Opnað fyrir umsóknir í Vísinda- og frumkvöðlasjóð Orkuveitunnar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í VOR – Vísinda- og frumkvöðlasjóð Orkuveitunnar fyrir árið 2024.

Sjóðurinn leggur að þessu sinni áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð sem er aðal stefnumarkmið Orkuveitunnar. Sérstaklega er stefnt að því að styrkja verkefni sem styðja aukna orkuframleiðslu, ábyrga auðlindanýtingu, öflug veitukerfi, kolefnishlutleysi og virðisaukandi lausnir. Í boði er að sækja um styrki fyrir lokaverkefni í tæknifræði-, meistara- og doktorsnámi en einnig fyrir frumkvöðla-, nýsköpunar- og rannsóknarverkefni einstaklinga eða fyrirtækja🧬🧪

Hægt er að sækja um hér til og með 21. janúar 2025.

Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við vor@or.is.

CRI hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024

Carbon Recycling International, eða CRI, hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin á opnum fundi Samorku í dag.  Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi CRI úr hópi átta tilnefninga til verðlaunanna.

Kristjana M. Kristjánsdóttir hjá CRI tekur við verðlaununum úr höndum ráðherra.

CRI hefur verið leiðandi í nýsköpun á orkusviði frá árinu 2006 með þróun nýrrar tækni, Emissions-to-Liquids (ETL), sem breytir koltvísýringi úr iðnaði og vetni í raf-metanól. Þetta eldsneyti er sérstaklega mikilvægt fyrir orkuskipti í skipum og flugvélum, þar sem ekki er hægt að nýta rafmagn með beinum hætti, og minnar þannig losun gróðurhúsalofttegunda. CRI var fyrsta fyrirtækið í heimi til að selja rafeldsneyti með sjálfbærnivottun og fyrsta fyrirtækið til að framleiða og afhenda rafmetanól til notkunar sem skipaeldsneyti árið 2021.

CRI hefur þegar sannað gildi tækni sinnar á alþjóðavísu í verksmiðjum samstarfsaðila, þar sem endurvinnsla CO₂ nemur nú um 310,000 tonnum árlega, sem mun aukast í 565,000 tonn með nýjustu verksmiðjunni, sem er hluti af stærsta rafeldsneytisverkefni á heimsvísu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Með því að bjóða lausnir sem stuðla að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, er CRI leiðandi í að umbreyta áskorunum samtímans í verðmætasköpun. Fyrirtækið er verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2024 fyrir framúrskarandi árangur í nýtingu auðlinda og stuðning við sjálfbærni í orku- og veitugeiranum.“

Frá vinstri: Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ómar Sigurbjörnsson, Kristjana M. Kristjánsdóttir og Gunndís Eva Reykdal Baldursdóttir frá CRI og Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku.

Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs CRI: „Við erum ákaflega stolt og glöð yfir því að hafa hlotið Nýsköpunarverðlaun Samorku í ár. Verðlaunin eru ekki aðeins viðurkenning fyrir CRI heldur veita þau vonandi innblástur fyrir önnur fyrirtæki og einstaklinga til að leggja í nýsköpun og þróa lausnir sem skipta máli, bæði heima og erlendis.”

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku: „Öflug nýsköpun er lykilatriði í þeim áskorunum og verkefnum sem blasa við okkur og heiminum öllum þegar skipta á út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Án nýsköpunar munu markmið um orkuskipti og aukna sjálfbærni ekki nást. Þá er einnig mikilvægt að fólk mennti sig til starfa í orku- og veitustarfsemi og hæft, hugvitssamt fólk sjái orku- og veitugeirann sem spennandi starfsvettvang.“

Með Nýsköpunarverðlaununum vill Samorka vekja athygli á íslensku hugviti og framúrskarandi starfi sem unnið er í orku- og veitutengdri starfsemi hér á landi sem getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Nýsköpunarverðlaun Samorku: Bein útsending

Nýsköpunarverðlaun Samorku verða afhent í fjórða sinn á opnum fundi í Grósku fimmtudaginn 12. desember kl. 15.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhendir Nýsköpunarverðlaunin.

Á fundinum að þessu sinni verður sjónum beint að þeim tækifærum sem liggja úti í hinum stóra heimi fyrir sérþekkingu íslenskra fyrirtækja á sviði orku- og veitumála.

Dagskrá:

Tækifæri í orkugeira í umbreytingu – Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun
Jarðhitinn og íslenskt hugvit – Kristín Vala Matthíasdóttir, CTO hjá Baseload Capital
Mikilvægi samstarfs í nýsköpun – Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans

Nýsköpunarverðlaun afhent – Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Opnað fyrir sölu bása á Samorkuþingi 2025

Samorkuþing verður haldið í Hofi á Akureyri dagana 22. – 23. maí 2025. Fyrirtækjum gefst kostur á að taka þátt í vöru- og þjónustusýningu þingsins á þar til gerðu sýningarsvæði.

Samorkuþing er fagráðstefna sem haldin er á þriggja ára fresti á Akureyri. Það er stærsta ráðstefna Samorku og eru gestir frá öllum aðildarfyrirtækjum Samork í raforku-, flutnings- og vatnsmiðlastarfsemi. Árin á milli eru haldin fagþing, sem eru helguð raforkustarfsemi annars vegar og hita-, vatns- og fráveitum hins vegar.

Gestir Samorkuþings eru að stærstum hluta starfsfólk aðildarfyrirtækja Samorku. Þar eru forstjórar fyrirtækja í raforkumálum, framkvæmdastjórar, millistjórnendur, innkaupastjórar og almennt starfsfólk. Eins má gera ráð fyrir erlendum gestum, gestum úr stjórnsýslu og fleira.

Aðsókn á þing hjá Samorku hafa farið vaxandi ár frá ári enda hafa þau fest sig í sessi sem hápunktur fræðslu- og þekkingarmiðlunar fyrir aðildarfyrirtæki Samorku. Við gerum ráð fyrir á sjötta hundrað gestum á þingið á næsta ári. Bás á vöru- og þjónustusýningu er því mjög sýnilegur þessum tiltekna markhópi og gott tækifæri til að kynna fyrirtækið.

Tölvupóstur hefur þegar verið sendur út á þau fyrirtæki sem hafa tekið þátt í vöru- og þjónustusýningum með okkur síðustu ár, en viljir þú fá frekari upplýsingar er best að senda póst á lovisa@samorka.is.

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Nordica þriðjudaginn 11. febrúar 2025. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Athugið að einungis má tilnefna skráð aðildarfélög SA. Tilnefningar berist eigi síðar en þriðjudaginn 28. janúar.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Tilnefna: https://form.123formbuilder.com/6570890/menntaverdhlaun-atvinnulifsins-2024 

Menntadagur atvinnulífsins er svo bókaður 11. feb á Hilton en skráningar á viðburðinn sjálfan hefjast strax á nýju ári.

https://www.sa.is/starfsemin/vidburdir/menntadagur-atvinnulifsins-2025

Horfðu á kosningafund Samorku

Hvernig stöndum við við loftslagsskuldbindingar og verðum óháð jarðefnaeldsneyti eins og orkustefna Íslands til ársins 2050 segir til um?

Hér er hægt að horfa á kosningafund, Grænt Ísland til framtíðar, með frambjóðendum 10 flokka sem fór fram 19. nóvember í Kaldalóni í Hörpu. Þar var farið yfir orku- og veitumálin og stefnu flokkanna í þeim málaflokki.


Ísland sett í alþjóðlegt samhengi orkumála á uppfærðum vef

Fjölmennt var á fundi sem Samtök iðnaðarins, Samorka, Landsvirkjun, EFLA og Grænvangur stóðu fyrir í morgun í Kaldalóni í Hörpu þar sem kynntar voru nýjar upplýsingar á vefnum Orkuskipti.is

Á fundinum kom meðal annars fram eftirfarandi:

  • Ísland flytur inn olíu fyrir um 160 milljarða króna á ári og því til mikils að vinna að ná fram þriðju orkuskiptunum.
  • Ísland er í 22. sæti yfir orkuframleiðslu á mann af þeim 157 ríkjum heims sem eru með yfir 100.000 íbúa. Við stöndum þó fremst þegar kemur að framleiðslu á endurnýjanlegri orku á mann.
  • Orkunotkun á mann á Íslandi er sú 10. mesta í heiminum, við sitjum þar á milli Kanada og Bandaríkjanna en notum ekki mikið meiri orku á höfðatölu en til dæmis Noregur og Svíþjóð. Orkunotkun heimilanna er þó meiri en á hinum Norðurlöndunum.
  • Vegna landslags og legu Íslands eru vatnsafl, jarðvarmi og vindorka á landi hagkvæmir kostir hérlendis.

Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, var fundarstjóri. Fundurinn hófst á samtali Þóru við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem fór yfir hvers vegna væri verið að setja Ísland í alþjóðlegt samhengi og hvað hefði breyst frá því vefurinn var opnaður árið 2022 sem kalli á uppfærðar upplýsingar. 

Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaða hjá Landsvirkjun og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, fóru yfir vefinn og greindu frá því hvaða nýju upplýsingar væru þar að finna og á hverju þær byggi. 

Þá var efnt til umræðu með eftirtöldum þátttakendum: Guðmundur Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Hér má sjá upptöku af fundinum.

Ágústa frá EFLU og Haukur frá Landsvirkjun kynntu uppfærða vefinn
Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá SI
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, Guðmundur Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Fleiri myndir eru á Facebook síðu Samorku.

Sverrir Falur ráðinn verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu

Sverrir Falur Björnsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu hjá Samorku.

Sverrir Falur hefur fjölbreytta reynslu af viðskiptaþróun, efnahagsmálum, stefnumótun og samskiptum við hagaðila. Hann hefur frá árinu 2022 starfað sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.

Þar áður starfaði Sverrir Falur hjá Vodafone sem vörueigandi internets og farsímaáskrifta á einstaklingssviði og einnig starfaði hann hjá flugfélaginu WOW air í þrjú ár sem sérfræðingur á samskiptasviði.

Sverrir Falur er með MA í hagnýtri hagfræði frá Háskóla Íslands og BA í stjórnmálafræði frá sama skóla. Þá lagði hann stund á nám á meistarastigi í Strategic Public Relations við University of Stirling og Lund University.

Sverrir Falur hóf störf 8. nóvember.

Kosið um græna framtíð

Orku- og veitumálin verða sennilega í brennidepli fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins, enda mörg brýn verkefni í málaflokknum á borði stjórnvalda.

Kosningabaráttan mun snúast um hver hefur grænu sýnina, sýnina sem leggur grunninn að næsta vaxtarskeiði fyrir Ísland, því orka er súrefni atvinnulífsins og forsenda allrar verðmætasköpunar. Þetta segja þau Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, sem eru viðmælendur þáttarins að þessu sinni.

Hvað er fráveita?

Starfsemi fráveitu felur í sér að flytja frárennsli heimila og atvinnustarfsemi, regnvatn eða bráðinn snjó út í viðtaka, með viðkomu í hreinsistöð þar sem við á. Það er mikið verk að tryggja að rekstur fráveitukerfa sé í góðu lagi og er að mörgu að huga. Þannig geta ýmis efni sem losuð eru í fráveitukerfi haft slæm áhrif á lagnir og tækjabúnað, og þar með möguleg slæm áhrif á umhverfi og heilsufar fólks. Hið mikilvæga verkefni fráveitna er að gera þetta sem allra best, til gagns fyrir umhverfi landsins, íbúana og samfélagið allt.

Til að vernda gæði sjávar við Ísland kveða reglur á um að skólp skuli vera hreinsað áður en því er veitt í viðtaka. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávarins í kringum Ísland.