Orku- og veitumál í brennidepli á árinu

Upplýsingafulltrúi Samorku skrifar:

Orku- og veitumál eru mikilvægur málaflokkur sem kemur við sögu í daglegu lífi landsmanna á hverjum einasta degi. Öflugt starfsfólk vinnur að því hörðum að færa heimilum og fyrirtækjum heitt og kalt vatn, rafmagn og góða fráveituþjónustu.

Stundum erum við þó minnt á að það dugir ekki alltaf til. Á árinu höfum við dæmi um bæði raforkuskort og skort á heitu vatni, sem hefur áhrif á fólk og fyrirtæki. En hvað veldur?

Gott aðgengi að orku er ekki sjálfgefið. Orkumál eru flókinn málaflokkur sem krefst þess að horft sé til lengri tíma, jafnvel áratuga fram í tímann. Langan tíma tekur að rannsaka, þróa og byggja nýja orkukosti. Ef við ætlum okkur eitthvað eftir 10-20 ár, þurfa stjórnvöld að veita tilskilin leyfi til þess með löngum og nægum fyrirvara.

Orkuöryggi og orkusjálfstæði hefur einnig fengið meira vægi eftir að hörmulegt stríð braust út í Úkraínu á árinu og áhrif þess birtast meðal annars í mikilli orkukrísu um alla Evrópu. Þó við séum að mörgu leyti í forréttindastöðu á Íslandi því við framleiðum sjálf langstærstan hluta þeirrar orku sem samfélagið þarf, þá eru allar samgöngur háðar innfluttri olíu og óljóst er um framboð af rafmagni, heitu vatni og rafeldsneyti í náinni framtíð.

Eins og laga- og regluverkið hefur þróast síðustu ár hefur það því miður ekki stuðlað að orkuöryggi í landinu til framtíðar litið. Rammaáætlun, með bæði nýjum raforkukostum og háhitasvæðum til hitaveitunýtingar, var loks afgreidd á árinu eftir að hafa velkst um í kerfinu í næstum því áratug, sem er alltof langur tími að bíða niðurstöðu um nýtingu eða vernd.

Á meðan fjölgar íbúum í landinu og atvinnulífið vex og blómstrar. Samkvæmt nýjum upplýsingavef Samorku, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar og EFLU, orkuskipti.is, sem opnaði á árinu, er 60% allrar orku sem notuð er á Íslandi heitt vatn sem nýtt er til húshitunar, baðlóna og annarrar neyslu. Samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060 mun eftirspurn atvinnulífsins eftir jarðvarma aukast mikið. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. En eins og kom í ljós nú undir lok ársins eru hitaveiturnar þegar margar hverjar í vandræðum með að anna núverandi eftirspurn þrátt fyrir að hafa unnið að aukinni heitavatnsöflun árum saman. Regluverkið um háhitasvæðin hefur tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum og auka þarf stuðning við jarðhitaleit á köldum svæðum.

Sviðsmyndir hvað varðar orkuþörf fyrir samfélagið voru kynntar í byrjun mars í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lét vinna með tilliti til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir og upplýsingar á grundvelli faglegra sjónarmiða. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á það sem nemur rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.  

Að stjórnvöld setji metnaðarfull markmið í loftslagsmálum er eðlilegt í landi þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun er það hæsta í heimi. En það er samt sem áður stórt verkefni að að hætta að nota þau milljón tonn af jarðefnaeldsneyti sem við flytjum inn á hverju ári fyrir árið 2040 og uppfylla orkuþörfina með öðrum umhverfisvænni orkugjöfum. Til viðbótar þarf auðvitað að sinna almennri orkuþörf heimila og atvinnulífs. Ávinningurinn getur hins vegar verið mjög mikill. Samkvæmt nýrri greiningu EFLU á orkuskipti.is getur fjárhagslegur ávinningur orðið 1.400 milljarðar til ársins 2060 og orkusjálfstæði landsins væri tryggt.

En hvaðan orkan að koma sem á að skipta bensíni og olíu út? Sú nauðsynlega umræða er auðvitað þegar hafin, sem er jákvætt og mikilvægt er að fá sem flesta að borðinu. Flestir virðast sammála um að jarðefnaeldsneytislaust Ísland sé markmið sem er þess virði að vinna að þó að skiptar skoðanir séu um réttu leiðina að því.

Á árinu var vindorka rædd mikið enda hafa komið fram margar hugmyndir hér á landi um vindorkukosti til nýtingar og fyrstu vindlundirnir voru afgreiddir úr rammaáætlun. Að mati Samorku er vindorka eðlileg viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Hingað til hefur skort á fullnægjandi lagaumgjörð um vindorkunýtingu, en von er á tillögu frá stjórnvöldum snemma á næsta ári. Samorka hefur talað fyrir því að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. 

Þá verður þess vonandi ekki langt að bíða að rafeldsneytisframleiðsla ryðji sér til rúms hér á landi enda verður það nauðsynlegur orkugjafi eftir því sem orkuskiptum fleygir fram, þá fyrir stærri farartæki svo sem skip og flugvélar. Ísland er í einstakri stöðu til að framleiða grænt rafeldsneyti til eigin þarfa og ná þannig markmiðum um full orkuskipti með tilheyrandi verðmæta- og þekkingarsköpun.   

Rétt er að hafa í huga að græna orkan getur ekki skilað sér þangað sem hennar er þörf nema að öflugs flutnings- og dreifikerfis njóti við. Samorka hefur árum saman bent á að nauðsynlegt sé að styrkja uppbyggingu og viðhald þess svo orkuskiptin gangi vel fyrir sig og fjölbreytt atvinnuuppbygging geti blómstrað um allt land.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu hafa það hlutverk að sinna þörfum landsmanna um rafmagn, heitt og kalt vatn og fráveitu. Framundan eru spennandi verkefni í þessum málaflokkum. Við hvetjum alla til að kynna sér orku- og veitugeirann sem framtíðarstarfsvettvang. Nýjar niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks hjá 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins sýna að mikil starfsánægja, hátt menntunarstig og þekking einkenna geirann, en 90% starfsfólks er ánægt með starfið sitt sem er hærra en þekkist á almennum vinnumarkaði og 40% hefur unnið í 11 ár eða lengur. Þetta sýnir að það er vel þess virði að slást í hópinn!

Samorka óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við hlökkum til að eiga áfram líflegt samtal um orku- og veitumál árið 2023.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. janúar 2023.