Sjálbær nýting jarðhitans

 

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Hverjir hafa mesta hagsmuni af því að orkuauðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt? Augljóslega þau orkufyrirtæki sem nýta umræddar auðlindir. Jarðhitinn er alþjóðlega skilgreindur sem endurnýjanleg orkulind, líkt og vatnsaflið ásamt fleirum. Ágætir fræðimenn hafa bent á að hægt sé að nýta jarðhitann þannig að ekki verði flokkað undir sjálfbæra nýtingu. Þetta hafa hins vegar sumir aðrir lesið á þann hátt að verið sé að nýta jarðhitann á ósjálfbæran hátt hérlendis. En hverjir ættu að gera það og hvers vegna? Það eru jú orkufyrirtækin sjálf sem hafa mesta hagsmuni af góðri umgengni við auðlindina. Þar við bætist að nýtingin fer fram undir eftirliti Orkustofnunar, sem hefur heimildir til inngripa ef hún telur að nýtingin sé ekki í samræmi við starfsleyfisskilmála.

Önnur algeng gagnrýni á nýtingu jarðvarmans hérlendis snýr að þeirri orku sem ekki nýtist, svo sem þar sem hitinn er eingöngu nýttur til raforkuframleiðslu. Nú eru raunar einnig mörg dæmi um margþætta nýtingu jarðhitans. Svartsengi er sérlega glæsilegt dæmi í þeim efnum. Þar er jarðhitinn nýttur til húshitunar, raforkuframleiðslu, heilsubaða með tilheyrandi ferðaþjónustu og húðvöruframleiðslu (Bláa lónið), að ógleymdri metanól framleiðslunni úr koltvísýringnum, sem nú er í undirbúningi á vegum fyrirtækisins Carbon Recycling International.

Risastór gróðurhús?
Í þessu orkunýtingarsamhengi er nú iðulega spurt hví „við“ séum ekki að byggja hér risavaxin gróðurhús, til að nýta þann varma sem jarðhitavirkjanir eru ekki að nýta í dag. Við þessu er einfalt svar: Hver sá sem hefur áhuga á að stofna til slíkrar starfsemi er án efa mjög velkominn í viðræður við viðkomandi orkufyrirtæki. Þær viðræður yrðu hins vegar að vera á viðskiptalegum forsendum, um orkuverð, orkuform o.s.frv. Vandséð er hins vegar að íslenskir garðyrkjubændur yrðu ánægðir með að orkufyrirtækin, sem flest eru í opinberri eigu, færu sjálf í samkeppni við þá í framleiðslu á grænmeti.