29. september 2021 Nýir umræðuþættir um orkuskipti Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta. Á þriðjudögum og fimmtudögum verður boðið upp á fróðlega umræðuþætti þvert á atvinnugreinar. Þættirnir eru sýndir í þriðjudaga og fimmtudaga frá 10:00 – 10:30 í Sjónvarpi atvinnulífsins á netinu og Facebook live. Samorka ríður á vaðið í fyrsta þætti á morgun þar sem Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi, fær til sín Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóra kerfisstýringar hjá Rarik. Þau ræða vítt og breitt um orkuskipti og það hvernig landinn hleður. Hægt er að horfa á þáttinn hér fyrir neðan. Einnig er hægt að sjá aðra þætti og fá áminningu í dagbók með því að skrá áhorf hér: https://sa.is/frettatengt/vidburdir/umhverfismanudur-atvinnulifsins-2021-dagskra Umhverfismánuður: Hvernig hleður landinn? from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.
24. ágúst 2021 Tölum saman um græna framtíð Áherslur Samorku fyrir alþingiskosningar 2021 from Samorka on Vimeo. Orku- og veituþjónusta er sú grunnþjónusta sem allt samfélagið byggir á og er undirstaða lífsgæða í landinu. Skilvirkur orku- og veitugeiri er einnig forsenda þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og til að nýta þau sóknarfæri sem gefast nú þegar eftirspurn eftir grænum lausnum eykst um allan heim. Samorka vildi því kynna helstu tækifæri og viðfangsefni sem blasa við í þessum málaflokki í aðdraganda alþingiskosninga. Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, kynnti helstu tækifæri og viðfangsefni sem blasa við í orku- og veitumálum í aðdraganda alþingiskosninga í beinni útsendingu á Facebook og heimasíðu Samorku. Áherslurnar er einnig að finna á nýrri vefsíðu Samorku. Hér má nálgast áherslurnar á pdf formi: Samorka-Kosningaaherslur21 Fundinn í heild sinni má sjá hér:
12. ágúst 2021 Carbfix og ON fá 600 milljóna loftslagsstyrk Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. Carbfix og Orka náttúrunnar, dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, hafa hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (Innovation Fund) í verkefnið Silfurberg. Styrkurinn er einn sá hæsti sem veittur hefur verið til loftslagsverkefnis hér á landi og nemur um 3,9 milljónum evra, sem svara til tæplega 600 milljóna króna. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni er styrkt af sjóðnum. Markmið Silfurbergs-verkefnisins er að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar sem síðan verður dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. Þar með mun Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma. Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir. Tæknin krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif. Tæknin felur í sér að leysa koldíoxíð í vatni og dæla niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Einnig er hægt að beita aðferðinni fyrir aðrar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, en það hefur einnig verið fangað frá virkjuninni og dælt niður frá árinu 2014.
9. ágúst 2021 Samorkuþingi frestað Samorkuþingi, sem fram átti að fara í lok september á Akureyri, hefur verið frestað til maí 2022. Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast undir samfélagslega mikilvæga innviði og frá upphafi faraldurs hefur heilsa og öryggi starfsfólks sett í forgang. Starfsfólkið sinnir mikilvægri grunnþjónustu, rafmagni, hitaveitu, fráveitu og vatnsveitu, sem samfélagið allt reiðir sig á. Nú er ljóst að ekki verður hægt að safna fólki saman á þennan fjölmennasta viðburð í orku- og veitugeiranum og stefna þannig heilsu allra og grunnþjónustu samfélagsins í hættu. Allar nánari upplýsingar um nýjar dagsetningar verða sendar út þegar þær liggja fyrir.
19. júlí 2021 Sumarlokun Samorku Skrifstofa Samorku lokar í tvær vikur vegna sumarlokunar Húss atvinnulífsins frá 19. júlí – 2. ágúst. Starfsfólk Samorku er í sumarfríi á meðan en ef nauðsynlega þarf að ná í okkur má hringja í farsíma. Skrifstofan opnar aftur þriðjudaginn 3. ágúst. Gleðilegt sumar!
2. júlí 2021 Skráning hafin á Samorkuþing Samorkuþing 2021 verður haldið dagana 30. september – 1. október í Hofi á Akureyri. Nú skal haldið upp á 25 ára afmælisþing samtakanna sem fór á frest árið 2020 – og er ætlunin enn að gera Samorkuþingið hið allra öflugasta hingað til. Boðið verður uppá fjölbreytta dagskrá með metnaðarfullum erindum og vinnustofum þar sem fjallað verður um alla þætti starfsemi aðildarfyrirtækja Samorku: Hitaveitur, vatnsveitur, fráveitur, framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku – frá mörgum hliðum – allt frá auðlindum, framkvæmdum, stoðstarfsemi og til samskipta við viðskiptavini. Einnig verður glæsileg vöru- og þjónustusýning helstu samstarfsaðila orku- og veitugeirans. Að venju verður hátíðarkvöldverður ásamt skemmtun og maka- og gestaferð, auk þess sem boðið verður upp á netagerð fyrir nýliða og ungt fólk í geiranum. Allar nánari upplýsingar um þingið og skráningarform má finna hér.
29. júní 2021 Finnur Beck ráðinn til Samorku Finnur Beck, lögfræðingur, hefur verið ráðinn forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. Finnur starfaði sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins. Finnur var áður meðal annars héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu við HR í Alþjóðlegum og evrópskum orkurétti og Fjármunarétti. Í starfi sínu hjá HS Orku var Finnur fulltrúi félagsins í ýmsum nefndum og ráðum hjá Samorku. Hann þekkir því vel til samtakanna, þjónustu þeirra við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja. „Orku- og veitugeirinn er ein af grunnstoðum íslensks samfélags og framundan eru stór verkefni sem tengjast nýútkominni orkustefnu, orkuskiptum og loftslagsmálum meðal annars. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með öflugu teymi hjá Samorku“, segir Finnur. Finnur hefur þegar hafið störf.
28. júní 2021 Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna 2021 Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu. Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á sa@sa.is merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti: Umhverfisfyrirtæki ársins • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel • Innra umhverfi er öruggt • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið Framtak ársins • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif *Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins. Dagskrá verður birt er nær dregur. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu. Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta: Umhverfisframtak ársins 2020: Netpartar from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.