Rafræn gátt einfaldar ferli leyfisveitinga og mat á umhverfisáhrifum

Rafræn gátt myndi einfalda leyfisveitingar framkvæmda og mat á umhverfisáhrifum til að spara tíma, tryggja betra aðgengi gagna og almennings og auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Þetta er niðurstaða skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli. Skýrsluna má finna hér: Málsmeðferð_FRV_20_10_21

Í skýrslunni kemur fram að leyfisveitingaferli sé í dag flókið ferli sem sé bæði tímafrekt og óskilvirkt. Sömu gögn eru ítrekað lögð fram og dæmi eru um að framkvæmd fari 17 sinnum í umsagnarferli og að hver stofnun fjalli 10 sinnum um málið. Niðurstaða skýrslunnar er sú að hér á landi sé mat á umhverfisáhrifum óþarflega flókið miðað við löggjöf í nágrannalöndum. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi væri hægt að einfalda matið verulega, án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila eða ganga gegn Evróputilskipunum.

Það er mat Samorku, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins að tækifæri til einföldunar séu til staðar, tæknin sem þarf er að ryðja sér til rúms og yfirlýstur vilji stjórnvalda er að koma á slíkum umbreytingum. Ávinningurinn er augljós og því hvetja samtökin stjórnvöld til að stuðla að slíkum umbreytingum í takt við breytta tíma og bætta tækni.

Í myndbandinu hér fyrir neðan fer Bryndís Skúladóttir hjá VSÓ ráðgjöf yfir ávinning rafrænnar þjónustu.

Rafræn gátt einfaldar ferli leyfisveitinga from Samorka on Vimeo.

Látum jólin ganga

Látum jólin ganga er jóla-, skemmti-, tónlistar- og viðtalsþáttur í tengslum við átakið Íslenskt – láttu það ganga sem verður í beinni útsendingu í kvöld kl. 19.35 á Stöð 2 og Vísi. Þáttastjórnendurnir Logi Bergmann Eiðsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir verða á stóra sviði Borgarleikhússins og fá til sín fjölmarga gesti.

Markmiðið með þættinum er að stappa stálinu í þjóðarsálina, hvetja landann til að kaupa íslenska framleiðslu, íslenska hönnun, innlendar vörur og þjónustu og þá af innlendum vefverslunum frekar en erlendum keppinautum. Þeir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson verða einnig á vettvangi og gera sitt allra besta til að láta hjól atvinnulífsins snúast. „Við ætlum að vera jákvæð, skemmtileg, í jólaskapi og hvetja hvert annað til að hafa keðjuverkandi áhrif og halda atvinnustarfsemi gangandi, þrátt fyrir ýmis högg á þessu ári. Maður verður nefnilega að vera léttur,” segir Logi.

Þátturinn, sem Skot Productions framleiðir, er styrktur af Samtökum atvinnulífsins og aðildarfélögum sem og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Á Facebook er hægt að nálgast viðburðinn: https://www.facebook.com/events/3436548136414850

Frændur vorir og Fraunhofer

Frændur vorir og Fraunhofer er opinn fundur Landsvirkjunar um raforkukostnað stórnotenda á Íslandi.

Viðskiptagreining landsvirkjunar mun leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

Er það satt að stórnotendum rafmagns bjóðist betri kjör í Noregi en á Íslandi?
Hverjar voru helstu niðurstöður í úttekt þýska rannsóknafyrirtækisins Fraunhofer á raforkukostnaði stórnotenda á Íslandi?
Hverjar eru horfur á norrænum raforkumarkaði, Nord Pool, í bráð og til lengri tíma?

Sérfræðingar viðskiptagreiningar, Dagný Ósk Ragnarsdóttir, Úlfar Linnet og Sveinbjörn Finnsson fjalla um niðurstöður úttektar Fraunhofer og stöðu og horfur á norrænum raforkumarkaði.
Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, stýrir fundinum.

Fundurinn hefst kl. 9 og er streymt á Facebook síðu Landsvirkjunar.

Línurnar lagðar fyrir framtíðina á rafrænum fundi Landsnets

Í dag, miðvikudaginn 9. desember fór rafrænn fundur Landsnets um framtíð flutningskerfisins í loftið á www.landsnet.is/leggjumlinurnar . Þar hafa verið tekin saman fróðleg erindi og umræður um áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð og eftirmála óveðursins sem skall á í desember í fyrra.

Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá Landsneti þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum.

Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í. Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil.

Á heimasíðu fundarins má sjá að auki ýmsa fróðleiksmola um flutningskerfi rafmagns.

Fólk fari sparlega með heitt vatn

Í ljósi þess að næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar. Sú áætlun gengur meðal annars út á að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo öll hafi nægt vatn til húshitunar.
Sé tekið mið af spálíkönum, sem nýta veðurspár til að áætla notkun, er útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi.
Um 90% af hitaveituvatni er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best.

Fólk er hvatt til að gera eftirfarandi:
• Hafa glugga lokaða
• Hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur
• Láta ekki renna í heita potta
• Stilla ofna svo þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan
• Varast að byrgja ofna, t.d. með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum
• Minnka þrýsting á snjóbræðslukerfum
Fleiri hollráð um betri nýtingu heita vatnsins.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir köldu dagar sem við höfum upplifað undanfarið hafa verið í hæglátu veðri. Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.
Mikil aukning á notkun

Kerfi hitaveitunnar er stórt og umfangsmikið og er í sífelldri uppbyggingu sem miðuð er að spám um fólksfjölgun og byggingamagn. Það sem ekki var fyrirséð í langtímaspám var sú aukning sem verið hefur í notkun á hvern íbúa sl. ár. Til samanburðar hefur söguleg aukning i hitaveitunni verið 1,5% – 4% milli ára en heildarnotkunin í ár er 11% meiri en á síðasta ári.

Mikið hefur verið framkvæmt í hitaveitunni undanfarin ár til að mæta aukinni eftirspurn, m.a. hefur varmastöð í Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, verið stækkuð, dælugeta kerfisins aukin og borholur á lághitasvæðum verið hvíldar yfir sumartímann til að auka aðgengilegan forða yfir vetrartímann.

Til að bregðast við kuldakastinu sem nú er í kortunum eru Veitur að hækka hitastig vatnsins sem notendur fá frá virkjunum og borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ, kerfið hefur verið fínstillt svo það anni sem allra mestu og unnið er að lagfæringum á nýjum dælum er keyptar voru í haust og auka áttu dælugetu kerfisins. Kallaðir hafa verið til erlendir sérfræðingar til verksins.

Heita vatnið er sameiginleg auðlind okkar allra og með samstilltu átaki viðskiptavina má minnka notkun þannig að hitaveitan standist álagið sem kuldakastið veldur.

 

Veitur snjallmæla mælakerfi raf-, hita- og vatnsveitu

Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland.

Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur:

• Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn.
• Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt.
• Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði.
• Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti.

Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.

Stöðugur rekstur OR

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið stöðugur fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2020, fyrirtækið er vel í stakk búið til að flýta og auka þannig við fjárfestingar til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs á íslenskt efnahagslíf. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 11,2 milljörðum króna en var 11,1 milljarður á sama tímabili í fyrra og framlegð rekstursins var 20,8 milljarðar eða 800 milljónum króna meiri en í uppgjöri eftir þriðja ársfjórðung 2019.

Árshlutareikningur fyrstu níu mánaða ársins var samþykktur á fundi stjórnar OR í dag. Reikningurinn er uppgjör allrar samstæðunnar, sem auk móðurfélagsins telur Veitur, Orku náttúrunnar, Gagnaveitu Reykjavíkur og Carbfix.

Miklar fjárfestingar – sterk sjóðstaða
Í takti við uppbyggingu á helstu þjónustusvæðum fyrirtækisins og ákvörðun um viðspyrnufjárfestingar vegna kórónuveirunnar, voru fjárfestingar með mesta móti á fyrstu þremur fjórðungum ársins og námu 11,4 milljörðum króna. Helstu fjárfestingar tímabilsins tengjast uppbyggingu og viðhaldi veitukerfanna – vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu – fjárfestingu í nýjum borholum á Hengilssvæðinu ásamt tengingu heimila í Árborg og Reykjanesbæ við ljósleiðara. Þá er mikill kraftur í viðskiptaþróun Carbfix.

Sjá má fleiri lykiltölur fjármála á vef OR.

Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið!

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Í dag, 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins, World Toilet Day. Honum er ætlað að vekja athygli á og vinna að sjálfbærnimarkmiði númer 6 hjá Sameinuðu þjóðunum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða.  Í ár er þema dagsins „Sjálfbært hreinlæti og loftslagsbreytingar“.

Á Íslandi er gott aðgengi að klósetti. Hins vegar er úrgangur í fráveitu vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári. Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Hér má sjá lag með þessum einföldu skilaboðum:

Kynningarefni ásamt nánari upplýsingum um verkefnið má finna á heimasíðunni klosettvinir.is.

Nýr upplýsingavefur um rafbíla

Stöðug fjölgun rafbíla kallar á ýmsar áskoranir, s.s. varðandi drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, ekki síst í fjölbýli. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HSM, hefur opnað nýjan upplýsingavef um rafbíla og hleðslu þeirra.

Á síðunni má finna yfirgripsmiklan fróðleik um drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, sér í lagi í fjölbýli og hægt er að horfa á fræðslumyndbönd um hleðsluaðferðir, hleðslutíma, drægni, aflþörf, hleðslu í nýjum og eldri byggingum, leyfismál, kröfur og öryggismál.

 

Kallað eftir erindum á NORDIWA 2021

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2021, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Gautaborg í Svíþjóð dagana 28. – 30. september 2021.

Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 28. janúar 2021. Nánari upplýsingar um helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar og hvernig eigi að senda inn tillögu að erindi eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál að senda inn erindi.