Enn um orkuauðlindir og erlent eignarhald á orkufyrirtækjum

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna mánuði um orkuauðlindir á Íslandi, ekki síst í tengslum við kaup Magma Energy Sweden á meirihluta í HS Orku. Því miður er iðulega misfarið með ýmis atriði í þessari umræðu, þótt réttum upplýsingum hafi margoft verið komið áleiðis. Enn er ástæða til að árétta nokkur atriði í þessu sambandi.

Orkuauðlindin áfram í opinberri eigu
Fyrst ber að nefna að Magma hefur ekki keypt neinar orkuauðlindir á Íslandi, heldur leigir fyrirtækið afnotarétt af auðlindum í eigu sveitarfélaga.

HS Orka greiðir auðlindagjald
Þá ber að nefna að HS Orka greiðir umræddum sveitarfélögum – Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ – auðlindagjald fyrir aðgang að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga. Gjaldið er reiknað skv. erlendum fyrirmyndum og tekur m.a. mið af því verðmæti sem auðlindirnar voru metnar á í fyrri viðskiptum með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Lögleg viðskipti
Opinberir aðilar hafa nú ítekað úrskurðað að um lögmæt viðskipti var að ræða, þ.e. kaup Magma í HS Orku. Vandséð er hins vegar að hinn erlendi fjárfestir, sem hér batt fjármuni í góðri trú, hafi getað séð fyrir sér þá óvægnu gagnrýni sem þessi lögmætu viðskipti hafa sætt. Óskandi er að þessi reynsla verði ekki öðrum hugsanlegum fjárfestum tilefni til að leita annað.

Undarlegt tal um meintar verðhækkanir til neytenda
Þá er því iðulega haldið fram að þessi erlendi eigandi muni stuðla að hærra raforkuverði til neytenda hérlendis. Þar virðist gæta ýmiss konar misskilnings. Fyrir það fyrsta eru flutningur og dreifing raforku sérleyfisstarfsemi á hendi opinberra aðila, sem jafnframt sæta ströngu eftirliti Orkustofnunar. Alla jafna mynda flutningur og dreifing u.þ.b. helming raforkukostnaðar hins almenna neytanda. Framleiðsla og sala á raforku mynda alla jafna u.þ.b. helming kostnaðarins á móti. Þar er aftur um að ræða samkeppnissvið og eingöngu á þeim sviðum starfar HS Orka. Almennir neytendur geta skipt um orkusala með einu símtali. Vandséð er hvernig fyrirtæki með um 8% af heildarraforkuframleiðslunni í landinu ætti að geta stýrt verði slíks markaðar uppávið.

Sjálfbær nýting
Loks er því iðulega haldið fram að verið sé að ganga um of á jarðhitaauðlindina á Reykjanesskaga og nýtingin því ekki sjálfbær, þ.e. að jarðhitasvæðin nái ekki að endurnýja sig nægilega hratt miðað við þá nýtingu sem stunduð sé. Þessu er raunar iðulega haldið fram um jarðhitanýtingu hérlendis í stærra samhengi. Í þessu sambandi ber í fyrsta lagi að nefna að nýtingin er háð opinberu eftirliti, óháð eignarhaldi á umræddu orkufyrirtæki. Orkustofnun fylgist með því að fylgt sé skilmálum virkjunarleyfis og hefur stofnunin víðtækar heimildir til að bregðast við hugsanlegum frávikum ef þurfa þykir. Ef horft er til HS Orku og Reykjanesskaga sérstaklega ber einnig að nefna hjá fyrirtækinu starfa nokkrir af landsins færustu jarðhitasérfræðingum, sérfræðingar sem gjörþekkja þetta svæði, auk þess sem starfað er með ráðgjöfum annars staðar frá. Færi hins vegar allt á versta veg (sem Samorka sér ekki að hætta sé á) þannig að hvíla þyrfti auðlindina svo að fyrirtækið gæti ekki skilað umsaminni orku, þá væri það einkafyrirtækið HS Orka sem þyrfti að leysa úr þeirri stöðu. Orkustofnun myndi tryggja tilhlýðilega hvíld á auðlindinni til að hún fengi að jafna sig. Hagsmunir fyrirtækisins af því að ganga vel um auðlindina og ástunda þar sjálfbæra nýtingu eru þess vegna borðleggjandi, líkt og gildir um öll önnur orkufyrirtæki.