Þjóðhagslegur ávinningur af rafbílavæðingu greindur

    Frá undirritun samningsins í húsakynnum Samorku í dag. Frá vinstri: Erla Sigríður Gestsdóttir frá ANR, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Brynhildur Davíðsdóttir frá HÍ, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson frá HR, og Jón Björn Skúlason frá Íslenskri NýOrku og Grænu Orkunni. Á myndina vantar Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusetri.

Samorka, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Græna Orkan, Íslensk NýOrka og Orkusetur hafa gengið til samstarfs við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um gerð skýrslu um þjóðhagslegan ávinning af rafbílavæðingu á Íslandi. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Samorku í dag.

Markmiðið með skýrslunni er að fá góða yfirsýn yfir þann margþætta ávinning sem rafbílavæðing í samgöngum hefur fyrir íslenskt samfélag og gera niðurstöðurnar aðgengilegar svo þær nýtist sem flestum í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á þróun orkuskipta í samgöngum á Íslandi.

Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar verði mikilvægt innlegg í umræðu um loftslagsmál á Íslandi og því brýna verkefni að nýta innlenda, umhverfisvæna orkugjafa í samgöngum innanlands.

Vinna við skýrsluna hefst á næstu dögum. Lokaniðurstöðum skal skilað eigi en 15. febrúar og verða þær kynntar í framhaldinu.

Samorka gat komið að fjármögnun skýrslunnar með myndarlegri aðkomu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkusölunnar og Veitna.

Fulltrúar frá aðildarfyrirtækjum Samorku ásamt þeim sem standa að skýrslunni. Á myndina vantar fulltrúa frá ON og Veitum.

Sólar- og vindorka framtíðin í rafmagnsframleiðslu í heiminum

Næstum helmingur raforkuframleiðslu heimsins mun koma frá sólar- og vindorku árið 2040 skv. árlegri skýrslu Bloomberg um horfur á orkumarkaði, sem kom út á dögunum. Í dag er hlutfallið um 12%.

Til þess að þetta geti gengið eftir þarf að þrefalda fjárfestingu í þróun á vinnslu rafmagns úr endurnýjanlegum orkugjöfum miðað við úr jarðefnaeldsneyti, svo sem úr jarðhita, vatnsafli, sól og vindi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að um 72% af allri fjárfestingu í nýjum orkukerfum um allan heim til ársins 2040 fari í sólar- og vindorkulausnir.

Bloomberg gerir einnig ráð fyrir að árið 2040 fáist rúmlega tvöfalt meiri orka en í dag fyrir hvern dollara sem fjárfest er í sólar- og vindorku og að þessir orkugjafar hafi rutt kolum úr vegi árið 2030. Þá er því spáð að aðeins einn þriðji af þeim kolaorkuverum, sem stefnt er að að byggja í dag, verði að veruleika. Með skýru og góðu regluverki, sérstaklega í evrópsku samhengi, gæti þetta gerst enn fyrr.

Vindorka verður sífellt ódýrari, þökk sé mikilli þróun í tækni og rekstrarumhverfi þeirra og búist er því að framleiðslukostnaður rafmagns úr vindorku verði um 47% lægri árið 2040 en nú. Aflandsvindorka (offshore wind) mun lækka enn meir, eða um að minnsta kosti 70%. Þessi mikli verðmunur skýrist af einnig af tækninýjungum, aukinni samkeppni og meiri framleiðslu miðað við daginn í dag.

Skýrslan staðfestir það sem hefur verið á sjóndeildarhringnum lengi; að endurnýjanleg orka sé ekki lengur óálitlegur kostur, heldur hreinlega nauðsynlegur og arðbær fyrir fjárfesta.

Hægt er að nálgast skýrslu Bloomberg á heimasíðu þeirra.

Blöndustöð skarar fram úr í sjálfbærni

Starfsfólk Landsvirkjunar með Blue Planet verðlaunin

Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu og eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun.

Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Í úttektinni voru 17 flokkar teknir til nákvæmrar skoðunar og varða rekstur Blöndustöðvar, til dæmis samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Samið um lagningu jarðstrengs

Í dag var skrifað undir samning við Steypustöð Skagafjarðar um lagningu jarðstrengs á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur með viðeigandi greftri, slóðagerð og frágangsvinnu, Grundarfjarðarlínu 2.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnet segir að með lagningu Grundarfjarðarlínu 2, 66 kV jarðstrengs milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar og byggingu nýrra tengivirkja aukist afhendingaröryggi raforku á svæðinu til muna.

Vinna við undirbúning, hönnun, útboð og jarðvinnuframkvæmdir vegna byggingar tengivirkis í Grundarfirði hófst árið 2015. Framkvæmdir við Grundarfjarðartengivirki hófust árið 2016, einnig vinna við hönnun nýs tengivirkis í Ólafsvík og gengið var frá innkaupum á jarðstreng. Vinna við strenginn hefst á næstu vikum og er stefnt að því að framkvæmdum verið að fullu lokið, með yfirborðsfrágangi sumarið 2018.

Sólarlampaverkefnið formlega sett í gang

Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.

Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.

Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.

Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.

Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.

Framkvæmdaleyfi Kröflulínu 4 stendur

Mastur Kröflulínu 4

Framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi stendur – úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu Landverndar og Fjöreggs um að leyfið yrði fellt úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti í dag.

Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið hafi staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4.

Með þessari niðurstöðu er allri óvissu um framkvæmdaleyfi Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 eytt og öll framkvæmdaleyfi á leiðinni í gildi.

Framkvæmdir við línurnar hefjast aftur eftir páska.

Úrskurðinn má finna á heimasíðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Vilja auka notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag í Marshall húsinu við Grandagarð í Reykjavík.

Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.

Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda.

Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í dag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði. Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfa.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landsvirkjunar.

Raforkunotkun dróst saman

Raforkunotkun almennings árið 2016 dróst saman um 4,3% miðað við árið á undan. Þá dróst raforkuvinnsla einnig saman um 1,3% og töp við flutning raforku til almenningsveitna og stórnotenda minnkuðu um 3,1%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaði hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðuneytisins.

Orkuspárnefnd hefur tekið saman þrjár mögulegar ástæður fyrir samdrættinum á milli ára. Í fyrsta lagi var veðurfar gott árið 2016, en lofthiti í Reykjavík var 1,5 gráðu hærri það ár en árið 2015. Í öðru lagi var loðnuafli mun minni árið 2016 en á árinu á undan, en loðnuvinnsla krefst mikillar raforkunotkunar. Loðnuaflinn var 100 þúsund tonn í fyrra en var 350 þúsund tonn árið 2015. Í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavera yfir á flutningskerfið ekki fyrr en um mitt árið 2016, en var áður í dreifikerfi raforku.

ON og N1 í samstarf um hleðslustöðvar

ON og N1 ætla að reisa hlöður við hringveginn

Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land.

ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin.

N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum.

Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum.

Nánar um samstarfið má lesa á heimasíðu ON.

Viðskiptavinir ON ánægðastir

Starfsfólk ON fagnar niðurstöðu Ánægjuvogarinnar

Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma.

Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki.

ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina.

Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.