5. nóvember 2010 Hin nýja olía Hin nýja „olía“. Eftir Jeneen Interlandi (Newsweek) Þýtt og endursagt af Pétri Kristjánssyni. Á hverju ári, meðan þjóðir víða um heim kljást við að útvega nægjanlegt drykkjarvatn renna um 2 milljarðar tonna vatns ónotað úr stöðuvatninu. Á þessu getur orðið breyting. Ef allt fer samkvæmt áætlun verða um 300.000 tonn af vatni úr Bláa vatni flutt með tankskipum, sem áður voru notuð í olíuflutninga, til átöppunarverksmiðju í grennd við Mumbai. Þaðan verður vatninu dreift til borga á þurrkasvæðum í Mið-Austurlöndum. Þetta verkefni er viðskiptahugmynd tveggja amerískra fyrirtækja True Alaska Bottling sem hefur keypt réttinn að flytja 300.000 tonn af vatni úr Bláa Vatni og S2C Global sem byggir átöppunaraðstöðuna í Indlandi. Ef verkefnið heppnastþá hafa fyrirtækin komið á laggirnar iðnaði sem Sitka-bær vonar að velti um 90 milljónum dollara (10 milljörðum ISK) og um leið leyst þau vandamál sem vatnsskortur veldur. Þau hafa jafnframt komið þessari lífsnauðsyn, vatninu, í hnattræn viðskipti. Það er ekkert nýtt við flutning á vatni. New York borg flytur vatn í gegnum gangna- og pípukerfi sem teygir sig 200 km í norður að Catskillsfjöllum; Suður-Kalifornía fær vatn frá Sierra Nevadafjöllum og Colorado vatnasvæðinu sem er hundruðir kílómetra í norður og vestur af fylkinu. Fjarlægðin milli Alaska og Indlands er vissulega miklu meiri. En það er ekki fjarlægðin sem er áhyggjuefni heldur er það flutningur á svona miklu vatni úr opinberri umsýslu í einkavædda. “Vatn hefur verið þjóðarauðlind í opinberri umsjón í meira en 2.000 ár”, segir James Olson lögfræðingur sem sérhæfður er í vatnsrétti. „Að afhenda það til einkageirans virðist bæði siðferðislega rangt og hættulegt“.Í iðnríkjunum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum er auðvelt að taka vatn sem sjálfsagðan hlut. Allir sjá að heimurinn stendur frammi fyrir ferskvatnsskorti. Víða í heiminum skreppa saman ár, vötn og votlendi hraðar en náttúran nær að endurnýja og iðnaður og efnanotkun mengar hratt það sem eftir stendur. Samtímis eykst hnattrænmengun. Goldman Sachs áætlar að vatnsnotkun í heiminum tvöfaldist á hverjum 20 árum og Sameinuðu þjóðirnar reikna með 30% aukningu í eftirspurn 2040. Talsmenn einkavæðingar segja markaðinn best til þess fallinn að leysa vandamálið: aðeins ósýnilega höndin getur fært dreifingu og þörf í jafnvægi, og aðeins verðlagning markaðarins mun draga vatnsþörfina nægjanlega mikið niður til að vinna bug á vatnsskorti. En kostir markaðarins bitnar á verðinu. Með öðrum orðum varningurinn er seldur hæstbjóðanda, ekki til þeirra sem siðferðislega hafa mesta þörfina. Eftir því sem vandamálið eykst þurfa fyrirtæki eins og True Alaska, sem á rétt til gríðarlegra vatnsbirgða og hefur getuna til að flytja það með tankskipum, ekki nauðsynlega að vega og meta þarfir auðugra vatnsfrekra fyrirtækja eins og Coca Cola eða Nestlé á móti vatnsskorta sveitarfélögum í Fönix eða Gana; vatnsveitur í einkaeigu munu taka eins miklar tekjur og markaðurinn getur borið og eyða eins litlu og þær komast upp með í viðhald og umhverfisvernd. Annar varningur býr auðvitað við sams konar lög og aðstæður. En varðandi orku eða fæðu þá hafa neytendur oft val: þeir geta skipt úr olíu yfir í náttúrugas eða borðað kjúkling í stað nautakjöts. Það kemur ekkert í stað vatns ekki einu sinni Coca Cola. „Markaðnum er alveg sama um umhverfið“ segir Olson og „honum er alveg sama um mannréttindi, en gróði skiptir hann máli“. Í iðnríkjunum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum er auðvelt að taka vatn sem gefinn hlut. Ef opnað er fyrir einhvern krana þá frussast út gnægð af hreinu vatni, jafnvel í suð-vesturríkjunum þar sem Colorado vatnasvæðið er að kljást við ellefta þurrkaárið í röð. Í flestum borgum greiðir fólk ennþá mun minna fyrir vatnið en t.d. síma. Margir hafa ekki hugmynd um hvaðan vatnið kemur og láta sig litlu skipta hverjir eiga það. Þrátt fyrir það myndu væntanlega flestir samþykkja að vatn sé of verðmætt til að hver sem er geti átt það. En rétturinn til að taka vatn úr ám, vötnum eða grunnvatni er söluvarningur og einnig vatnsveiturnar með sínum vatnsbólum og dreifikerfum. Og þegar eftirspurn verður meiri en framboð mun verðmæti þessa varnings aukast gífurlega. Samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans frá 2009 munu einkafjárfestingar í vatnsiðnaði tvöfaldast á næstu 5 árum og vatnsdreifimarkaðurinn sjálfur aukast um 20% á sama tíma. Ólíkt skúrknum í Bond-myndinni „Quantum of Solace“, sem lumaði á ráðabruggi um að einoka ferskvatnið í Bólivíu, hafa hinir raunverulegu vatns-barónar ekki á sér slíka ímynd. Þeir eru hópar af kaupendum og seljendum – allt frá fjölþjóða risafyrirtækjum eins og Suez og Veolia, sem saman dreifa vatni til 260 milljóna heimila og fyrirtækja í heiminum, til vogunarsjóðaog áhættufjárfesta eins og t.d. olíu-barónsins T. Boone Pickens sem vill selja vatnið undir Texas Panhandle búgarði sínum til þyrstra borga eins og Dallas. „Vatnsmarkaðurinn hefur orðið mun áreiðanlegri síðustu 2 áratugina,“ segir Clay Landry, framkvæmdastjóri West Water Research, umboðsfyrirtækis sem sérhæfir sig í vatnsrétti. „Hann hefur þróast frá þeirri tegund viðskipta að gera handsalaðan samning „bak við flutningabílinn“ í mikilvægan markað með þátttöku einlægra fagfjárfesta í vaxandi mæli“. Væntanlega hefur Olson áhyggjur af því að hver einasti vatnsdropi komist undir áhrif einkageirans. Og þegar það gerist mun heimurinn hafa dregið sér ný landamæri með aðgangi að vatnsauðlindum öðrum megin en án þeirra hinum megin. Sigurvegarar (Canada, Alska, Rússland) og þeir sem tapa (Indland, Sýrland, Jórdanía) verða aðrir en þeir sem áttu í olíudeilunum á tuttugustu öld, en undirrótin verður að miklu leyti sú sama: þjóðir sem geta hagnýtt sér stórar auðlindir munu dafna. Hinar verða skildar eftir og látnar deila um stöðugt þverrandi auðlindir. Sumar munu leggja í stríð. Þar til nýlega hefur einkavæðing vatns fyrst og fremst tengst þriðja heiminum. Á tíunda áratug síðustu aldar setti Alþjóðabankinn einkavæðingu vatnsveitna sem skilyrði fyrir fjárhagslegri neyðaraðstoð á fátæk ríki, m.a. Bólivíu. Þetta var bæði ósanngjarnt og afdrifaríkt. Vonin var sú að markaðurinn myndi koma í veg fyrir spillingu og fjölþjóðafyrirtæki myndu fjárfesta í auðlindunum og koma meira vatni til fleira fólks. Um árið 2000 safnaðist fjöldi fólks saman á strætum borga í Bólivíu í ofbeldisfullum mótmælaaðgerðum. Bechel, fjölþjóða samsteypan, hafði meira en tvöfaldað vatnsgjaldið og útilokað tugi þúsunda Bólivíubúa sem ekki gátu borgað frá vatni. Samsteypan sagði nauðsynlegt að lyfta verðinu til að mæta viðgerðum og vanhöldum á kerfinu. Gagnrýnisraddir sögðu að markmiðið væri aðeins það að viðhalda óraunhæfum gróðakröfum. Hvort það voru skilaboð mótmælenda til fyrirtækjanna eða eitthvað annað sem kom til þá var starfsemin endurheimt aftur í opinbera þjónustu árið 2001. Núna leita fjárfestar að meira aðlaðandi fjárfestingarkostum og setja stefnuna á lönd með þverrandi vatni til dreifingar og gömul og lúin dreifikerfi en hafa betri fjárhag en Bólivía. “Þetta eru lönd sem hafa efni á því að borga,” segir Olson. “Þau hafa miklar viðhaldsþarfir, þverrandi vatnslindir en peninga.” Hvergi á þetta betur við en í Kína, þar sem stöðugt verður að bora dýpra niður á grunnvatnið undir Peking. Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Alþjóðabankanum þarf að bora niður á meira en 1000 m til að finna ferskvatn. Þetta hefur leitt til aukins borunarkostnaðar og gert vatnssamninga ábatasamari. Frá árinu 2000 þegar landið opnaði fyrir erlendar fjárfestingar í almenningsþjónustufyrirtækjum hefur fjöldi einkarekinna vatnsveitna aukist gífurlega. Einkafyrirtæki hafa keypt upp vatnsveitur vítt og breitt um landið og samhliða hefur vatnsgjaldið snarhækkað. “Það er meira en flestar fjölskyldur ráða við að borga,” segir Ge Yun, hagfræðingur hjá Náttúruverndarsjóði Xinjiangs-héraðs. “Þannig að eftir því sem einkareknum vatnsveitum fjölgar fækkar fólki sem hefur aðgang að þeim.” Bandaríski alríkissjóðurinn sem á að styrkja og styðja við viðhald og endurbyggingar í vatnsveitum býr við erfiðan skort. Víða er þörfin mikil enda margar vatnsveitur stofnaðar um það leyti sem Henry Ford byggði fyrsta T-módelið. Ríkisstjórn Obama hefur tryggt 6 milljarða dollara til viðhalds sem Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna áætlar að kosti um 300 milljarða dollara. Á meðan bila um hálf milljón vatnslagna á hverju ári samkvæmt Bandarísku Vatnsveitusamtökunum, AWWA, og meira en 1,6 milljarður tonna vatns tapast í lekum kerfum. Sem viðbrögð við fjárskorti sjóðsins hafa hundruðir borga, þ.m.t. Pittsburgh, Chicago og Santa Fe, N.M., leitað fyrir sér með einkavæðingu. Það blasir við að slíkt getur virst skynsamlegt: kosnir embættismenn geta notað gróðann af sölu vatnsveitunnar til að rétta við slæman fjárhag borgarinnar og samtímis losnað við mikil fjárútlát vegna viðgerða og stækkunar kerfisins, að ekki sé minnst á að losna við pólitískar óvinsældir sem hækkun vatnsgjalda veldur. Auðvitað er veruleikinn oft annar en vonir standa til. “Vatnsveitur eru dýrar í uppbyggingu og ekki er skynsamlegt að leggja fleiri en eitt dreifikerfi á hvert veitusvæði. Af þessum sökum er erfitt að koma á samkeppni, eina samkeppnin sem hægt er að koma við er þegar vatnsveitur eru boðnar út til kaups,” segir Wenonah Hauter, framkvæmdastjóri Food and Water Watch, sem eru samtök gegn einkavæðingu. “Eftir það hefur einkareksturinn í reynd einokun. Og þar sem 70-80% af eignum vatns- og fráveitna eru neðanjarðar er erfitt fyrir yfirvöld að fylgjast með framkvæmdum og efndum samningsaðilans.” Í sumum skýrslum um einkarekstur kemur fram að einkaaðilar fækka í starfsliði, vanrækja vatnsverndarsvæðin og koma kostnaði af umhverfismengun sem þeir valda yfir á sveitarfélagið. Sem dæmi má nefna að þegar tvær fráveitur í rekstri Veolia menguðu San Francisco Flóa með milljónum lítra af skólpi var sveitafélagið þvingað til að fara í margmilljón dollara úrbætur á fráveitukerfinu. Þó að margar borgir hlakki til að afhenda vatnsveitur sínar til einkageirans eru aðrar sem eyða stórfé í rándýr réttarhöld til að komast út úr slíkum samningum. Árið 2009 höfðaði sveitarfélagið Camden, N.J., mál gegn United Water (amerískt útibú franska risafyrirtækisins Suez) vegna ótútskýrðra reikninga upp á milljónatugi dollara, vegna vatnsleka, lítils viðhalds á vatnsveitunni og vegna afleitrar þjónustu. Í Milwaukee komst opinber eftirlitsaðili að því að sama fyriræki sveik samninga og slökkti á fráveitudælum til að spara peninga. Þetta leiddi til þess að milljónir tonna af óhreinsuðu skólpi rann út í Michiganvatn. Og í borginni Gary í Indiana, sem rifti samningi sínum við United Water eftir 12 ár, þar er því haldið fram að einkavæðingin hafi meira en tvöfaldað árlegan rekstrarkostnað veitnanna. “Þetta hefur haft öfug áhrif fyrir skattgreiðendur,” segir Hauter “Þetta er verra en skattur vegna þess að þeir nota peningana ekki til að viðhalda kerfinu.” Fulltrúar United Water benda á að 95% samninga hafa verið endurnýjaðir og að fá slæm dæmi segi ekki alla söguna. “Við erum að fást við kerfi sem voru hönnuð og byggð undir lok síðari heimstyrjaldar,” segir forstjóri United Water, Bertrand Camus. “Við höfum líka mörg slæm dæmi sem bitnað hafa á okkur.” Staðreyndin með Gary, ef taka á dæmi, er sú að borgin einkavæddi veiturnar vegna þess að Umhverfisverndarstofnun þvingaði hana til að finna reynda rekstraraðila til að leysa fjölda vandamála. “Borgin sjálf hafði ekki þá sérfræðinga sem þurfti til að nota þá nýju tækni sem nauðsynleg er til að uppfylla alla nýju staðlana.” Segir Camus “Það höfum við.” Staðreyndin er þessi: það að vatnið sé ómissandi gerir það ekkert ódýrara að ná í það, hreinsa það og dreifa því og breytir ekki þeirri staðreynd að minni aðgangur og meiri kröfur auka aðeins kostnaðinn. Alþjóðabankinn heldur því fram að hærra verð sé af hinu góða. Núna verðleggja engar opinberar vatnsveitur, hvergi, vatnið samkvæmt því hversu erfitt er að útvega það eða hversu kostnaðarsamt er að dreifa því. Talsmenn einkageirans halda því fram að þetta sé einmitt ástæðan fyrir hömlulausri ofnotkun. Ef vatnið kostar meira munum við fara betur með það. Aðalvandamálið við þessa kenningu er það sem hagfræðingar kalla ósveigjanleiki verðsins: það skiptir ekki máli hvað vatnið kostar, það verður áfram nauðsynlegt til að lifa af. En þrátt fyrir niðurskurð á ónauðsynlegri vatnsnotkun eins og í grasvökvun, bílaþvott og sundlaugar þá getur notandinn engan veginn minnkað vatnsnotkunina í sama hlutfalli og verðið hækkar. “Frjálsa markaðsfræðin virkar vel þar sem kaupandinn hefur val,” segir Hauter. “En vatn er ekki eins og annar varningur, ekkert kemur í staðinn og ekki er hægt að sniðganga það.” Fjöldi rannsókna sýnir að þrátt fyrir miklar verðhækkanir draga notendur lítið úr notkun sinni, og það jafnvel í mestu hækkununum, það eru hinir fátæku sem þurfa að axla byrðarnar. Í langvarandi þurrkum sem herjuðu á Californíu á níunda áratugnum voru vatnsgjöld hækkuð um 100% og þá dróst notkun saman um 33%. Heimili sem þénuðu um 20.000 $ á ári drógu notkunina saman um 50% en þau sem þénuðu um 100.000 $ aðeins um 10%. Gagnrýnendur segja að þrátt fyrir allt hafi einkareknar vatnsveitur takmarkaðan áhuga á að hvetja til aðhalds í vatnsnotkun; þegar vatnsnotkun minnkar dragast tekjur saman. Árið 2005 urðu aftur uppþot í Bólivíu þegar einkarekin vatnsveita hækkaði gjöldin upp fyrir það sem venjulegt fólk gat greitt. Fyrirtækið hafði stækkað dreifikerfið til úthverfa þar sem fátækt fólk býr. Íbúarnir voru vanir að búa við aðstæður án rennandi vatns úr krönum og komust af með afar lítið vatn og sú vatnsnotkun var ekki nægjanleg til að skila fyrirtækinu viðunandi gróða. Sigurvegararnir á veraldar vatnsmarkaðinum eru hin fáu vatnsauðugu héruð á norðurhveli jarðar sem geta flutt með ábatasömum hætti stórar mikið af vatni langar vegalengdir. Rússneskur verktaki vill selja Síberíu-vatn til Kína; Kanadamenn og Bandaríkjamenn bítast um að selja kanadískt vatn til suð-vestur ríkja Bandaríkjanna svo fremi að kostnaður við stór flutningaskip komi ekki í veg fyrir það. Vegna samdráttar í heimsviðskiptum hafa slík skip lækkað verulega í verði. Ef Sitka áætlunin tekst gætu önnur vatnsauðug svæði fylgt fljótlega í kjölfarið. Milli þeirra þjóða sem vilja græða á vatnsskortinum og þeirra sem geta keypt sig út úr vandamálunum eru lönd sem hvorki hafa vatn til að selja né peninga til að kaupa. Ef það er eitthvað sem vatn á sameiginlegt með olíu; þá er þaðað fólk mun fara í stríð út af því. Nú þegar hefur Pakistan ásakað Indland um að veita til sín of miklu vatni sem rennur um Himalayafjöll. Indland klagar Kína fyrir að hafa stórkostlega breytt árfarvegum sér í hag nálægt landamærum og þannig svipt aðrar þjóðir með landað landamærunum sanngjörnum rétti til vatns; Jórdanía og Sýrland deila um aðgang að frárennsli frá uppistöðulóni sem þjóðirnar byggðu sameiginlega. Og hvað gerum við? Annars vegar líta flestar þjóðir á vatn sem grundvallarmannréttindi (Alsherjarþing Sameinuðuþjóðanna samþykkti samhljóða slíka ályktun í júlí s.l.). Hins vegar er kostnaður við að ná í og dreifa vatninu orðinn svo mikill að flest staðbundin stjórnvöld geta ekki axlað þann kostnað ein. Markaðurinn mun aldrei geta fullnægt báðum þessum andstæðu staðreyndum. Þetta þýðir að ríki og alríkisyfirvöld verða að taka afgerandi þátt í að stjórna þessum auðlindum. Ef fjárfest væri jafnmikið í vatnsveitum í Bandaríkjunum og alríkisstjórnin hefur fjárfest í öðrum almenningsþjónustufyrirtækjum myndi það ekki aðeins skapa störf heldur myndi það einnig létta á þeim fjárhagsþrengingum sem leiða svo margar sveitastjórnir til einkavæðingar. Það er ekki þar með sagt að iðnaðurinn hafi ekki líka hlutverki að gegna. Með réttri hvatningu getur hann þróað og dreift þeirri tækni sem nauðsynleg er til að gera vatnsdreifingu hagkvæmari og umhverfisvænni. Síðast en ekki síst verða opinberir- og einkaaðilar að vinna saman. Ef okkur tekst ekki núna að hugsa betur um vatnið komumst við senn í þrot. Þegar það gerist mun engin verðlagning eða stjórnunaráætlun í heiminum bjarga okkur. Heimild: Newsweek 18. Okt. 2010. höf. Jeneen Interlandi