2. janúar 2026 Ár uppbyggingar orku- og veituinnviða Árið 2025 var viðburðaríkt og krefjandi á sviði orku- og veitumála. Óvænt áföll urðu með alvarlegri bilun í álverinu á Grundartanga, einum allra stærsta raforkunotanda landsins, stöðvun PCC á Bakka og jarðhræringum á Reykjanesi sem enn láta að sér kveða. Öflug orku- og veitufyrirtæki vinna af yfirvegun úr þessum aðstæðum til að takmarka langtímaáhrif á samfélagið og styrkja áfallaþol kerfisins í heild. Orkuöflunarframkvæmdir fóru og af stað og aðrar kláruðust. Landsvirkjun hófst handa við byggingu fyrsta vindorkuvers landsins Vaðölduver og lokið var við stækkun jarðvarmavers í Svartsengi. Framkvæmdir sem báðar bera vott um öflugt hugvit, þor og seiglu. Á árinu 2025 tók til starfa sameinuð Umhverfis- og orkustofnun. Öflugri stofnun er til þess fallin að styrkja vandaða stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Með hinni nýju stofnun gefst tækifæri til enn frekara samstarfs milli stjórnvalda og orku- og veitugeirans. Hin nýja stofnun fer að þessu leyti vel af stað undir forystu forstjóra stofnunarinnar. Breytt stjórnmál? Árið 2025 hófst með nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þrátt fyrir að síðasta ríkisstjórn hafi meðal annars fallið vegna ágreinings um orkuöflun, virðist nú ríkja breiðari samstaða um að ráðast í orkuframkvæmdir og innviðaframkvæmdir. Þeir flokkar sem mest höfðu talað gegn aukinni orkuvinnslu hlutu ekki brautargengi í síðustu kosningum og stjórnvöld leggja nú áherslu á orkuskipti, græna uppbyggingu og einföldun regluverks. Þessar breyttu aðstæður vekja von um hraðari framgang grænna verkefna á næsta ári. Stjórnvöld hafa stigið nokkur mikilvæg skref á árinu. Mikil áhersla hefur verið á frekari þróun jarðhitanýtingar með fjárveitingum til rannsóknarborana og þróunar. Unnin var skýrsla um framtíðarmöguleika jarðhitanýtingar. Í framhaldinu stofnaður starfshópur um stefnumótun á þessu sviði, framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi og eflingu samkeppnishæfis íslands sem jarðhitaríkis. Þingið þarf að setja lög Núverandi umgjörð orkuframkvæmda hefur leitt til óboðlegs rekstrarumhverfis sem er ófyrirsjáanlegt og vinnur gegn samkeppnishæfni landsins. Þetta birtist bæði í ómarkvissri og óskýrri stjórnsýslulegri meðferð verkefna á fyrstu stigum, til að mynda á vettvangi rammaáætlunar. En einnig í því að verkefni sem hafa hlotið umfangsmikla umfjöllun um árabil geta komist í uppnám vegna kæra og úrskurða á síðari stigum. Gildir þetta þó umfangsmiklar framkvæmdir séu hafnar. Þetta þarf að leysa með einföldun regluverks, skýrleika í löggjöf og áherslu á fjárfestingar í nýrri orkuvinnslu. Umhverfis- orku og loftslagsráðherra hefur boðað breytingar í átt til einföldunar. Það er ekki nýlunda en virðist stranda, nú sem fyrr, á Alþingi. Óhjákvæmilegt er að Alþingi setji úrbætur í þessum málaflokki í forgang á árinu 2026 og nái raunverulegum árangri á því sviði. Frá því að lög eru samþykkt á Alþingi og þar til þau eru komin til framkvæmda að fullu leyti getur liðið talsverður tími. Tími sem við höfum ekki þegar horft er til orkutengdra framkvæmda. Samkeppnislönd Íslands hafa þegar stigið stór skref í breytingum á sínu reglum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvörp um einföldun regluverks og einföldun á rammaáætlun, en hvorugt hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi. Þá eru þetta einungis lítil skref í stóru verkefni. Ýmis mál eru enn á undirbúningsstigi. Má þar nefna áform um breytta skattlagningu orkumannvirkja og frumvarp um lagaramma um vindorku. Í tengslum við skattlagningu orkumannvirkja hefur Samorka stutt þá meginhugmynd að nærsamfélög njóti meiri ávinnings af orkuframkvæmdum, en samtímis bent á að slíkt skuli gert með sanngjarnri skiptingu tekna fremur en auknum álögum sem draga úr fjárfestingagetu. Þegar kemur að lagramma um vindorku er mikilvægt að um vindorku gildi ekki flóknara, umfangsmeira og strangara regluverk en aðrar orkuframkvæmdir. Mikilvægt er að vandað verði til verka við útfærslu nýrra leikreglna – þannig má bæði efla traust almennings og koma brýnum framkvæmdum af stað án óæskilegrar tafar. Tryggja þarf orkuöryggi Orkuöryggi Íslands verður ekki tryggt án afgerandi aðgerða. Stjórnvöld bera meginábyrgð á að næg orka sé fyrir hendi, nú og til framtíðar. Færustu sérfræðingar hafa ítrekað sýnt fram á hættu á orkuskorti og árið 2025 undirstrikaði þá greiningu með sameiginlegri orkuspá Landsnets og Umhverfis- og orkustofnunar – Orkuspá Íslands. Nú þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs til að bregðast við. Það er fagnaðarefni að fjárfestingaáform orku- og veitufyrirtækja nema hundruðum milljarða á komandi árum, en nauðsynlegt er að skapa þeim farveg. Með skilvirkara regluverki – án þess þó að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og samráð – er fullkomlega raunhæft að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu mun hraðar. Reynslan sýnir að flókin ferli sem tefjast um of kosta þjóðarbúið að óþörfu og geta jafnvel ógnað orkuöryggi til lengri tíma. Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði. Þá verður að taka upplýsta umræðu um hvernig fjármagna eigi þær fjárfestingar sem framundan eru í veitukerfum landsins. Eiga þær að lenda með þunga á núverandi kynslóð? Eða á að haga fjárfestingarumhverfinu þannig að greiðslur dreifist betur á núverandi og komandi kynslóðir. Báðar leiðir eru mögulegar, en þetta eru flóknar pólitískar spurningar sem taka þarf afstöðu til og varða leiðina á afgerandi hátt. Engin ákvörðun getur leitt til glataðra tækifæra, hik á framkvæmdum og fjárfestingum og til versnandi lífsskilyrði næstu kynslóða. Samkeppnishæfni landsins kann að vera ógnað ef við höldum ekki vöku okkar. Mikilvægi orku- og veituinniviða Áfallaþol og viðnámsþróttur orku- og veituinnviða er rauður þráður í umræðunni í ljósi breyttrar heimsmyndar og ólgandi náttúruafla. Aftakaveður og jarðhræringar minntu á að orka snýst ekki einvörðungu um hagkerfi heldur líka öryggi almennings. Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði. Rússnesk árásarstríð hafa sýnt hversu skjótt má lama samfélög með því að ráðast á orkukerfi. Þessi alþjóðlegi veruleiki er nú nágrannaríkjum okkar hvatning til hlúa vel að öryggi orku- og veituinnviða og rekstraröryggi þeirra. Ísland býr að vísu að þeim forréttindum að vera óháð erlendri orku að mestu en við þurfum engu að síður að styrkja varnir gegn ytri áskorunum og byggja upp innviði með öflugum hætti. Þetta er samvinnuverkefni orku- og veitufyrirtækja og stjórnvalda. Orku-og veitufyrirtæki munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi og rekstur okkar allra mikilvægustu innviða og innan þeirra er rík öryggismenning og vitund um mikilvægi ólíkra kerfa. Stjórnvöld og almenningur verða að skilja að nýtt regluverk og framkvæmdir munu kosta bæði peninga og tíma. Kostnaðurinn birtist á einn eða annan hátt í gjaldskrám sérleyfisfyrirtækja, fyrr eða síðar. Jarðskjálftahrinurnar á Reykjanesi hafa reynt verulega á orku- og veitukerfi landsins, en í gegnum tvö gos á árinu hafa orku- og veitufyrirtæki staðið vaktina af mikilli fagmennsku og útsjónarsemi. Jafnvel þegar náttúran sýndi klærnar tryggðu þau stöðuga afhendingu rafmagns og vatns og brugðust skjótt við truflunum. Óvissan vegna jarðelds í iðrum jarðar er enn til staðar sem undirstrikar mikilvægi öflugs viðbúnaðar og seiglu innviða. Við þessar aðstæður hafa stjórnvöld líka séð að tryggja verður betri varnir, dreifa áhættu og treysta lykilinnviði gegn svona áföllum. Verður 2026 ár innviðaframkvæmda? Horfur fyrir árið 2026 eru í senn krefjandi og spennandi. Í stóra samhenginu er Ísland í einstakri stöðu: Við búum þegar að 100% endurnýjanlegri raforkuframleiðslu og öflugum veitukerfum og höfum getu til að vera í fremstu röð ríkja í orkuskiptum. Orku- og veitugeirinn er skipaður öflugum fyrirtækjum, stórum sem smáum, sem búa yfir mikilli getu til að þróa frekar verkefni sín og framkvæma. Reynslan sýnir að Ísland hefur alla burði til að uppfylla jafnvel strangar kröfur á sviði orku- og umhverfismála; oft stöndum við okkur betur en flestar aðrar þjóðir þegar upp er staðið. Við eigum því að vera óhrædd við metnaðarfull markmið, svo fremi sem leiðin að þeim sé framkvæmd í samvinnu og af skynsemi. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakkar samstarf og samtal á árinu 2025. Höfundur: Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Greinin birtist fyrst á Innherja 31. desember 2025.
19. desember 2025 Stækkun orkuvers í skugga jarðhræringa Þann 1. desember var sjöundi áfangi Svartsengis, orkuvers HS Orku, tekinn í notkun og jókst þar með framleiðslugeta þess um þriðjung. Það er í sjálfu sér fréttnæmt að við bætist uppsett afl hér á landi, en í þessu tilfelli er það ekki síður vegna þess að orkuverið var stækkað á tímum jarðhræringa og mikillar óvissu. Stóðst framkvæmdin þó allar verk- og tímaáætlanir. Rafn Magnús Jónsson yfirverkefnisstjóri HS Orku og Yngvi Guðmundsson yfirverkfræðingur HS Orku ræða við Lovísu Árnadóttur um þetta ótrúlega verkefni í nýjasta þætti Lífæða landsins. Þátturinn er aðgengilegur hér á heimasíðu Samorku en einnig á Spotify, bæði í hljóð og mynd.
19. desember 2025 Jólakveðja frá Samorku Skrifstofa Samorku verður í hægagangi nú í aðdraganda jóla og best er að kanna hvort einhver sé á staðnum áður en komið er í heimsókn. Lokað verður hefðbundna frídaga en starfsfólk gæti unnið annars staðar frá. Við óskum öllum gleðilegrar hátíðar! Jólakveðjan er myndskreytt líflegri mynd frá fjölmennum hátíðarkvöldverði á Samorkuþingi í vor.
15. desember 2025 Opnað fyrir tilnefningar til Menntaverðlauna Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica 11. febrúar 2026. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.– Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.– Einungis er hægt að tilnefna aðildarfélaga innan SA.Tilnefningar berist eigi síðar en föstudaginn 16. janúar. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki ársins og menntasproti ársins. Menntafyrirtæki ársins 2026 Við mat á umsóknum er lögð sérstök áhersla á íslenskt framlag við þróun, aðlögun og innleiðingu verkefna, sem og hvernig fræðslan innan fyrirtækja mætir þörfum íslensks vinnumarkaðar. Einnig er tekið tillit til verkefna sem byggja á alþjóðlegri fræðslu, að því gefnu að framlag Íslendinga til þróunar, aðlögunar og innleiðingar sé skýrt og að verkefnið styðji við þarfir vinnumarkaðarins hér á landi. · Stefna og framtíðarsýn fyrirtækisins í fræðslumálum · Aðgengi og þátttaka starfsfólks í fræðslu · Fræðsluleiðir · Mat á árnagri Menntasproti ársins 2026 Leitað er eftir verkefnum sem stuðla að nýsköpun í fræðslu sem styrkir starfsfólk og fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði. · Nýsköpun og þróun · Aðgengi og fjölbreytt notkun · Framtíðarsýn og áhrif Nánari útlistun viðmiða er að finna í tilnefningarforminu Tilnefnið hér Menntadagur atvinnulífsins er sameiginlegt verkefni SA, SI, SVÞ, SAF, SFS, SFF og Samorku.
8. desember 2025 Ný handbók um öryggi og öryggismenningu Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða. Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys. Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi. Sækja HOP handbókina
2. desember 2025 Viðskiptavinir Fallorku velji nýjan raforkusala fyrir 10. desember Mikilvægt er að viðskiptavinir Fallorku velji sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember næstkomandi. Orkusalan hefur samið um kaup á söluhluta Fallorku, dótturfélags Norðurorku á Akureyri. Samningurinn felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku og kaupi jafnframt raforkuframleiðslu Fallorku til framtíðar. Fallorka hefur tilkynnt að félagið hætti allri sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja frá og með 1. janúar 2026 og einbeiti sér framvegis að framleiðslu raforku. Þetta þýðir að allir viðskiptavinir Fallorku þurfa að velja sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember, hvort sem það er Orkusalan eða annar aðili á raforkumarkaði. Nánar um þetta má lesa í frétt á vef Fallorku. Samkvæmt lögum er dreifiveitum (Rarik, Norðurorka, HS Veitur, Veitur, Orkubú Vestfjarða) ekki heimilt að selja rafmagn eða koma að vali á raforkusala fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þær mega aðeins dreifa rafmagni til viðskiptavina sem hafa valið og gert samning við raforkusala. Ef enginn söluaðili raforku er skráður er þeim ekki heimilt að afhenda rafmagn og lokað verður fyrir rafmagnið þar til nýr raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann. Það er einfalt að skipta Við viljum hvetja þá viðskiptavini sem hingað til hafa keypt rafmagn af Fallorku til að ganga frá samningi við nýjan raforkusala sem allra fyrst (og fyrir 10. desember), svo tryggt verði að ekki verði rof á þjónustu þegar Fallorka hættir sölu um komandi áramót. Skiptin sjálf eru einföld. Viðskiptavinum nægir að hafa samband við þann raforkusala sem þeir vilja kaupa raforku af, til dæmis í gegnum vef eða þjónustuver þess fyrirtækis. Nýr raforkusali sér um að tilkynna breytingarnar fyrir þeirra hönd. Nánar um val á raforkusala má lesa hér á heimasíðu Samorku.
26. nóvember 2025 Heimar og SnerpaPower hlutu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 Fullt var út úr dyrum þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 voru afhent á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var í tíunda sinn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfis- og loftslagsmálum og sýna í verki hvernig árangur næst með markvissum aðgerðum, nýsköpun og ábyrgri stjórnun. Umhverfisfyrirtæki ársins 2025 er Heimar. Úr umsögn dómnefndar: „Heimar er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur tekið afgerandi skref í átt að umhverfislega ábyrgri starfsemi og hefur forgangsraðað í þágu árangurs í umhverfismálum og sjálfbærni, hvort sem heldur er horft til ákvarðana í rekstri, fjárfestingum eða fjárfestingarákvörðunum. Heimar hafa innleitt umhverfisstjórnunarkerfi sem tryggir að umhverfissjónarmið séu samþætt allri starfsemi félagsins. Með skýrri sýn, mælanlegum markmiðum og stöðugum umbótum hafa Heimar náð eftirtektarverðum árangri sem sést í fjölgun umhverfisvottaðra eigna, grænni fjármögnun, stýringu og vöktun orkunotkunar og minnkandi kolefnisspori. Heimar eru þannig ekki aðeins að fylgja þróuninni heldur að stýra henni með gagnsæi, ábyrgð og metnaði til að ganga lengra en lög og reglur segja til um.“ Umhverfisframtak ársins 2025 hlýtur SnerpaPower Úr umsögn dómnefndar: ”SnerpaPower ehf. er tæknifyrirtæki á sviði raforkumarkaðar sem hefur þróað frá grunni hugbúnaðarlausn sem gerir stórnotendum raforku, eins og til dæmis álverum og gagnaverum, kleift að nýta lifandi gagnastrauma til að besta og sjálfvirknivæða skammtíma ákvarðanatöku tengdri raforkunotkun og þátttöku á markaði auk þess að uppfylla skyldur um skil á áætlunum og pöntunum rafmagns. SnerpaPower hefur á örfáum árum umbreytt því hvernig orkusækinn iðnaður nýtir raforku á Íslandi og er fyrirtækið nú að sækja á erlenda markaði. Hugbúnaður SnerpaPower byggir á nýjustu aðferðum í gagnavísindum, gervigreind og vélnámi og styður stórnotendur í að nýta endurnýjanlega orkugjafa á skilvirkari hátt, lækka raforkukostnað og bæta samkeppnishæfni sína á alþjóðamörkuðum. Lausnin eykur nýtni raforkukerfisins alls og skilar umframorku og –afli til samfélagsins sem nýtist beint í orkuskiptin.“ JÁVERK og Krónan fengu sérstakar viðurkenningar á deginum.
21. nóvember 2025 Styrkur Íslands liggur í grænni orku Eitt megin framlag Íslands til loftslagsmála hefur verið nægt framboð af endurnýjanlegri orku til að svara þörf orkusækins iðnaðar sem annars þyrfti að knýja starfsemi sína með jarðefnaeldsneyti, með neikvæðari áhrifum á andrúmsloftið og náttúru. Uppbygging grænnar orkuframleiðslu til eflingar stóriðju er eitt farsælasta skref sem þjóðin hefur tekið, bæði í þágu loftslagsmála og fyrir velferð þjóðarinnar. Græn orkuframleiðsla er einn af hornsteinum ímyndar landsins og grundvöllur atvinnulífs og lífsgæða í landinu. Evrópa gefur í en Ísland hikstar Eftirspurn eftir orku hefur aukist hratt á undanförnum árum, einkum eftir grænni orku. Evrópusambandið hefur í þessu samgengi sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi og ráðist í umfangsmikla uppbyggingu grænnar orku og innviða. Í nýjustu tilskipanir Evrópusambandsins á sviði endurnýjanlegrar orku er lögð áhersla á hraðari leyfisveitingar og einfaldað regluverk þannig að leyfisveitingaferli fyrir græn orkuverkefni á landi taki að hámarki tvö ár. Með þessu er ESB ekki einungis að bregðast við loftslagsvánni, heldur einnig að byggja upp orkuöryggi, fjölga grænum störfum, örvar fjárfestingu og styrkir heilt yfir samkeppnishæfni álfunnar. Þessi þróun getur að öðru óbreyttu haft áhrif á samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að orkuskiptum og undirstöðum núverandi stóriðju, svo ekki sé minnst á annan orkusækinn iðnað, svo sem gagnaver og landeldi. Ísland hefur lengi notið samkeppnisforskots vegna yfirburða á sviði endurnýjanlegrar orku, en þegar nágrannalönd okkar byggja hratt upp sambærilega innviði og auka grænt orkuframboð sitt, dregur það úr sérstöðu íslenska orkumarkaðarins. Ef ekki verður brugðist við með markvissum hætti, m.a. með því að einfalda reglur, hraða leyfisveitingum og tryggja skýra forgangsröðun í framkvæmdum, gæti Ísland misst hluta þess forskots sem hefur hingað til laðað að fjárfestingar og verkefni á sviði grænnar orku. Þegar hafa heyrst vitnisburðir frá íslenskum fyrirtækjum að þeirra orkuskipti hafi stöðvast vegna þess að þau fá ekki nauðsynlega raforku og frá fulltrúum gagnavera sem viljað efla starfsemi sína á Íslandi en geta það ekki og opna þá í öðrum löndum. Verði aðgengi að grænni raforku á Íslandi ekki einfaldað getur það á endanum leitt til þess að fjárfestingar og atvinnumöguleikar þurfi frá að hverfa til annarra landa. Umhverfisáherslur og dafnandi atvinnulíf eru ekki andstæður. Fyrirtæki heimsins eru að leita lausna við þeirra losun og Evrópa ætlar að vera hluti af lausninni. Sterk staða Íslands í loftslagsmálum er ekki lögmál heldur ástand sem þarf að viðhalda á markvissan hátt. Nauðsyn skýrara og skilvirkara regluverks Í drögum að nýrri atvinnustefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á að ýta undir vöxt í orkusæknum iðnaði og loftslagsgeiranum, sem er samheiti yfir atvinnugreinar á sviði endurnýjanlegrar orku og kolefnisstjórnunnar. Þar kemur einnig fram að stærsta framlag Íslands til loftslagsmála felist í sölu endurnýjanlegrar raforku til útflutningsgreina. Til þess að þessi stefna raungerist þarf að huga vel að þeim leyfisferlum og oft pólitísku nálaraugum sem fyrirtæki þurfa að þræða til þess að fá að hefja framleiðslu grænnar orku. Títt hefur verið rætt um þau rúmlega 20 ár sem tók að veita Hvammsvirkjun framkvæmdaleyfi. Hefur nú verið brugðist við því ástandi með tveimur frumvörpum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Annað þeirra, svokallað einföldunarfrumvarp, tekst á við þann frumskóg sem leyfisveitingaferlin eru orðin að og mun auka gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika í leyfisveitingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki út úr fyrstu nefnd. Það var aftur lagt fyrir þingið þann 18. nóvember sl. og bíður nú frekari meðferðar. Aðgerðir Evrópusambandsins til að einfalda regluverk til að greiða fyrir orkuskiptum eru ekki aðeins umhverfismál, þær eru einnig skref til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auka viðnámsþrótt samfélaga. Til að viðhalda forskoti okkar eða að minnsta kosti standa jafnfætis í þessari þróun þarf Ísland að innleiða sambærilegar aðgerðir og tryggja að orkuiðnaðurinn fái að dafna innan skilvirks og framsækins regluverks. Opinberar aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki þurrka út samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja heldur verður að líta til þeirra tækifæra þar sem Ísland getur lagt sín lóð á vogarskálarnar á hátt sem gagnast bæði umhverfinu og þjóðfélaginu. Mánudaginn 24. nóvember verður Umhverfisdagur atvinnulífsins haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Þar er yfirskriftin Frá yfirlýsingum til árangurs og verður athyglinni beint að mikilvægi þess að efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrar, leiðtogar íslensks atvinnulífs og fleiri sérfræðingar taka þátt í dagskrá. Höfundur er Sverrir Falur Björnsson, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 21. nóvember 2025.
12. nóvember 2025 Samorka óskar eftir upplýsingafulltrúa Viltu vera rödd framtíðar grænnar orku og veitustarfsemi á Íslandi? Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar eftir að ráða kraftmikinn og drífandi einstakling í starf upplýsingafulltrúa. Upplýsingafulltrúi leiðir almannatengsl, markaðsmál og skipulagningu viðburða fyrir samtökin ásamt því vera leiðandi í umræðunni um Grænt Ísland til framtíðar, um græna orku, hreint vatn og öfluga innviði. Leitað er að reyndum einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á orku og umhverfi, býr yfir skapandi hugsun og hæfni til að framleiða og miðla efni á margvíslegu formi. Helstu verkefni og ábyrgð: · Mótun og miðlun skilaboða Samorku til fjölmiðla, almennings og stjórnvalda · Skipulagning og framkvæmd viðburða, s.s. funda, ráðstefna og annarra lykilviðburða · Ritun fréttatilkynninga, gerð kynningarefnis og miðlun efnis á miðlum Samorku, s.s. samfélagsmiðlum, fréttabréfi og heimasíðu · Fylgjast með umræðu og finna tækifæri til að segja sögur af árangri og samfélagslegu mikilvægi orku- og veitugeirans · Samskipti við samstarfs- og hagaðila og samvinna með starfsfólki í margvíslegum verkefnum Menntunar- og hæfniskröfur: · Háskólamenntun sem nýtist í starfi · Þekking og reynsla af almannatengslum og fjölmiðlun · Reynsla af markaðsstarfi og framleiðslu efnis fyrir ýmsa miðla · Geta til að stýra fjölbreyttum verkefnum og viðburðum · Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni · Frumkvæði, skipulagshæfni og lausnamiðuð hugsun · Góð íslensku- og enskukunnátta í ræðu og riti Um Samorku: Hjá Samorku starfar fámennur en metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin. Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2025. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is).
10. nóvember 2025 Vestfirðir eru heitur reitur Podcast: Play in new window | Download (Duration: 45:08 — 42.7MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Á Vestfjörðum hefur verið notast við rafkyntar hitaveitur í stað hefðbundinna jarðhitaveitna, því lítið hefur fundist í gegnum tíðina af nægilega heitu vatni sem gæti nýst til húshitunar. En með tækniframförum og myndarlegu átaki stjórnvalda í jarðhitaleit á svæðinu hefur vonin aldeilis kviknað um að þetta geti breyst, íbúm á svæðinu til mikilla hagsbóta. Elena Dís Víðisdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Orkubúi Vestfjarða, ræðir uppganginn og stemninguna á Vestfjörðum við Lovísu Árnadóttur og hvernig Vestfirðir eru heitur reitur, líka hvað varðar jarðhita.