Ný handbók um öryggi og öryggismenningu

Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða.

Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys.

Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi.

Sækja HOP handbókina

Viðskiptavinir Fallorku velji nýjan raforkusala fyrir 10. desember

Mikilvægt er að viðskiptavinir Fallorku velji sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember næstkomandi. Orkusalan hefur samið um kaup á söluhluta Fallorku, dótturfélags Norðurorku á Akureyri. Samningurinn felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku og kaupi jafnframt raforku­framleiðslu Fallorku til framtíðar.

Fallorka hefur tilkynnt að félagið hætti allri sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja frá og með 1. janúar 2026 og einbeiti sér framvegis að framleiðslu raforku. Þetta þýðir að allir viðskiptavinir Fallorku þurfa að velja sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember, hvort sem það er Orkusalan eða annar aðili á raforkumarkaði. Nánar um þetta má lesa í frétt á vef Fallorku. 

Samkvæmt lögum er dreifiveitum (Rarik, Norðurorka, HS Veitur, Veitur, Orkubú Vestfjarða) ekki heimilt að selja rafmagn eða koma að vali á raforkusala fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þær mega aðeins dreifa rafmagni til viðskiptavina sem hafa valið og gert samning við raforkusala. Ef enginn söluaðili raforku er skráður er þeim ekki heimilt að afhenda rafmagn og lokað verður fyrir rafmagnið þar til nýr raforkusali hefur verið valinn.

Að láta opna á ný eftir lokun felur í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann.

Það er einfalt að skipta

Við viljum hvetja þá viðskiptavini sem hingað til hafa keypt rafmagn af Fallorku til að ganga frá samningi við nýjan raforkusala sem allra fyrst (og fyrir 10. desember), svo tryggt verði að ekki verði rof á þjónustu þegar Fallorka hættir sölu um komandi áramót. Skiptin sjálf eru einföld. Viðskiptavinum nægir að hafa samband við þann raforkusala sem þeir vilja kaupa raforku af, til dæmis í gegnum vef eða þjónustuver þess fyrirtækis. Nýr raforkusali sér um að tilkynna breytingarnar fyrir þeirra hönd. Nánar um val á raforkusala má lesa hér á heimasíðu Samorku.

Heimar og SnerpaPower hlutu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025

Fullt var út úr dyrum þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 voru afhent á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var í tíunda sinn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfis- og loftslagsmálum og sýna í verki hvernig árangur næst með markvissum aðgerðum, nýsköpun og ábyrgri stjórnun.

Umhverfisfyrirtæki ársins 2025 er Heimar.

Úr umsögn dómnefndar:

„Heimar er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur tekið afgerandi skref í átt að umhverfislega ábyrgri starfsemi og hefur forgangsraðað í þágu árangurs í umhverfismálum og sjálfbærni, hvort sem heldur er horft til ákvarðana í rekstri, fjárfestingum eða fjárfestingarákvörðunum.

Heimar hafa innleitt umhverfisstjórnunarkerfi sem tryggir að umhverfissjónarmið séu samþætt allri starfsemi félagsins. Með skýrri sýn, mælanlegum markmiðum og stöðugum umbótum hafa Heimar náð eftirtektarverðum árangri sem sést í fjölgun umhverfisvottaðra eigna, grænni fjármögnun, stýringu og vöktun orkunotkunar og minnkandi kolefnisspori. Heimar eru þannig ekki aðeins að fylgja þróuninni heldur að stýra henni með gagnsæi, ábyrgð og metnaði til að ganga lengra en lög og reglur segja til um.“

Umhverfisframtak ársins 2025 hlýtur SnerpaPower

Úr umsögn dómnefndar:

”SnerpaPower ehf. er tæknifyrirtæki á sviði raforkumarkaðar sem hefur þróað frá grunni hugbúnaðarlausn sem gerir stórnotendum raforku, eins og til dæmis álverum og gagnaverum, kleift að nýta lifandi gagnastrauma til að besta og sjálfvirknivæða skammtíma ákvarðanatöku tengdri raforkunotkun og þátttöku á markaði auk þess að uppfylla skyldur um skil á áætlunum og pöntunum rafmagns.

SnerpaPower hefur á örfáum árum umbreytt því hvernig orkusækinn iðnaður nýtir raforku á Íslandi og er fyrirtækið nú að sækja á erlenda markaði. Hugbúnaður SnerpaPower byggir á nýjustu aðferðum í gagnavísindum, gervigreind og vélnámi og styður stórnotendur í að nýta endurnýjanlega orkugjafa á skilvirkari hátt, lækka raforkukostnað og bæta samkeppnishæfni sína á alþjóðamörkuðum. Lausnin eykur nýtni raforkukerfisins alls og skilar umframorku og –afli til samfélagsins sem nýtist beint í orkuskiptin.“

JÁVERK og Krónan fengu sérstakar viðurkenningar á deginum.

Styrkur Íslands liggur í grænni orku

Eitt megin framlag Íslands til loftslagsmála hefur verið nægt framboð af endurnýjanlegri orku til að svara þörf orkusækins iðnaðar sem annars þyrfti að knýja starfsemi sína með jarðefnaeldsneyti, með neikvæðari áhrifum á andrúmsloftið og náttúru. Uppbygging grænnar orkuframleiðslu til eflingar stóriðju er eitt farsælasta skref sem þjóðin hefur tekið, bæði í þágu loftslagsmála og fyrir velferð þjóðarinnar. Græn orkuframleiðsla er einn af hornsteinum ímyndar landsins og grundvöllur atvinnulífs og lífsgæða í landinu.

Evrópa gefur í en Ísland hikstar

Eftirspurn eftir orku hefur aukist hratt á undanförnum árum, einkum eftir grænni orku. Evrópusambandið hefur í þessu samgengi sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi og ráðist í umfangsmikla uppbyggingu grænnar orku og innviða. Í nýjustu tilskipanir Evrópusambandsins á sviði endurnýjanlegrar orku er lögð áhersla á hraðari leyfisveitingar og einfaldað regluverk þannig að leyfisveitingaferli fyrir græn orkuverkefni á landi taki að hámarki tvö ár. Með þessu er ESB ekki einungis að bregðast við loftslagsvánni, heldur einnig að byggja upp orkuöryggi, fjölga grænum störfum, örvar fjárfestingu og styrkir heilt yfir samkeppnishæfni álfunnar.

Þessi þróun getur að öðru óbreyttu haft áhrif á samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að orkuskiptum og undirstöðum núverandi stóriðju, svo ekki sé minnst á annan orkusækinn iðnað, svo sem gagnaver og landeldi. Ísland hefur lengi notið samkeppnisforskots vegna yfirburða á sviði endurnýjanlegrar orku, en þegar nágrannalönd okkar byggja hratt upp sambærilega innviði og auka grænt orkuframboð sitt, dregur það úr sérstöðu íslenska orkumarkaðarins. Ef ekki verður brugðist við með markvissum hætti, m.a. með því að einfalda reglur, hraða leyfisveitingum og tryggja skýra forgangsröðun í framkvæmdum, gæti Ísland misst hluta þess forskots sem hefur hingað til laðað að fjárfestingar og verkefni á sviði grænnar orku. Þegar hafa heyrst vitnisburðir frá íslenskum fyrirtækjum að þeirra orkuskipti hafi stöðvast vegna þess að þau fá ekki nauðsynlega raforku og frá fulltrúum gagnavera sem viljað efla starfsemi sína á Íslandi en geta það ekki og opna þá í öðrum löndum. Verði aðgengi að grænni raforku á Íslandi ekki einfaldað getur það á endanum leitt til þess að fjárfestingar og atvinnumöguleikar þurfi frá að hverfa til annarra landa.

Umhverfisáherslur og dafnandi atvinnulíf eru ekki andstæður. Fyrirtæki heimsins eru að leita lausna við þeirra losun og Evrópa ætlar að vera hluti af lausninni. Sterk staða Íslands í loftslagsmálum er ekki lögmál heldur ástand sem þarf að viðhalda á markvissan hátt.

Nauðsyn skýrara og skilvirkara regluverks

Í drögum að nýrri atvinnustefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á að ýta undir vöxt í orkusæknum iðnaði og loftslagsgeiranum, sem er samheiti yfir atvinnugreinar á sviði endurnýjanlegrar orku og kolefnisstjórnunnar. Þar kemur einnig fram að stærsta framlag Íslands til loftslagsmála felist í sölu endurnýjanlegrar raforku til útflutningsgreina. Til þess að þessi stefna raungerist þarf að huga vel að þeim leyfisferlum og oft pólitísku nálaraugum sem fyrirtæki þurfa að þræða til þess að fá að hefja framleiðslu grænnar orku.

Títt hefur verið rætt um þau rúmlega 20 ár sem tók að veita Hvammsvirkjun framkvæmdaleyfi. Hefur nú verið brugðist við því ástandi með tveimur frumvörpum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Annað þeirra, svokallað einföldunarfrumvarp, tekst á við þann frumskóg sem leyfisveitingaferlin eru orðin að og mun auka gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika í leyfisveitingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki út úr fyrstu nefnd. Það var aftur lagt fyrir þingið þann 18. nóvember sl. og bíður nú frekari meðferðar.

Aðgerðir Evrópusambandsins til að einfalda regluverk til að greiða fyrir orkuskiptum eru ekki aðeins umhverfismál, þær eru einnig skref til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auka viðnámsþrótt samfélaga. Til að viðhalda forskoti okkar eða að minnsta kosti standa jafnfætis í þessari þróun þarf Ísland að innleiða sambærilegar aðgerðir og tryggja að orkuiðnaðurinn fái að dafna innan skilvirks og framsækins regluverks.

Opinberar aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki þurrka út samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja heldur verður að líta til þeirra tækifæra þar sem Ísland getur lagt sín lóð á vogarskálarnar á hátt sem gagnast bæði umhverfinu og þjóðfélaginu.

Mánudaginn 24. nóvember verður Umhverfisdagur atvinnulífsins haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Þar er yfirskriftin Frá yfirlýsingum til árangurs og verður athyglinni beint að mikilvægi þess að efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrar, leiðtogar íslensks atvinnulífs og fleiri sérfræðingar taka þátt í dagskrá.

Höfundur er Sverrir Falur Björnsson, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 21. nóvember 2025.

Samorka óskar eftir upplýsingafulltrúa

Viltu vera rödd framtíðar grænnar orku og veitustarfsemi á Íslandi?

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar eftir að ráða kraftmikinn og drífandi einstakling í starf upplýsingafulltrúa. Upplýsingafulltrúi leiðir almannatengsl, markaðsmál og skipulagningu viðburða fyrir samtökin ásamt því vera leiðandi í umræðunni um Grænt Ísland til framtíðar, um græna orku, hreint vatn og öfluga innviði. Leitað er að reyndum einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á orku og umhverfi, býr yfir skapandi hugsun og hæfni til að framleiða og miðla efni á margvíslegu formi.

Helstu verkefni og ábyrgð:

· Mótun og miðlun skilaboða Samorku til fjölmiðla, almennings og stjórnvalda

· Skipulagning og framkvæmd viðburða, s.s. funda, ráðstefna og annarra lykilviðburða

· Ritun fréttatilkynninga, gerð kynningarefnis og miðlun efnis á miðlum Samorku, s.s. samfélagsmiðlum, fréttabréfi og heimasíðu

· Fylgjast með umræðu og finna tækifæri til að segja sögur af árangri og samfélagslegu mikilvægi orku- og veitugeirans

· Samskipti við samstarfs- og hagaðila og samvinna með starfsfólki í margvíslegum verkefnum

Menntunar- og hæfniskröfur:

· Háskólamenntun sem nýtist í starfi

· Þekking og reynsla af almannatengslum og fjölmiðlun

· Reynsla af markaðsstarfi og framleiðslu efnis fyrir ýmsa miðla

· Geta til að stýra fjölbreyttum verkefnum og viðburðum

· Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni

· Frumkvæði, skipulagshæfni og lausnamiðuð hugsun

· Góð íslensku- og enskukunnátta í ræðu og riti

Um Samorku:

Hjá Samorku starfar fámennur en metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði

knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.

Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin.

Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2025. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is).

Vestfirðir eru heitur reitur

Á Vestfjörðum hefur verið notast við rafkyntar hitaveitur í stað hefðbundinna jarðhitaveitna, því lítið hefur fundist í gegnum tíðina af nægilega heitu vatni sem gæti nýst til húshitunar. En með tækniframförum og myndarlegu átaki stjórnvalda í jarðhitaleit á svæðinu hefur vonin aldeilis kviknað um að þetta geti breyst, íbúm á svæðinu til mikilla hagsbóta.

Elena Dís Víðisdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Orkubúi Vestfjarða, ræðir uppganginn og stemninguna á Vestfjörðum við Lovísu Árnadóttur og hvernig Vestfirðir eru heitur reitur, líka hvað varðar jarðhita.

SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025

Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku

Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær.  Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. 

Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu.

Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂.

Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.

Virðið í vatninu

Vatn er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir allt líf, heldur er það undirstaða samfélags og alls atvinnulífs. Samkvæmt alþjóðlegum gögnum er aðeins um 2,5% af vatni jarðar ferskvatn og þar af er aðeins 0,3% aðgengilegt til neyslu. Þetta þýðir að aðeins örlítið brot af vatni heimsins er raunverulega nýtt í þágu samfélags og atvinnulífs. Ríkulegar vatnsauðlindir Íslands og tryggt aðgengi að heilnæmu hagkvæmu vatni er lykilþáttur í samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. 

Íslensku tækifærin 

Talið er að það séu um 86 milljónir rúmkílómetra af vatni á jörðinni, en aðeins um 35 milljónir rúmkílómetra eru ferskvatn. Af þessu eru um 70% bundin í jöklum og snjó, 29% í grunnvatni og aðeins tæpt 1% í vötnum og ám. Ísland er gæfuríkt að búa vel af þessari lífsnauðsynlegu auðlind. Endurnýjanlegar ferskvatnsauðlindir á íbúa hér á landi eru tæpir 450 þúsund rúmmetrar, langmest allra landa í heiminum. Álag á vatnsbúskap er aðeins 0,39% af tiltækum ferskvatnsauðlindum, lægst allra landa í Evrópu. Til samanburðar er álagið í Danmörku 25,27% og í Þýskalandi 35,35%. Þetta sýnir að Ísland býr yfir einstökum vatnsauðlindum og hefur tækifæri til að nýta þær með sjálfbærum hætti. 

Hreint vatn er ekki heppni 

Mörg taka vatni og vatnsveitum sem sjálfsögðum hlut. Fólk opnar fyrir kranann og býst við að fá hreint vatn en að baki krananum og um alla byggð liggja flóknir innviðir og tugmilljarða fjárfestingar til að færa fólki og fyrirtækjum þau lífsgæði sem felast í vatninu. Þegar óvænt mengun eða röskun á starfsemi vatnsveitu á sér stað verður fólk fljótt meðvitað um hversu viðkvæm vatnsveitan getur verið. Starfsmenn vatnsveitna vinna oft við krefjandi aðstæður til að tryggja rekstraröryggi og gæði vatns. Til grundvallar hvers konar vatnsnýtingu þurfa að liggja rannsóknir og greiningar sem tryggja að vatnsnýting sé sjálfbær og falli vel að fyrirliggjandi nýtingu. Rétt eins og með aðra auðlindanýtingu er það forsenda að nýtingin sé sjálfbær. Með lögum um stjórn vatnamála hefur verið komið á fót kerfi sem tryggir rannsóknir og vöktun vatnsauðlindarinnar í samvinnu stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings 

Stórar og mikilvægar fjárfestingar 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 6 kveður á um að tryggja skuli aðgengi fyrir öll að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir árið 2030. Fyrirtæki og sveitarfélög bera ábyrgð á að nýta vatnsauðlindir á sjálfbæran hátt og fjárfesta í innviðum sem tryggja öryggi, gæði vatnsins og samfellda þjónustu. Íslendingar búa við öflugar vatnsveitur sem reknar eru af sveitarfélögum og veitufyrirtækjum en það er ekki sjálfgefið að svo verði um alla tíð. Áskoranir á borð við loftslagsbreytingar, aukna mengun og vaxandi eftirspurn krefjast þess að fyrirtæki og stjórnvöld taki virkan þátt í verndun vatnsins. Það er mikilvægt að hafa í huga að á bak við vatnsveiturnar liggja verðmætir innviðir sem þurfa reglulegt viðhald og nýfjárfestingar til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar. Áætlað endurstofnvirði vatnsveitna á Íslandi er 230 milljarðar króna samkvæmt innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins sem kom út fyrr á árinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að framtíðarhorfur vatnsveitna séu neikvæðar og að uppsöfnuð innviðaskuld sé nú 19 milljarðar króna. Þessar tölur minna á mikilvægi þess að stjórnvöld búi vatnsveitum umgjörð sem hvetur til reglulegrar endurnýjunar, nýfjárfestinga, nýsköpunar og framsýni í rekstri – skort hefur á endurnýjun á þessari umgjörð.  

Opinberar reglur tryggi virka vernd vatnsins 

Vatnsveitur þurfa að hafa skýrar heimildir til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vatnsból og vatnsveitur frá hvers konar ytri ógnum. Það er óforsvaranlegt að óhöpp sem á flesta mælikvarða myndu teljast lítil geti ógnað vatnbólum og valdið verulegri röskun í veitingu vatns til fólks og fyrirtækja. Af öðrum ógnum má telja loftslagsbreytingar og stærri mengunarslys. Opinberar reglur leggja mikla ábyrgð á vatnsveitur en tryggja ekki í öllum tilfellum getu þeirra til að meta og ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til vatnsverndar. Þá er nauðsynlegt að fjárhagslegt rekstrarumhverfi vatnsveitna tryggi getu þeirra til að vinna markvisst í viðhaldi og nýfjárfestingum. Þessu verður að breyta. 

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Hún birtist fyrst í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 22. október 2025.

Það þarf að tryggja öryggi vatnsbóla

Vatnsvernd og áskoranir við vatnsöflun, öryggi og áfallaþol vatnsveituinnviða var til umfjöllunar á opnum fundi Samorku, Verndum vatnið, á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. október. Vatnsveitur eru dæmi um grunnþjónustu í samfélaginu sem við getum einfaldlega ekki verið án.

Á fundinum var veitt góð innsýn inn í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði og hvernig hægt er að takast á við þær. Hægt er að sjá upptökur af erindum neðst í þessari færslu.

Jón Gunnarsson, verkefnastjóri greininga hjá Samorku sýndi fram á vatnsríkidæmi okkar Íslendinga en líka hvað við notum vatn ótæpilega miðað við nágrannaþjóðir á hinum Norðurlöndunum.

Jón Gunnarsson var með skemmtilegar staðreyndir um vatnsnotkun á Íslandi

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna og formaður stjórnar Samorku lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um vatnsbólin og útivistarmöguleika í Heiðmörk með markvissum forvörnum og deiliskipulagi.

Sólrún Kristjánsdóttir kynnti áherslur Veitna hvað varðar vatnsvernd í Heiðmörk

Glúmur Björnsson jarðfræðingur sagði síðan frá áskorunum sem HEF veitur standa frammi fyrir við vatnsöflun á Austurlandi.

Glúmur sagði frá ólíkum áskorunum minni veitna og stærri

Tor Gunnar Jantsch, sviðsstjóri hjá Oslo Vann – vatnsveitu Osló-borgar – flutti loks mjög athyglisvert erindi um mikilvægi þess að tryggja vatnsöflun fyrir borgarbúa og hvernig nýjar ógnir kalla á auknar öryggisráðstafanir til að vernda þessa innviði.

Tor Gunnar vakti fundargesti til umhugsunar um öryggi mikilvægra innviða.

Í pallborði sagði Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, mikilvægt að skilgreina vel þessa ómissandi innviði, þá sem við getum ekki verið án í 24 tíma, og setja stíft regluverk um þá. Það blasi við að það þurfi að tryggja að vatnsból séu örugg og tók heilshugar undir viðmið Veitna í Heiðmörk.

Runólfur í pallborðsumræðum

Kristinn Harðarson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku ræddi meðal annars vatnsból fyrirtækisins á miðju jarðhræringasvæði og hvernig baráttan við eldgos hefur hjálpað til við að vera undirbúinn fyrir áföll.

Marianne og Kristinn í pallborðsumræðum

Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri stjórnar vatnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun ræddi meðal annars um hvernig grunnvatn er á höndum og ábyrgð margra aðila í stjórnsýslunni; Umhverfis- og orkustofnun, Heilbrigðiseftirlit, sveitarfélögin, MAST, Veðurstofa Íslands og þess vegna mjög mikilvægt að styrkja samtal og samvinnu þessara aðila.

Sjá má fleiri ljósmyndir frá fundinum á Facebooksíðu Samorku. Ljósmyndari: Hulda Margrét Óladóttir.

Erindi Jóns:

Erindi Sólrúnar:

Erindi Tors Gunnars:

Upptaka af pallborðsumræðum:

Upptaka af fundinum í heild sinni:

Hvernig hugsar þú um hreint vatn?

Vissir þú að hver íbúi í landinu notar um það bil 150 lítra af vatni á dag?

Þegar iðnaður er talinn með notum við 9.190 lítra á hverri sekúndu. Það er eins og tvöfaldar Elliðaárnar á hverri sekúndu. Eða fimm þúsund dæmigerðar vatnskönnur á hverri sekúndu. Eða rúmlega 170.000 Kópavogslaugar, sem er stærsta sundlaug landsins, á ári. Af hreinu og góðu vatni. Þvílík lífsgæði!

Vatnið er grunnforsenda heilbrigðis, lífsgæða og samfélagslegrar þróunar. Við á Íslandi erum vissulega heppin að eiga eins góða vatnsauðlind og raun ber vitni, en það þarf meira en heppni til að auðlindir landsins skili sér í samfélags- og efnahagslegum gæðum. Það þarf stöðugt að gæta, vernda og sinna innviðum þeirra af ábyrgð og ekki þarf mikið til að eitthvað fari verulega úrskeiðis.

Loftslagsbreytingar, aukin landnýting, stækkun byggðar og fólksfjölgun er meðal þess sem hefur skapað aukið álag á vatnsból víða um land og getur aukið hættu á mengun. Þá geta væringar og óstöðugleiki á alþjóðavettvangi einnig haft áhrif á öryggi mikilvægra innviða eins og vatnsveitna.

Um þessar áskoranir verður rætt á opnum fundi Samorku miðvikudaginn 22. október. Yfirskriftin er Verndum vatnið og verður þar fjallað um vatnsvernd, öryggi og áfallaþol vatnsveitna.

Hlutverk vatnsveitna

Hér á landi hafa veitufyrirtæki það lögbundna hlutverk að byggja upp og sinna öflugum vatnsveitum sem þjóna heimilum og atvinnulífi um allt land.  Ýmsar hindranir standa þó í vegi þeirra, til dæmis flókin leyfisveitingaferli sem seinka nauðsynlegum framkvæmdum eins og Samorka hefur oft bent á. Markviss stefnumótun, samvinna ólíkra aðila og skýrar heimildir veitufyrirtækja til að sinna lögbundnu hlutverki sínu er nauðsynleg til að tryggja komandi kynslóðum áframhaldandi aðgengi að öruggu neysluvatni og svo að hægt sé að styðja við öflugt atvinnulíf um allt land.

Gott skipulag tryggir betri árangur

Mikilvægt er að veitufyrirtæki fái greiða og tímanlega aðkomu að skipulagsmálum svo hægt sé að hanna og byggja upp veitukerfi sem standast kröfur framtíðarinnar og standa vörð um öryggi vatnsbóla, sem styðja við lífsgæði og atvinnulíf á hverjum stað. Ákvarðanir um skipulag nýrra hverfa verða að taka mið af vatnsvernd og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þar þarf að gæta jafnvægis milli þarfa samfélagsins og verndar náttúrunnar. Jafn mikilvægt er að huga að og greina veituinniviði ef til stendur að breyta eða þétta hverfi.

Fjárfestingaumgjörð vatnsveitna þarf að styðja við reglubundið viðhald og endurnýjun innviða, svo tryggja megi áfram vatnsgæði í fremstu röð og örugga dreifingu til allra landsmanna. Einnig þarf að horfa heildstætt á nýtingu vatns, þar sem tryggt er að vatn sem nýtt er í atvinnuskyni eða framleiðslu ógni ekki hagsmunum almennings.

Við berum öll ábyrgð

Það skiptir einnig miklu máli að við sem einstaklingar gerum okkur sér grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að því að stuðla að hreinu og heilnæmu vatni til framtíðar. Dagleg hegðun okkar, eins og að skilja eftir rusl, aka utan vega eða nota efni sem geta mengað jarðveg getur haft bein áhrif á vatnsgæði. Það er því mikilvægt að halda því á lofti að hreint vatn er ekki sjálfsagt mál heldur verðmæt auðlind sem við berum öll ábyrgð á.

Vatnið okkar er lífæð samfélagsins. Með góðu skipulagi, virðingu, varkárni og langtímasýn í meðferð þess tryggjum við að komandi kynslóðir njóti áfram þeirra lífsgæða sem hreint og gott neysluvatn er.

Grein eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is mánudaginn 20. október 2025.