15. október 2010 Hvaða „einkavæðing“? Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Eva Joly, þingmaður Græningja á Evrópuþinginu og frambjóðandi í frönsku forsetakosningunum, segir á blaðamannafundi hérlendis að snúa eigi við þeirri þróun að einkaaðilar eignist hér orkuauðlindir. Hún spyr hvers vegna Íslendingar ættu að setja orkulindir í einkaeigu. Þetta kallar á aðra spurningu: Hvar er verið að einkavæða orkulindir á Íslandi í dag? Getur einhver nefnt dæmi um slíka þróun, eða svo mikið sem einhverja talsmenn hennar? Fyrir rúmlega tveimur árum var það raunar bundið hér í lög að orkuauðlindir í eigu opinberra aðila mætti eingöngu selja öðrum slíkum, eða fyrirtækjum í eigu opinberra aðila. Þessi umræða snýst þess vegna ekki um neitt. Joly vill jafnframt stöðva kaup Magma Energy á HS Orku, og virðist af fréttum að dæma telja að þar hafi erlent fyrirtæki keypt orkuauðlindir á Reykjanesskaga. Svo er ekki, líkt og margoft hefur komið fram. HS Orka leigir afnotarétt af auðlindum í eigu sveitarfélaga og greiðir þeim auðlindagjald fyrir þann aðgang. Kaup Magma á meirihluta í HS Orku hafa hins vegar þegar farið fram og hafa jafnframt ítrekað verið úrskurðuð lögmæt viðskipti af opinberum aðilum. Þá fylgist Orkustofnun með því að við nýtingu auðlindanna sé fylgt skilmálum virkjunarleyfis og hefur stofnunin víðtækar heimildir til að bregðast við hugsanlegum frávikum ef þurfa þykir. Enginn hefur þó jafn ríka hagsmuni af góðri umgengni við þessar auðlindir og fyrirtækið sjálft. Athygli vekur að Joly, sem gegnt hefur hlutverki ráðgjafa við íslenskt saksóknaraembætti, lýsti því yfir að væri hún ríkissaksóknari hér myndi hún hefja sakamálarannsókn á fyrrgreindum viðskiptum, sem þegar hafa ítrekað verið úrskurðuð lögmæt af opinberum aðilum. Um leið kom fram að á umræddum blaðamannafundi væri Joly fyrst og fremst að tala sem áhugamanneskja um orkumál og að hún gæti ekkert fullyrt um sumt af því sem hún teldi vera tilefni til rannsókna. Þarna var stjórnmálamaðurinn Eva Joly að tala. Ekki saksóknari, ekki lögmaður.