Framkvæmdir og leikreglur

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Algeng rök gegn byggingu álvers í Helguvík eru á þá leið að ekki sé ýkja mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum, þar séu fremur konur en karlar án atvinnu og þær sæki síður en karlar í vinnustaði á borð við álver. Þá sé ekki búið að tryggja orku fyrir vænta stækkun álversins síðar meir. En er það hlutverk stjórnmálamanna að stýra annars sjálfsprottinni uppbyggingu atvinnulífs út frá sjónarmiðum á borð við þessi?

Nú er það raunar svo að á annað hundrað kvenna starfar hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Aðalatriðið er hins vegar það að fjárfestingar eins og þessi eiga ekki sífellt að vera settar í einhvers konar varnarstöðu af hálfu fólks úti í bæ sem telur sig hafa þarna betri yfirsýn yfir alla hluti. Nýlega bárust þannig fréttir af því að erlend leikfangakeðja hyggist síðar á þessu ári opna nýjar verslanir í Grafarholti og á Akureyri. Hvað ef tölur sýna nú að atvinnuleysi meðal íbúa í Grafarholti og á Akureyri sé mest í hópi eldra fólks? Henta þessi störf kannski betur fyrir ungt fólk? Ætti þá ef til vill að stöðva þessi áform? Og hvað með ef útgerðir kaupa ný skip, án þess að hafa fyrirfram tryggt þeim nægan kvóta næstu árin? Þarf ekki að koma upp stjórntækjum til að stöðva slíkt ábyrgðarleysi? Auðvitað er þetta fráleit umræða.

Ekki kjaftastétta að dæma
Bygging álvers í Helguvík á einfaldlega að lúta þeim almennu leikreglum sem öll fyrirtæki lúta með sínar framkvæmdir og fjárfestingar. Umhverfismat, framkvæmdaleyfi, skipulagsmál og hvað það nú allt heitir sem unnið hefur verið að í fjögur ár, í samstarfi við sveitarstjórnir og fleiri aðila. En það er ekki hlutverk stjórnmálamanna eða svonefndra kjaftastétta að fella dóma um þessi áform út frá eigin sjónarmiðum um það hverjum slík störf henti, hversu mikil eftirspurn verði eftir þeim, eða hvort forsvarsmenn umrædds fyrirtækis séu örugglega búnir að reikna dæmið til enda. Ekki frekar en gildir um fjárfestingaráform fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum.

Verðmætasköpun í varnarstöðu

Álitsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum:

Sérkennileg umræða fer nú enn á ný fram um álver og ágæti þeirra. Öflug fyrirtæki þreifa fyrir sér með miklar fjárfestingar sem myndu skapa hér mikil verðmæti og mikinn fjölda góðra starfa. Einhverra hluta vegna er sveitarstjórnarfólki og fleirum sem taka jákvætt í slík erindi ítrekað stillt upp við vegg í viðtölum og opinberri umræðu. Þetta fólk er látið færa rök fyrir að heimila eigi hér slíkar fjárfestingar, með tölum um atvinnuleysi, lág meðallaun á viðkomandi svæðum eða fólksfækkun. Öðrum atvinnugreinum er síðan iðulega stillt upp sem betri valkostum, þótt mismikið fari þar fyrir fjárfestum. Sannleikurinn er sá að ólíkar atvinnugreinar þrífast best hver með annarri.

Tökum stutta varnaræfingu. Regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum eru mun hærri en meðaltalið á landsvísu, meðalstarfsaldur með því lengsta sem gerist, veltuhraði starsfsfólks með því lægsta sem þekkist og álverin hafa verið í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum. Er þetta haft hér úr erindi framkvæmdastjóra ASÍ og verður seint talin lýsing á slæmum vinnustöðum. Starfsemi álvera byggir á mikilli sjálfvirkni og hugbúnaðargerð. Hlutfall háskólamenntaðra er talsvert hærra en að meðaltali í atvinnulífinu og fjöldi iðnaðarmanna mjög mikill. Álverin hafa verið í fararbroddi í starfsmenntamálum. Fjöldi fyrirtækja eru í raun skilgetin afkvæmi áliðnaðarins, meðal annars hugbúnaðarfyrirtæki og verkfræðistofur.

Hljómar vel, en hér er samt alls ekkert verið að mæla með álverum umfram aðra atvinnustarfsemi. Öll atvinnustarfsemi á einfaldlega að njóta sannmælis og lúta þeim lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni. Mörg þúsund Íslendingar hafa sitt lifibrauð með beinum og óbeinum hætti af starfsemi álvera og þúsundir binda vonir við hugmyndir um þess háttar uppbyggingu og verðmætasköpun í sínu héraði. Þetta fólk er nákvæmlega jafn merkilegt og það fólk sem starfar í öðrum atvinnugreinum og á ekki sífellt að þurfa að þola að lítið sé gert úr því í opinberri umræðu.

ESB um græna orku: verðmætasköpun og aukið orkuöryggi – tækifæri fyrir Ísland

Í átt til grænna hagkerfis – Greening the Economy – var yfirskrift European Business Summit í Brussel á dögunum, en þar er á ferðinni eins konar aðalfundur Evrópusamtaka atvinnulífsins. Fundinn ávarpaði fjöldi forystumanna evrópsks atvinnulífs, stjórnmála og Evrópustofnana. Fulltrúi Samorku sat fundinn í ár en orkumál voru í forgrunni umræðunnar. Óhætt er að segja að margt fróðlegt hafi þarna borið á góma, þótt staða Íslands á sviði orkumála sé mjög frábrugðin því sem gerist innan Evrópusambandsins (ESB).

Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram tillögu um þrjú markmið fyrir sambandið sem ná skuli árið 2020, og hljóma þau öll upp á 20% – bætt orkunýting, hlutur endurnýjanlegra orkugjafa og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Þess ber að geta að hérlendis er þetta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 75% og stefnir í 80% síðar á þessu ári. Eru þessar tillögur ESB gjarnan kallaðar „græni pakkinn“ en málið er þó ekki alveg svo einfalt.

Verðmætasköpun – eftirspurn mætt
Í ræðu sinni á fundinum lagði þannig José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, áherslu á það að þessi markmiðssetning ESB myndi hafa í för með sér mikla rannsókna- og þróunarvinnu og að eftirspurnin eftir nýrri tækni myndi fara vaxandi um heim allan á komandi árum. Þarna þyrfti ESB að taka forystuna og í kjölfarið myndi hinn svonefndi græni pakki í raun stuðla að hagvexti og nýjum störfum – verðmætasköpun. Ekki voru þó allir sammála þessari nálgun en árlegur kostnaður við græna pakkann svonefnda hefur verið metinn á allt frá 0,6% til 1-2% þjóðarframleiðslu ESB.

Aukið orkuöryggi
Andris Piebalgs, sem fer með orkumálin í framkvæmdastjórn ESB, lagði hins vegar á það áherslu að stefna ESB um bætta orkunýtingu og aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa væri jafnframt mikilvægt framlag til eflingar á orkuöryggi aðildarríkjanna. Mörg ríki ESB eru mjög háð innflutningi á orkugjöfum, meðal annars á gasi frá Rússlandi, og hefur sú staða lengi verið mörgum hugleikin innan ESB.

Allt önnur staða hér – tækifæri fyrir Ísland
Ísland er sem fyrr segir í allt annarri stöðu en aðildarríki ESB. Hér er hlutur endurnýjanlegra orkugjafa þegar margfalt hærri en þessi ríki hafa sett stefnuna á, eða 75% og stefnir í 80%. Þá eru Íslendingar blessunarlega miklu minna háðir innflutningi orkugjafa en flest samanburðarríki, enda 99,9% allrar okkar raforku framleidd úr innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum auk þess sem 90% heimila í landinu njóta aðgangs að jarðhitaveitu. Víðast hvar í Evrópu gegna gas, olía og kol lykilhlutverkum í þessum efnum. Engu að síður er okkur hollt að fylgjast grannt með þeirri þróun sem á sér stað erlendis t.d. á sviði bættrar orkunýtingar. Þá eru okkur mikilvægar allar framfarir sem snúa að orkunýtingu samgöngutækja eða framförum á borð við þróun á öflugri rafhlöðum í bifreiðar. Við gætum jú fyllt tankinn með grænni raforku. Loks hafa íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fleiri aðilar upp á mikla þekkingu að bjóða í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og tækifærin því mikil á þessu sviði.

Vorfundur Jarðhitafélagsins á föstudag: Vannýtt tækifæri í lághitanýtingu

Föstudaginn 29. febrúar heldur Jarðhitafélag Íslands vorfund sinn og er yfirskriftin að þessu sinni Vannýtt tækifæri í lághitanýtingu. Fundurinn verður haldinn í Orkugarði að Grensásvegi 9 og erindi flytja þau Haukur Jóhannesson jarðfræðingur á ÍSOR, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Halldór Halldórsson formaður Sambands sveitarfélaga, Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð og Guðjón Axel Guðjónsson skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti. Ásgeir Margeirsson formaður Jarðhitafélagsins setur fundinn.

Sjá dagskrá hér.

Iðnaðarráðherra: Græna orkan verði „aðaltrompið í ferðamannaiðnaðinum“

Í ræðu sinni á aðalfundi Samorku þakkaði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra Samorku fyrir gott samstarf frá því hann tók við starfi iðnaðar- og orkuráðherra. Össur viðhafði stór orð um mikilvægi orku- og veitufyrirtækja í íslenskri velferð:  „Orkugeirinn á miklu meiri þátt í velferð og hagsæld íslensks samfélags, heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir, og stundum finnst mér jafnvel að þið sjálf skynjið ekki til fulls, hversu gríðarlega mikilvægt framlag ykkar, og ykkar fyrirtækja, hefur verið til okkar samfélags. Staðreyndin er hins vegar sú, að það er vegna þeirra, og vegna ykkar, að íslenskt samfélag er einstakt – og auðugt. Það er fyrst og fremst tvennt sem hefur á síðustu hundrað árum brotið okkur leiðina frá fátækt til bjargálna: nýting auðlinda í hafinu og nýting auðlinda í fallvötnum og jörðu.“

Þá fjallaði Össur um 100 ára afmæli hitaveitu sem fagnað er á þessu ári. Hann sagði Íslendinga svo vana þessum einstöku gæðum að við skynjuðum ekki hversu einstakt og merkilegt fyrirbæri hin íslenska hitaveita væri – á heimsvísu. Óskaði hann fundinum innilega til hamingju og færði árnaðaróskir frá ríkisstjórn Íslands.

Umhverfi orkumála
Össur fjallaði um eftirspurn eftir skýrari mörkum samkeppnis- og sérleyfisþátta á sviði orkumála, og um nauðsyn á forgangi borgaranna að nauðþurftum eins og vatni og orku. Nefndi hann þrjú meginatriði sem hann hefði satt fram í þessum efnum:

– Í fyrsta lagi, að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar.
Þau geta hins vegar leigt þau fyrirtækjum sem framleiða og selja orku til langs tíma.
– Í öðru lagi að greina að samkeppnis- og sérleyfisþættina í rekstri orkufyrirtækja.
– Í þriðja lagi að tryggja að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verði að meirihluta í opinberri eigu.

Össur sagðist ekki hafa orðið var við beina andstöðu við þessi sjónarmið hvað eignarhaldið varðaði.

Útrásin, vatnsaflið, „græn orka sem aðaltrompið í ferðamannaiðnaðinum“…
Þá fjallaði hann um útrás íslenskrar orkuþekkingar, eðlileg veltumörk varðandi fjárhagslegan aðskilnað milli samkeppnis- og sérleyfisþátta, þörf á auknum hvötum til hagræðingar í raforkulögum, mikilvægi aukinna fjárveitinga í styrki til nýrra hitaveitna, einföldun regluumhverfis, drög að frumvarpi um hitaveitur, breytt viðhorf til vatnsaflsvirkjana á alþjóðavettvangi, útbreiðslu „fagnaðarerindisins um jarðhitann“ og margt fleira. Þá spáði Össur því að græna orkan ætti eftir að reynast „okkar aðaltromp í ferðamannaiðnaðinum“ og sagði Bláa lónið þar aðeins forsmekkinn.

Sjá ræðu Össurar á vef iðnaðarráðuneytisins.

Taka þarf grundvallarákvarðanir fyrr í þessu langa og flókna ferli

Á aðalfundi Samorku flutti Árni Bragason, ráðgjafi hjá Línuhönnun verkfræðistofu, erindi undir heitinu Flókin reglubyrði framkvæmda? – Samantekt og ábendingar um mögulegar úrbætur. Árni er m.a. fyrrum forstjóri Náttúruverndar ríkisins og þekkir þennan málaflokk því úr ólíkum áttum.

Árni fjallaði í erindi sínu um lög og stefnumörkun stjórnvalda, regluverkið og leyfin sem afla þarf við undirbúning og virkjun jarðvarma og flutning raforkunnar. Velti hann upp þeirri spurningu hvort mögulegt og/eða skynsamlegt sé að einfalda regluverkið. Löggjöfin er varðar nýtingu og vernd hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum og ýmsir verkferlar eru enn að mótast. Árni fjallaði um þá fjölmörgu leyfisferla sem fara þarf í gegnum í stórum framkvæmdum og velti upp spurningum um kynningar á framkvæmdunum og aðkomu almennings. Þá fjallaði hann um frumvarp til breytinga á skipulagslögum sem lagt var fram á Alþingi 12. febrúar síðastliðinn þar sem landsskipulag verður tekið upp sem æðsta skipulagsstig. Árni ræddi um hvaða áhrif landsskipulagið mun hafa á framtíðarþróun mála. Ýmsar aðrar breytingar eru í frumvarpinu sem hafa munu áhrif á orkugeirann og stuðla að meiri upplýsingagjöf á undirbúningsstigi framkvæmda.

Rammaskipulag og landsskipulag
Varðandi frumvarpið til skipulagslaga benti Árni sérstaklega á ákvæði um rammaskipulag, sem hann taldi hugsanlega hægt að útfæra þannig að nýta mætti það fyrir einstök virkjunarsvæði og þannig spara síendurtekna leyfisveitingarferla. Hann velti því jafnframt upp nýtt landsskipulag myndi leysa úr málum þar sem mismunandi skipulagsaðilar komast í dag að gagnstæðri niðurstöðu. Nefndi hann Norðlingaölduveitu og Langasjó sem dæmi um slíka stöðu.

„Einfölduð mynd“ býsna flókin
Árni sýndi „einfaldaða mynd“ af því ferli sem fara þarf í gegnum við nýja orkuöflun (sjá glæru 22) og er óhætt að segja að sú mynd sé engu að síður æði flókin. Enda hefur komið fram að þess eru dæmi að ein og sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umsagnar hjá sama umsagnaraðila í svona ferli. Hann lagði áherslu á að taka þyrfti grundvallarákvarðanir sem fremst í þessu langa og flókna ferli. Í dag væri athyglin öll á málinu þegar unnið væri mat á umhverfisáhrifum virkjunar, en það gæti verið mjög seint í ferlinu. Árni tók Bitruvirkjun sem dæmi en það mál var opnað með matsferli á rannsóknaborun árið 1994. Árið 2002 var aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps auglýst án þess að athugasemdir bærust og var það staðfest árið 2003, en í skipulaginu er gert ráð fyrir virkjun á Ölkelduhálsi. Svo væri það ekki fyrr en með mati á umhverfisáhrifum virkjunar árið 2007 sem athugasemdir almennings færu að berast og ágreiningur að kvikna meðal stjórnmálamanna. Þetta sagði Árni dæmi um að taka þyrfti grundvallarákvarðanirnar og tryggja aðkomu almennings og stjórnmálamanna framar í þessu langa og flókna ferli, í stað þess að umræðan færi öll í gang þegar búið væri að vinna alla grunnvinnuna. Ákveða þyrft miklu fyrr hvort vilji væri til framkvæmda á viðkomandi svæði.

Leiðir til einföldunar
Sem leið til einföldunar benti Árni m.a. á að leggja mætti meiri vigt í samráðsferlið í tengslum við umhverfismat áætlana, sem byggir að miklu leyti til á sömu upplýsingum og þegar sótt er um rannsóknarleyfi. Taka mætti meiri upplýsingar inn á þessu stigi en draga á móti úr áherslu á mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem unnið er mun seinna í ferlinu.

Þá fjallaði Árni sem fyrr segir um möguleg áhrif nýs frumvarps um skipulagslög, einkum áhrif ramma- og landsskipulags og sagðist Árni telja að hugsanlega væru þarna breytingar framundan sem „auðvelda myndu okkur lífið“ á næstunni.

Sjá erindi Árna Bragasonar.

Aðalfundur Samorku ályktar um reglubyrði, eignarhaldsumræðuna, jarðstrengi, vanskil ríkissjóðs o.fl.


Ályktun aðalfundar Samorku
15. febrúar 2008

Skilvirkt og stöðugt regluumhverfi

Allur atvinnurekstur þarf á skýru en jafnframt einföldu og skilvirku laga- og regluumhverfi að halda. Orku- og veitufyrirtæki eru þar engin undantekning. Mikil umræða hefur lengi staðið um ýmiss konar breytingar, jafnvel grundvallarbreytingar, á regluumhverfi þessara fyrirtækja. Árum saman hefur reglubyrði þeirra aukist jafnt og þétt og til eru dæmi þess að ein og sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umfjöllunar hjá sömu umsagnaraðilunum. Samorka leggur áherslu á mikilvægi þess að orku- og veitufyrirtæki búi við stöðugt, einfalt og skilvirkt regluumhverfi. Ekki er beðið um neina afslætti af þeim umhverfis- og öryggiskröfum sem fyrirtækin sæta, heldur um að skoðaðar verði leiðir til einföldunar þessa regluumhverfis og reynt að ná niðurstöðu til lengri tíma um æskilegt regluverk. Orku- og veitufyrirtækin lýsa sig að sjálfsögðu reiðubúin til samstarfs vegna hvers kyns breytinga á þessu sviði og raunar nauðsynlegt að aðkoma þeirra sé tryggð þegar fjallað er um breytingar á starfsumhverfi þeirra.

Einblínt um of á eignarhaldið
Aðalfundur Samorku telur að umræða um málefni orku- og veitufyrirtækja snúist oft óþarflega mikið um eignarhald á auðlindum og veitukerfum. Hægt er að stýra starfsemi allra orku- og veitufyrirtækja mjög nákvæmlega í krafti laga og reglna án tillits til eignarhaldsins. Í þessu sambandi má nefna að líklega er ekkert fyrirtæki að hagnast á dreifingu raforku vegna lagarammans og skiptir þá ekki máli hvort fyrirtækið er í opinberri eða einkaeign. Ætla verður að ríki og sveitarfélög geri af sjálfsdáðum nauðsynlegar ráðstafanir í orku- og veitumálum án þess að sett séu lög sem beinlínis banna einkaaðilum að starfa á þessum sviðum.

Dráttur á greiðslum ríkissjóðs vegna stofnstyrkja til hitaveitna
Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar (nr. 78/2002 með síðari breytingum) er heimilt að greiða styrki til hitaveitna sem aukið hafa við dreifikerfi sitt til að geta tengt íbúðarhús sem notið hafa niðurgreiðslu á raf- eða olíuhitun. Þessi þátttaka ríkissjóðs hefur aukið verulega útbreiðslu hitaveitu á rafhitasvæðum og er þannig til langs tíma allra hagur. Undanfarin ár hefur ríkissjóður hins vegar dregið greiðslur og stefnir að óbreyttu í að sú upphæð verði samtals um 150 milljónir króna í árslok 2008. Samorka skorar á stjórnvöld að taka þetta mál til skoðunar, enda eru þessar framkvæmdir – sem áætlað var að ríkissjóður myndi styrkja – farnar að íþyngja rekstri hitaveitna verulega.

Raunlækkun á verði raforku og heits vatns
Undanfarin ár hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, a.m.k. að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Líkt og fram kemur í nýlegri skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni er verð á raforku til almennra notenda lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum, og mun lægra en meðalverðið innan Evrópusambandsins. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Eina af ástæðum þessa glæsta árangurs er að finna í raforkusölu til stóriðju. Góð arðsemi hefur verið af raforkusölu til stóriðju og hafa þessi viðskipti bætt hag viðkomandi orkufyrirtækja.

Loftlínur, jarðstrengir og öflugra flutningskerfi
Mikil umræða hefur farið fram um jarðstrengi og loftlínur til flutnings og dreifingar á raforku. Fyrir flutningsminni mannvirki er kostnaður strengja sambærilegur við loftlínur. Á undanförnum árum hafa orkufyrirtækin nýtt sér þetta við uppbyggingu og endurnýjun kerfanna og valið jarðstrengi í stað loftlína. Miðað við þessa þróun er líklegt að hlutfall strengja vaxi mjög í framtíðinni eftir því sem kostnaður vegna þeirra lækkar. Hins vegar er kostnaður við flutningsmeiri jarðstrengi ennþá mikill, jafnvel margfalt meiri en kostnaður við loftlínur, auk þess sem afhendingaröryggið er minna. Þá geta framkvæmdir við lagningu jarðstrengja kallað á mun meira jarðrask en framkvæmdir við loftlínur, sem að auki hafa að stóru leyti afturkræf umhverfisáhrif. Hvergi í heiminum hefur verið farið út á þá braut að leggja flutningskerfi alfarið í jörð, enda viðbúið að slík framkvæmd hefði í för með sér verulega hækkun raforkuverðs. Víða um land er hins vegar brýn þörf á eflingu flutningskerfisins og ljóst að efling kerfisins er forgangsatriði, umfram margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð.

Rík að endurnýjanlegri orku – nýtum hana á okkar forsendum
Íslendingar eru svo lánsamir að hafa aðgang að miklum vatnsauðlindum – hreinu drykkjarvatni, kröftugu vatnsafli og kraumandi jarðhita. Okkur hefur tekist að nýta þessar auðlindir skynsamlega og nú þegar Evrópusambandið setur sér markmið um meira en tvöföldun á hlut endurnýjanlegrar orku upp í 20% erum við Íslendingar óðum að nálgast 80% hlut. Ísland er í einstakri stöðu að þessu leyti og Samorka fagnar því hvernig íslensk orkufyrirtæki eru að hasla sér völl í verkefnum á þessu sviði um heim allan, á grundvelli þeirrar ríku þekkingar sem hér hefur þróast um áratugaskeið í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og þær fengu við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og leggur Samorka áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi að svonefnt íslenskt ákvæði eða sambærilegt verði áfram við lýði. Þessi stefna er í samræmi við markmið loftslagssamningsins og er hluti af lausninni á sviði loftslagsmála. Ísland hlýtur áfram að vilja hafa fullt forræði yfir nýtingu eigin orkuauðlinda.

Ný stjórn Samorku – Franz Árnason áfram formaður

Aðalfundur Samorku kaus Pál Pálsson Skagafjarðarveitum nýjan í stjórn í stað Ásbjörns Blöndal frá Hitaveitu Suðurnesja (og áður Selfossveitum). Franz Árnason, Norðurorku, gegnir áfram formennsku en hann var kjörinn formaður til tveggja ára á aðalfundi samtakanna 9. febrúar 2007. Ný stjórn á að öðru leyti eftir að skipta með sér verkum en hana skipa nú:

Franz Árnason, Norðurorku, formaður
Friðrik Sophusson, Landsvirkjun
Guðmundur Þóroddsson, Orkuveitu Reykjavíkur
Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja
Páll Pálsson, Skagafjarðarveitum
Tryggvi Þór Haraldsson, Rarik
Þórður Guðmundsson, Landsneti
 
Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Hreinn Hjartarson, Orkuveitu Húsavíkur
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða

Álið framúr sjávarafurðum í útflutningsverðmæti

Samkvæmt útreikningum Greiningardeildar Kaupþings má búast við að útflutningsverðmæti áls aukist úr rúmum 80 milljörðum króna í um 135 milljarða á þessu ári og verði komið í um 140 milljarða á árinu 2009. Á sama tíma mun útflutningsverðmæti áls í fyrsta skipti fara fram úr útflutningi á sjávarafurðum á þessu ári, samkvæmt spá greiningardeildarinnar. Fram kemur í nýrri hagspá hennar að í kjölfar þess að þorskaflaheimildir voru skornar niður um 33% í fyrrasumar dragi úr vægi sjávarútvegs í útflutningi – sem mun koma að fullu fram á næstu árum en áætlað verðmæti niðurskurðarins er á bilinu
15 -20 milljarðar á ári.

Framkvæmdir í Helguvík nái hámarki á næsta ári
Ennfremur segir í hagspánni að hagvöxtur næstu ára muni verða drifinn áfram af viðsnúningi í utanríkisviðskiptum, þar sem álútflutningur aukist og innflutningur dragist saman í takt við minnkandi útgjöld þjóðarinnar. Þá gerir spáin ráð fyrir að samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna á þessu ári þar sem stóriðjuframkvæmdum sé að mestu lokið, hins vegar muni mælast vöxtur í fjárfestingu að nýju árið 2009 sem helgist eingöngu af Helguvíkurverkefninu, en gert sé ráð fyrir að þær framkvæmdir hefjist í ár og nái hámarki á næsta ári. Loks segir í hagspá greiningardeildar Kaupþings að umræða um byggingu álvers á Bakka við Húsavík muni verða háværari þegar líði undir lok núverandi hagsveiflu og fleiri merki um niðurskurð taki að berast.

Sjá hagspá greiningardeildar Kaupþings.

Hrein orka: Ísland er með 75%, ESB stefnir á 20%

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum:

Á dögunum kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) svokallaðan „grænan pakka“ tilskipunardraga þar sem meðal annars er sett markmið um að árið 2020 verði 20% orkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt hyggst ESB draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020, miðað við árið 1990, en víðast hvar er einkum horft til breytinga á orkuframleiðslu í því skyni. Nokkuð hefur verið fjallað um þessar tillögur ESB að undanförnu, en þær eru þó sjaldnast settar í samhengi við stöðuna hér á landi. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 75% og verður orðið um 80% síðar á þessu ári, með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana.

Endurnýjanlegir orkugjafar
Óhætt er að segja að þessi nýju markmið ESB séu metnaðarfull, til dæmis í ljósi þess að ekki virðist ætla að takast að ná fyrra markmiði sambandsins frá árinu 1997 um 12% hlut endurnýjanlegra orkugjafa árið 2010. Hins vegar er mikið ánægjuefni að framkvæmdastjórn ESB hafi sett sér þessi metnaðarfullu markmið, en losun koltvísýrings stafar jú einkum af brennslu jarðefnaeldsneyta. Talsmenn atvinnulífs hafa þó lýst áhyggjum af því að kröfur á þeirra hendur um samdrátt í losun geri fyrirtækin ósamkeppnishæf og því muni þau jafnvel neyðast til að færa framleiðslustarfsemi til ríkja utan ESB. Eins hefur verið kvartað undan skorti á sveigjanleika í tillögum ESB, til dæmis varðandi möguleika á viðskiptum með svokölluð vottorð um  endurnýjanlega orku milli ríkja. Enn á þó eftir að útfæra framkvæmd þessara áætlana betur.

Sérstaða Íslands í loftslagsmálum
Staðan í þessum efnum er sem fyrr segir mjög sérstök á Íslandi. Hér eru nú þegar um 75% orkunotkunar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum og fer hlutfallið raunar vaxandi með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana (hérlendis er innflutt orka einkum notuð við fiskveiðar og samgöngur). Þetta háa hlutfall hreinnar orku vekur sífellt meiri athygli annarra þjóða enda Ísland í einstakri stöðu að þessu leyti. Sóknarfærin til minnkandi losunar á gróðurhúsalofttegundum eru sem fyrr segir víðast hvar einna helst talin liggja á sviði orkuframleiðslu og er meðal annars horft til kjarnorku í þeim efnum.

Gríðarlegt forskot
Ljóst er að Ísland, sem þegar nýtir nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa til raforkuframleiðslu og húshitunar, hefur þegar stigið flest tæknilega fýsileg skref í þessa veru, þótt vonir séu vissulega bundnar við svokallað djúpborunarverkefni sem gæti gert það mögulegt að margfalda orkuframleiðslu á jarðhitasvæðum frá því sem nú er. Þá fara vonir vissulega vaxandi um tækniþróun í samgöngum, til dæmis hvað varðar frekari þróun á rafhlöðum í bifreiðar. Með frekari þróun á því sviði verðum við í enn betri stöðu hér á landi, því við getum jú einmitt fyllt á tankinn með raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ólíkt mörgum öðrum Evrópuríkjum eigum við ekki hins vegar ekki mikla möguleika á að stórauka hlut endurnýjanlegrar orku í okkar orkunotkun, einfaldlega vegna þess hversu gríðarlegt forskot við höfum nú þegar og hversu hátt þetta hlutfall er þegar orðið hérlendis. Fyrir vikið getum við Íslendingar ekki flutt inn „hráa“ þá umræðu sem nú á sér stað í ESB, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með áherslu á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, eða kjarnorku.