þess efnis var afhent Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindamála á ársfundi Samorku í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að orku- og veitufyrirtæki ætli sér að ná þessu markmiði með því að vera leiðandi í minnka kolefnisspor orku- og veitustarfsemi á Íslandi á sjálfbæran hátt, snjöllum og orkusparandi orku- og veituinnviðum til að stuðla að sjálfbæru samfélagi, virku og samkeppnishæfu markaðsumhverfi sem byggir á öruggri afhendingu endurnýjanlegrar orku og miðlun þekkingar til viðskiptavina, almennings og stjórnvalda í góðu samstarfi við hagaðila.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að orku- og veitustarfsemi á Íslandi geri miklar kröfur um gæði, afhendingaröryggi og hagkvæmni og áhersla sé lögð á rannsóknir og nýsköpun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir í þeim tilgangi. Rekstur orku og veitustarfsemi byggi á öguðum vinnubrögðum. Orku- og veitustarfsemi ætli að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum og byggja upp hæfni starfsfólks í þeim efnum.