18. september 2007 Vatnsmæling í grennd – Samorka styður þátttöku skólabarna í alþjóðlegu verkefni Skólaverkefni þar sem börn í 6. og 7. bekk mæla gæði vatnsins í sínu nágrenni verður unnið á tímabilinu 18. september til 18. október. Þetta er gert að alþjóðlegri fyrirmynd – „World Monitoring Day.“ Verkefnið á uppruna í Bandaríkjunum en hefur breiðst út víða á undanförnum árum. (Sjá nánar á alþjóðlegri vefsíðu verkefnisins). Mælt er uppleyst súrefni, sýrustig, grugg og hitastig. Allir þessir þættir vísa á heilnæmi vatnsins fyrir lífríkið, en verkefninu er ætlað að efla vitund um mikilvægi góðrar umgengni við vatnið, hvað mengi vatnið og hvernig megi draga úr mengun vatns. Um leið vilja Samorka og vatnsveiturnar vekja athygli á heilnæmi íslenska vatnsins og virkja rannsóknaráhugann og „vísindamanninn“ í íslenskum skólabörnum. Sex grunnskólar taka þáttÍ samstarfi við Samorku og vatnsveitur á hverjum stað hefur verið ákveðið að sex grunnskólar taki þátt í verkefninu í ár. Skólarnir sem nú taka þátt eru Melaskóli og Norðlingaskóli í Reykjavík, Klébergsskóli á Kjalarnesi, Hofsstaðaskóli í Garðabæ, Varmárskóli í Mosfellsbæ og Fellaskóli í Fellabæ. Fræðsluefni unnið fyrir vef KHÍSem fyrr segir er miðað við að verkefnið sé unnið á tímabilinu 18. sept. til 18. október og niðurstöðum skilað inn á alþjóðlegu vefsíðuna í desember. Samorka og vatnsveitan á viðkomandi stað leggja til mælisettin og fulltrúi vatnsveitunnar kemur í skólann og fræðir um vatnsveituna á staðnum og mikilvægi þess að ganga vel um vatnið. Opnuð hefur verið íslensk vefsíða fyrir verkefnið sem Orkuveita Reykjavíkur kostar. Sérstakt eyðublað er til að færa inn niðurstöðurnar og þær verða sendar til Samorku sem síðan setur þær inn á alþjóðlega vefsíðu verkefnisins. Einnig er fyrirhugað að bjóða nemenda í Kennaraháskóla Íslands að gera lokaverkefni með fræðsluefni um vatn til að hafa á vefsíðunni, en hafin er þróun fræðsluefnis um mikilvægi vatnsverndar sem vistað verður á vef verkefnisins.