Litið um öxl um áramót

Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar:

Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því.

Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.

Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel.

Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar.

Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna.

Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika.

Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.