26. janúar 2016 Hagkvæmni fólgin í raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi Möguleikar Íslands og Færeyja til útflutnings endurnýjanlegrar raforku til Bretlands og Noregs og um leið tengjast stærra raforkuflutningskerfi í Evrópu eru til umfjöllunar í nýrri skýrslu NAEN (North-Atlantic Energy Network), sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Noregi. Með lagningu sæstrengs milli Íslands, Skotlands, Færeyja og Hjaltlandseyja væri hægt að flytja orku frá Íslandi til þessara landa og áfram til Evrópu. Möguleg samlegðaráhrif gætu verið þau að raforka frá vatnsafli flytjist frá Íslandi á sumrin en vindorka frá Færeyjum og Hjaltlandseyjum á veturna. Frekari rannsóknir og vinna við að kortleggja möguleg svæði til nýtingar endurnýjanlegrar orku ættu að skila NAEN löndunum töluverðum ávinningi og gagnast allri Evrópu. Skýrslan er samstarfsverkefni fulltrúa frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Hjaltlandseyjum og hefur aukið mjög upplýsingamiðlun þekkingu þátttökuaðila, stofnana og viðkomandi svæða. Nánar er fjallað um skýrsluna á vef Orkustofnunar.
23. janúar 2016 Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku: Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt. Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum. Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara. Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta. Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari. Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.
15. janúar 2016 Fundur Landsvirkjunar um vatnsaflsvirkjanir og fiskistofna, Grand Hótel 20. janúar Áhrif vatnsaflsvirkjana á fiskistofna verða til umfjöllunar á morgunverðarfundi Landsvirkjunar, í samstarfi við Veiðimálastofnun, miðvikudaginn 20. janúar á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn hefst kl. 8:30 og þar verða kynntar rannsóknir Veiðimálastofnunar og rætt um lærdóma sem draga má af reynslunni. Sjá nánar á vef Landvirkjunar.
15. janúar 2016 Góð staða í miðlunarlónum, ekki útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð Staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar um áramót telst góð og ekki er útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð vegna stöðu miðlana fram á vor. Október var hlýr á landinu og hiti almennt yfir meðallagi. Um miðjan október fylltust bæði Hálslón og Þórisvatn. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
11. desember 2015 Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust. Sjá nánar á vef Landsnets.
9. desember 2015 Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum „Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
19. nóvember 2015 Kerfisáætlun send Orkustofnun til samþykktar Landsnet hefur sent Orkustofnun kerfisáætlun 2015-2024 til samþykktar, í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning. Um er að ræða langtímaáætlun til tíu ára annars vegar og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára hins vegar. Í framhaldi af samráðsferli bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi og hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga. Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu er það niðurstaðan að svokölluð leið A1 – tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Er hann m.a. talinn koma best út með tilliti til umhverfisáhrifa. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.
6. nóvember 2015 Ráðstefna um sæstreng til Evrópu Miðvikudaginn 11. nóvember standa Samtök atvinnulífsins, Landsnet o.fl. aðilar að ráðstefnu á Icelandair Hotel Natura þar sem fjallað verður um sæstreng til Evrópu út frá reynslu Norðmanna og möguleikum Íslands á evrópskum orkumarkaði. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
29. október 2015 Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.
23. október 2015 Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að samningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda drögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA og bíða niðurstöðu áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn fyrirtækisins. Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.