Landsnet Menntasproti ársins

Við afhendingu Menntasprotans í dag

Landsnet er menntasproti ársins 2018. Allan sólarhringinn vinna starfsmenn í stjórnstöð fyrirtækisins við að stýra raforkukerfi Íslands sem er flóknasta kerfi landsins. Landsnet ber einnig ábyrgð á því að sinna viðhaldi þess og rekstri þannig að það virki, að tryggja að landsmenn geti haft ljósin kveikt þegar þeim hentar og að hjól atvinnulífsins snúist.

„ Við erum stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Hjá okkar starfar frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem vinnur að flóknum og áhugaverðum verkefnum sem lúta að þróun, uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við flytjum rafmagn alla daga og vinnum stundum við hættulegar aðstæður. Í því samhengi skiptir menntun og þjálfun miklu máli – með góðum vinnustað náum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en það er tryggja okkur öllum rafmagnaða framtíð,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.

Hjá Landsneti vinna um 120 starfsmenn og fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Landsnet vinnur með Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Rafiðnaðarskólanum og nemendum býðst að vinna hagnýt lokaverkefni sem nýtast samfélaginu.

Fyrirtækið tekur einnig þátt í mikilvægum erlendum rannsóknarverkefnum. Til dæmis stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki.

Menntasproti ársins 2018 from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Þá var Iceland Travel valið menntafyrirtæki ársins.

Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sem var menntafyrirtæki ársins 2017, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson aðstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2014.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði, rúmlega 100 þúsund manns