6. desember 2010 Samorka mótmælir hugmyndum um niðurskurð til nýrra hitaveitna á köldum svæðum Ályktun stjórnar Samorku: Samorka mótmælir hugmyndum um niðurskurð til nýrra hitaveitna á köldum svæðum Stjórn Samorku hafa borist upplýsingar um að til skoðunar sé að skerða fjárveitingar úr ríkissjóði vegna framkvæmda við nýjar hitaveitur á svokölluðum köldum svæðum. Stjórnin mótmælir slíkum áætlunum, einkum hvað varðar framkvæmdir sem þegar eru hafnar eða hafa verið undirbúnar á forsendum sem nú kunna að bregðast. Styrkir úr ríkissjóði til uppbyggingar nýrra hitaveitna hafa alla jafna reynst vera þjóðhagslega arðbær ráðstöfun opinberra fjármuna. Til lengri tíma litið þýðir niðurskurður á fjárveitingum til nýrra hitaveitna einfaldlega hærri niðurgreiðslur vegna olíu- og rafhitunar, að öðru óbreyttu. Stjórn Samorku skorar á stjórnvöld að hverfa frá áformum um skert framlög til hitaveituframkvæmda.