Íbúafundir og utanaðkomandi aðilar

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Að undanförnu hafa verið haldnir nokkrir íbúafundir um skipulagsmál í sveitarfélögum sem liggja að fyrirhuguðum virkjunum í Þjórsá. Af myndum og fréttum að dæma virðist hins vegar sem háværasta fólkið á þessum fundum séu óvart ekki íbúar viðkomandi sveitarfélaga. Fulltrúar ýmissa samtaka sem kenna sig við náttúruvernd virðast stunda að skipuleggja leiðangra á þessa fundi, leggja þar jafnvel fram ályktanir sínar og hafa sig þar mikið í frammi, enda athygli fjölmiðla tryggð. Athyglisvert er að oft eru talsmenn þessara sömu samtaka öðrum áhugasamari um það sem þeir kalla íbúalýðræði. Einhverra hluta vegna virðist þó sem þetta mikla áhugafólk um íbúalýðræði treysti íbúum viðkomandi sveitarfélaga ákaflega illa til að ráða sínum ráðum sjálfir. Á þessum fundum hafa meðal annars atvinnuuppbygging og verðmætasköpun verið til umfjöllunar. Engu að síður hafa samtök í atvinnulífi hingað til metið það sem svo að íbúafundir sveitarfélaga, haldnir að frumkvæði sveitarstjórna, séu einmitt vettvangur íbúa viðkomandi sveitarfélaga til að ráða sínum ráðum í friði – enda íbúarnir hverju sinni fullfærir um það.