Húshitun margfalt dýrari á hinum Norðurlöndunum

Íslendingar búa að miklum mun ódýrari húshitun en nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum. Ef miðað er við meðaltals orkuþörf fyrir 135 m2 einbýlishús í Reykjavík greiðir slíkt heimili rúmlega 85 þúsund krónur á ári fyrir húshitun og heitt kranavatn. Í höfuðborgum hinna Norðurlandanna væri reikningurinn fyrir sömu orkunotkun á bilinu 260 til 530 þúsund krónur, eða 206-523% hærri en í Reykjavík.

Í samanburðinum er miðað við gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur, sem sér meirihluta landsmanna fyrir heitu vatni. Verðið er sambærilegt hjá öðrum jarðhitaveitum hérlendis, en alls eru um 90% húsa á Íslandi hituð með jarðhita. Þorri þeirra 10% húsa sem ekki hafa aðgang að jarðhita nota rafkyndingu sem alla jafna er dýrari, en nýtur þó niðurgreiðslna og er eftir sem áður mun ódýrari en gengur og gerist í samanburðarlöndum.

Viðmiðun samanburðarins fyrir hin Norðurlöndin eru gjaldskrár stærstu hitaveitna / orkudreifingarfyrirtækja í höfuðborgum þeirra, þ.e. Helsinki Energi, Hafslund í Osló, AB Fortum í Stokkhólmi og Københavns Energi. Miðað er við miðgengi Seðlabanka Íslands 16. desember 2010. Hér er sem fyrr segir miðað við meðaltals orkuþörf fyrir upphitun og heitt kranavatn í 135 m2 einbýlishúsi í Reykjavík, eða 32.000 kWst (32 MWst) ársnotkun. Öll verð í samanburðinum eru með virðisaukaskatti og öðrum gjöldum.