Virðið í vatninu

Vatn er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir allt líf, heldur er það undirstaða samfélags og alls atvinnulífs. Samkvæmt alþjóðlegum gögnum er aðeins um 2,5% af vatni jarðar ferskvatn og þar af er aðeins 0,3% aðgengilegt til neyslu. Þetta þýðir að aðeins örlítið brot af vatni heimsins er raunverulega nýtt í þágu samfélags og atvinnulífs. Ríkulegar vatnsauðlindir Íslands og tryggt aðgengi að heilnæmu hagkvæmu vatni er lykilþáttur í samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. 

Íslensku tækifærin 

Talið er að það séu um 86 milljónir rúmkílómetra af vatni á jörðinni, en aðeins um 35 milljónir rúmkílómetra eru ferskvatn. Af þessu eru um 70% bundin í jöklum og snjó, 29% í grunnvatni og aðeins tæpt 1% í vötnum og ám. Ísland er gæfuríkt að búa vel af þessari lífsnauðsynlegu auðlind. Endurnýjanlegar ferskvatnsauðlindir á íbúa hér á landi eru tæpir 450 þúsund rúmmetrar, langmest allra landa í heiminum. Álag á vatnsbúskap er aðeins 0,39% af tiltækum ferskvatnsauðlindum, lægst allra landa í Evrópu. Til samanburðar er álagið í Danmörku 25,27% og í Þýskalandi 35,35%. Þetta sýnir að Ísland býr yfir einstökum vatnsauðlindum og hefur tækifæri til að nýta þær með sjálfbærum hætti. 

Hreint vatn er ekki heppni 

Mörg taka vatni og vatnsveitum sem sjálfsögðum hlut. Fólk opnar fyrir kranann og býst við að fá hreint vatn en að baki krananum og um alla byggð liggja flóknir innviðir og tugmilljarða fjárfestingar til að færa fólki og fyrirtækjum þau lífsgæði sem felast í vatninu. Þegar óvænt mengun eða röskun á starfsemi vatnsveitu á sér stað verður fólk fljótt meðvitað um hversu viðkvæm vatnsveitan getur verið. Starfsmenn vatnsveitna vinna oft við krefjandi aðstæður til að tryggja rekstraröryggi og gæði vatns. Til grundvallar hvers konar vatnsnýtingu þurfa að liggja rannsóknir og greiningar sem tryggja að vatnsnýting sé sjálfbær og falli vel að fyrirliggjandi nýtingu. Rétt eins og með aðra auðlindanýtingu er það forsenda að nýtingin sé sjálfbær. Með lögum um stjórn vatnamála hefur verið komið á fót kerfi sem tryggir rannsóknir og vöktun vatnsauðlindarinnar í samvinnu stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings 

Stórar og mikilvægar fjárfestingar 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 6 kveður á um að tryggja skuli aðgengi fyrir öll að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir árið 2030. Fyrirtæki og sveitarfélög bera ábyrgð á að nýta vatnsauðlindir á sjálfbæran hátt og fjárfesta í innviðum sem tryggja öryggi, gæði vatnsins og samfellda þjónustu. Íslendingar búa við öflugar vatnsveitur sem reknar eru af sveitarfélögum og veitufyrirtækjum en það er ekki sjálfgefið að svo verði um alla tíð. Áskoranir á borð við loftslagsbreytingar, aukna mengun og vaxandi eftirspurn krefjast þess að fyrirtæki og stjórnvöld taki virkan þátt í verndun vatnsins. Það er mikilvægt að hafa í huga að á bak við vatnsveiturnar liggja verðmætir innviðir sem þurfa reglulegt viðhald og nýfjárfestingar til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar. Áætlað endurstofnvirði vatnsveitna á Íslandi er 230 milljarðar króna samkvæmt innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins sem kom út fyrr á árinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að framtíðarhorfur vatnsveitna séu neikvæðar og að uppsöfnuð innviðaskuld sé nú 19 milljarðar króna. Þessar tölur minna á mikilvægi þess að stjórnvöld búi vatnsveitum umgjörð sem hvetur til reglulegrar endurnýjunar, nýfjárfestinga, nýsköpunar og framsýni í rekstri – skort hefur á endurnýjun á þessari umgjörð.  

Opinberar reglur tryggi virka vernd vatnsins 

Vatnsveitur þurfa að hafa skýrar heimildir til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vatnsból og vatnsveitur frá hvers konar ytri ógnum. Það er óforsvaranlegt að óhöpp sem á flesta mælikvarða myndu teljast lítil geti ógnað vatnbólum og valdið verulegri röskun í veitingu vatns til fólks og fyrirtækja. Af öðrum ógnum má telja loftslagsbreytingar og stærri mengunarslys. Opinberar reglur leggja mikla ábyrgð á vatnsveitur en tryggja ekki í öllum tilfellum getu þeirra til að meta og ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til vatnsverndar. Þá er nauðsynlegt að fjárhagslegt rekstrarumhverfi vatnsveitna tryggi getu þeirra til að vinna markvisst í viðhaldi og nýfjárfestingum. Þessu verður að breyta. 

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Hún birtist fyrst í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 22. október 2025.

Það þarf að tryggja öryggi vatnsbóla

Vatnsvernd og áskoranir við vatnsöflun, öryggi og áfallaþol vatnsveituinnviða var til umfjöllunar á opnum fundi Samorku, Verndum vatnið, á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. október. Vatnsveitur eru dæmi um grunnþjónustu í samfélaginu sem við getum einfaldlega ekki verið án.

Á fundinum var veitt góð innsýn inn í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði og hvernig hægt er að takast á við þær. Hægt er að sjá upptökur af erindum neðst í þessari færslu.

Jón Gunnarsson, verkefnastjóri greininga hjá Samorku sýndi fram á vatnsríkidæmi okkar Íslendinga en líka hvað við notum vatn ótæpilega miðað við nágrannaþjóðir á hinum Norðurlöndunum.

Jón Gunnarsson var með skemmtilegar staðreyndir um vatnsnotkun á Íslandi

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna og formaður stjórnar Samorku lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um vatnsbólin og útivistarmöguleika í Heiðmörk með deiluskipulagi og áhættumati.

Sólrún Kristjánsdóttir kynnti áherslur Veitna hvað varðar vatnsvernd í Heiðmörk

Glúmur Björnsson jarðfræðingur sagði síðan frá áskorunum sem HEF veitur standa frammi fyrir við vatnsöflun á Austurlandi.

Glúmur sagði frá ólíkum áskorunum minni veitna og stærri

Tor Gunnar Jantsch, sviðsstjóri hjá Oslo Vann – vatnsveitu Osló-borgar – flutti loks mjög athyglisvert erindi um mikilvægi þess að tryggja vatnsöflun fyrir borgarbúa og hvernig nýjar ógnir kalla á auknar öryggisráðstafanir til að vernda þessa innviði.

Tor Gunnar vakti fundargesti til umhugsunar um öryggi mikilvægra innviða.

Í pallborði sagði Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, mikilvægt að skilgreina vel þessa ómissandi innviði, þá sem við getum ekki verið án í 24 tíma, og setja stíft regluverk um þá. Það blasi við að það þurfi að tryggja að vatnsból séu örugg og tók heilshugar undir viðmið Veitna í Heiðmörk.

Runólfur í pallborðsumræðum

Kristinn Harðarson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku ræddi meðal annars vatnsból fyrirtækisins á miðju jarðhræringasvæði og hvernig baráttan við eldgos hefur hjálpað til við að vera undirbúinn fyrir áföll.

Marianne og Kristinn í pallborðsumræðum

Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri stjórnar vatnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun ræddi meðal annars um hvernig grunnvatn er á höndum og ábyrgð margra aðila í stjórnsýslunni; Umhverfis- og orkustofnun, Heilbrigðiseftirlit, sveitarfélögin, MAST, Veðurstofa Íslands og þess vegna mjög mikilvægt að styrkja samtal og samvinnu þessara aðila.

Sjá má fleiri ljósmyndir frá fundinum á Facebooksíðu Samorku. Ljósmyndari: Hulda Margrét Óladóttir.

Erindi Jóns:

Erindi Sólrúnar:

Erindi Tors Gunnars:

Upptaka af pallborðsumræðum:

Upptaka af fundinum í heild sinni:

Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að undirbúa vegvísi fyrir stafræna væðingu og notkun gervigreindar í orkugeiranum eða   „Strategic Roadmap for digitalisation and AI in the energy sector.“ Framkvæmdastjórnin stefnir á að birta vegvísinn á fyrsta fjórðungi næsta árs, 2026 og frestur til að skila inn umsögnum í samráðsgátt um málið rennur út 5. nóvember n.k.   

Markmiðið með vegvísinum er að nýta þá möguleika sem felast í stafrænni tækni, þ.á.m. gervigreind svo efla megi orkugeirann eins og segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Ursula von der Leyen, hefur undirstrikað mikilvægi þess að lækka orkuverð, minnka notkun jarðefnaeldsneytis og tryggja að neytendur njóti ávinnings af orkuskiptum og stafrænni umbreytingu.  

Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen, fékk því það verkefni að setja fram og fá samþykktan fyrrnefndan vegvísi. Hann byggir á eða mun njóta góðs af áætlunum ESB og lagasetningu á þessu og tengdum sviðum sem þegar eru fyrir hendi eða eru í bígerð, s.s. um gervigreind, orkunýtni, uppbyggingu flutningskerfis raforku, rafvæðingu og hitun og kælingu, svo fátt eitt sé nefnt. Í þessari stefnumótun á einnig að fjalla um ört vaxandi og mikla orkunotkun gagnavera og hvernig hægt sé að með sjálfbærum hætti að gera þau hluta af orkukerfinu.

Allir áhugasamir sem vilja lýsa sínum sjónarmiðum eða leggja til gögn og upplýsingar, geta sent inn umsagnir í samráðsgáttina um vegvísinn til 5. nóvember n.k.  Hana er að finna hér:

Artificial intelligence and digitalisation for energy – a roadmap: Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Tilkynning framkvæmdastjórnar ESB um væntanlegan vegvísi og samráðsgátt:

https://energy.ec.europa.eu/news/strategic-roadmap-digitalisation-and-ai-energy-sector-consultations-opened-2025-08-06_en: Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Hvernig hugsar þú um hreint vatn?

Vissir þú að hver íbúi í landinu notar um það bil 150 lítra af vatni á dag?

Þegar iðnaður er talinn með notum við 9.190 lítra á hverri sekúndu. Það er eins og tvöfaldar Elliðaárnar á hverri sekúndu. Eða fimm þúsund dæmigerðar vatnskönnur á hverri sekúndu. Eða rúmlega 170.000 Kópavogslaugar, sem er stærsta sundlaug landsins, á ári. Af hreinu og góðu vatni. Þvílík lífsgæði!

Vatnið er grunnforsenda heilbrigðis, lífsgæða og samfélagslegrar þróunar. Við á Íslandi erum vissulega heppin að eiga eins góða vatnsauðlind og raun ber vitni, en það þarf meira en heppni til að auðlindir landsins skili sér í samfélags- og efnahagslegum gæðum. Það þarf stöðugt að gæta, vernda og sinna innviðum þeirra af ábyrgð og ekki þarf mikið til að eitthvað fari verulega úrskeiðis.

Loftslagsbreytingar, aukin landnýting, stækkun byggðar og fólksfjölgun er meðal þess sem hefur skapað aukið álag á vatnsból víða um land og getur aukið hættu á mengun. Þá geta væringar og óstöðugleiki á alþjóðavettvangi einnig haft áhrif á öryggi mikilvægra innviða eins og vatnsveitna.

Um þessar áskoranir verður rætt á opnum fundi Samorku miðvikudaginn 22. október. Yfirskriftin er Verndum vatnið og verður þar fjallað um vatnsvernd, öryggi og áfallaþol vatnsveitna.

Hlutverk vatnsveitna

Hér á landi hafa veitufyrirtæki það lögbundna hlutverk að byggja upp og sinna öflugum vatnsveitum sem þjóna heimilum og atvinnulífi um allt land.  Ýmsar hindranir standa þó í vegi þeirra, til dæmis flókin leyfisveitingaferli sem seinka nauðsynlegum framkvæmdum eins og Samorka hefur oft bent á. Markviss stefnumótun, samvinna ólíkra aðila og skýrar heimildir veitufyrirtækja til að sinna lögbundnu hlutverki sínu er nauðsynleg til að tryggja komandi kynslóðum áframhaldandi aðgengi að öruggu neysluvatni og svo að hægt sé að styðja við öflugt atvinnulíf um allt land.

Gott skipulag tryggir betri árangur

Mikilvægt er að veitufyrirtæki fái greiða og tímanlega aðkomu að skipulagsmálum svo hægt sé að hanna og byggja upp veitukerfi sem standast kröfur framtíðarinnar og standa vörð um öryggi vatnsbóla, sem styðja við lífsgæði og atvinnulíf á hverjum stað. Ákvarðanir um skipulag nýrra hverfa verða að taka mið af vatnsvernd og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þar þarf að gæta jafnvægis milli þarfa samfélagsins og verndar náttúrunnar. Jafn mikilvægt er að huga að og greina veituinniviði ef til stendur að breyta eða þétta hverfi.

Fjárfestingaumgjörð vatnsveitna þarf að styðja við reglubundið viðhald og endurnýjun innviða, svo tryggja megi áfram vatnsgæði í fremstu röð og örugga dreifingu til allra landsmanna. Einnig þarf að horfa heildstætt á nýtingu vatns, þar sem tryggt er að vatn sem nýtt er í atvinnuskyni eða framleiðslu ógni ekki hagsmunum almennings.

Við berum öll ábyrgð

Það skiptir einnig miklu máli að við sem einstaklingar gerum okkur sér grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að því að stuðla að hreinu og heilnæmu vatni til framtíðar. Dagleg hegðun okkar, eins og að skilja eftir rusl, aka utan vega eða nota efni sem geta mengað jarðveg getur haft bein áhrif á vatnsgæði. Það er því mikilvægt að halda því á lofti að hreint vatn er ekki sjálfsagt mál heldur verðmæt auðlind sem við berum öll ábyrgð á.

Vatnið okkar er lífæð samfélagsins. Með góðu skipulagi, virðingu, varkárni og langtímasýn í meðferð þess tryggjum við að komandi kynslóðir njóti áfram þeirra lífsgæða sem hreint og gott neysluvatn er.

Grein eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is mánudaginn 20. október 2025.

Nýr forgangslisti Íslands í ESB-hagsmunagæslu

Ríkisstjórnin samþykkti 17. október s.l. nýjan forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB) að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og opnu samráði við hagaðila í samráðsgátt stjórnvalda, þar á meðal Samorku. Margvísleg hagsmunamál á sviði orku- og veitustarfsemi er að finna í listanum.

Útgáfa forgangslistans var mikið framfaraskref og hefur síðan reynst lykilverkfæri við skipulagningu hagsmunagæslunnar að því fram kemur í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Aðferðafræðin við vinnslu listans miðar að því að greina málefni á vettvangi ESB með heildstæðum hætti og draga þannig fram á skipulegan hátt þau mál þar sem talið er að Ísland kunni að hafa sérstaka hagsmuni.

Meðal hagsmunamála á forgangslistanum sem skipta máli fyrir íslenska orku- og veitugeiranum má nefna aðgerðaáætlun ESB um jarðvarma, reglugerðir um rafeldsneyti, orkugerðir ESB, stefnuáætlun ESB um viðnámsþol vatns og tilskipun ESB um hreinsun skólps frá þéttbýli.

Sjá fréttatilkynningu íslenskra stjórnvalda þar sem finna má hlekk á forgangslistann í heild sinni.

Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Þingmenn á Evrópuþinginu lýstu eindregnum stuðningi við stóraukna nýtingu jarðhita í umræðum í dag 16. október. Þeir sögðu að þessi endurnýjanlega orkulind væri mjög vannýtt í álfunni en ryðja þyrfti hindrunum úr vegi til að efla vinnslu á jarðhita til húshitunar og fleiri nota. Einn þingmaður benti á Ísland sem dæmi um land þar sem hægt væri að hafa fjárhagslegan hagnað af jarðhitanýtingu. Umræðan var á vegum orkunefndar Evrópuþingsins.

Þingmenn sem tóku til máls sögðu að hægt væri að finna jarðhita og nýta hann víða í Evrópu ekki síst þegar borað er dýpra þar sem hitinn er meiri. Lághitinn væri auðvitað nýtanlegur og varmadælur bar einnig á góma. Mikilvægt væri að efla rannsóknir og kortlagningu jarðhita, skýra og bæta ferli leyfisveitinga og tryggja að nærsamfélagið væri með í ráðum þegar ráðist væri í boranir og vinnslu.

Í umræðunni kom líka fram að hægt væri að auka orkuöryggi og stórminnka notkun á gasi til hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. ESB hefur einmitt sett sér það markmið að hætta alfarið að kaupa gas af Rússlandi fyrir lok ársins 2027. Margir þingmanna bentu á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun til jarðhitaverkefna þar sem upphafskostnaður væri gjarnan töluverður, áhætta fyrir hendi og ákveðin óvissa um árangur. Uppskeran gæti þó að sama skapi verið mikil.

Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig að undirbúa aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári.  Hún er hluti af víðtækari stefnu um hitun og kælingu. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands í jarðhitanýtingu.

Evrópuþingmenn binda greinilega vonir við aðgerðaáætlunina og spurðu fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar á nefndarfundinum um helstu áherslur í henni. Þau svör fengust að samráð vegna vinnslu áætlunarinnar væri í fullum gangi og athyglin beindist einmitt að leyfisveitingum og fjármögnun auk þess sem tekið yrði mið af jarðhitaverkefnum í Evrópu sem gengið hafa vel.

Landsvirkjun og Orka náttúrunnar sendu einnig inn umsagnir í samráðsgáttina ásamt íslenskum stjórnvöldum. Vonir eru bundnar við að þær upplýsingar, dæmi um verkefni og almenn sjónarmið gagnist sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar sem voru líka þátttakendur í pallborðsumræðum á Our Climate Future-ráðstefnunni í Brussel um nýtingu jarðhita, þriðjudaginn 14. október s.l.

Með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í pallborði voru stjórnendur íslenskra orkufyrirtækja sem eru í forystu í nýtingu jarðhita – Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS Orku auk stjórnarformanns Samorku, Sólrúnar Kristjánsdóttur.

Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen sagði í opnunarræðu ráðstefnunnar að Ísland vísaði veginn í nýtingu jarðhita og möguleikarnir væru miklir á þessu sviði. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að Ísland væri tilbúið til samstarfs með því að deila reynslu og þekkingu á nýtingu  jarðhita. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra bauð gesti velkomna og deildi m.a. með fundargestum frásögn af hraunhitaveitunni í heimabæ sínum Vestmannaeyjum.

Sjá hér að neðan upptöku af umræðum Evrópuþingmanna um jarðhita, 16. október. Umræðan stendur í um 50 mínútur og byrjar ca. 35 mínútur inn í upptökuna:

Committee on Industry, Research and Energy Ordinary meeting – Multimedia Centre: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Hér er einnig hægt að skoða umsagnir sem Samorka, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og íslensk stjórnvöld sendu inn í samráðsgátt ESB vegna stefnu um hitun og kælingu – þ.á.m. jarðhita:

https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy/feedback_en?p_id=20290: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Opnun Brussel-skrifstofu formlega fagnað

Samorka fagnaði opnun skrifstofu sinnar í Brussel með því að bjóða til móttöku á Norrænu orkuskrifstofunni þar sem starfsmaður Samorku hefur aðsetur.

Í móttökunni voru samankomnir fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja en einnig fulltrúar systursamtaka Samorku á hinum Norðurlöndunum og fleiri.  Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sólrún Kristjánsdóttir stjórnarformaður og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fluttu ávörp og lögðu áherslu á mikilvægt þess að stíga þetta skref til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og gæta íslenskra hagsmuna. 

Löggjöf og regluverk sem upprunin er hjá ESB mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja því hún er að stórum hluta tekin upp íslenska löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samorka leggur því ríka áherslu á að að vakta vel þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja.

Það er líka mikilvægt að koma sjónarmiðum orku- og veitugeirans á framfæri, t.d. um að efla nýtingu jarðhita á evrópska vísu. Ísland er í forystu á því sviði með áratuga reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu.  

Öflugt jarðhitaþing í Zürich

Fulltrúi Samorku tók þátt í Evrópska Jarðhitaþinginu, European Geothermal Congress, sem haldið var Zürich í Sviss frá 6.- 10. október. Þátttakendur voru hátt í 1200 talsins frá yfir 40 löndum. Á þingið mætti öflugur hópur frá Íslandi, yfir 20 fulltrúar orku-, tækni- og ráðgjafarfyrirtækja, háskóla og fleiri til að segja frá því sem við höfum fram að færa og til að læra af öðrum þátttakendum.

Þrír af fjölmörgum fulltrúum frá Íslandi á ráðstefnunni.

„Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu og lét svo sannarlega til sín taka hér,“ sagði Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, sem sat ráðstefnuna. „Það er mikilvægt til að efla enn frekar nýtingu þessarar endurnýjanlegu orkulindar á alþjóðavísu og metnaðurinn er fyrir hendi víða um heim. Þannig er Evrópusambandið t.d. að undirbúa sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands á þessu sviði.“

European Geothermal Energy Council – Evrópsku jarðhitasamtökin – héldu ráðstefnuna og á  aðalfundi samtakanna var tilkynnt um nýja stjórn þar sem Miklos Antics er forseti.  Það var athyglisvert að svissnesku gestgjafarnir ætla sér stóra hluti í jarðhita og í vettvangsferð síðasta dag þingsins kom glögglega í ljós hversu rannsóknir og vísindi gegna þar mikilvægu hlutverki. Næsta Evrópska jarðhitaþingið verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi árið 2028.

Ný stjórn EGEC – Evrópsku jarðhitasamtakanna.

Sveinn tók nokkra íslenska þátttakendur tali á ráðstefnunni og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan.

Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi 

Árlegur fundur og námsstefna borgaralegra yfirvalda almannavarna á Norðurlöndunum fór fram dagana 10. – 12.  september í Kuopio í Finnlandi. Fundinn sóttu yfirmenn og starfsmenn viðkomandi stofnana ásamt stjórnendum ýmissa samfélagslegra stofnana og lykilfólki úr atvinnulífi á Norðurlöndum.  Samorku var sérstaklega boðið til fundarins og Finnur Beck, framkvæmdastjóri sótti hann.  

„Það er augljóst að Norðurlöndin leggja nú um mundir mikla áherslu á viðbúnað og viðnámsþrótt sinna samfélaga gagnvart hvers konar áföllum“ segir Finnur. „Meðal umfjöllunarefna var staða Norðurlandanna í núverandi öryggissamhengi Evrópu, uppbygging viðbúnaðar og samfélagslegur viðnámsþróttur sem hryggjarstykki í allsherjaröryggi.“  

„Það er rík hefð fyrir miklu öryggi, bæði fyrir starfsmenn og tryggan rekstur í orku- og veitugeiranum. Undirbúningur og framkvæmd þess er hins vegar stöðugt til endurskoðunar og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi.“  

Hreint vatn er ekki heppni

Mikilvægt er að standa vörð um neysluvatnið okkar því það er okkar mikilvægasta auðlind. Í nútímasamfélagi verður það sífellt flóknara verkefni.

Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumanneskja vatnsmiðla hjá Veitum, ræðir við Lovísu Árnadóttur um vatnsveituna á höfuðborgarsvæðinu og minnir okkur rækilega á að hreint vatn er ekki heppni.

Þátturinn kemur út 2. október, á afmælisdegi vatnsveitu í Reykjavík. Þennan dag árið 1909 var vatnsleiðsla frá Gvendarbrunnum fyrst tekin í notkun.

Hrefna Hallgrímsdóttir er gestur Lovísu Árnadóttur í þættinum.