24. september 2025 Um milljarði úthlutað í jarðhitaleit Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður úr jarðhitaleitarátaki sem opnað var í vor. Markmið átaksins er að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notast við rafmagn eða olíu. Alls bárust 48 umsóknir frá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og aðilum í þeirra umboði. Verkefnin voru fjölbreytt en heildarkostnaður verkefna sem sótt var um nam 6.093 m.kr. og sótt var um 4.082 m.kr. í styrki. Alls hljóta 18 verkefni styrk: 8 verkefni sem snúa að jarðhitarannsóknum 8 verkefni sem tengjast uppsetningu varmadælna 2 verkefni sem miða að uppbyggingu varmageymslna Mögulegur ávinningur af verkefnunum er verulegur. Með frekari borunum, varmadælum og varmageymslum gæti allt að 80 GWh af vetrarraforku losnað á næstu árum. Þá gæti árangur í jarðhitaleit bætt við um 40 GWh. Mat umsókna var í höndum Loftlags- og orkusjóðs í samvinnu við Umhverfis- og orkustofnun. Hér má sjá verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um úthlutunina og forsendur fyrir henni má sjá í skýrslu Umhverfis- og orkustofnunar; Jarðhiti jafnar leikinn.
22. september 2025 Nýsköpunarverðlaun Samorku 2025: Óskað eftir tilnefningum Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi í Hörpu í nóvember. Þetta verður í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent. Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir því að eftirfarandi form sé fyllt út við tilnefningu þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Hægt verður að tilnefna til Nýsköpunarverðlaunanna til og með 12. október. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál. Vinsamlegast fyllið út þetta form: https://forms.office.com/e/WL9FWJA1rm Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Handhafi Nýsköpunarverðlaunanna 2024 var Carbon Recycling International. 2023: Atmonia 2022: Alor 2021: Laki Power
15. september 2025 Orka og innviðir í nýrri skýrslu um varnir og öryggi Vernd innviða, áfallaþol og tryggur aðgangur að orku er meðal áhersluatriða í skýrslu samráðshóps þingmanna um inntak og áherslur stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum sem kynnt var 12. september. Skýrsluhöfundar benda m.a. á mikilvægi grunnviðmiða Atlantshafsbandalagsins um áfallaþol og borgaralegan viðbúnað. Þingmennirnir fjalla um ástand heimsmála, m.a. stríð Rússlands á hendur Úkraínu og komast að þeirri niðurstöðu að „öryggisógnin sé raunveruleg og aðkallandi.“ Í skýrslunni eru skilgreindar helstu öryggisáskoranir Íslands til lengri tíma með áherslu á ytri ógnir af manna völdum. Stefna í varnar- og öryggismálum skal byggjast á stefnu um þjóðaröryggi, sem m.a. á að tryggja vernd mikilvægra innviða samfélagsins. Skýrsluhöfundar leggja fram 14 lykiláherslur, þar á meðal að auka fjárfestingar í innviðum sem nýst geta bæði í varnartengdum og borgaralegum verkefnum og styðja við varnir Íslands, eftirlit og aðgerðir. Þá þurfi að efla áfallaþol íslensks samfélags, almannavarnir og vernd borgara gagnvart hernaðarógnum. Bent er á að nýjar varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins feli í sér auknar kröfur á hendur bandalagsríkjum um bætt áfallaþol, trausta innviði og eigin áætlanir sem styðji áætlanir bandalagsins. Áfallaþol orkuaðgengis er t.d. meðal fyrrnefndra sjö grunnviðmiða Atlantshafsbandalagins um áfallaþol aðildarríkjanna, þ.á.m. Íslands. Vinna og áætlanagerð um aukið áfallaþol á grundvelli þessa grunnviðmiða þarf m.a. að ná til orkuinnviða að mati þingmannanna. Borgaralegt áfallaþol sé í raun fyrsta varnarlína samfélagsins og tryggja þurfi aðgang að orku, fjarskiptum og samgöngum á tímum spennuástands eða átaka eins komist er að orði í skýrslunni. Þingmennirnir benda líka á að varnarmannvirki eins og ratsjár, innviðir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, hafnir og flugvellir séu hernaðarlega mikilvæg á spennutímum og í aðdraganda átaka eða eftir að þau hefjast. Það eigi þó einnig við um aðra mikilvæga innviði s.s. á sviði orkumála og fjarskipta. Geta til að verjast árásum á þessi varnarmannvirki og innviði kunni að hafa úrslitaáhrif á hvort slíkar árásir verði yfirleitt gerðar. Skýrsluhöfundar segja hins vegar að beinar varnir Íslands á þessu sviði séu mjög takmarkaðar. Þá þurfi m.a. að styrkja og samþætta fjar- og rauneftirlit með mikilvægum innviðum. Þingmennirnir í samráðshópnum velta því líka upp hvort ástæða sé til að setja sérstaka öryggislöggjöf sem alla jafna tekur m.a. til verndar mikilvægra innviða. Í framhaldi af skýrslunni leggur samráðshópurinn til að utanríkisráðherra leggi fram stefnu í varnar- og öryggismálum á Alþingi og upplýsi þingið reglulega um framkvæmd hennar. Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/09/12/Inntak-og-aherslur-stefnu-i-varnar-og-oryggismalum
10. september 2025 Útgjöld til orkumála dragast saman um 16% Fjármálaráðherra boðaði aðhald í ríkisrekstri á kynningarfundi sínum á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026. Gert er ráð fyrir að alls renni 0,7% af heildarútgjöldum ríkisins til orkumála, eða 11,6 ma. kr. Það er samdráttur upp á rúm 16% frá fyrra ári og dragast útgjöld til orkumála næstmest saman af öllum málaflokkum. Á þessu eru nokkrar skýringar sem taldar eru upp í fjárlagafrumvarpinu. Þar kemur fram að 225 m.kr. verði færðar af rekstrarframlögum og rekstrartilfærslum á fjármagnstilfærslur hjá Loftslags- og orkusjóði. Þetta eru fjárveitingar sem áður tilheyrðu Loftslagssjóði. Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar: Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 2.500 m.kr. í samræmi við fjármálaáætlun. Um er að ræða styrki til orkuskipta sem tóku við af kerfi skattaívilnana árið 2024. Í upphafi var gert ráð fyrir að til verkefnisins yrði varið 7.500 m.kr. árlega árin 2024 og 2025 en síðan lækkaði upphæðin í 5.000 m.kr. árin 2026 til 2030. Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 150 m.kr. þegar þriggja ára tímabundnu átaki í jarðhitaleit lýkur en áframhaldandi stuðningur er við leit og nýtingu jarðvarma. Framlög til Loftslags- og orkusjóðs lækka um 75 m.kr. þegar tímabundnu átaki vegna grænna fjárfestinga lýkur. Framlög til niðurgreiðslna á húshitun hækka tímabundið um 400 m.kr. til að mæta halla á liðnum.
10. september 2025 Óskað eftir endurgjöf um stefnumótun um húshitun og kælingu Framkvæmdastjórn ESB óskar nú eftir endurgjöf almennings- og hagsmunaðila um stefnumótun í hitun og kælingu eða „Heating and Cooling Strategy.“ Hluti af stefnunni er fyrirhuguð aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar um eflingu jarðvarma innan ESB – „Geothermal Action Plan.“ Framkvæmdastjórnin hefur lagt áherslu á að efla samþættingu orkukerfa til að hrinda orkuskiptum í framkvæmd og auka orkunýtni. Evrópsk hagsmunasamtök og fleiri hafa fagnað aðgerðaáætluninni um jarðvarma sem samin er í framhaldi af niðurstöðu ráðherraráðs ESB og samþykkt Evrópuþingsins. Íslensk fyrirtæki eru í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Samorka fylgist einnig grannt með þessu máli ásamt íslenskum stjórnvöldum. Almenn samráðsgátt ESB um stefnumótunina, þ.á.m. jarðvarmaáætlunina, er opin til 20. nóvember n.k. Hún er kjörið tækifæri til að koma á framfæri ábendingum og upplýsingum sem haft gætu áhrif á stefnu ESB á vinnslustigi svo meiri líkur séu á að hún sé íslenskum orkufyrirtækjum til hagsbóta og efli nýtingu þessarar endurnýjanlegu orku í Evrópu. Sjá hér að neðan hlekk á samráðsgáttina: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy_en
10. september 2025 Umhverfis-, orku- og loftslagsmál fyrirferðarmikil í þingmálaskrá Mál tengd umhverfis-, orku- og loftslagsmálum verða fyrirferðarmikil á komandi þingvetri. Ráðherra málaflokksins hyggst leggja fram 16 frumvörp og 4 þingsályktanir, næst flest mál allra ráðherra. Mörg þessara mála hafa verið lögð fram áður eða kynnt í samráðsgátt. Búast má við einhverjum breytingum á þessum málum frá því þau voru lögð fram á fyrra þingi, en hér má sjá yfirlit yfir nokkur þessara mála: REMIT; frumvarp til breytinga á raforkulögum sem lýtur að hátternisreglum á raforkumarkaði, banni við markaðsmisnotkun og skilgreiningu innherjaupplýsinga svo fátt eitt sé nefnt. Sjá fyrra frumvarp hér. Einföldunarfrumvarp, frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til að einfalda stjórnsýsluferla orkumála og stíga skref í átt að afgreiðslu leyfa á einum stað. Sjá fyrra frumvarp hér Ramminn einfaldaður og skilvirkni bætt, sjá fyrra frumvarp hér Stefna um öflun raforku, lagabreyting á raforkulögum og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun um að leggja eigi fram þingsályktun um stefnu um öflun raforku til næstu 10 ára og taka eigi mið af henni í rammaáætlun, sjá frumvarp í samráðsgátt hér Lög um lofslagsmál, ný heildarlög um skipulag og stjórnsýslu loftslagsmála, sjá frumvarp í samráðsgátt hér Þá boðar ráðherra einnig ný mál og má þar helst nefna: Vindorka, frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem markaður verður rammi um hagnýtingu vindorku. Verkefni og sjálfstæði Raforkueftirlitsins Lög um stjórn vatnamála, skýra á ákvæði laganna m.a. málsmeðferðarreglur um heimild til breytinga á vatnshloti. Ráðherra umhverfis-, orku og loftslagsmála hyggst einnig leggja fram nokkrar þingsályktunartillögur og snúa flestar þeirra að einstökum áföngum rammaáætlunar, en ráðherra hefur boðað eftirfarandi breytingar frá fyrirliggjandi tillögum verkefnisstjórnar: 3. áfangi, Kjalalda og Héraðsvötn fari í bið en ekki í verndarflokk 5. áfangi, Hamarsvirkjun fari í bið en ekki í verndarflokk 5. áfangi, Garpsdalur – vindorka, fari í nýtingu en ekki bið. 9 önnur vindorkuverkefni eru í bið samkvæmt tillögunum. Þá eru ýmis mál sem tengjast orku- og veitumálum sem lúta stjórn annarra ráðuneyta, má þar t.d. nefna: Sveitastjórnarlög, innviðaráðherra mun leggja fram frumvarp um yfirgripsmiklar breytingar á sveitastjórnarlögum sem snerta m.a. aðildarfyrirtæki Samorku í tengslum við atvinnuþátttöku sveitarfélaga. Fasteignamat orkumannvirkja, innviðaráðherra stefnir á að leggja fram í febrúar frumvarp sem miðar að því að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags. Raflínunefnd, frumvarp til breytinga á skipulagslögum frá félags- og húsnæðismálaráðherra. Samorka mun fylgjast grannt með framgangi allra þessara mála og eiga hér eftir sem hingað til virkt samtal við stjórnvöld um nauðsynlega uppbyggingu í orku- og veitumálum.
2. september 2025 Fulltrúar Landsnets heimsóttu skrifstofu Samorku í Brussel Skrifstofa Samorku í Brussel fékk góða gesti frá Landsneti í heimsókn i dag, 2. september. Ragna Árnadóttir forstjóri, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri áttu þá fund með Sveini Helgasyni, verkefnastjóra erlends samstarfs, sem sagði gestunum frá starfi sínu sem fulltrúi Samorku í Brussel. Mikilvægi flutningskerfis raforku í orkuskiptum Evrópu og stefna Evrópusambandsins á því sviði var líka til umræðu. „Það var ánægjulegt að fá þau Rögnu, Einar Snorra og Guðmund Inga í heimsókn hingað á Norrænu orkuskrifstofuna í Brussel þar sem Samorka er með aðstöðu. Mitt markmið er að leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið og liður í því er að taka á móti fulltrúum þeirra,“ sagði Sveinn um heimsóknina. „Fyrir mig er líka mikilvægt að heyra hvaða mál brenna á stjórnendum í íslenska orku- og veitugeiranum. Það nýtist mér m.a. í að fylgjast með þróun löggjafar og regluverks Evrópusambandsins sem er tekin upp í íslenska löggjöf og mótar þannig starfsumhverfi Landsnets og annarra fyrirtækja í þessum geira.“ F.v. Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri. Hraðari uppbygging flutningskerfis raforku í Evrópu er í raun hryggjarstykkið í orkuskiptum álfunnar og eitt af stærstu verkefnunum sem Evrópusambandið og aðildarríki þess standa frammi fyrir. Árangur á því sviði er svo ein meginforsendan fyrir því að ná markmiðum ESB í loftslagsmálum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst í lok ársins senda frá sér margvíslegar tillögur til að efla og styrkja flutningskerfið og tengda innviði undir samheitinu „European Grids Package.“ Samorka er hluti af sterku neti evrópskra hagsmunasamtaka í orku- og veitugeiranum, m.a. í gegnum aðild að ENTSO-E, sambandi flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Landsnet vinnur náið með ENTSO-E á ýmsum sviðum.
2. september 2025 Jón Gunnarsson ráðinn verkefnastjóri greininga Jón Gunnarsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri greininga hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. Jón er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í iðnaðarverkfræði og stjórnun (Industrial Engineering and Management) frá DTU – Technical University of Denmark í Kaupmannahöfn. Jón kemur til Samorku frá Landsvirkjun þar sem hann starfaði í innkaupum. Jón hóf störf þann 1. september og er hann boðinn hjartanlega velkominn á skrifstofuna.
29. ágúst 2025 Opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar en 20. október 2025. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins mánudaginn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Tveir verðlaunaflokkar Veitt verða tvenn verðlaun: Umhverfisfyrirtæki ársins Framtak ársins Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk en einnig er heimilt að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka. Skilyrði og rökstuðningur Dómnefnd velur úr innsendum tilnefningum en til að þær teljist gildar þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og ítarlegur rökstuðningur að fylgja með. Aðeins skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra geta hlotið tilnefningu. Sameiginlegt framtak atvinnulífsins Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa: Samtök atvinnulífsins Samtök iðnaðarins Samorka Samtök ferðaþjónustunnar Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi Samtök verslunar og þjónustu Hér má tilnefna fyrirtæki: Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – Tilnefningar
26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku Atvinnustefna S.144.2025Download