Freysteinn fær John Snow verðlaunin

Freysteinn Sigurðsson, jarðfræðingur á Orkustofnun var heiðraður á Norræni vatnsveituráðstefnu sem haldin var nýlega á vegum Samorku og systrasamtaka vatnsveitna á Norðurlöndum. Hann fékk hin norrænu John Snow “Pump Handle Award” ársins 2006. Sú viðurkenning er veitt fyrir einstakt framlag í þágu betra og heilnæmara neysluvatns.  John Snow var enskur læknir sem var upphafsmaður þessa að beita faraldsfræðilegum rannsóknum við rannsóknir á vatnsbornum sýkingum.  Hann stöðvaði kólerufaraldur í Soho í London um miðja nítjándu öldina með því að taka handfang af brunni í hverfinu. Á þessum tíma var ekki búið að finna bakteríuna sem veldur kóleru og því var trúað að kólera bærist með lofti. 

                                   

Freysteinn hefur starfað sem jarðfræðingur í áratugi og unnið að því að finna neysluvatn fyrir vatnsveitur vítt um land. Hann hefur verið óþreytandi í því að ráðleggja og leiðbeina um hvernig best skuli staðið að virkjun og verndun vatnsins. Hann hefur haldið fjölda erinda og námskeiða um efnið og verið stjórnvöldum til ráðuneytis um gerð laga og reglugerða sem tryggja gæði vatnsins.  Hann er því vel að þessari viðurkenningu kominn.

Öruggt drykkjarvatn – góð mæting á ráðstefnuna

Haldin var áhugaverð ráðstefna á Grand Hótel Reykjavík 8. – 9. júní nk.  Efni hennar var öruggt drykkjarvatn og hvernig á að tryggja það.  Fjallað var um hættur sem steðja að drykkjarvatni, hvernig á að koma í veg fyrir mengun og viðbragðsáætlanir ef drykkjarvatn mengast.  Það er  Samorka – samtök vatnsveitna á Íslandi stóð fyrir ráðstefnunni í samvinnu við systrasamtökin á Norðurlöndum.  

 

Að tryggja öruggt drykkjarvatn fyrir íbúana er eitt af mikilvægustu verkefnum sveitarfélaga. Á Íslandi, Noregi og Svíþjóð er drykkjarvatn skilgreint sem matvæli og vatnsveitur sem matvælafyrirtæki. Þessi skilgreining undirstrikar mikilvægi þessa verkefnis. Á ráðstefnunni voru fluttir 28 fyrirlestrar.  Gestafyrirlesari var Hiroko Takasawa frá Evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni í Róm.  Hún fjallaði um hvernig Sameinuðu þjóðirnar eru að vinna að því að uppfylla þúsaldarmarkmiðin í vatnsmálum.  Þátttaka var mikil 220 manns.  Fundarbók með erindum og glærum er fáanleg á Samorku.

Áhrif veðurfarsbreytinga á endurnýjanlegar orkulindir

Á undanförnum árum hefur verið unnið að norrænu samstarfsverkefni um áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa. Verkefnið er kallað Climate and Energy og er fjármagnað af Norræna orkusjóðnum (Nordisk energiforsking) og fyrirtækjum innan norræna orkugeirans, þ.m.t. Landsvirkjun.

 Þátttakendur í verkefninu eru flestar veður- og vatnafræðistofnanir Norðurlanda svo og margir háskólar og rannsóknastofnanir og hefur verið sett á laggirnar víðfemt net vísindamanna sem vinna saman að þessu mikilvæga verkefni.  Meginhópar verkefnisins fjalla um hinar endurnýjanlegu auðlindir: Vatnsafl, lífmassa,sólarorku og vindorku. Verkefninu lýkur á þessu ári og af því tilefni hefur verið ákveðið að kalla til evrópskrar ráðstefnu undir heitinu : European Conference on Impacts of Climate change on Renewable Energy Sources, EURENEW. 

Ráðstefnan verður haldin á Hotel Nordica í Reykjavík, dagana 5. – 9. júní sumar og er gert ráð fyrir að um 200 manns sæki hana.

Upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefslóðinni:

www.os.is/eurenew2006/

 

 

Seminar on Energy Resources and Energy Production in Iceland

PURE ICELAND – Presentations

Seminar on Energy Resources and Energy Production in Iceland. Science Museum London March 16, 2006.

Ásgeir Margeirsson; Harnessing Geothermal Energy: Push here ppt (30 Mb);  Push here pdf.(5,6 Mb)

Lárus Elíasson: Exporting Know-how in the geothermal Field: Push here ppt (2,2 Mb); Push here pdf.(1,2 Mb)

Ólöf Nordal and Steinunn Huld Atladóttir: Iceland Un-Plugged: Push here ppt (4,7 Mb); Push here pdf (2,9 Mb)

Þorsteinn Hilmarsson: Icelandic Energy: Sustainable and Environmentally Sound: Push here ppt (47Mb); Push here pdf.(3 Mb)

Hellisheiði Power Plant; Movie 1: Push here

Hellisheiði Power Plant; Movie 2: Push here

Netorka hf hefur tekið í notkun hugbúnaðarkerfi fyrir frjáls viðskipti með raforku

Formleg gangsetnig þessa tölvukerfis fór fram í stjórnstöð Landsnets við Bústaðaveg þann 3. apríl, að viðstöddu fjölmenni. Þorleifur Finnson formaður stjórnar NetOrku flutti ávarp og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Torfi H Leifsson lýsti kerfinu áður en iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir tók það í notkun  á þann táknræna hátt að senda tilkynningu með ósk um að RARIK hætti að kaupa rafmagn af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir höfuðstöðvar sínar við Rauðarárstíg, en hæfi þess í stað viðskipti við söludeild RARIK. Þessi gjörningur mun taka gildi 1. júní n.k.

Upplýsingar um NetOrku: Smellið hér

Góður árangur af jarðhitaleit

Helstu verkefni ÍSOR hafa verið vegna nýtingar háhita til rafmagnsframleiðslu og jarðhitaleitar á lághitasvæðum.  Á Hjalteyri var boruð ný vinnsluhola fyrir Norðurorku sem gaf afburðagóður árangur og er með afkastamestu lághitaholum landsins. Við Urriðavatn náðist góður árangur fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Sama er að segja um borun við Kaldárholt fyrir Hitaveitu Rangæinga og á Hólum í Hjaltadal.  Einnig fannst vatn við Hrollleifsdal í Skagafirði sem gefur möguleika á hitaveitu á Hofsósi.  Á Heimaey var boruð djúp rannsóknarhola en lítið fannst af heitu vatni. Niðurstöður varpa þó ljósi á jarðfræði og myndunarsögu eyjanna. Einnig voru landgrunnsmálin fyrirferðamikil í starfi ÍSOR.  ISOR hefur unnið mikið að landgrunnsmálum og einnig mannvirkjajarðfræði m.a. vegna jarðgangnagerðar. Vinna  við jarðhitarannsóknir erlendis var í Úganda, Nikaragúa og á Diskóeyju við Grænland.

 

Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR fór yfir áætlanir um stærð orkuauðlindanna á Íslandi. Vatnsaflið hefur verið áætlað um 30 TWh og af því er búið að virkja 40%. Það sem eftir stendur er aðeins fyrir um 1-2 álver í viðbót.  Jarðhitinn var áætlaður 20 TWh árið 1985 og er það örugglega vanáætlað.  Hann benti á að umhverfisáhrif jarðhitanýtingar væru minni en vatnsafls og ef vel væri gengið um væri hægt að færa til sama horfs og áður þegar nýtingu væri hætt. Þannig væri jarðhitinn sjálfbær.  Ef hægt verður að nýta jarðhitann dýpra og ná í mjög heitan vökva eða dæla niður þá er jarðhitaauðlindin mikið stærri en nú er gert ráð fyrir. En mikilvægt er að ljúka við gerð rammaáætlunar til að móta stefnu í orkunýtingu til framtíðar.

 

Síðan voru erindi um jarðfræði og jarðhita á Austurlandi.  Guðni Axelsson sagði frá jarðhitaleit fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Guðmundur Davíðsson sagði frá rekstri og framtíðarsýn veitunnar.  Þeir sögðu frá góðum árangri jarðhitaleitar og borana við Urriðavatn.  Hola 10 var boruð á síðasta ári og er hún efnileg hola. Hún var fyrst þurr en þá var breytt um stefnu og hún skáboruð í vestur undir vatnið. Í 1330 metrum kom mikið 79°C heitt vatn þar sem hitt var á norður/suður sprungu sem var nær lóðrétt. Þessi hola mun standa undir vinnslu í næstu framtíð.  Haukur Jóhannesson sagði frá jarðfræði og jarðhita Austurlands og setti í samhengi við jarðfræði Íslands.  Elstu jarðlög á Íslandi eru á Vestfjörðum og á Austurlandi. Á Austurlandi er lítill jarðhiti á yfirborði. Hæstur hiti er í Laugarvalladal um 70°C. Árni Hjartarson sagði frá vatnsauðlindinni og neysluvatnsöflun á Austurlandi. Þorsteinn Egilsson sagði notkun bylgjubrotsaðferð til að kortleggja laus jarðlög ofan á þéttu bergi sem nýtt hefur verið m.a. við athuganir vegna jarðgangnagerðar í Héðinsfirði og til Vestmannaeyja. Sigurður Arnalds fræddi um gang mála við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og að verkið væri á áætlun þrátt fyrir tafir vegna erfiðleika við borun jarðgangna.

Erindin frá fundinum eru á vefsíðunni www.isor.is

Samningur milli Lagadeildar Háskóla Íslands og Samorku

Skortur á rannsóknum og umfjöllun um auðlindarétt hefur verið til baga í umræðu og ákvarðanatöku um auðlindanýtingu hér á landi. Samorka mun koma að mótun stöðunnar og vali á verkefnum. Það er hlutverk Lagastofnunar Háskólans að sjá til þess að faglega verði staðið að framkvæmdinni og að fyllstu óhlutdrægni verði gætt. 

Myndin er tekin við það tækifæri, þegar undirritun samningsins fór fram í Háskóla Íslands. Það er Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri Samorku sem staðfestir samninginn fyrir hönd Samorku, en fyrir hönd Háskóla Íslands ritar háskólarektor Kristín Ingólfsdóttir undir, ásamt Páli Hreinssyni forseta lagadeildar og Viðari Má Matthíassyni próffesor.

Fuglaflensa í neysluvatni – er ástæða til að hafa áhyggjur?

Ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af því að fuglaflensa berist með neysluvatni.  Ýmsir hafa verið að velta því fyrir sér hvort opnum vatnsbólum stafi hætta af því ef sýktir fuglar berast í vatnsból og að sýkin berist þannig með drykkjarvatni til fólks.  Samkvæmt samtali við Ásu Atladóttur hjá Landlæknisembættinu er ekki talin hætta á því.  Ef sú hætta væri fyrir hendi væri mikið meira um slíkar sýkingar en raunin er.  Tiltölulega fáir eru að sýkjast þrátt fyrir að veiran hafi greinst í fuglum víða um heim. Þeir sem hafa veikst hafa allir verið í návígi við fugla og víða í Asíu er það návígi mikið. 

 

Fuglaflensan er veira að gerðinni H5N1. Hún lifir 35 daga við 4°C í vatni og lengur eftir því sem vatnið er kaldara. Hún getur verið í fuglum og fleiri dýrum s.s. selum, hvölum, hestum, svínum, minkum og köttum án þess að þau veikist eða sýni einkenni um veikina. Alifuglar eru hinsvegar mikið viðkvæmari fyrir veirunni og veikjast frekar. Áætlað er að um 70% af alifuglum í heiminum sé ræktað í bakgörðum og aðalhættan er fyrir börn sem eru á leik þar sem sýktir fuglar eru.  Hættan sem vofir yfir er að veiran berist í manneskju sem er með svipaða tegund af inflúensu og hún stökkbreytist þar og fari að berast á milli manna.  Þetta er það sem talið er að hafi gerst þegar spánska veikin herjaði á heimsbyggðina fyrir nær hundrað árum. Sótthreinsun með spritt,  klór og geislun drepur veiruna.  Hitun í 56°C í 3 klst eða í 60°C í 30 mínútur eða í 70°C í 1 mínútu drepur einnig veiruna.

 

Þrátt fyrir að ekki sé mikil hætta á að veiran berist með neysluvatni er samt sjálfsagt að hafa varann á og huga að ráðstöfunum þar sem eru opin vatnsból.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins eru svör við algengum spurningum um fuglaflensu. Sjá www.landlaeknir.is

 

Nýtt vatnsból á Flúðum tekið í notkun

Í desember sl. var tekið í notkun nýtt vatnsból fyrir Vatnsveitu Flúða.  Vatnsveitan hefur stækkað mikið á undanförnum árum og þjónar nú nær allri sveitinni, gróðurhúsarækt, sveitabýlum og sumarhúsum, alls um 700 manns.

Farið var að bera á vatnsskorti á álagstímum. Búið var að bora 9 holur í nágrenni byggðarinnar til að leita að köldu vatni en það reyndist alltaf vera of heitt. Á kaldasta svæðinu var hitastigullinn 170°C/km.  Því var farið í að finna vatn lengra frá og virkja vatnslindir í um 11 km fjarlægð frá Flúðum í svonefndum Fagradal í landi Berghyls.  Grafið var niður á sprungu og yfir hana var sett rör og síðan steypt í kring og lokað vel.  Þessi lind gefur um 24 l/s og í næsta nágrenni er önnur lind sem áætlað er að gefi annað eins.  Hún verður virkjuð síðar. Vatnsbólin sem vatnsveita Flúða hefur notað síðustu ár, á Hrunavöllum, gáfu alls um 13 l/s í dælingu, þannig að þetta er góð viðbót.

Vatnsbólið er í 286 metra hæð og er sjálfrennandi með 15 kg þrýstingi þegar það kemur að vatnstankinum við Flúðir. Þar er vatnið 6°C sem er hæfilegt fyrir vatnsveitu.  Vatnið er leitt í 225 mm plaströrum frá Set ehf að Flúðum og í 450 tonna tank og þaðan niður að Langholti þar sem er annar tankur, 200 tonna sem þjónar byggðinni þar. Kostnaður við þessa framkvæmd var 35 Mkr en hún er fljót að borga sig þar sem bara dælukostnaðurinn sem sparast var 2 Mkr. á ári.

Öll framkvæmd við nýju vatnsveituna var í höndum heimamanna. Guðmundur Hjaltason tæknifræðingur frá Galtafelli sá um hönnun, verktakafyrirtækið Gröfutækni sá um jarðvegsframkvæmdir og Plast og Suða sá um útdrátt og samsuðu.