Gróska í nýtingu birtuorku á Íslandi

Sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hér á landi eru áhugasöm um að nýta birtuorku (sólarorku) til eigin nota. Tæknin verður sífellt hagkvæmari og með betri rafhlöðutækni og meiri álagsstýringu fer birtuorka að verða raunhæfari kostur.

Um allan heim er gríðarleg gróska í þessum geira og birtuorka er sístækkandi hluti af raforkuframleiðslu í fjölmörgum löndum. Á opnum tæknifundi Samorku í morgun var rætt um möguleika til nýtingar á sólarorku í raforkukerfi Íslands.

Á fundinum tóku til máls þeir Bergur Haukdal, framkvæmdastjóri Netbergs, sem sagði frá þróun í smærri sólarorkuframleiðslu hér á landi. Hann talaði um vaxandi áhuga, til dæmis meðal bænda, til að setja upp sólarsellur en það þyrfti að bæta regluverkið hvað varðar að mata orkuna inn á kerfið. Þá talaði Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, meðal annars um hönnun birtuorkukerfa og rafhlöðutækni með hleðslustöðvum sem hafa gefið góða raun. Að lokum fór Kjartan Rolf Árnason, þróunarstjóri RARIK, yfir áskoranir dreifiveitna og tækifærin þegar kemur að birtuorku, en þar þarf að horfa til ýmissa tæknilegra þátta til að nýta þetta sem best.

Upptaka af fundinum:

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 6. september 2024. Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fer fram 22. október.

Nánar um forsendur dómnefndar:

Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum en til að tilnefning teljist gild þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og rökstuðningur þarf að fylgja.

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hverjum flokki en einnig er hægt að tilnefna fyrirtæki fyrir báða flokka.

Athugið að einungis er hægt að tilnefna skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hægt er að tilnefna fyrirtæki hér.

Landsvirkjun var umhverfisfyrirtæki ársins 2023

Vindorka til umræðu í Kastljósi

Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru gestir Kastljóss mánudaginn 19. ágúst. Til umræðu var vindorkunýting á Íslandi, lagaumgjörð hennar, áhrif á ferðaþjónustu, skipting tekna af orkuvinnslunni og fleira.

Skjáskot úr þætti Kastljóss mánudaginn 19. ágúst.

Í máli Finns kom meðal annars fram að Búrfellslundur væri dæmi um hvernig rammaáætlun hafi ekki tekist að ná sátt um orkuverkefni eins og upphaflega var lagt upp með, hann fer í gegnum 12 ára feril, ítarlegar rannsóknir á mörgum mismunandi sviðum en samt sem áður er ekki nægileg sátt.

Finnur sagði einnig að rammaáætlun væri ekki að þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar, því orkuverkefni taka þar svo langan tíma að útilokað er að við náum loftslagsmarkmiðum.

Þáttinn í heild sinni má sjá hér.

Skrifstofa Samorku í sumarfrí

Skrifstofu Samorku verður lokað dagana 22. júlí – 6. ágúst vegna sumarleyfa.

Búast má við að einhver töf verði á því að tölvupóstum verði svarað á þessu tímabili. Ef mikið liggur við er hægt að ná í starfsfólk í síma.

Njótið sumarsins og við bjóðum ykkur öll velkomin til okkar í Hús atvinnulífsins eftir verslunarmannahelgi.

Þrír nýir hlaðvarpsþættir um jarðhræringarnar

Í nýjustu þáttum af Lífæðum landsins er fjallað um undirbúning, viðbragð, lausnir og eftirmála jarðhræringa á Reykjanesi fyrir orku- og veitufyrirtækin og starfsfólk þeirra.

Í fyrsta þættinum, Þegar verstu sviðsmyndir raungerast, ræða þeir Guðmundur Helgi Albertsson verkstjóri á rafmagnssviði á Suðurnesjum, Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets og Jóhannes Steinar Kristjánsson umsjónarmaður viðhalds hjá HS Orku um hvernig góður undirbúningur fyrir jarðhræringar skipti sköpum þegar eldgos á Reykjanesskaga hófust. Enginn hafi þó átt von á því að verstu sviðsmyndirnar myndu raungerast.

Í öðrum þætti, Hamfarir fyrir fólk og fyrirtæki, ræðir Petra Lind Einarsdóttir mannauðsstjóri um mannlegu áhrif jarðhræringanna á starfsfólk HS Orku, sem þurfti að yfirgefa vinnustaðinn og mörg hver heimili sín líka, og einnig áhrifin á daglegan rekstur fyrirtækisins.

Í þriðja þættinum, Upplýsingamiðlun þegar mikið liggur við, eru viðmælendurnir Birna Lárusdóttir hjá HS Orku, Sigrún Inga Ævarsdóttir hjá HS Veitum og Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti, en þær eru allar upplýsingafulltrúar. Þær segja frá mikilvægi góðra og ábyrgra samskipta þegar fyrirtæki glíma við krísur eins og í tilfelli jarðhræringa þar sem mikið er undir.

Hér eru allir þættir af Lífæðum landsins aðgengilegir.

Jarðhræringar I: Þegar verstu sviðsmyndir raungerast

Góður undirbúningur fyrir jarðhræringar skipti sköpum þegar eldgos á Reykjanesskaga hófust. Enginn átti þó von á að verstu sviðsmyndirnar myndu raungerast.

Í þættinum er farið yfir þá miklu vinnu sem farið hefur í undirbúning, viðbragð og lausnir til að verja mikilvæga orku- og veituinnviði á fyrsta eldgosatímabili í þúsundir ára.

Viðmælendur eru þeir Guðmundur Helgi Albertsson verkstjóri á rafmagnssviði á Suðurnesjum, Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets og Jóhannes Steinar Kristjánsson umsjónarmaður viðhalds hjá HS Orku.

Jarðhræringar II: Hamfarir fyrir fólk og fyrirtæki

Jarðhræringar á Reykjanesi hafa reynt gríðarlega á orku- og veituinnviði þjóðarinnar, en hafa ekki síður reynt á fólkið sem staðið hefur í ströngu við að halda þeim gangandi.

Petra Lind Einarsdóttir mannauðsstjóri HS Orku er gestur þáttarins og ræðir hún við Lovísu Árnadóttur um mannleg áhrif hamfaranna á starfsfólkið og á daglegan rekstur fyrirtækisins.

Jarðhræringar III: Upplýsingamiðlun þegar mikið liggur við

Þegar fyrirtæki glíma við krísur er mikilvægt að réttar og ábyrgar upplýsingar komist hratt og vel til hagaðila, fjölmiðla og almennings. Það getur verið krefjandi í mikilli óvissu og undir miklu álagi eins og í jarðhræringunum á Reykjanesi og hvað þá þegar allir eru orðnir sín eigin fréttastofa með snjallsíma í vasanum.

Upplýsingafulltrúarnir Birna Lárusdóttir hjá HS Orku, Sigrún Inga Ævarsdóttir hjá HS Veitum og Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti, fara yfir mikilvægi góðra samskipta í þættinum og reynslu sína af að miðla upplýsingum til réttra aðila þegar mikið liggur við.

Myndböndin sem vísað er til í þættinum má sjá á Vimeo síðu Samorku.

Verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu

Samorka leitar að metnaðarfullum og kraftmiklum verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu

Viltu taka þátt í móta rekstrarumhverfi orku- og veitustarfsemi á Íslandi og stuðla þannig að grænu Íslandi til framtíðar?

Samorka óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu. Um er að ræða spennandi starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða stefnumótun, innleiðingu stefnu og hagsmunagæslu samtakanna á sviði orku- og veitumálefna. Viðkomandi mun taka þátt í mótun starfsumhverfis orku- og veitugeirans og eiga í miklum samskiptum við kröftug aðildarfélög, stjórnvöld og haghafa samtakanna.

Helstu verkefni:

  • Samstarf og samskipti við opinberar stofnanir, önnur samtök og haghafa varðandi áherslur Samorku í orku- og veitutengdum málefnum.
  • Þátttaka í norrænu og evrópsku samstarfi á sviði orku- og veitumálefna og miðlun efnis til aðildarfélaga.
  • Umsjón með stefnumótun, innleiðingu stefnu og eftirfylgni með verkefnum.
  • Þátttaka í gerð kynningarefnis og kynningar á stefnu og áherslum Samorku.
  • Umsjón með tilteknum fag- og málefnahópum sem starfa á vettvangi samtakanna.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á sviði lög-, hag- eða stjórnmálafræði eða önnur háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Þekking, reynsla og innsýn í starfsemi rekstrar- og lagaumhverfi orku- og veitugeirans er kostur.
  • Reynsla af starfi hjá hagsmunasamtökum, stjórnsýslu eða sambærilegum störfum er kostur.
  • Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð.
  • Færni og lipurð í mannlegum samskiptum.
  • Mjög góð hæfni í textagerð og reynsla af miðlun upplýsinga.
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku.

Um Samorku:

Hjá Samorku starfar metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins.

Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.

Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin.

Umsóknarfrestur er til og með 22. júlí 2024. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.Nánari upplýsingar um starfið veita Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is) og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku (finnur@samorka.is). Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið.

Ný tækifæri til orkuöflunar

Er eitthvað vit í að nýta sólarorku á Íslandi?
Hvað er vindorka á smærri skala?
Munu heimili og fyrirtæki í framtíðinni hafa eitthvað hlutverk í nýrri orkuöflun?

Þetta eru nokkrar spurningar sem starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrra tókst á við í nýrri skýrslu sem út kom fyrr á árinu. Í þessum þætti Lífæða landsins eru niðurstöður skýrslunnar ræddar við Ásmund Friðriksson þingmann og Gunnlaugu Helgu Ásgeirsdóttur Msc. í sjálfbærum orkuvísindum, en þau sátu bæði í starfshópnum.

Þáttastjórnendur eru Finnur Beck og Lovísa Árnadóttir.

Skýrsluna má lesa á heimasíðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.