15. janúar 2016 Góð staða í miðlunarlónum, ekki útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð Staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar um áramót telst góð og ekki er útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð vegna stöðu miðlana fram á vor. Október var hlýr á landinu og hiti almennt yfir meðallagi. Um miðjan október fylltust bæði Hálslón og Þórisvatn. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
11. desember 2015 Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust. Sjá nánar á vef Landsnets.
9. desember 2015 Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum „Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
19. nóvember 2015 Kerfisáætlun send Orkustofnun til samþykktar Landsnet hefur sent Orkustofnun kerfisáætlun 2015-2024 til samþykktar, í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning. Um er að ræða langtímaáætlun til tíu ára annars vegar og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára hins vegar. Í framhaldi af samráðsferli bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi og hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga. Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu er það niðurstaðan að svokölluð leið A1 – tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Er hann m.a. talinn koma best út með tilliti til umhverfisáhrifa. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.
6. nóvember 2015 Ráðstefna um sæstreng til Evrópu Miðvikudaginn 11. nóvember standa Samtök atvinnulífsins, Landsnet o.fl. aðilar að ráðstefnu á Icelandair Hotel Natura þar sem fjallað verður um sæstreng til Evrópu út frá reynslu Norðmanna og möguleikum Íslands á evrópskum orkumarkaði. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
29. október 2015 Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.
23. október 2015 Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að samningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda drögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA og bíða niðurstöðu áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn fyrirtækisins. Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
13. október 2015 Nýr staðall um jarðbindingu háspennuvirkja Samorka vill vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands hefur gefið út í íslenskri þýðingu staðalinn ÍST EN 50522, Jarðbinding háspennuvirkja. Staðalinn kemur í stað ÍST 170 Háspennuvirki fyrir riðspennu yfir 1 kV, ásamt staðlinum ÍST EN 61936-1 Power installations exceeding 1 kV a.c. – Part 1: Common rules. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Staðlaráðs Íslands: Smellið hér
8. október 2015 Búrfellsvirkjun stækkuð um 100 MW Landsvirkjun hefur ákveðið að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og er áætlað að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Stækkunin mun nýta vatn sem í dag rennur framhjá núverandi stöð. Framhjárennslið er aðallega yfir sumarmánuðina og mun stækkunin því aðeins framleiða orku hluta ársins. Uppsett afl hennar mun hins vegar nýtast allt árið um kring til að auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins. Framkvæmdin fellur ekki undir rammaáætlun þar sem um stækkun virkjunar er að ræða. Þá er framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. úrskurði Skipulagsstofnunar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
5. október 2015 Boðaðar skerðingar á afhendingu dregnar til baka Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka boðaðar takmarkanir á afhendingu rafmagns til viðskiptavina samkvæmt sveigjanlegum samningum í ljósi bættrar miðlunarstöðu eftir mikið innrennsli í miðlunarlón í september. Septembermánuður var mjög hlýr á landinu öllu og höfðu hlýindin mikil áhrif á innrennsli til miðlana. Miðlunarlón eru þó enn ekki full fyrir veturinn og veðurfar yfir vetrarmánuðina mun ráða því hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs.